« Lifi frjálst Tíbet!!!Nýjasti hjartaknosari Danaveldis – ung kona með downseinkenni »

12.03.08

  17:37:19, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 6113 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

INNGANGUR – að Prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Sjá myndir. Lesandanum skal bent á að best er að hlaða myndskrá á skjáborð og hafa tiltæka við lestur kaflans því að hér er um þungar pdf skrár að ræða

Það hefur vakið undrun mannfræðinga að þar sem ritlistin hefur ekki skotið rótum varðveitast munnlegar arfsagnir einstaklega vel þar sem þjálfun minnisins gegnir lykilhlutverki. Til að mynda skráðu trúboðar arfsagnir Iroquisindíána í norðanverðum Bandaríkjunum í „fríríkjum“ (relations) Jesúíta. Þegar Franz Boas rannsakaði þessar sömu arfsagnir 300 árum síðar höfðu indíánarnir varðveitt þær frá orði til orðs þrátt fyrir gjörbreytt menningarumhverfi. Sovéskir mannfræðingar komust að raun um að shamar (töfralæknar) í Miðasíu gátu þulið hindrunarlaust arfsagnir ættbálka sinna svo þúsundum skipti í bundnu máli. Ástralskir mannfræðingar hafa bent á þá staðreynd að munnlegar arfsagnir frumbyggjanna eru umgjörð um mikilvæga þætti í lífsafkomu þeirra: Hafa að geyma lífsnauðsynlegar upplýsingar um vatnsból, fjarlægðir, veiðilendur og græðandi jurtir svo að eitthvað sé nefnt. Arfsagnir frumbyggjasamfélaga gegndu þannig mikilvægu hlutverki til forna hvað laut beinlínis að sjálfri lífsafkomu þeirra og tilvist.

Í riti sínu „History of Science“ vék George Sarton að því að fjölmargir grískir heimspekingar voru afar tortryggnir á gildi ritlistarinnar og ekki væri æskilegt að stuðla að útbreiðslu hennar:

Þetta var sökum þess að munnleg arfleifð skilaði svo góðum árangri að fjölmargir og þar á meðal hámenntaðir menn fundu enga þörf hjá sér til að skrifa. Til að mynda hefur þessi afstaða verið afar almenn á gullöld hellenismans, að öðrum kosti væri andúð Sókratesar á ritmáli eins og hún kemur fram í Faidrosi lítt skiljanleg. [1].

Það er alkunn staðreynd að á svæðum þar sem ólæsi er ríkjandi eða stjórnvöld hefta útbreiðslu rita sem þau telja óæskileg grípur fólk til hinnar munnlegu varðveislu. Það er alls ekki svo fátítt að fólk læri utanbókar drjúgan hluta Biblíunnar og geti þulið hana upp úr sér viðstöðulaust og orðrétt. Þetta er einmitt það sem fjölmargir kristnir Kínverjar hafa neyðst að gera vegna þess að stjórn kommúnista heftir útbreiðslu hennar. Þetta á ekki síður við um upphaf og menningu þjóða eða með orðum W. J. Perry:

Þegar fjallað er um arfleifð þjóða verður ætíð að hafa í huga að frásagnir um upphaf menningarinnar vega hvað þyngst í hverju samfélagi. Iðulega þegar ungmenni hljóta manndómsvígslu inn í ættarsamfélgið til að verða að gjaldgengum einstaklingum, að þá sé þeim kenndar arfsagnirnar og rík áhersla lögð á að þau varðveiti þær sem leynda þekkingu þegar konur og börn eiga hlut að máli sem hin óinnvígðu. Meðal fjölmargra ættarsamfélaga er þekking á ættartréinu þáttur í þjálfun verðandi stjórnenda. Svona mikið metur fólk um allan heim gildi arfleifðar sinnar. [2]

Það kemur undarlega fyrir sjónir að á sama tíma sem mannfræðingar og menningarsögufræðingar leggur áherslu á mikilvægi munnlegrar arfleifðar gagnrýnir ákveðinn hópur fræðimanna Biblíuna sem ómarktæka vegna þess að hún sé færð í letur löngu eftir að atburðirnir áttu sér stað og þar með séu frásagnir hennar og boðskapur marklaus með öllu. En þegar nánar er að gætt hvíla niðurstöður þeirra á veikum forsendum þar sem fornleifafræðin leiðir hið gangstæða í ljós. Fjölmargir fræðimenn hafa tileinkað sér þá afstöðu frá því á þriðja áratugi tuttugustu aldarinnar að Biblían sé einungis hreinar goðsagnir og þar með ómarktæk sem heimildarrit, þrátt fyrir að þessir sömu aðilar styðjist við aðrar fornar heimildir sem varðveist hafa í verkum sínum.

Gott dæmi um þetta er svo kallaður Kaupmannahafnarskóli innan guðfræðinnar undir forystu prófessors Thomas I. Thompson sem hafnar alfarið að unnt sé að staðfesta frásagnir Biblíunnar með fornleifarannsóknum. Í þessari umfjöllun verður andhverfa þessa viðhorfs reifuð.

Gríski sagnfræðingurinn Herodótus (484-425 f. Kr.) – sem nefndur hefur verið faðir sagnfræðinnar – varð fyrstur manna til að taka saman eins konar heimslýsingu eða fjölfræðibók. Verkið er mikið að vöxtum og það sem gerir það svo marktækt í augum fræðimanna í dag er einfaldlega sú staðreynd, að hann greinir satt og rétt frá arfsögnum síns tíma án þess að „troða“ sjálfum sér fram. Lengi vel var Herodótus hafður að háði og spotti af ákveðnum hópi fræðimanna fyrir trúgirni sína og barnaskap. Taka má dæmi um frásagnir þær sem hann hafði frá íbúum í nýlendum Grikkja við Svartahafið. Þeir greindu honum frá því að landkönnuðir sem höfðu farið langt til norðurs inn í byggðir Skýþa hefðu sagt að hvítu fiðri hafi rignt af himnum ofan! Hér áttu þeir við snjókomu sem kom Svartahafsgrikkjum undarlega fyrir sjónir (á þessum tíma var loftslagið mun hlýrra en í dag). Í þessu tilviki greindi hann einungis satt og rétt frá því sem honum var greint frá.

Minnast má á hliðstætt dæmi úr Biblíunni þar sem vikið er að manna sem rigndi af himni ofan á Sínaiskaga þegar hinir fornu Hebrear fóru um þessar slóðir. Komið hefur í ljós að hér er vikið að sætum skófum á stærð við smábaunir sem myndast á tamariskrunnum í þrjár til sex vikur árlega. Skófirnar eru raktar til útferðis tveggja skordýrategunda, „trabutina mannipara“ og „najacoccus serpentinus“ og eru alkunn staðreynd meðal munkanna í Katrínarklaustrinu og hirðingja á svæðinu. Það eru kvendýrin og lirfurnar sem framleiða þessar skófir sem eru sætar á bragðið og þorna skjótt í sólarbreiskjunni og berast um í loftinu. Efnagreining leiðir í ljós að þær hafa að geyma þrjú afbrigði sykurs. Hafa verður í huga að sykurrófur og reyr voru með öllu óþekkt á tímum Hebrea og döðlur voru einungis til boða í skornum mæli. Því hlýtur undrun þeirra að hafa verið mikil að uppgötva þetta sætmeti alls óvænt.

En Biblían hefur mikilvægari boðskap að flytja og meðal annars að siðmenningin hafi bókstaflega sprottið fram svo að segja „fullsköpuð“ á undraskömmum tíma. Það er einmitt þetta sem fornleifafræðin leiðir í ljós. Í þessu sambandi getum við talað um tvenns konar „þróunarmódel.“ Hið fyrra grundvallast á kenningum darwinismans um hæga og samfellda þróun siðmenningarinnar til samræmis við kenningar Darwins þar sem afstöðu hans er bókstaflega þvingað sem spennutreyju upp á framvindu mannkynssögunnar (Mynd 1). Þessi afstaða nær ekki einungis til framvindu sjálfrar sögunnar heldur einnig til trúarhugmynda þeirra sem maðurinn hefur gert sér í aldanna rás sem þróist líkt og frumstæð lífvera til einhvers „háleitara“ eða „æðra.“ Hér er um hreina hugsæishyggju að ræða sem fellur um sjálfa sig í raunheiminum: Það sem blasir við sjónum er hið gagnstæða!

Fyrir 100.000 árum eða þar um bil hófu forfeður okkar hina löngu ferð sína frá frumheimkynnum sínum í Afríku. Rekja má feril þeirra lauslega og fyrir um 60.000 árum voru þeir komnir til Suðausturasíu og náðu til Ástralíu á þáverandi landbrú fyrir um 40.000 árum síðan. Þetta var samkvæmt afstöðu darwinismans afar frumstæð frumbyggjasamfélög og þróunarferillinn einkennist af langri eyðu allt til svo kallaðrar steinaldarbyltingar. Hins vegar leiða þau ummerki um þessa forfeður mannkynsins í ljós líkt og í hellamyndunum í Altamira á Spáni og í Lascaux í Frakklandi, að hér var ekki um frumstæða „villimenn“ að ræða heldur skapandi einstaklinga sem í listrænu tilliti stóðu nútímamanninum síst að baki. Sjálft hreyfiaflið (motus vivendi) til framþróunar var þó enn ekki fyrir hendi. Það birtist ekki fyrr en á sjötta árþúsindinu f. Kr. í samfélögum þeim sem spruttu óvænt fram í Zagros- og Elbursfjöllunum á vatnaskilunum milli Evrópu, Miðasíu og Austurlanda nær. Þessi þróun er samofin upphafi jarðræktar um miðbik sjötta árþúsundisins þegar menn taka að rækta hveiti (einkorn) og þannig er sjálf siðmenningin kennd við ræktun (kultur) á flestum nágrannamálum okkar.

Það er að þessari staðreynd sem Biblían víkur með frásögninni af aldingarðinum Eden eða „an.edin“ eða „êlû.edin,“ hinum himneska garði eins og Súmerar nefndu hann (1M 2. 15). Það er á þessu svæði sem siðmenningin sprettur fram þar sem vaxtarskilyrðin voru fyrir hendi, eða réttara sagt þar sem hinn Hæsti – Skapari himins og jarðar – lagði grundvöllinn að þeim í ljósi Bibliunnar með frásögninni af þeim Adam og Evu. Á súmersku þýðir nafnið A.dam eða A.dama rautt blóð. Af orðinu var dregið annað orð – a.dam.u – sem þýðir dimmrauður. Hér var skírskotað til blóðsins sem lífs og það er alþekkt um allan heim að frumbyggjasamfélög smurðu bein látinna ástvina sinna með rauðum leir sem tákni um að þau varðveittu lífið: Þeir trúðu á áframhaldslíf sem óaðskiljanlegan þátt frumtrúar sinnar. Það er þetta „sögumódel“ sem dregið er upp á Mynd 1. 2.

Á skýringarmyndinni má sjá þróunarferli sem markast af framförum, stöðnun og jafnframt afturför í fjölmörgum tilvikum. Meginþróunin einkennist þrátt fyrir það af framförum þar sem nýjar menningarheildir tóku við kyndlinum hver af annarri. Þetta er þróunarferli sem á við um alla mannkynssöguna allt til okkar eigin tímaskeiðs. Upphafið er samfélag Adams Biblíunnar, samfélag sem við virðumst nú geta staðsett með nokkurri vissu í Adji Chaydalnum í Íran þar sem borgina Tabriz er að finna í dag, eins og vikið verður að í fyrsta kaflanum (greininni). Biblían greinir okkur frá því að Guð hafi blásið „lífsanda“ í þetta samfélag með sérstökum hætti, líkt og við sjáum síðar hvernig lífsandinn blés lífi í dauðramannabeinin í opinberun Esekíels spámanns löngu síðar (Esk 37. 1-11). Við sjáum einnig hvernig lífsandinn snertir með sérstökum hætti við því samfélagi sem Móses leggur grunninn að í Sínaieyðimörkinni í frásögninni af gerð tjaldbúðarinnar:

Drottinn talaði við Móse og sagði: „Sjá, ég hefi kvatt til Besalel Úríson, Húrssonar, af Júda ættkvísl. Ég hefi fyllt hann Guðs Anda, bæði vísdómi, skilningi, kunnáttu og hvers konar hagleik, til þess að upphugsa listaverk og smíða úr gulli, silfri og eiri og skera steina til greypingar og til tréskurðar, til þess að vinna að hvers konar smíði. Og sjá, ég hefi fengið honum til aðstoðar Oholíab Akísamaksson af Dans ættkvísl. Og öllum hugvitsmönnum hefi ég gefið vísdóm, að þeir megi gjöra allt það, sem ég hefi fyrir þig lagt: samfundatjaldið, sáttmálsörkina, lokið, sem er yfir henni, og öll áhöld tjaldsins, borðið og áhöld þess, gull-ljósastikuna og öll áhöld hennar og reykelsisaltarið, brennifórnaraltarið og öll áhöld þess, kerið og stétt þess, glitklæðin, hin helgu klæði Arons prests og prestsþjónustuklæði sona hans, smurningarolíuna og ilmreykelsið til helgidómsins. Allt skulu þeir gjöra eins og ég hefi fyrir þig lagt“ (2M 37. 1-11).

Guð blés samfélagi Adams í bjóst „bæði vísdómi, skilningi, kunnáttu og hvers konar hagleik“ til að reisa hið mennska samfélag siðmenningarinnar. Á skýringarmynd 1. 2 sjáum við hversu hátt Adam reis upp yfir dýraríkið. Síðan kemur „syndafallið“ (H) og bakhnikkur (K), en því næst tekur siðmenningin að rísa að nýju með afkomendum prestkonunga Adamskynslóðarinnar eða sonum Nóa, þeim „Sem, Kam og Jafet“ (2M 10. 1) sem reisa hið mennska samfélag eftir flóðið úr rústum, blása bókstaflega nýjum lífsanda í það og vinna að útbreiðslu siðmenningarinnar með markvissum hætti, en samkvæmt þjóðalista Biblíunnar voru þeir árfeður fjölmargra þjóða.

Um fyrstu menningarríkin og samfélögin

Það hefur vakið furðu manna hversu hátt siðmenningin rís á fimmta árþúsindinu f. Kr. meðal afkomenda árfeðra mannkynsins í Zagros- og Elbursfjöllunum. Hér skulu týnd til nokkur dæmi úr skrifum fræðimanna um þetta efni. Í riti sínu „Early Israel and the Surrounding Nations“ frá árinu 1899 komst A. H. Sayce svo að orði:

Saga hins forna austurs hefur engar frásagnir að geyma um þróun menningar frá villimennsku. Hún greinir okkur sannarlega frá öfugþróun og hrörnun með tímanum og þekkir ekki til tímaskeiðs þegar siðmenningin hófst. Að svo miklu leyti sem fornleifafræðin getur leitt okkur slíkt fyrir sjónir áttu þeir sem reistu borgirnar í Millifljótalandinu og innleiddu fleygrúnaletrið enga fortíð að baki sem einkenndist af villimennsku. [3]

Gengið var út frá því sem vísu þegar þessi orð voru rituð að annað ætti eftir að koma í ljós, en hið gagnstæða varð raunin í fornleifarannsóknum eins og á stöðum líkt og í Tell Halaf í Sýrlandi og í Tell Brak. Þegar T. J. Meek vék að árangri þeim sem fólkið sem bjó á þessum svæðum hafði náð komst hann svo að orði:

Í Tell Halaf má sjá einstaklega vel gerð leirker . . . Ýmislegt gefur til kynna að málmur var í notkun þrátt fyrir að það væri ekki í miklum mæli. Á þessu tímaskeiði kemur fram mikil leikni í vinnslu tinnusteina til notkunar sem hnífa og skafa. Leirkerin í Tell Halaf voru handgerð og ótrúlega þunn, í reynd ekki meiri en sem svarar þykkt tveggja spila og leiða í ljós einstætt formskyn í lögun, munsturgerð, beitingu lita og hönnun. Leirkerin voru brennd í lokuðum ofnum með óbeinni hitun þar sem stjórn var höfð á hitastiginu. Árangurinn þessarar hitunar birtist í því að kísillinn rann saman og skýrði litina þannig að yfirborðið varð glansandi sem gæðir yfirborðið postulínsáferð sem var alls ólík þeirri áferð sem sjá má síðar á leirkerum. Út frá tæknilegu og listrænu sjónarmiði eru leirkerinn frá Tell Halaf fegurstu handgerðu kerin sem sjá má til forna og bera háu menningarstigi þeirra sem þau gerðu vitni. [4]

Leirmunirnir frá Tell Halaf (Mynd 1. 3) eru frá miðbiki sjötta árþúsundisins f. Kr. eða frá sama tíma og Biblían greinir okkur frá tilurð siðmenningarinnar. Það var á þessu landsvæði sem vaxtarskilyrðin voru fyrir hendi eða með orðum Stuart Piggots:

Slík þróun birtist einungis sem sálfræðileg nauðsyn í andrúmslofti þar sem einstaklingurinn telur nýjungar æskilegar og samfélagið samþykkir þær. Mðrg samfélög manna hafa náð aðdáunarverðri og ágætri aðlögun að umhverfi sínu, en eftir að þessu takmarki hefur verið náð í eitt skiptið fyrir öll, hafa þau ekki talið nauðsynlegt að breyta þróun mála heldur að varðveita áunna arfleifð. Slík samfélagsleg íhaldssemi virðist hafa verið meginreglan til forna, en af og til hefur fólk komið fram á sjónarsviðið þar sem uppfinningar og breytingar veittu því fullnægju og gleði fremur en trúfestin við arfleifðina: Líta má á þessi samfélög nýjunga sem stofnendur siðmenningarinnar. Það er erfitt að renna stoðum undir þá kenningu að öll mennsk samfélög stefni til siðmenningar sem óhjákvæmilegrar þróunar. Þetta fyrirbrigði virðist fast að því vera íþrótt eða duttlungar á upphafsstigi sínu. Í gamla heiminum höfum við glöggt dæmi um slíkt þróunarferli í Austurlöndum nær, Mesopótamíu og Íran. [5]

Það var einmitt Súmer sem var heimkynni árfeðra Sköpunarsögunnar: Prestkonunga Adamskynslóðarinnar. Í Súmer sjáum við að það er þróunin til ríkisheildar sem hefur afgerandi áhrif á framvindu sögunnar þegar einstök borgríki sameinuðust í eina ríkisheild. Sjálfir höfðu þeir prestkonunginn Enok (1M 5. 18) í miklum hávegum sem upphafsmann þessarar þróunar og hann var talinn í hópi hinna sjö „adapa“ eða spöku meðal Súmera. Við sjáum jafnframt að önnur samfélög í Íran einangruðust líkt og afhöggnir kvistir líkt og Síalk í Íran. Í þessu sambandi kemur frásögnin af Kain (1M 4. 1) ósjálfrátt í hugann en honum var vísað á brott úr frumheimkynnum sínum og leitaði austur á bóginn (Mynd 1. 4).

Menning Súmera blómstraði með undraskjótum hætti jafnt á láglendi Millifljótalandsins og í Norðursúmer á ársvæði Efrat og Tígris. Gott dæmi um þessa þróun má sjá í Tell Brak (Mynd 1. 5). Þegar um 4200 f. Kr. hefur borgarsamfélagið skotið þar föstum rótum. Þar má sjá alla þá frumþætti sem settu svip á síðari þróun í Súmer og eingyðistrúin er augljós í augnamusterinu í Brak frá því um 3600 f. Kr. sem reist var á grunni eldri mustera. Þar má sjá hin hefðbundnu mál súmerskra mustera sem var 18 x 6 nir (metrar). Musterið var krosslaga en krossinn er eitt af einkennistáknum prestkonunga Adamskynslóðarinnar eins og sjá má á leirdiskinum frá Tell Halaf hér að fram (Mynd 1. 3). Á Mynd 1. 5 sjáum við grunngerð musterisins í Brak.

Það musteri sem hér er dregin upp mynd af er frá því um 3600 f. Kr. en var reist á grunni eldri mustera allt frá því á fimmta árþúsindinu f. Kr. Það var óaðskiljanlegur þáttur í súmerskri menningu að það land sem helgað hafði verið hinum hæsta Guði varð að ævarandi eign hans og því risu yngri musteri ávallt á grunni þeirra eldri.

Í Tell Brak var musterið sambyggt sjálfri konungshöllinni, en með hliðsjón af arfleifð Súmera sjálfra varð það síðar að sjálfstæðri einingu eins og sjá má í gerð fyrsta musteris þeirra á láglendi Suðursúmers frá því um 4200 f. Kr. í Eridu. Af sögu Súmer má ráða að til snarpra átaka hafi komið á milli þeirra niðja prestkonunga Adamskynslóðarinnar sem héldu fast við eingyðistrúna og fylgjenda fjölgyðistrúarinnar. Biblían víkur í þessu sambandi að afkomendum Nóa eftir flóðið mikla sem samkvæmt frásögn hennar lögðu grundvöllinn að fjölmörgum konungsríkjum í Austurlöndum nær, Evrópu og Miðasíu. Það er einfaldlega þessi staðreynd sem blasir við sjónum í mannkynssögunni. Ljósasta dæmið um þetta er Fornegyptaland þangað sem þeir lögðu leið sína um 3100 f. Kr. og báru með sér eingyðistrúna. Þau miklu umskipti sem verða á Nílarbökkum eru svo afgerandi að einungis á hálfri öld tekur egypskt samfélag risastökk fram á við bæði í andlegum sem verklegum efnum.

Um tímatalið

Með hliðsjón af frásögn Biblíunnar má draga upp eftirfarandi tímatal (Mynd 1. 7) af mannkynssögunni í ljósi hennar og fornleifafræðinnar af fyrstu 4000 árunum í sögu siðmenningarinnar á jörðu. Í þessu sambandi vil ég taka sérstaklega fram að þessi tímatafla er byggð á texta Septuagintunnar og samversku Biblíunnar sem eru nær samhljóða, enda hafa hvorki kristnir menn fremur en Samverjar verið að „hræra“ í hinum helga texta, en það sama verður ekki sagt um hinn masóríska texta Gyðinga. Þetta hafa rabbínarnir gert með markvissum hætti sem hófst þegar um 130 e. Kr. til að afsanna að Drottinn Jesú Kristur sé Messías og geti ekki verið það í ljósi spádómanna með hliðsjón af tímatali hins masóríska texta.

Saga hinna fornu Hebrea og Egypta er samofin á ákveðnu skeiði sögunnar eins og Biblían greinir okkur frá. Rannsóknir austurríska prófessorsins Manfreds Bietek og starfshóps hans frá Vínarháskóla hafa staðfest áreiðanleika Biblíunnar hvað varðar þetta tímaskeið, en þeir hafa unnið að uppgreftri borgarinnar Hatwaret sem betur er þekkt sem Avaris á grísku allt frá árinu 1966 (Mynd 1. 9). Síðar var hún þekktari sem Pi-ramses og í Biblíunni er hún einfaldlega nefnd Ramses (2M 12. 37), en það er frá henni sem Hebrear héldu til Súkkót í upphafi ferðar sinnar til fyrirheitna landsins. Borgin stóð við Pelusíakvísl Nílar þar sem hún fellur um óshólmasvæðið og varð að einni fjölmennustu borg heimsins á tímum 13. konungsættarinnar, en menjar hennar voru með öllu glataðar.

Stór hópur fræðimanna hafa talið hana vera þá sömu og stendur enn neðar við þessa sömu kvísl Nílar, það er að segja borgina Tanis sem ekki tók að byggjast fyrr en um miðbik þrettándu aldar f. Kr. Samkvæmt þessu hafa þeir talið að brottför Hebrea frá Egyptalandi hafi átt sér stað löngu síður og því væri frásögn Biblíunnar ekki marktæk.

Borgin Avaris tók að byggjast á tímum Senuseret III faraós (d. 1660 f. Kr.). Það var einmitt þessi sami faraó sem lét Jósef ráða draum sinn um feitu kýrnar og þær mögru (1M 41. 1-33). Og Biblían greinir okkur frá því að Senuseret faraó skipaði Jósef stórvesír sinn (forsætisráðherra): „Munum vér finna slíkan mann sem þennan, er Guðs Andi býr í?“ (1M 41. 37). Og faraó fól Jósef að undirbúa allt Egyptaland fyrir hin sjö mögru ár. Jósef hófst handa með því að skipta Egyptalandi upp í þrjú stjórnsýsluumdæmi (wadet) til að auðvelda birgðasöfnum í korngeymslur. Hann lét jafnframt grafa skurð mikinn sem Arabar nefna enn í dag „Bahr Youssef“ (Jósefsskurðinn) sem leiddi hluta af Níl í miðlunarlón við Medinet el Fayum vinina.

Sveiflurnar í flóði Nílar mátti rekja til snöggs hlýnunarskeiðs þannig að úrkoman í Eþíópíu jókst til muna. Verðirnir við fyrstu stífluna í Suðuregyptalandi urðu flóðsins þegar varir þegar vatnsborð Nílar hækkaði um heilar átta álnir. Hlýnunin orsakaði einnig mikla þurrka í Sýrlandi og Kanaanslandi og þar með mikla hungursneyð þannig að borgirnar tæmdust af fólki. Við þessa óáran bættust svo miklir jarðskjálftar. Með Jósefsskurðinum var unnt að beina Nílarflóðinu í mikið uppistöðulón við Medinet el Faiyum og koma þannig í veg fyrir miklar hörmunar á óshólmasvæðinu.

Á öðru ári hungursneyðarinnar andaðist Senuseret III faraó (1660 f. Kr.) og sonur hans Amenemhat III tók við völdum. Jósef naut ekki síður hylli hans en föður hans og hann veitti Jósef virðingu sem einungis æðstu fyrirmönnum Egypta var veitt, það er að segja að láta reisa honum grafhýsi ásamt pýramída í Avaris. Rannsóknir austurrísku fornleifafræðinganna undir stjórn Manfreds Bietek leiða í ljós að Hebrear tóku að setjast að í Avaris á tímum 12. konungsættarinnar. Það er hér sem vettvang frásagnar Biblíunnar er að finna. Austurrísku fornleifafræðingarnir hafa jafnvel fundið grafhýsi Jósefs!

Ég mun rekja þessa sögu nánar hér á kirkju.net síðar, en bið lesandann rétt sem snöggvast að fletta upp á skýringarmyndunum í 14. greininni (kaflanum) hér að aftan. Þar má sjá hina nýju tímatalsfræði breska egyptalandsfræðingsins Davids Rohl. Þar má sjá að sjálf brottför (exódus) Hebrea á sér stað annað hvort á tímum Sobekhoteps IV eða Dudimose faraós af 13. konungsættinni. Í hebresku gröfunum í Avaris má jafnvel sjá að skömmu áður fjölgar gröfum kvenna mjög í kjölfar deyðingar sveinbarna Hebrea. Skömmu eftir brottför Hebrea má sjá hvernig grafirnar í Avaris gjörbreytast. Hér eru ljóslega á ferðinni Kanaanítar sem leggja borgina undir sig. Það er þetta tímaskeið sem þekkt er sem fyrri Hyksostíminn.

Eitt þeirra atriða sem sá hópur fræðimanna sem dregur sannleiksgildi Biblíunnar í efa hafa bent á er að eyðing Jeríkó og borgarinnar Aí stangist á við frásagnir Biblíunnar. Þetta er einnig fjarri öllum sanni. Fyrst Jeríkó. Á nítjándu og tuttugustu öld fóru fram nokkrar skipulagðar rannsóknir á borgarhaugnum (Mynd 1. 10). Þær athyglisverðustu var leiðangur breska fornleifafræðingsins John Garstang (1930-1936) og Kathleen Kenyon (1952-1958). Garstang fann fallna borgarmúra, menjar um brunnar kornbirgðir og að borginni hefði verið eytt með eldi. Þennan atburð tímasetti hann um 1400 f. Kr. sem er í fyllsta samræmi við frásögn Biblíunnar.

Kathleen Kenyon fann ummerki um hið sama, en komst að allt öðrum niðurstöðum. Í stað þess að renna stoðum undir frásögn Biblíunnar fullyrti hún að rannsóknarniðurstöður sínar afsönnuðu hana. Hún tímasetti eyðingu borgarinnar um 1550 f. Kr. og því hefði borgin verið yfirgefin og þar með útilokað með öllu að Ísraelsmenn hefðu eytt henni.
Fullyrðingar hennar höfðu mikil áhrif á ákveðinn hóp fræðimanna og þeir hylltu hana fyrir að hafa fundið sannanir sem leiddu í ljós að Biblían væri ekki marktæk og hér væri því um hreina goðsögn að ræða. Kathleen Kenyon andaðist 1978 og fullnægjandi niðurstöður rannsókna hennar voru ekki gefnar út fyrr en 1981-1983.

Nokkrum árum síðar þegar fornleifafræðingurinn Bryant Wood kannaði niðurstöður hennar nánar var hann undrandi þegar hann komst að raun um að „niðurstöður Kenyons grundvölluðust á því sem ekki fannst í Jeríkó fremur en því sem fannst þar.“ [6]

Honum varð ljóst að hún grundvallaði tímasetningar sínar á ákveðnu afbrigði innfluttra leirkera sem fundust á öðrum uppgraftrarstöðum í Kanaan og Sýrlandi en ekki í Jeríkó og því hefði borgin verið í eyði á þessum tíma. Dr. Wood varð ljóst að hún hefði grafið í fátækari hluta borgarinnar þar sem íbúarnir höfðu ekki ráð á slíkum innfluttum munaðarvörum. Sér til enn meiri furðu komst hann að raun um að Kathleen hefði í raun og veru fundið leirker sem voru einmitt frá þeim tíma sem borgin var lögð í auðn án þess að veita þeim nánari athygli. Henni sást einnig yfir þá staðreynd að forveri hennar, John Garstang, hafði fundið lituð leirker frá þeim tíma sem borgin var unnin. Egypskir verndargripir sem hann fann í nálægum grafreit gáfu einnig til kynna að borgin hefði verið byggð í nokkrar aldir áður allt til eyðingar hennar. Þannig var um samfellda byggð borgarinnar að ræða.

Þrátt fyrir þá vankanta sem eru á rannsóknarniðurstöðum Kathleen Kenyon hafa þær haft mótandi áhrif og markað afstöðu fjölmargra fræðimanna allt til dagsins í dag. En í reynd er það sem bæði Garstang, Kenyon og aðrir fornleifafræðingar hafa uppgötvað í Jeríkó nákvæmlega það sem lesa má í Jósúabók. Þeir fundu hrunda borgarmúra, ekki múra sem brotnir voru niður að utanverðu heldur hrundu (Jós 6. 20). Þeir féllu ekki inn á við heldur út á við og mynduðu eins konar göngubrú þannig að Ísraelsmenn „gengu inn í borgina, hver þar sem hann var staddur.“

Þær miklu birgðir af brunnu korni sem fundust í borgarrústunum leiða í ljós að umsátrið sem Biblían segir að varað hafi í sjö daga fái staðist. Það kann að koma á óvart hvers vegna kornið var látið ósnert jafn verðmætt og það var þar til við minnumst boða Guðs: „Aðeins silfur og gull og hluti þá, sem af eiri eða járni voru gjörðir, lögðu þeir í féhirslu húss Drottins“ (vers 24). Og hvað þá um lúðrahljóminn? Lítil sveitakirkja í Devon á Englandi varpar ef til vill ljósi á það mál. Menn veittu því athygli að sprungur voru komnar í kirkjumúrana. Rannsókn leiddi í ljós að rekja mátti þær til ákveðinna hljóðbylgna sem bárust frá orgeli kirkjunnar! Í Jesajabók segir hinn Hæsti: „Komið, eigumst lög við! – segir Drottinn“ (Jes 1. 18).

Þá að borginni Aí (Jós 8. kafli) sem er ekki fjarri Jeríkó. (Mynd 1. 9). Við skulum gefa fornleifafræðingnum Bryant Wood Ph. D orðið:

„Aí er annað mikla vandmálið hvað lýtur að landvinningunum í fornleifafræði Biblíunnar og frásögn hennar vegna þess að sá staður sem fræðimenn hafa talið vera Aí Jósúa var ekki í byggð á tímum hans. Hún var í byggð miklu fyrr eða snemma á bronsöld þegar hún var mikilvægur þéttbýliskjarni. Henni var eytt um 2400-2300 f. Kr. og var rústir einar á miðbronsöld og síðbronsöld.

Hún var endurreyst á járnöld um 1100 f. Kr. Þannig var um langt rof í byggðasetu var að ræða og þegar við viljum tímasetja brottförina og landvinningana, þá verður byggðasetan að falla einhvers staðar á milli þessara tveggja ártala. Þannig getur borgin ekki verið Aí Jósúa ef við leggjum eitthvað upp úr frásögn Biblíunnar.“

Bryant Wood heldur síðan áfram:

„En veraldlega sinnaðir fræðimenn munu segja: „Jæja, við trúum því að þetta sé Aí og við trúum því að frásögn Biblíunnar hafi verið búin til með það í huga að útskýra tilvist þessara rústa og að atburðurinn hafi aldrei átt sér stað.“ Samtök mín, „The Associates for Biblical Research,“ hafa stundað rannsóknir í Ísrael síðan 1979 og leitað að hinni raunverulegu Aí eins og hún var. Árið 1995 tókum við að vinna á stað sem er um kílómeter vestan við et-Tell, staðinn sem fræðimenn telja vera Aí. Nafn staðarins er Khirbet el-Maqatir. Á þessum stað fundum við virki sem er frá tímum Jósúa. Við höfum sannanir fyrir því að það varð eldi að bráð um 1400 f. Kr. sem er einmitt það sem Biblían greinir okkur frá í 8. kafla Jósúabókar.

Staðfræðin kemur nákvæmlega saman við það sem við lesum um í Biblíunni. Okkur er greint frá herflokki sem lág í launsátri að vestanverðu, frá hæð í norðri og frá ýmsu fleira í 7. og 8. kafla Jósúabókar sem kemur nákvæmlega heim og saman við stað okkar og svæðið umhverfis hann. Við erum sannfærðir um að við höfum fundið Aí Jósúa.

Et-Tell svæðið er líklega staðurinn þar sem finna má Aí Abrahams (1M 12. 8) þegar sagt er að Abraham setti þar tjöld sín, svo að Betel var í vestur, en Aí í austur. Þetta hefur því líklega verið Aí Abrahams. Heitið Aí þýðir „rústir“ á hebresku og arabíska heitið et-Tell þýðir einnig „rústir.“ Þetta virðist vera uppruni nafnsins, þessar miklu bronsaldarrústir sem eru þarna. Og þegar þetta litla virki var byggt einum kílómetra vestar var gripið til sama nafnsins. Þetta er ekki einstætt fyrirbrigði vegna þess að það er einnig um aðrar rústir að ræða á et-Tell svæðinu sem kallaðar hafa verið Aí á arabísku nútímans.

Það er líklega um einn tug staða að ræða í nágrenni et-Tell sem gefið er þetta sama heiti sem leyfar um mannvist frá ýmsum tímum er að finna. Hér er því um stórtíðindi að ræða sem færa okkur í hendur sannanir sem renna stoðum undir sjöunda og áttunda kaflann í Jósúabók vegna þess að Jeríkó og Aí voru vandamál sem fræðimenn bentu stöðugt á og sögðu: ,Jæja, sjáið þið núna. Hér er það fornleifafræðin sem leiðir í ljós að Biblían hefur á röngu að standa. Því var ekki um neina landvinninga að ræða.’ Við teljum okkur hafa leyst þetta vandamál núna. Við höfum sannanir undir höndum sem leiða í ljós, já, að landvinningarnir áttu sér stað.“ [7]

Í lokin skulum við víkja aftur að skýringarmyndunum í 14. greininni (kaflanum) hér að aftan. Fundur fleygrúnatöflunnar í Damaskussafninu þar sem Akhenaten faraó er greint frá bruna konungshallarinnar í Úgarit hefur valdið miklum skjálfta í hópi þess hluta fræðimanna sem draga sannleiksgildi Biblíunnar í efa. Ásamt niðurstöður þeim sem fengist hafa í uppgreftri borgarinnar í Avaris og hinu beinu skírskotunar fleygrúnatöflunnar til Akhenatens faraós og tengsla töflunnar við sólmyrkvann í Úgarít þann 9. maí 1012 hefur leitt til gagngerðar endurskoðunar á tímasetningum í egypskri sögu allt frá tímum 12. konungsættarinnar á 17. öld f. Kr. Hún leiðir í ljós 370 ára skekkju sem að hluta til má rekja til 20. og 21. konungsættarinnar. Í ljósi þessa má draga upp eftirfarandi yfirlit:

Amenhotep III (37 ár) – 1050-1012 f. Kr.
Akhenaten – 1022-1006 f. Kr.
Nefertiti – 1011-1007 f. Kr. (meðstjórnandi Akhenaten í 5 ár)
Smenkhare – 1006-1003 f. Kr. (meðstjórnandi Akhenatens í 1 ár)
Tutankhamun – 1003-995 f. Kr.
Ay – 995-900? f. Kr. (valdatími ókunnur).

Ein þeirra niðurstaðna sem draga má er sú að Ramses II faraó hafi ekki verið uppí á tólftu öld f. Kr. eins og gengið hefur verið út frá fram til þessa, heldur á tíundu öld f. Kr. [8], það er að segja á bronsöld. Þetta varpar meðal annars ljósi á þá staðreynd, að þegar grafið var í musterishæð Salómons fundust leirker frá bronsöld en ekki járnöld.

Ég býð lesandanum að fara í heillandi ferð með mér á vit Prestkonunga Adamskynslóðar Biblíunnar – Bókar bókanna – eða til tindsins sem miðlar ljósi eða svo að gripið sé til súmerskunnar, tungu prestkonunganna: „Kibrat Erbettim.“

[1]. Sarton, George, „A History of Science,“ Harvard, 1952. bls.111 og 116.
[2]. Perry, W. J., „The Growth of Civilization,“ Penguin Books, Eng., 1937, bld.137.
[3]. Sayce, A. H., „Early Israel and the Surrounding Nations,“ London, 1899, bls. 270.
[4]. Meek, T. J., „Mesopotamian Studies,“ in The Haverford Symposium on Archaeology and the Bible, 1938, bls.161.
[5]. Stuart Piggott, General Editors Preface, Library of the Early Civilization, Early Mesopotamia and Iran by M. E. L. Mallowan, bls. 7.
[6]. „Did the Israelites Conquer Jericho?,“ Biblical Archaeology Review, March-April 1990, bls. 50).
[7]. Í viðtali við John Elliott í tímaritinu „Good News.“ Dr. Bryan Wood hefur stjórnað uppgröftum á nokkrum stöðum í Jórdaníu og Egyptalandi og frá 1995 stjórnað uppgreftrinum í Khirbet el-Maqatir í Ísrael. Hann er sérfræðingur í kanverskum leirvörum frá síðbronsöld og höfundur „The Sociology of Pottery in Ancient Palestine og „The Ceramic Industry and the Diffusion of Ceramic Style in the Bronze and Iron Ages (1990), auk fjölmargra greina um fornleifafræði í sértímaritum.
[8]. Of langt mál er að fara út í ítarlega umfjöllun á þessu efni hér. Áhugasömum lesendum skal bent á rit Davids Rohl, „A Test of Time: The Bible – from Myth to History,“ bls. 1-275. (Fáanleg á amazon.uk)

No feedback yet