« Filippseyjar: Hart tekist á um frumvarp sem gengur gegn lífsgildumIndland: 10 milljóna stúlknafæðinga er saknað úr fæðingartölum »

04.09.08

  19:41:40, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 205 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Indland: Ofsóknirnar gegn kristnum í Orissa fjara út

Asianews.it - Róm. Ofsóknirnar gegn kristnum í Orissa á Norð-Austur Indlandi eru að fjara út en svæðinu er lokað og aðeins stjórnarerindrekar og lögreglumenn fá að fara þangað. Allt sem merkt var krossi virðist hafa verið ráðist á. Ofsóknirnar brutust út í kjölfar morðs á róttækum hindúaleiðtoga en hann var veginn af skæruliðum kommúnista.

Edward Sequeira

Þrátt fyrir það brutust út að því er virðist skipulagðar ofsóknir gegn kristnum í héraðinu. Engin ríkisstjórn hefur fordæmt ofbeldið. Aðeins örfáir ráðamenn hafa gert það svo sem utanríkisráðherra Ítalíu. Ráðamenn í Páfagarði hafa bent á að þetta sé ein birtingarmynd kristnifælni sem leitast við að afneita kristinni arfleifð. Margir friðarsinnar og félagasamtök sem gjarnan eru fljótir til að vernda aðra hópa, minnihlutahópa eða dýr í útrýmingarhættu hafa kosið þögnina í þetta skipti. Hugsanlega óttast þeir að á bakvið ásakanir róttækra hindúa um sálnaveiðar kristinna liggi sannleikskorn. Ítalskir biskupar hafa boðað að morgundagurinn 5. september skuli vera helgaður bænum og föstum fyrir kristnum í Orissa. [Tengill]

3 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ekkert er nýtt undir sólinni eins og Prédikarinn segir. Heyrum hvað heilagur Páll segir í Postulasögunni: „Í þann tíma urðu miklar æsingar út af veginum. Demetríus hét maður og var silfursmiður. Bjó hann til Artemisar-musteri úr silfri og veitti smiðum eigi litla atvinnu. Hann stefndi þeim saman og öðrum, sem að slíku unnu, og sagði: „Góðir menn, þér vitið, að velmegun vor hvílir á þessari atvinnu. Og þér sjáið og heyrið, að Páll þessi hefur með fortölum sínum snúið fjölda fólks, ekki einungis í Efesus, heldur nær um gjörvalla Asíu. Hann segir, að eigi séu það neinir guðir, sem með höndum eru gjörðir. Nú horfir þetta ekki einungis iðn vorri til smánar, heldur einnig til þess, að helgidómur hinnar miklu gyðju, Artemisar, verði einskis virtur og að hún, sem öll Asía og heimsbyggðin dýrkar, verði svipt tign sinni“ (P 19. 23. 27).

Enn í dag lifir þessu hugmyndafræði góðu lífi, ekki síst meðal íslenskra ráðamanna, hugmyndasmiðja sem kennd er við Pósthólf 101 Reykjavík. Þeir hafa þagað þunnu hljóði gagnvart kúgun Tíbeta og hyllt stjórnveld í Kína með nærveru sinni í von um einhvern spón úr askinum. Ég reiknað þannig ekki fremur með því að forseti lýðveldisins Íslands halli orði á indversk stjórnvöld vegna væntinga um glóandi gull í þvísa landi.

05.09.08 @ 06:42
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið Jón. Kannski er þetta líka það að almenningur og þar af leiðandi fjölmiðlar einnig í okkar heimshluta sýna þessu máli lítinn áhuga eins og ýmsu öðru sem gerist í Afríku, Asíu eða Suður-Ameríku.

Einn angi af þessu máli á Indlandi kann einmitt að vera sá að ríkjandi stéttir hindúa sjá kristnina sem ógnun því hún breiðist út meðal lágstéttanna, landbúnaðarverkamanna sem og “hinna ósnertanlegu". Fyrir þetta fólk er kristni leið sem styrkir það í því að leita réttar síns því þeir finna í henni rökstuðning fyrir því að þeir eigi að bera virðingu fyrir sjálfum sér sem börn Guðs. Þannig séð eru ofsóknirnar vísbending um að kristnin sé að áorka einhverju þarna. En með því að ofsækja kristna þá vinna róttækir hindúar gegn sýn Mahatma Gandhi sem barðist fyrir Indlandi sem væri opið fyrir öllum trúarbrögðum. Sjá hér: [Tengill]

05.09.08 @ 16:34
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Bæn heilagrar Teresu frá Avíla:

Ó, kristið fólk! Það er kominn tími til að þið rísið Konungi ykkar upp til varnar og gangið með honum í einstæðingsskap hans. Fáir eru þeir ráðsmenn sem haldið hafa tryggð við hann og fjöldinn mikill sem fylkir sér um Lúsífer. Það sem er sínu alvarlegra er að þeir síðarnefndu koma fram fyrir fólk sem vinir hans og framselja hann síðan í leynum. Hann finnur því sem næst engan sem hann getur treyst.

Ó sannastur allra vina! Hversu illa endurgeldur sá þér ekki sem svíkur þig í tryggðum! Sannkristið fólk! Takið undir grát Guðs ykkar vegna þess að þessi samúðarríku tár eru ekki einungis ætluð Lasarusi, heldur einnig þeim sem vilja ekki rísa upp frá dauðum, jafnvel þó að hans Hátign hrópi á þá . . . - Megi slíkt taka enda, Drottinn, megi slíkt taka enda og hið sama má segja um alla aðra. Reistu hina dauðvona upp. Megi hróp þitt gjalla svo hátt, að jafnvel þó að þeir biðji þig ekki um líf, munir þú gefa þeim líf þannig að þeir geti síðan gengið út úr grafhýsi sinnar eigin fullnægju, Guð minn.

Lasarus bað þig ekki um að reisa sig upp frá dauðum. Þetta gerðir þú fyrir bersynduga konu . . . Konungur minn! Þú veist það nú þegar hversu mjög ég þjáist vegna þessarar gleymsku þeirra og vegna þeirra endalausu písla sem bíða þeirra, ef þeir snúa sér ekki að nýju til þín.

Ó þið sem hafið tamið ykkur að lifa í ljúfleika, fullnægju og huggana og lútið ávallt ykkar eigin vilja: Auðsýnið sjálfum ykkur miskunn! Minnist þess að ykkar bíður ógnarvald hamslausrar illsku heljar að eilífu. Sýnið aðgát. Sýnið aðgát vegna þess að dómarinn sem mun dæma ykkur varpar ekki fram spurningum sínum núna og þið eruð ekki örugg eitt einasta andartak í þessu lífi. Hvers vegna viljið þið ekki lifa að eilífu? Ó harðúðuga mannshjarta! Megi takmarkalaus miskunn þín mýkja þessi hjörtu, Guð minn.

(Andlegir vitnisburðir 10).

06.09.08 @ 00:24