« Tvær nýjar fréttir um tvíræðni tæknifrjóvgunarÁkall (trúarvers) »

06.12.06

  09:18:34, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 359 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Fólksfækkunarhættan

Ískyggileg fækkun fæðinga í Evrópu – og sérstaða Íra

Samkvæmt frétt frá UK LifeLeague glíma flestar þjóðir Evrópu nú við alvarlegan vanda vegna fólksfækkunar. “Hefðu fósturdeyðingar ekki verið leyfðar með lögum, hefðu þessar þjóðir ekki þurft að glíma við sama vanda. Ný skýrsla frá OECD sýnir, að árið 1990 höfðu allar Evrópuþjóðir fleiri en 1,3 fæðingar á hverja konu, en árið 2002 voru 15 lönd með fæðingastuðul fyrir neðan 1,3 börn á konu, og sex lönd voru með 1,3 til 1,4 börn á konu.

Til að þjóð viðhaldi sér, þarf fæðingatíðnin að vera 2,1 á hverja konu. Írland, sem er eitt fárra Evrópulanda þar sem fósturdeyðingar eru ólöglegar, er með hæsta frjósemisstuðul allra Evrópulanda” (sjá nánar þessa LifeNews-frétt, sbr. og þessa frétt á írsku vefsetri). "Portúgal, þar sem fósturdeyðingar eru einnig bannaðar, er meðal þess helmings Evrópuþjóða þar sem fæðingar eru flestar. Malta, annað land sem heldur uppi fósturvernd, er um miðbik í hópi þjóðanna í fæðingatíðni.

Fæðingarstuðullinn í Írlandi er 1,98 börn á hverja konu, sem er miklu hærra en í öðru kaþólsku landi, Póllandi, sem er í hópi þeirra fimm lægstu í Evrópu með einungis 1,23 börn á konu, en vera má, að ástandið í þessum efnum fari nú batnandi með nýrri stjórn þar í landi, sem boðið hefur hærri barnabætur og er andvíg fósturdeyðingum.

Íbúafjöldi og árleg fjölgun/fækkun nokkurra voldugustu ríkja heims 2005 samkvæmt töflum á forsíðu World Fact Book :

Kína: 1.306,3 millj. (M). Árleg fjölgun: o,6%
Japan: 127,4 M – árleg fjölgun: o,1%
Rússland: 143,4 M – árleg fækkun: o,4%
Stóra-Bretland og N-Írland: 60,4 M – árl. fjölgun: o,3%
Bandaríkin: 295,7 M (nú 300 M) – árleg fjölgun: o,9%.

Í þessum sakleysislegu tölum leynast afar þungvæg atriði sem í bókstaflegri merkingu geta skilið milli feigs og ófeigs í framtíðinni. Þjóð, sem ekki tímgast, stefnir að eigin útþurrkun í þjóðahafinu.

17 athugasemdir

Matthías Ásgeirsson

Nú eru til bandarískar rannsóknir sem benda til þess að öfug fylgni sé milli fóstureyðinga og glæpa. Þ.e.a.s. þar sem fóstureyðingar séu heimilar megi merkja töluverða fækkun glæpa þar sem minna sé um að börn fæðist í slæmar aðstæður.

Er Jón Valur Jensson að hvetja til aukinna glæpa?

06.12.06 @ 10:54
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Að sjálfsögðu ekki. En þetta er illa undirbyggð spurning hjá Matthíasi, engar heimildir tilgreindar þar sem fram komi rannsóknaraðferðir eða niðurstöður nákvæmlega. Hyggur Matthías þá miklu minna um glæpi í Bandaríkjunum en í Írlandi? En svona brjótast þeir um í vandræðum sínum, verjendur fósturdeyðinga, grípandi hvert hálmstráið á eftir öðru.

Það eru einmitt fósturdeyðingar sem eru umsvifamestu siðferðisglæpir heimsins í dag. Við Íslendingar eigum því miður okkar gilda hlut á því sviði líka.

06.12.06 @ 11:49
Matthías Ásgeirsson

En svona brjótast þeir um í vandræðum sínum, verjendur fósturdeyðinga, grípandi hvert hálmstráið á eftir öðru.

Láttu ekki svona, ég er ekki að verja fóstureyðingar (þú gerðir meinlega stafsetningarvillu og skrifaðir deyðingar, þú verður að vanda þig). Ég er bara að reyna að koma í veg fyrir aukningu glæpa, skil ekki af hverju Jón Valur vill ekki berjast þeim bardaga.

Sjálfum finnst mér þarfara að koma í veg fyrir útrýmingu eggja, því í hverjum mánuði sólundast milljarðar eggja þegar konur fara á blæðingu. Blæðingar kvenna þarf að stoppa með einhverjum ráðum.

06.12.06 @ 12:01
Lárus Viðar Lárusson

Hver er skoðun Kirkju.nets manna varðandi fæðingartíðnina. Á hún að vera sem næst 2.1 eða hærri? Viljið þið sjá kyrrstöðu í þessum málum eða stöðuga fjölgun?

06.12.06 @ 12:10
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta var ekki stafsetningarvilla, Matthías, heldur staðreynd. Og hættu svo útúrsnúningum hér um afstöðu mína til glæpa, hún er örugglega ekki linari en þín. Lokaklausu þinni svara ég ekki.

Lárus Viðar, með 2,1 barni á hverja konu stendur þjóðin í stað, nema innflytjendur bæti þar upp á. Annars var þessi grein mín með Evrópu sérstaklega sem viðfang sitt.

Já, ég vil stöðuga fjölgun hér. Verði fósturdeyðingar (að mestu) bannaðar, má gera ráð fyrir, að fólk gæti betur að sér við kynmök, og þar með verði ekki um þessi 1000 tilfelli þungana að ræða árlega, sem endað hafa í fósturdeyðingu, heldur máske 5–700 þunganir. Þótt einungis 4–500 þeirra myndu enda í fæðingu, myndi það hækka fæðingarstuðul okkar verulega og stuðla að því, að við lendum hér ekki í manneklu.

06.12.06 @ 12:52
Lárus Viðar Lárusson

Mér leikur þá forvitni á að vita hvort að Kirkju.nets menn lifi eftir þessum viðmiðunum sjálfir. Eigið þið að meðaltali fleiri börn en 2.1 á hjón?

Ég er ekki að spyrja að þessu vegna illkvittni, ég er einfaldlega forvitinn.

06.12.06 @ 13:15
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta er persónuleg hnýsni, Lárus Viðar. Ég svara aðeins fyrir mig: ég er 5 barna faðir og eins fósturbarns.

06.12.06 @ 14:42
Matthías Ásgeirsson

Þetta var ekki stafsetningarvilla, Matthías, heldur staðreynd.

Nú fyrirgefðu Jón Valur, ekki grunaði mig að þú notaðir svona ódýrar aðferðir í þínum málflutningi - venja er að nota orðið fóstureyðing en ekki fósturdeyðing. Þetta er semsagt áróðursbrella hjá þér.

Lárus Viðar, með 2,1 barni á hverja konu stendur þjóðin í stað, nema innflytjendur bæti þar upp á.

Er það nokkuð vandamál, er einhver skortur á innflytjendum?

06.12.06 @ 14:55
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ef menn vilja leiða hugann að hugsanlegum vandamálum tengdum miklum, snöggum og óheftum (óstýrðum) straumi innflytjenda, bendi ég þeim á að ræða það mál á eftir annarri vefgrein minni hér (1. maí) eða þessari.

Ég hef rökstutt það á annarri vefslóð (sbr. og hér*), að orðið “fóstureyðing” sé óverðugt orð. Fósturdráp væri nær sanni, rétt eins og þetta var kallað (á ensku) í hinum opinberu Heilbrigðisskýrslum hér áður fyrr (feticide). ‘Fósturdeyðing’ er tiltölulega pent orð og vægt um þennan ómannúðlega verknað.

—————-
*Ragnar félagi minn á Kirkju.net kemst þar m.a. svo að orði um orðið ‘fóstureyðing’, að það sé óverðugt. Á þeirri vefslóð eru líka fleiri fletir þess máls ræddir, og ég vísa mönnum á að ræða þá málið þar, hafi þeir áhuga, því að þessi vefgrein fjallar um annað.

06.12.06 @ 15:16
Matthías Ásgeirsson

Ég vil alls ekki leiða umræðuna eitthvað annað og fjalla hér beint um þín orð. Þú talar um að annað hvort þurfi ákveðinn fjölda fæðinga eða innflytjendur. Ég spyr því bara hvað vandamálið sé, því við höfum einmitt fullt af frábærum innflytjendum og þurfum því ekki að hafa áhyggjur af fæðingartíðni.

Þú þarft að sætta þig við það að ef þú styður málstað þinn með lélegum rökum eru þau rök gagnrýnd. Í þetta skipti setur þú upp ákveðinn valkost (fæðingartíðni eða innflytjendur) sem ég sé ekki að sé nokkuð vandamál. Innflytjendur eru staðreynd og því þurfum við ekki að hafa miklar áhyggjur af fæðingartíðni.

06.12.06 @ 15:32
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þú varpaðir til mín spurningu, Matthías: “Er það nokkuð vandamál, er einhver skortur á innflytjendum?” – Svarið er: Nei, það er ekki skortur á þeim um þessar mundir, en hvort einhver vandamál geti tengzt miklum, snöggum og óheftum (óstýrðum) straumi innflytjenda, benti ég þér á tvær vefgreinar, þar sem þú færð ýtarleg svör mín við slíkri spurningu. Það er ágætt að geta vísað til þeirra greina (og umræðna), þegar maður hefur ekki tíma til að ræða það mál hér upp á nýtt.

06.12.06 @ 15:44
Matthías Ásgeirsson

Þannig að við erum sammála um að lág fæðingatíðni er ekkert vandamál.

Flott.

06.12.06 @ 15:46
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta er út í hött. Sé óhefta flæðið að verða erfitt vandamál, geturðu einmitt séð lágu fæðingartíðnina sem eina meginorsök þess vandamáls. Enn erfiðara er það vandamál á meginlandinu, t.d. ef bara er litið á Vestur-Evrópu (þótt ástandið í Rússlandi og t.d. Lettlandi sé enn ískyggilegra). Þar eru komin upp stórfelld öryggisvandamál, sem tengjast þessari tímgunartregðu Evrópuþjóða, en annar og sívaxandi vandi verður vinnuaflsskorturinn á næstu áratugum, meðan eftirlauna- og sjúkrahúskostnaður eykst svo mjög, að illa verður við ráðið. “Lausnin” hjá andstæðingum lífsverndar verður trúlega sums staðar “líknardráp” hinna öldruðu. Við gætum orðið meðal fórnarlambanna, blessaður karlinn minn.

06.12.06 @ 15:53
Matthías Ásgeirsson

Óh, fyrirgefðu, þannig að innflytjendur eru vandamál. Ég var eitthvað að misskilja þig. Ég fattaði ekki að þú værir líka á móti innflytjendum.

En tengir þú fæðingartíðni ekkert við aukin kvenréttindi og sókn kvenna á vinnumarkað? Eða eru kvenréttindi kannski vandamál útaf fyrir sig?

06.12.06 @ 16:05
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Nei, innflytjendur eru ekki vandamál, heldur er það óheftur fjöldi þeirra, sem er vandamál, þ.e. hve margir þeir stefna í að verða, sem og okkar eigin vanbúnaður að taka við þeim, svo að vel sé, auk annarra vandamála, sem þessu tengjast og vikið er að í tilvísuðum greinum mínum. Ræddu þau mál þar.

Annars var dæmigert fyrir Matthías að hafa ekkert svar við því, sem ég sagði um vandamálin á meginlandi Evrópu (í síðasta innleggi mínu hér á undan), en fara þess í stað út í nýja (kvenna)sálma.

Set hér með (stutt) stopp á þessa umræðu í bili til að fá frið fyrir Matthíasi og til að vísa honum með þeim hætti, sem vonandi virkar, á tilvísaðar greinar mínar um innflytjendamálin. Lestu, Matti, – í stað þess að spyrja hér og spyrja.

06.12.06 @ 16:21
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Í þessari nýju aths. minni á tilvísaðri vefslóð bæti ég nokkru við þá umræðu, sem hér var hafin um innflytjendamál.

En á þessari vefsíðu eru þau mál ekki lengur til umræðu, heldur efni vefgreinarinnar hér ofar.

07.12.06 @ 23:11
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Matthías spurði: “En tengir þú fæðingartíðni ekkert við aukin kvenréttindi og sókn kvenna á vinnumarkað? Eða eru kvenréttindi kannski vandamál útaf fyrir sig?”

Jú, ég tengi vissulega lækkandi fæðingartíðni auknum kvenréttindum og sókn kvenna á vinnumarkað. Þetta er líka ekki bara spurning um fækkun fæðinga á hverja konu, heldur hefur það einnig sín áhrif á minnkandi vöxt þjóðar (jafnvel niður fyrir endurnýjunarmörk), að giftingar- og barneignaaldur færist ofar að meðaltali í lífi kvenna. Allt er þetta mér kunnugt, enda hef ég rætt það áður (gúglið t.d. saman nafn mitt og Johns Finnis).

Hvort kvenréttindi séu einhvers staðar “vandamál útaf fyrir sig,” er mér ekki kunnugt, að heitið geti, nema sérstaklega í sambandi við meint “réttindi” þeirra til að láta fyrirkoma ófæddu barni sínu. En það geta ekki verið “kvenréttindi” að tugir milljóna meybarna í móðurlífi séu deyddir á ári hverju á þessari litlu jarðarkringlu. Yfir því gleðst hvorki Skaparinn né Meymóðirin, heilög María.

Og nú skelli ég aftur í lás, verð einhvern tímann að fá frí frá honum Matthíasi þetta föstudagskvöld.

08.12.06 @ 22:27
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software