« LA SALETTE Í FRAKKLANDI 1846: HIN GRÁTANDI GUÐSMÓÐIR Í MIÐJU HRINGS (3)Minningardagur Vorrar Frúar af blómunum (Madonna dei fiori) í Bra á Ítalíu »

31.12.06

  07:56:11, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 421 orð  
Flokkur: Kraftaverk tengd Guðsmóðurinni

Íkona Guðsmóður hliðsins (Portaitissa)

Í Ivironklaustrinu (spænska klaustrinu) á hinu heilaga Aþosfjalli mátti sjá íkonu af Guðsmóðurinni yfir aðalinnganginum. Hún sýndi hina blessuðu mey sem Hoidigitria eða Vegvísuna (þá sem vísar veginn). Á öllum íkonum af Vegvísunni bendir María Guðsmóðir á Jesúbarnið. Með þessu vill hún segja: HORFIÐ TIL HANS!

Nú í lok gamla ársins og upphafs þess nýja er okkur hollt að rifja eftirfarandi frásögn upp vegna þess að í vissum skilningi göngum við inn um „hlið“ til nýs árs. Íkonunni var komið fyrir í klausturhliðinu yfir innganginum því til verndar.

Bræðurnir ákváðu að flytja íkonuna inn í kirkjuna svo að hún yrði ekki veðri og vindum að bráð. Næsta morgunn mátti að nýju sjá hana á sínum upphaflega stað og sama sagan endurtók sig dagana sem í hönd fóru.

Nú varð bræðrunum ljóst að kraftaverk hefði átt sér stað og María vildi að íkona sín stæði áfram fyrir ofan innganginn klausturssamfélaginu til verndar. Í sögu klaustursins (frá níundu öld) má lesa að sjóræningjar frá Alsír – eða barbarar eins og þeir voru kallaðir – rændu klaustrið sem ekki var fátítt á þessum tímum. Þegar ræningjarnir sáu íkonuna urðu þeir óttaslegnir og hikuðu við, en foringi þeirra sem vildi sýna fram á að ekkert væri að óttast dróg sverð sitt úr slíðrum og sló til íkonunnar. Nú gerðist annað undur og blóð tók að streyma frá Jesúbarninu.

Ræningjarnir flúðu á brott sem fætur toguðu en foringi þeirra varð eftir og gerðist kristinn munkur og bar nafnið bróðir Barbados (dregið af barbari). Þegar hann andaðist mörgum árum síðar var litið á hann sem heilagan mann. En í dag má sjá íkonu í klausturkapellunni til minningar um heilagan Barbados. Ef grannt er skoðað má sjá nokkra blóðdropa á Jesúbarninu á mörgum eftirgerðum íkonunnar til minningar um þennan atburð.

Megi Guðsmóðir hliðsins og Sonur hennar verða sem flestum lesendum þessara orða til verndar þegar þeir ganga inn um „hliðið“ sem markar upphaf nýs árs. Megi henni auðnast að beina sjónum sem flestra Íslendinga til hans sem er: Vegurinn, sannleikurinn og lífið! Ég óska öllum lesendum Kirkjunetsins árs og friðar og heillaríks árs í samfylgd Jesú og Maríu.

No feedback yet