« Að vísu kemur orðið "Þrenning" hvergi fyrir í Heilagri RitninguFöðurhlutverk prestsins »

29.04.08

  21:26:46, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 484 orð  
Flokkur: Vegurinn, sannleikurinn og lífið

Innri máttur hins nýja lífs

Kafli úr bókinni VEGURINN, SANNLEIKURINN OG LÍFIÐ sem er trúfræðslurit um kaþólska trú (1981).

(8. k.)

Jesús var ekki áfram hjá okkur, en samt lét hann okkur ekki sigla okkar eigin sjó. Þegar hann hélt á brott, sagði hann: "Það er yður til góða að ég fari burt, því að fari ég ekki burt, mun Huggarinn ekki koma til yðar, en þegar ég er farinn, mun ég senda hann til yðar" (Jóh. 16, 7-15).

Þessi Huggari er annarsstaðar kallaður Andi Guðs, Heilagur Andi. Hann á að leiða okkur í allan sannleika, þann sannleika sem Jesús kenndi okkur (sjá Jóh. 16,13). Við skulum grípa til líkingar: Sé hjarta mannsins ekki ………

……… nógu sterkt til að knýja blóðrásina áfram á eðlilegan hátt, getur þurft að grípa til tækis sem kallað er gangráður og leggur hjartanu lið í starfi þess, og á svipaðan hátt er Heilagur Andi hinn knýjandi máttur innra með okkur. Þessvegna er hann líka kallaður "hjálpari". Páll lýsir kristnum manni einfaldlega þannig að hann sé fullur af Heilögum Anda og knúinn áfram af honum (Róm. 8,15): "Allir þeir sem leiðast af Anda Guðs, þeir eru Guðs synir". Allir eru kallaðir "andlegir" menn (Gal. 6,1). Og þar sem Andi Guðs býr í þeim sem hafa játast Kristi, nefnir Páll þá "musteri Guðs". (sjá 1. Kor. 3,17; 6,19).

"Að búa saman" merkir í fyllsta skilningi þeirra orða að vera hver öðrum nálægur, að lifa hver fyrir annan og taka hver annars málstað, að þekkja hver annan og elska hver annan, að byggja upp sinn heim í sameiningu, að koma hver í annars stað. Við þetta er átt þar sem Ritningin segir að Guð muni taka sér bústað hjá okkur. þetta nána samfélag verður að fullna, lifa og dýpka að nýju á hverjum degi. Návist Guðs í okkur er ekki óbreytanlegt fyrirbrigði, ekki eitthvað sem varir af sjálfu sér, heldur er hún lifandi, þróttmikil og vaxandi.

Biblían telur upp sem dæmi um áhrif Andans: kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, hógværð og sjálfsstjórn (Gal.5,19 og áfram; Róm. 14,17). En mest allra gjafa Andans er kærleikurinn (1. Kor. 13). Það eru ekki nein sérstök eða óvenjuleg atvik sem færa okkur heim sanninn um návist hans, heldur upplifum við hana í daglegu lífi okkar: í hjálpsemi við meðbræður okkar og systur þegar þau eru í kröggum stödd, í tryggð makans í hjónabandinu, í þolgæði þegar freistingar sækja á, í þolinmæði þegar sjúkdómar herja, í staðfestu í trúnni, í óhvikulli von um að njóta fyrirheitis Guðs, í kærleikanum til náungans o.s.frv.

No feedback yet