« Hinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar: Tómas frá AquinDr. Hinrik H. Frehen biskup – Minning »

12.12.06

  08:08:16, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 8454 orð  
Flokkur: Gunnar F. Guðmundsson

Ignatíus Loyola og Jesúítareglan

Grein eftir Gunnar F. Guðmundsson sem birtist áður í Merki krossins, tímariti kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, III. hefti 1991 og er endurbirt hér með leyfi höfundarins. (Aths. RGB )

Um þessar mundir eru 500 ár liðin frá fæðingu Ignatíusar Loyola, stofnanda Jesúítareglunnar. Jafnframt minnast jesúítar þess um allan heim, að fyrir 450 árum var regla þeirra formlega stofnuð með bréfi, sem Páll III páfi gaf út 27. september 1540.

Jesúítar, vinir þeirra og velunnarar hafa því kallað tímabilið frá september 1990 og fram í júlí 1991 "ár Ignatíusar", og fagna þessum tímamótum með ýmsum hætti.

Nokkrar bækur hafa nýlega komið út um Ignatíus Loyola, og vil ég sérstaklega vekja athygli á einni þeirra. Hún ber einfaldlega heitið Ignatius Loyola og kom út á síðastliðnu ári hjá forlaginu Collins í London. Höfundurinn er jesúítapresturinn Philip Caraman. Hann hefur ferðast víða um heim, m.a. til Íslands, og ritað margar greinar og bækur. Ein þeirra er fjörlega skrifuð ferðalýsing frá Noregi, þar sem vikið er nokkuð að tengslum íslands og Noregs fyrr á öldum. En þekktust bóka hans mun vera The Lost Paradise, sem fjallar um samfélög þau meðal indíána í Paragvæ, sem jesúítar stofnuðu á 17.og 18. öld og mikið orð fór af á sínum tíma (sjá útdrátt úr bókinni í Merki krossins, 1. hefti 1987). Mörgum er ef til vill í fersku minni kvikmyndin Trúboðsstöðin eða The Mission, sem sýnd var hér á landi fyrir fjórum árum, en hún var einmitt gerð um sama efni.

Ignatius Loyola er ekki helgisaga heldur skrumlaus, en góðviljuð lýsing á þeim manni, sem flestum framar er talinn hafa varið kaþólsku kirkjuna áföllum á umbrotatíma 16. aldar og snúið vörn hennar í sókn. Það er enginn dýrlingur, sem birtist okkur á síðum bókarinnar, heldur venjulegur maður, í fyrstu öfgafullur og þverlyndur, stundum dálítið broslegur, rekinn áfram af því eina markmiði að vinna Guði meiri dýrð ("Deo ad maiorem gloriam"). Hann var lengi í vafa um köllun sína, og fann á stundum sárt til þess, hvað honum væri í mörgu áfátt. Líklega hefur aldrei hvarflað að honum, að hann yrði sjálfur hafinn til öndvegis við hlið hinna helgu manna, sem hann dáði hvað mest, heilags Dominikusar og heilags Frans frá Assisi.

Annað er það, sem gerir bók Caramans eftirminnilega. Höfundurinn lýsir mjög vel umhverfi atburða og dregur fram samtíð sögupersónunnar á svo ljóslifandi hátt, að lesanda finnst sem hann sé staddur á vettvangi. Hann fær þannig sjálfur að reyna, hve erfitt það gat verið að ferðast landa á milli, jafnvel að bregða sér af bæ, hann kynnist háskólalífinu í París og gengur um stræti borgarinnar eilífu við Tíberfljót, svo að nokkuð sé nefnt.
Bók Philips Caramans Ignatius Loyola,var tilefni þeirrar greinar, sem hér birtist.

Æviágrip Ignatíusar Loyola
Iñigo eða Eñico López de Loyola, eins og hann hét réttu nafni, var af aðalsfólki kominn og fæddist á ættarsetri fjölskyldunnar í Loyola, í Baskahéruðum Spánar. Eins og tíðkaðist um yngstu syni hefðarfólks, var Ignatíusi ætlað að ganga í þjónustu kirkjunnar. En hugur hans stóð nær hermennsku en helgisöng, og varð það til þess, að faðir hans sendi drenginn til hirðar Juan Velásquez de Cuéllar, sem var féhirðir konungs og bjó í Arévalo. Þar lifði Ignatíus gáskafullu lífi við vopnaburð og veislugleði og reyndi að stíga í vængi við konur, eins og sæmdi metnaðarfullum riddarasveinum. Eftir samtímaheimildum að dæma gat Ignatíus varla talist efni í sannhelgan mann á þeim tíma. Árið 1521 var hann sendur í kastalavígi við borgina Pamplona til að verjast þar, ásamt mönnum sínum, innrás Frakkakonungs. Í úrslitaorrustu um vígið, sem lauk með sigri Frakka, særðist Ignatíus hættulega á fæti og var fluttur til föðurhúsa í Loyola, þar sem hann lá margar vikur í sárum. Í einsemd sinni tók hann til við að lesa þær bækur, sem til voru, og varð hann að gera sér að góðu rit um guðstrú og helga menn. Einkum voru það tvær bækur, sem tóku hug hans fanginn. Önnur var um ævi Krists eftir karþúsamunkinn Lúdolf frá Saxlandi, en hin bókin hafði að geyma heilagra manna sögur, sem dóminíkanamunkurinn Jakob de Voragine tók saman og þekktar voru undir heitinu Legenda Aura. Nefna má, að sögur þessar voru lesnar á Íslandi, og gætir áhrifa þeirra í Maríusögum og ef til vill fleiri helgiritum, sem samin voru hér á landi á miðöldum. (Gad, bls. 411). Lestur þessara rita orkaði mjög á hinn sjúka mann, enda hugur hans næmari en ella, þar sem hann lá í fleti sínu á mörkum lífs og dauða. Hjá því varð ekki komist, að hann þakkaði skapara sínum og helgum mönnum lífgjöfina, því að hann hafði ekki sparað áheit til þeirra, þegar mest á reyndi. Allt þetta varð til þess, að Ignatíus Loyola var sem nýr maður, þegar hann komst aftur til heilsu.

Eftir að Ignatíus hafði tekið sinnaskiptum, einsetti hann sér að fara pílagrímsför til Jerúsalem. Fyrsti áfangi á þeirri löngu leið var klaustrið Montserrat, en þangað var Ignatíus kominn 21. mars 1522. Þar gaf hann fátækum manni föt sín, en íklæddist sjálfur hærusekk, tók upp stafkarlsstaf og lagði frá sér vopn sín hinsta sinni frammi fyrir líkneski af Maríu guðsmóður. Næstu mánuði dvaldist hann í þorpinu Manresa skammt frá klaustrinu. Hann lifði þar á bónbjörgum og naut þess, að góðhjartaðar konur höfðu samúð með honum og skutu yfir hann skjólshúsi. Ignatíus tók nú að stunda meinlæti af svo miklu kappi, að við lá, að það yrði hans bani. Hann fastaði dögum saman, vakti um nætur og var ýmist á barmi örvæntingar eða altekinn trúarlegri hugljómun. A þessum reynslutíma í Manresa lagði Ignatíus drög að lítilli bók til leiðbeiningar þeim, sem vildu feta veg trúarinnar af heilum hug. Nefndist hún Andlegar æfingar (Exercitia Spiritualia) og hefur reynst sígilt rit í heimi trúarbókmennta.

Á þeim tíma var það þrautin þyngri að komast til landsins helga. Fyrst þurftu pílagrímar að fá leyfi páfa til fararinnar, og síðan voru þeir komnir undir náð og miskunn Tyrkja, sem réðu löndum við austanvert Miðjarðarhaf. Ignatíus náði um síðir áfangastað og vildi helst setjast þar að til að boða heiðingjum kristna trú. En yfirmaður fransiskanamunka í Jerúsalem benti honum á, að slíkt væri óráðlegt og gæti reitt tyrknesk stjórnvöld til reiði. Ignatíus varð að hlýða, því að þessi maður hafði umboð páfa til að veita kristnum mönnum dvalarleyfi eða senda þá úr landi að viðlagðri bannfæringu.

Eftír mikla hrakninga tók Ignatíus land í Feneyjum, en hélt þaðan til Spánar og hóf þar nám, fyrst í Barcelona og síðan við háskólann í Alcalá. En lærdómurinn vildi fara fyrir ofan garð og neðan, því að hann varð brátt önnum kafinn við að snúa fólki til réttrar breytni og sannrar trúar. Grunur féll á hann um villutrú, og komst rannsóknarrétturinn spænski í málið. Ignatíus var að vísu sýknaður af öllum ákærum, en dæmdur til að hegða sér sómasamlega eins og námsmanni bar að gera. Eftir þetta taldi hann sér ekki lengur vært í borginni og hélt til Salamanca. Þar lenti hann aftur í klóm rannsóknarréttarins fyrir sömu sakir og var settur í fangelsi. Þegar hann var látinn laus þremur vikum síðar, var hann staðráðinn í að fara til Parísar, sem var þá og hafði lengi verið háborg æðri mennta í álfunni.

í París hélt Ignatíus uppteknum hætti. Hann sótti fyrirlestra, lifði á snöpum og reyndi að hafa heillavænleg áhrif á námsfélaga sína. Rannsóknarrétturinn var á varðbergi, en sem fyrr fannst engin sök hjá honum. Nokkur hópur námsmanna safnaðist að Ignatíusi og hafði daglegt samneyti við hann. Snemma morguns á degi uppnumningar Maríu meyjar, 15. ágúst 1534, gengu Ignatíus og sex félagar hans upp á hæð eina í París, sem nefnist Montmartre, hlýddu messu í lítilli kapellu, sem helguð var heilögum Denis, og gáfu tvö hátíðleg heit: að fara í pílagrímsferð til Jerúsalem og lifa í fátækt í anda guðspjallanna. Ef þeim tækist ekki að sjá hina helgu borg, ætluðu þeir að ganga í þjónustu páfa og vinna hvert það verk, sem hann fæli þeim á hendur. Allir áttu þessir menn það sammerkt að hafa, hver um sig, gengist undir andlegar æfingar Ignatíusar, sumir jafnvel af miskunnarlausri ákefð. Ári síðar, 14. mars 1535, lauk Ignatíus meistaraprófi frá háskólanum í París.

Næstu mánuði og ár biðu þeir færis á að komast til Jerúsalem, en vegna ófriðarhættu á Miðjarðarhafi urðu þeir að láta af þeirri fyrirætlun. Auk þess höfðu þeir í mörgu að snúast við að predika, kenna fólki og líkna sjúkum. Þeir komu sér því saman um að bjóða páfanum liðsinni sitt og fara þess á leit við hann, að samfélag þeirra yrði viðurkennt sem fullgild trúarregla. Þeir menn voru til, sem sáu ofsjónum yfir velgengni og framtakssemi Ignatíusar og félaga hans og reyndu að afflytja mál þeirra í páfagarði. En Ignatíus átti einnig vildarmenn við hirð páfa, og þeir máttu sín betur. Hinn 27. september 1540 lýsti páfi yfir stofnun reglunnar með bréfi sínu Regimini militantis Ecclesice. Nafnið á bræðralagi sínu höfðu þeir þegar ákveðið: Societas Jesu (Jesúfélag, skammstafað: S.J.). Mánuði síðar sömdu Feneyingar frið við Tyrki, og pílagrímar gátu að nýju farið til landsins helga. En þá var of seint að efna heitið frá Montmartre. Ignatíus lifði í Rómaborg það sem eftir var ævinnar og stjórnaði þaðan reglunni. Þegar hann lést, 31. júlí 1556, voru félagsmenn orðnir meira en tvö þúsund og dreifðust víða um lönd, allt frá Brasilíu austur til Japans.

Hvers konar maður var Ignatíus Loyola?
Í mannkynssögu fyrir unglinga eftir erlendan fræðimann er komist svo að orði um Ignatíus, að hann hafi í rauninni fundið upp "þá aðferð til andlegs ofbeldis, sem í dag nefnist heilaþvottur". Um jesúíta er enn fremur sagt, að þeir hafi snemma þótt "heldur ókvalráðir í aðferðum við þá, sem þeir álitu andstæðinga heilagrar kirkju. Þeir töldust sjaldan hugsjúkir, þótt þeir gripu til óyndisúrræða í göfugum tilgangi að þeirra hyggju. (Tilgangurinn helgar meðalið.)". (Ebeling, bls. 99).

Hér er kveðið nokkuð fast að orði, en samt ætti þessi lýsing ekki að koma neinum á óvart, sem á annað borð hafa lesið eitthvað um Ignatíus á íslenskri tungu. Hvarvetna má sjá bregða fyrir sömu myndinni. Víst gat Ignatíus verið einþykkur og fastur fyrir. Það viðurkenndu meira að segja félagar hans og leituðu skýringar í því, að þannig væri nú einu sinni eðli Baska. Þetta átti einkum við, þegar Ignatíus taldi sig hafa orðið fyrir guðlegri vitrun. Þá varð honum ekki haggað. Eftir því sem árin færðust yfir, urðu sýnirnar fleiri og áhrifameiri. Hvarmar hans voru sagðir grátbólgnir, því að svo mjög komst hann við í hvert sinn sem hann var altekinn himneskri sælukennd. Án efa hefur þessi andlega reynsla orðið til að auka áhrifavald Ignatíusar og auðveldað honum að fá vilja sínum framgengt.

Það gæti hvarflað að lesanda nú á tímum, að Ignatíus hafi verið öfgamaður í daglegri breytni og viðhorfum og jafnvel á mörkum þess að vera við eðlilega geðheilsu. En þetta er ekki sú mynd, sem eftir stendur, þegar bók Caramans hefur verið lesin. Þvert á móti gat hann verið mjög umburðarlyndur og nærgætinn við fylgdarmenn sína og skjólstæðinga, því að hann vildi ekki, að þeir tækju upp á sömu "heimskupörum" og hann sjálfur hafði gert í Manresa og þannig skaðað heilsu sína varanlega. Hann var algjörlega á móti því að njörva niður ákveðnar bænastundir og leggja á fólk föstur eða önnur meinlæti. Í bréfi til fylgdarmanns síns, Francis Borgia hertoga, tók Ignatíus skýrt fram, að hann yrði að fara vel með heilsu sína og gæta þess að neyta hollrar fæðu. Hann bætti við: "Bæði líkami og sál eru gjafir Guðs, sem okkur ber að standa skil á við hann. Þú mátt ekki láta það viðgangast, að líkamanum hnigni. Ef þú gerir það, getur hinn innri maður ekki starfað eðlilega." (Caraman, bls. 153). Þetta mannlega viðhorf kemur jafnvel enn skýrar fram í bréfum Ignatíusar, og þar er af mörgu að taka. Systir Teresa Rejadella í klaustri heilagrar Klöru í Barcelona skrifaði Ignatíusi bréf og bað hann að gefa sér ráð um það, hvernig hún gæti náð fullkomnun í guðrækilegu líferni. Hún hafði lagt sig alla fram, en var ekki ánægð með árangurinn. í svari Ignatíusar kemur fram næmur skilningur þess manns, sem þekkir af eigin raun lævísi syndarinnar. En svarið vitnar einnig um heilbrigða skynsemi, íklædda orðafari trúarinnar:

Sérhver íhugul bæn, sem reynir einungis á skilninginn, leiðir ekki til annars en líkamlegrar þreytu. En til er annars konar íhugun, sem er að öllu leyti skipuleg og þó áreynslulaus. Hún veitir hugarró og leggur ekki meir á sálina en kraftar hennar leyfa. Þeir verða hvorki fyrir innri né ytri þvingun. Hún íþyngir ekki líkamanum, heldur veitir honum þvert á móti hvíld. En það gerist aðeins með tveimur skilyrðum:

Annað er þetta: Þér megið ekki gleyma því að gefa líkama yðar færi á að styrkjast og hvílast með eðlilegum hætti. Ég segi, að styrking líkamans sé nauðsynleg. Þetta á við, þegar þér ástundið slíkar íhuganir af svo miklum ákafa, að líkaminn fær ekki að safna kröftum, því að þér látið ekki nægja að biðjast fyrir á föstum tíðum. Og ég segi, að hvíld sé nauðsynleg; Guði þóknanleg hvíld, að sjálfsögðu. En hugsunin verður líka að fá stundum að reika þangað sem hún vill, til þess sem gott er eða jafnvel léttvægt, svo framarlega sem það er ekkert slæmt.

Hitt skilyrðið er þetta: Margt fólk, sem gefur sig á vald bæninni eða hugleiðslu, verður fyrir því að geta ekki sofnað, þegar það fær stund til að hvílast, því að það hefur áður reynt allt of mikið á skilninginn. Í stað þess að sofa er það niðursokkið í hugrenningar sínar og andleg viðfangsefni. En óvinurinn veit, hvernig hann á að færa sér þetta í nyt Ef maður getur ekki lengur sofið, bíður heilsan tjón af, og það má ekki gerast, hvað sem öðru líður. Ef líkaminn er heilbrigður, fáið þér komið mörgu í verk, en ef hann er sjúkur, veit ég hreint ekki, hvað þér ættuð að taka yður fyrir hendur. (Loyola von, bls. 61 -62).

Ignatíus Loyola og jesúítar eru jafnan taldir hafa verið sérlegir andstæðingar mótmælenda. Víst er, að þeir áttu drjúgan þátt í því að rétta við hlut kaþólsku kirkjunnar í löndum, þar sem mótmælendur höfðu náð góðri fótfestu. Má þar nefna Pólland og hluta af Þýskalandi. En það var aldrei ætlun Ignatíusar að beita sér gegn mótmælendum. Hann brýndi þvert á móti fyrir reglubræðrum sínum að eiga við þá vinsamleg samskipti. Ignatíus virðist jafnvel hafa átt samleið með mótmælendum um veigamikið trúaratriði, sem annars var ágreiningur um milli þeirra og kaþólskra manna. Hér er átt við "náðarvalskenninguna" svonefndu (praedestinatio). Á einum stað í Andlegu æfingunum segir hann:

Enda þótt það sé satt, að enginn verði hólpinn nema það hafi verið ákveðið fyrirfram og að hann hafi öðlast trú og náð, verðum við eigi að síður að ræða um þetta af mikilli varfærni. (The Spiritual Exercises, bls. 141).

Sjálfur lenti Ignatíus hvað eftir annað í útistöðum við yfirvöld kirkjunnar, og sagt er, að hann hafi "skolfið á beinum", þegar hann frétti dag einn í maí 1555, að höfuðandstæðingur hans, Arfa kardínáli, hefði verið kjörinn páfi (Páll IV). (Caraman, bls. 186). En þrátt fyrir það var Ignatíus með öllu frábitinn þeirri hugsun mótmælenda að segja upp hollustu við páfann og hina rómversk-kaþólsku kirkju.

Ignatíus var ólíkur mörgum samtímamönnum sínum að því leyti, að hann leit ekki niður á gyðinga. Ef nokkuð var, öfundaði hann þá fyrir að vera af sama kynþætti og sjálfur frelsarinn. Það voru helst múslimar, sem honum stóð stuggur af og hann leit á það sem sérstaka köllun sína að snúa þeim til réttrar trúar.

Ævisaga Caramans og bréf Ignatíusar benda ekki til þess, að stofnandi Jesúítareglunnar hafi verið slíkur ofstopamaður, sem oft er látið í veðri vaka á bókum. Það er einnig rangt, að hann hafi hugsað sér reglu sína sem nokkurs konar herdeild vígreifra manna í baráttunni gegn villutrú. Þessi misskilningur kann að eiga sér skýringu í orðalagi páfabréfsins um stofnun reglunnar, og einnig hefur það villt fyrir einhverjum, að sem yfirmaður hennar var Ignatíus kallaður general. En þetta er titill, sem yfirmenn fleiri trúarreglna, jafnt karla sem kvenna, bera og á ekkert skylt við hermennsku. Því verður þó ekki neitað, að Ignatíus var eftirgangssamur leiðtogi, sem fylgdist vel með og hafði alla þræði í hendi sér. Til marks um það eru öll þau bréf (um 7000), sem frá honum eru varðveitt. En þetta stafaði ekki af miskunnarlausum aga, og enn síður vegna þess, að Ignatíus bæri af öðrum að lærdómi og ræðusnilld. Öðru nær. Hann predikaði án mikilla tilþrifa og var hvorki tungumálagarpur né ritsnillingur. En hann var talinn mikill dulhyggjumaður, í nánu sambandi við guðdóminn, og fyrir það naut hann takmarkalausrar virðingar manna sinna. Hann bjó jafnframt yfir skipulagsgáfu og stjórnsemi, sem gerði hann að óumdeildum leiðtoga Jesúítareglunnar.

Reglan í fortíð
Fyrir nokkrum árum var ég á ráðstefnu í Þýskalandi með leikum mönnum og lærðum frá Norðurlöndum. Þarna hitti ég jesúítaprest frá Noregi, af ungverskum ættum, og tókum við tal saman. Brátt kom þar að gamall prestur, fjörmaður mikill og allra eftirlætí. Ég spurði, hvort hann væri líka jesúíti. Hann þagði við og sagði síðan fastmæltur "Nei, ég er ekki jesúíti. Ég er rómversk- kaþólskur prestur." Þessi orð leyna á sér. Þau lýsa því viðhorfi, að Jesúítareglan sé að meira eða minna leyti sjálfstæð hreyfing, sem fari sínar leiðir, hvað sem hagsmunum kirkjunnar líði. Jesúíti sé fyrst og síðast trúr reglu sinni, en þar að auki liðsmaður rómversk-kaþólsku kirkjunnar. En það andar einnig köldu í garð Jesúítareglunnar í orðum gamla prestsins. Þannig hefur þetta löngum verið. Jesúítar hafa átt sér mótstöðumenn, jafnt innan kirkju sem utan, frá fyrstu tíð.

Orðið jesúíti getur haft margræða merkingu í erlendum málum og táknað slægan mann, undirförulan eða eitthvað í þá veru. Meira að segja á íslandi fór ekki gott orð af jesúítum, þó að fáir eða engir landsmenn hefðu kynnst þeim af eigin raun fyrr en Alexander Baumgartner, prestur og rithöfundur, kom til Íslands sumarið 1883 og átti vinsamlegar samræður við Pétur biskup Pétursson. í Noregi var þeim ekki leyfð landvist fyrr en með breytingu á stjórnarskránni 1956, og ekki er lengra síðan en 1973, sem svipað ákvæði í stjórnarskrá Svisslendinga var afnumið með þjóðaratkvæðagreiðslu. (Holzapfel, bls. 50; Britannica 28, bls. 358). Hvað veldur?

Markmið Ignatíusar var frá upphafi að styrkja innviði kirkjunnar og snúa villuráfandi sauðum hennar aftur til betri vegar. Hér eru engin tök á að útskýra til hlítar, hvers vegna Jesúítareglan hefur verið svo umdeild, en nefnd skulu fjögur atriði til umhugsunar.

í fyrsta lagi eru það starfsaðferðirnar. Ignatíus lagði ríkt á við lagsmenn sína að ganga út á meðal fólksins, líkna sjúkum og predika. Á þeim tíma tíðkaðist ekki, að kaþólskir prestar predikuðu í messum nema þá helst á hátíðum. En það gerðu jesúítar. Þeir gengu lengra og hvöttu fólk til að ganga til altaris að minnsta kosti einu sinni í viku, jafnvel daglega. Þetta var einnig frábrugðið því, sem þá var venja. Þannig gat boðskapur jesúíta - og kirkjunnar - fundið leið inn í hug og hjarta þeirra, sem játuðu trú á Jesúm Krist. Þar skyldi enginn undanskilinn, jafnvel ekki vændiskonurnar í Róm. Því var það, að Ignatíus stofnaði heimili handa þessum konum, þar sem þær gátu aflað sér nokkurrar menntunar og búið sig undir að lifa heiðvirðu lífi í samfélaginu. Heimili þetta kenndi Ignatíus við Mörtu guðspjallanna og var mjög stoltur yfir þessu framtaki sínu. (Caraman, bls. 130-131). En jesúítar áttu ekki síður að ná til þeirra, sem heiðnir töldust, einkum múslima, eða höfðu villst af réttri leið. í þeim tilgangi lagði Ignatíus fyrir þá starfsreglur, sem einhverjum hefur ef til vill þótt bera keim af undirferli: Þeir skyldu sýna villu– trúarmönnum vinsemd og ástúð og leggja sig eftir því að ávinna traust þeirra með einlægum samræðum um andleg málefni. Jesúítum bar að standa vörð um páfann, ef á hann vaf hallað, en þó ekki þannig, að þeir fengju orð á sig fyrir að vera "pápistar". Það gæti ógnað því trausti, sem myndast hefði milli prestanna og viðmælenda þeirra. (Caraman, bls. 172). Aðferðum jesúíta er ekki síður rækilega lýst í bréfi, sem Ignatíus sendi til manna sinna á kirkjuþinginu í Trent 1546:

1. Með því að ræða við margt fólk og eiga við það samskipti er hægt, með Guðs hjálp, að gera margt því til sáluhjálpar og andlegra framfara.
2. Þess vegna væri ég [í ykkar sporum] rólegur, yfirvegaður og ástúðlegur í máli mínu, einkum ef rætt er um málefni, sem fjallað verður um á þinginu eða útlit er fyrir, að svo verði.
3. [Ég endurtek] að ég færi mér að engu óðslega, reyndi að leggja við hlustir og fá við það innri ró til þess að geta greint hugsun, tilfinningar og viðhorf þess, sem talar, og geta síðan þeim mun betur svarað eða, ef því er að skipta, þagað.
4. Vilji maður taka undir einhverja skoðun eða andmæla henni, ber ávallt að leggja fram ástæður þess, svo að ekki komi fram ásakanir um fordóma. Við eigum að gæta þess að valda engum gremju.
5. Ég mundi ekki bera fyrir mig orð einhverrar [lifandi] persónu, allra síst ef hún er af háum þjóðfélagsstigum.
Það eru málefnin sjálf, rækilega skoðuð, sem gilda, og því á maður að tala með hag allra í huga, en fylgja ekki af ástríðu einhverjum ákveðnum aðila.
6. Ef í orðræðu er vikið að efni, sem maður hvorki getur né má þegja yfir, er rétt að segja álit sitt af fyllstu rósemi og hæversku og bæta við í lokin, að maður sé reiðubúinn að beygja sig undir úrskurð þess, sem betur er að sér um málið.
7. Ef þið viljið ræða við einhvern um hið andlega líf, um meinlæti eða dulhyggju, og standa rétt að málum, legg ég til, að þið gefið ekki gaum að því, hvort þið hafið tíma til þess. Með öðrum orðum, þið eigið ekki að hugsa um, hvað hentar ykkur, heldur leitast við að laga ykkur að þörfum og háttum þess, sem þið hyggist ræða við. Þá munuð þið hafa áhrif á hann, Guði til meiri vegsemdar. (Loyola von, bls. 89-90).

Í öðru bréfi mælir Ignatíus svo fyrir við tvo jesúíta á leið til Írlands, að þeir skuli vera glaðir með glöðum, en hæglátir og alvarlegir við þá, sem þannig eru, og vitnar síðan í orð Páls postula í fyrra Korintubréfi (9,22): "Ég er orðinn öllum allt." (Munitiz, bls. 68).

Næst skulum við líta á liðsmennina. Ignatíus vildi ekki, að menn sínir væru lokaðir inni í klaustrum, heldur skyldu þeir vera fjölhæfir og ferðafúsir hvert á land, sem þeirra væri þörf. En til þess þurftu þeir að vera hraustir á sál og líkama og að öðru leyti vel af Guði gerðir. í stofnbréfi reglunnar, Regimini militantis Ecclesiae, var ekki gert ráð fyrir fleiri en 60 fullgildum félagsmönnum. En ásókn var mikil, og var það Ignatíusi áhyggjuefni, að fleiri vanhæfir menn kæmust í regluna en hún hefði gott af. Til að bæta menntun jesúíta og búa þá betur undir framtíðarstörf stofnaði hann háskóla í Róm, Collegium Romanun (Gregoriana) og reyndi að fá til kennslu lærdómsmenn, sem sköruðu fram úr hver í sínu heimalandi. Þessi skóli nýtur enn mikils álits innan kaþólsku kirkjunnar. Ignatíus átti einnig frumkvæði að öðrum skóla í borginni, Collegium Germanicum, og var honum einkum ætlað að búa prestnema undir störf í löndum þýskumælandi manna. Sakir menntunar sinnar og mannkosta voru jesúítar eftirsóttir sem ráðgjafar páfa, keisara og annarra kaþólskra fursta. Engan skal því undra, þó að jesúítar væru litnir óvildarauga. Það á við um fleiri, sem komast til áhrifa.

í þriðja lagi vil ég nefna andlegu æfingarar. Þetta litla kver Ignatíusar, Exercitia Spiritualia, hefur verið sveipað einhverjum dularhjúp, og verða menn ekki samir eftir að hafa lesið það:

Jesúítareglan byggir á járnhörðum aga og algjörri undirgefni við yfirboðarann, þess er dæmi hvað þá annars að helsjúkur unglingur í kristmunkaskóla bað yfirboðara sinn leyfis að mega deyja. Enginn var tekinn í regluna fyrr en eftir tveggja ára reynslutíma og farið meira eftir atgjörvi og greind en einlægri trú. Að undirbúningi loknum var nemandinn látinn undirgangast svonefndar "andlegar æfingar" sem samdar voru af Loyola og taka um það bil mánuð. Æfingarnar bera vott nærri því óhugnanlegri mannþekkingu stórmeistarans. Nemandinn skynjar það ekki sjálfur að hann er orðinn viljalaust verkfæri í höndum yfirboðara síns heldur þykir honum hann hafa valið sér sjálfur hlutskipti. Ef kirkjan segir það svart sem augunum virðist hvítt álítur hugurinn það samt svart, svo að notuð séu orð Loyolas. (Jón Thor Haraldsson, bls. 123).

Orðin, sem hér eru höfð eftir Ignatíusi, koma fyrir í Andlegu æfingunum, og er margoft til þeirra vitnað sem dæmis um einstrengingshátt jesúíta. í réttu samhengi eru þau á þessa leið:

Ef vér viljum vera viss um að hafa rétt fyrir oss um öll efni, ættum vér ávallt að vera reiðubúin að fallast á þessa meginreglu: Ég vil trúa því, að það, sem er hvítt fyrir sjónum mínum, sé svart, ef þannig er skilgreining kirkjunnar. Vegna þess að það er trú mín, að á milli brúðgumans, drottins vors, Jesú Krists, og brúðarinnar, kirkju hans, sé sami andi og stjórnar oss og leiðir til bjargar sálum vorum, því að þessi sami andi drottins, sem gaf oss boðorðin tíu, leiðbeinir og stjórnar heilagri móður vorri, kirkjunni. (The Spiritual Exercises, bls. 141).

Þessi ummæli Ignatíusar hafa valdið fræðimönnum nokkrum heilabrotum. Hvort tveggja er, að setningaskipun spænska frumtextans gerir merkinguna óljósa og eins hitt, að samskipti Ignatíusar við yfirvöld kirkjunnar voru ekki ævinlega á þann veg, sem í orðunum felst. (Endean, bls. 78 og 88).

Andlegu æfingarnar eru hnitmiðaðar leiðbeiningar handa þeim, sem vilja nálgast Guð og gefa sig honum á vald:

Á sama hátt og það er líkamleg þjálfun að rölta um, ganga og hlaupa, eru andlegu æfingarnar leið til að forða sálinni frá því, sem óhæfilegt er, og að því búnu gera manninum fært að komast að raun um, hvernig hann eigi að haga lífi sínu að vilja Guðs og tryggja þannig sáluhjálp sína. (The Spiritual Exercises, bls. 37).

En menn verða að hafa rétt hugarfar til þess að æfingarnar beri verulega góðan árangur, eins og Ignatíus tekur fram í formála. Hann gerði ráð fyrir, að það tæki fjórar vikur að ljúka æfingunum, og eftir því skipti hann þeim í fjóra hluta:
1. Hugleiðing um syndina;
2. Líf Jesú Krists fram að pálmasunnudegi;
3. Þjáning Krists;
4. Upprisa Krists og uppstigning til himna.
Æfingarnar skiptast í bænir og hugleiðslu, og átti að jafnaði að verja til þeirra fimm klukkustundum á dag. Hann lagði mikla áherslu á mikilvægi skynjunar og tilfinninga engu síður en skynsamlegrar hugsunar við æfingarnar. Á fjórða degi annarrar viku er meðal áhersluatriða þetta:

Fyrst eigið þið að sjá fyrir ykkur, hvernig höfðinginn illi, foringi allra óvinanna, situr í háu hefðarsæti í miðri Babýlon. Eldur og eimyrja umlykur allt. Andstyggileg, hryllileg sjón. (The Spiritual Exercises, bls. 76).

Ef til vill hafa frásagnir eins og þessi vakið óhugnað þeirra, sem litla eða enga reynslu höfðu af æfingunum sjálfum. Allt um það sverja æfingarnar sig að efni og orðfæri í ætt við leiðslubókmenntir og trúarleg hvatningarrit frá fyrri öldum. Viðkvæmar sálir hafa sjálfsagt getað umturnast við að taka þátt í æfingunum. En Ignatíus reyndi að girða fyrir það með því að brýna fyrir leiðbeinendum í formálsorðum að haga æfingum eftir getu og upplagi hvers og eins. Þessi tillitssemi við einstaklinginn, þroska hans og persónuleika, var eitt af því, sem einkenndi skóla jesúíta og hefur gert þá eftirsótta fram á þennan dag.

Jesúítum ber skylda til að stunda æfingarnar reglulega. Hvað sem sagt verður um áhrifamátt þeirra, er líklegt, að þær hafi átt drjúgan þátt í að efla sjálfsímynd reglunnar, en um leið viðhaldið tortryggni í hennar garð.

Loks er að nefna hugmyndafræði jesúíta. Þegar Ignatíus var að búa menn sína undir trúboðsferð til Eþíópíu, lagði hann fyrir þá reglur, sem jesúítar fylgdu síðan í öðrum löndum, stundum með undraverðum árangri. Þeir áttu hvarvetna að sýna umburðarlyndi og amast ekki við venjum fólks nema augljóst væri, að þær færu í bága við kjarna kristinnar trúar. Ef einhverjar heiðnar athafnir væru óæskilegar, skyldu þeir víkja þeim smám saman til hliðar og láta í staðinn koma helgigöngur og kristilegar trúarhátíðir. (Caraman, bls. 179). Sams konar sveigjanleika sýndi Ignatíus í siðferðilegum efnum. Rétt var að fara eftir almennum reglum, en síðan var nauðsynlegt að skoða hvert mál og dæma eftir því. Það fór t.d. eftir atvikum, hvort syndsamlegt væri, að konur máluðu sig: "En ef þær gera þetta af hégómaskap til að líta vel út og hafa ekkert illt í huga, er það engin alvarleg synd. ...í þess háttar til vikum er ekki hægt að koma með strangar reglur, sem leyfa engar undantekningar." (Caraman, bls. 153).

Slíkt viðhorf, að hafa hliðsjón af aðstæðum hverju sinni, er skylt þeirri meginreglu í guðfræði, sem kölluð er probabilismi. Dóminikanamunkurinn Bartolomeus de Medina setti hana fyrstur fram 1577, en jesúítar gerðust síðan helstu talsmenn hennar. Samkvæmt reglu þessari telst athöfn leyfileg, ef einhverjar líkur eru á, að svo sé, jafnvel þó að enn frekari líkur bendi til, að hún sé syndsamleg. Með orðunum "líkur" er átt við, hvort athöfnin styðjist annað hvort við skynsamleg rök eða lögleg yfirvöld. Jesúítar hneigðust því til að veita skriftabörnum sínum aflausn, ef þess var nokkur kostur. "Tilfellareglan" (kasuistik), fékk við þetta nýtt líf og varð ekki síður umdeild en reglan um líkindin (probabilismi). Einkum létu svonefndir jansenistar að sér kveða. Þeir voru kenndir við hollenskan guðfræðing, Cornelius Jansen (d. 1638). Hann hélt því fram, að maðurinn væri gjörsamlega hjálparvana og fengi engu ráðið um sálarheill sína. Náð Guðs ein gerði manninn sáluhólpinn. Hugmyndir þessar eru skyldar náðarvalskenningu mótmælenda, en voru aðallega sóttar í rit heilags Ágústínusar kirkjuföður. Jansenistar, og reyndar fleiri, deildu harkalega á jesúíta fyrir undanlátssemi í siðferðismálum. Með aðferðum jesúíta væri verknaður ekki annaðhvort góður eða slæmur, heldur færi það eftir ákvörðun skriftaföður hverju sinni. Jesúítar svöruðu fullum hálsi og af engri vægð. Heimspekingurinn frægi, Blaise Pascal, gekk til liðs við jansenista og skrifaði gegn jesúítum hvassa ádeilu: Lettres écrites par Louis de Montalte á unprovincial (venjulega stytt í Les Provinciales). Jesúítar fengu slæma útreið í riti Pascals og biðu þess vart bætur í langan tíma. (Britannica 25, bls. 453; 6, bls. 494; Cragg bls. 25-31).

Sótt var að jesúítum úr fleiri áttum. Á 17. og fram á 18. öld náðu þeir góðum árangri við trúboð í öðrum heimsálfum. Þeir stofnuðu þorpssamfélög meðal Guaraní-indíána í Paragvæ, og voru þau lengi síðan fyrirmynd þeirra, sem létu sig dreyma um sæluríki á jörðu. Frans Xavier (1506-1552), einn nánasti samverkamaður Ignatíusar, ruddi brautina fyrir trúboða á Indlandi og í Japan. Öðrum afreksmanni, jesúítanum Mattheusi Ricci (1552-1610), tókst að vinna hylli keisarans í Kína og hefja þar trúboð. í kjölfarið fylgdu prestar af öðrum trúarreglum. Fljótlega kom upp ágreiningur milli þeirra og jesúítanna, sem fyrir voru í landinu. Nýju trúboðunum var brugðið, þegar þeir sáu dæmi þess, að kristnir Kínverjar héldu áfram að sýna spekingnum Konfúsíusi lotningu og heiðra minningu látinna ættingja að fornum hætti. Jesúítar voru sakaðir um að blanda saman kristinni trú og heiðnum siðvenjum til að ná skyndiárangri, og kom málið til kasta páfans í Róm. Enda þótt jesúítar reyndu að bera hönd fyrir höfuð sér og sýna fram á, að hinir heiðnu siðir væru af samfélagslegum toga, en ekki trúarlegum, varð dómurinn ekki umflúinn. í tveimur bréfum, sem Benedikt páfi XIV gaf út 1742 og 1744, tók hann fyrir mestalla viðleitni til trúarlegrar aðlögunar bæði í Kína og á Indlandi. (Neill, bls. 189-194). Ákvarðanir þessar voru reiðarslag fyrir jesúíta, og má heita, að trúboð þeirra í Asíu hafi ekki borið barr sitt fyrr en komið var fram á 20. öld.

í Frakklandi höfðu jesúítar stuðning konungs og páfa í baráttunni við jansenista. Þeir gátu því verið nokkuð öruggir um sig og gengu svo langt að krefjast þess, að jansenistum yrði haldið frá sakramentum kirkjunnar. Þetta varð enn til að auka heift þeirra, sem þeim voru andsnúnir. Hvergi voru jesúítar áhrifameiri en í Portúgal og á Spáni. í Portúgal voru þeir sagðir sitja við stjórnvöl ríkisins. Þeir áttu sér því marga óvildarmenn, sem leynt og ljóst reyndu að finna á þeim höggstað. í báðum þessum löndum komust á kreik sögur um samsæri jesúíta gegn krúnunni, og töldu menn sig sjá merki um uppreisnarhug í trúboðsstöðvum jesúíta í Suður-Ameríku. Tilraun var gerð til að ráða konung Pórtúgals af dögum, og voru jesúítar grunaðir um að vera þar með í ráðum. Sannanir reyndust ótraustar, en þrátt fyrir það voru þeir gerðir brottrækir úr Portúgal og nýlendum þess á árunum 1759-1761. í Frakklandi tóku andstæðingar jesúíta þessari frétt með fögnuði. Þeir notuðu gjaldþrotamál jesúítaprests til að fá dóm kveðinn upp yfir reglunni fyrir ýmsar sakir og gátu þannig ráðið niðurlögum hennar í landinu. Karl III, konungur Spánar, fylgdi fast á eftir og bannaði starfsemi reglunnar í löndum sínum 1767. Tilefnið var það, að ári fyrr brutust út óeirðir í Madríd, og voru jesúítar sagðir standa þar að baki. Ákvörðun konungs samþykktu 42 af 56 biskupum Spánar, svo að ekki hafa jesúítar átt upp á pallborðið innan kirkjunnar þar í landi. (Britannica 28, bls. 51). Konungur lét ekki þarvið sitja heldur þröngvaði páfa, með aðstoð hirðarinnar í Frakklandi, til að afnema regluna í gjörvallri rómversk-kaþólsku kirkjunni. Að öðrum kosti hótaði hann innrás í páfaríkið. Árið 1773,16. ágúst, gaf Klemens XIV út bréfið Dominus ac Redemptor og batt með því enda á starf jesúíta. Yfirmanni reglunnar var varpað í fangelsi, og þar andaðist hann eftir illa meðferð. Þetta var mikið áfall fyrir páfa, því að Jesúítareglan hafði allt frá upphafi sínu verið ein styrkasta stoð embættis hans og ötulir starfsmenn kirkjunnar víða um heim. Hinir "upplýstu" einvaldar í kaþólskum löndum Evrópu höfðu lengi reynt að beygja kirkjuna undir vald sitt. Afnám Jesúítareglunnar var tákn þess, að þeim hafði vegnað betur í viðureign sinni við páfa.

Reglan í nútíð og framtíð
Napóleon Bonaparte lék páfann grátt. Hann lagði undir sig Rómaborg og flutti Píus VI nauðugan til Frakklands, þar sem hann lést í útlegð 1799. Þegar sigurgöngu Napóleons lauk 1814, var ákveðið á fundi stórveldanna í Vínarborg að hverfa aftur til fyrri stjórnarhátta, reisa við ríki konunga og uppræta öll áhrif frönsku byltingarinnar frá 1789. Páfinn gat aftur um frjálst höfuð strokið, og 7. ágúst 1814 gaf Píus VII út nýtt bréf, Sollicitudo omnium ecclesiarum, sem heimilaði starfsemi Jesúítareglunnar að nýju. Reyndar hafði lífsneistinn
aldrei slokknað að fullu, því að í Rússlandi höfðu jesúítar haldið áfram að starfa undir verndarvæng Katrínar II keisaraynju. Reglan blómstraði á skömmum tíma, og í lok aldarinnar voru félagsmenn orðnir um fimmtán þúsund. Eins og fyrri daginn voru jesúítar mjög umdeildir og að þessu sinni einkum fyrir það að standa í vegi fyrir frelsi og framförum bæði innan kirkju og úti í samfélaginu. Enn að nýju máttu þeir hafa sig á brott frá Portúgal og Spáni og urðu að sæta grimmilegum ofsóknum í Þýskalandi og Austurríki á valdatímum nasista.

Líklega hefur velgengni reglunnar sjaldan verið meiri en á tíma Vatíkanþingsins 1962-1965. Jesúítar áttu þar guðfræðinga, sem höfðu veruleg áhrif um ákvarðanir þingfulltrúa, og má nefna Augustin Bea, Henri de Lubac og Karl Rahner. í lok þingsins töldust jesúítar 36 þúsund, og voru þá langstærsta reglan innan kirkjunnar.

Þegar Vatíkanþinginu var að ljúka, mátti sjá blikur á lofti í samfélögum Vesturlanda. Þetta var tími tækninýjunga og fjölmiðlabyltingar. Félagsvísindi og stjórnmálafræði komust í tísku, og ungt fólk tókst á við þá, sem eldri voru, um lífsskoðanir. Sums staðar urðu átök, sem lauk með blóðbaði. Kirkjan fór ekki varhluta af þessum sviptingum. Páfinn hafði með aðstoð Vatíkanþingsins opnað gluggann að umheiminum til að hleypa inn ferskum andblæ, svo að vitnað sé í orð Jóhannesar XXIII, og nú var að taka afleiðingunum, þegar gustaði um forna sali kirkjunnar. Eins og oft fyrr voru jesúítar fljótir að svara kalli tímans.

Árið 1965 var samlandi Ignatíusar, Baskinn Pedro Arrupe, kjörinn yfirmaður Jesúítareglunnar. Á stjórnarárum hans létu jesúítar mjög til sín taka í þjóðfélagsmálum og hafa gert síðan. Þeir eiga það jafnvel til að skipuleggja andóf og þjarma að stjórnvöldum í ræðu og riti, þar sem ofbeldi og mannréttindabrot hafa viðgengist. En þeir hafa líka mátt gjalda fyrir með lífi sínu. Skemmst er að minnast þess, þegar sex jesúítar voru myrtir 16. nóvember 1989 í San Salvador, að undirlagi stjórnvalda að talið er. En framtakssemi jesúíta var ekki öllum að skapi innan kirkjunnar. Þær raddir heyrðust, að margir jesúítar hefðu villst af réttri leið, snúið baki við köllun sinni og tekið ástfóstri við hugmyndafræði marxismans, sem væri í eðli sínu fjandsamleg kirkjunni. Árið 1974 kallaði Pedro Arrupe saman allsherjarþing reglunnar til að ræða þessi mál. Páll VI páfi fylgdist grannt með störfum þingsins og hafði nokkur afskipti af því, sem fram fór og um var rætt. En jesúítar héldu fast við stefnu sína í þjóðfélagsmálum, eins og fram kom í samþykktum þingsins. Þar var ítrekað, að jesúítar skyldu standa með þeim, sem kúgaðir eru og minna mega sín og beita sér fyrir réttlæti hvarvetna í heiminum. Jóhannes Páll I sá ástæðu til að vara jesúíta við því að láta "freistast af veraldarhyggju", en hann féll frá eftir aðeins mánaðartíma á Pétursstóli. Þegar Jóhannes Páll II tók við, gerðust atburðir, sem lengi verður minnst í sögu Jesúítareglunnar.

Sumarið 1981 fékk Arrupe hjartaslag og lamaðist. Jóhannes Páll II greip þá til þess ráðs að fela öldruðum presti, Paolo Dezza, að stjórna reglunni, uns nýtt allsherjarþing kæmi saman. Um leið gekk páfinn framhjá þeim manni, sem Arrupe hafði ætlað þetta verk. Slík afskipti páfa áttu sér ekkert fordæmi og samrýmdust ekki stofnlögum (constitution) reglunnar. Það reyndi mikið á hollustu jesúíta við páfann á þessum árum. Um tíma var talið, að páfi ætlaði að treysta á stuðning Opus Dei, sem eru íhaldssöm samtök leikmanna, og fá þeim þann sess, sem jesúítar höfðu áður skipað innan kirkjunnar. En smám saman hefur sambúð páfa og Jesúítareglunnar lagast, og má heita, að nú hafi gróið um heilt. Það er talið ekki hvað síst að þakka núverandi yfirmanni reglunnar, Hollendingnum Peter-Hans Kolvenbach. Nýlegt dæmi sannar, að páfinn lítur enn á jesúíta sem framvarðasveit sína í kristilegum skilningi: Hann hefur falið þeim að búa svo í haginn, að rómversk-kaþólska kirkjan fái aftur fest rætur í löndum Austur-Evrópu.

Þegar metinn er hagur reglunnar nú á tímum og skyggnst inn í framtíðina, hljóta jesúítar að geta nokkuð vel við unað. Félagsmönnum hefur að vísu fækkað úr 36.000 árið 1965 í 24.000, en nýliðum fer þó heldur fjölgandi. Prestar í reglunni eru sagðir vera nálægt 17.500, en hinir eru óvígðir bræður. Allir hafa prestarnir unnið heitin þrjú um hlýðni, skírlífi og fátækt, en að auki hafa nálægt 10.000 bætt við fjórða heitinu um sérstaka hollustu við páfann. (Kolvenbach, bls. 50). Þeir starfa í 113 löndum, reka 177 menntastofnanir á háskólastigi (þar af 28 í Bandaríkjunum) og 356 framhaldsskóla, og alls munu nemendur þeirra vera rétt um tvær milljónir. (Ostling, bls. 66; Kolvenbach, bls.9). Jesúítar hafa haslað sér völl á flestum sviðum mannlegs lífs; í röðum þeirra má finna kennara, lækna, sálfræðinga og fjölmiðlamenn, svo að dæmi séu nefnd. Ekki er minnst um vert, að þeir virðast hafa komist út úr þeim "tilvistarvanda", sem hrjáði regluna fyrstu árin eftir Vatíkanþingið. Færri jesúítar gegna virðingarembættum innan kirkjunnar en ætla mætti, og er það samkvæmt fyrirmælum Ignatíusar. Hann hafði næg dæmi um það frá samtíð sinni, hvernig völd og vegtyllur gátu spillt mönnum og gert fátæktarheitið að engu. Slíkt mátti ekki henda jesúíta. (Rahner, bls. 122).

Það hefur löngum leikið orð á, að jesúítar séu "rjóminn" af menntamönnum kaþólsku kirkjunnar. Víst er, að menntun þeirra er löng og ströng. Venjulega líður ekki skemmri tími en 10 ár, þar til jesúíti getur vænst þess að fá prestvígslu, og oft er skólagöngu hans þá enn ekki lokið. Ef til vill fer ekki eins mikið fyrir afburðamönnum innan reglunnar nú og áður. En því er til að svara, að sögn Kolvenbachs, að áherslur hafa breyst í rannsóknum. Það heyrir að mestu sögunni til, að einn maður hafi á valdi sínu heila fræðigrein. Fremur er fengist við afmörkuð efni, oft í samvinnu margra. Tími snillinganna er að þessu leyti liðinn. (Kolvenbach, bls. 137-138).

Jesúítar hafa sýnt það í orði og verki, að þeir eru stoltir af uppruna sínum. Karl Rahner skrifaði eitt sinn grein, þar sem hann mælir fyrir munn Ignatíusar Loyola og lýsir því, hvernig reglan hefur mátt þola þrengingar og líða fyrir það, að misvitrir páfar hafa ekki skilið séreðli hennar og markmið. (Rahner, bls. 25-28). Sama viðhorf til reglunnar kemur fram hjá yfirmanni hennar, Peter-Hans Kolvenbach, þó að hann sé orðvar maður. Í nýlegu viðtali verður honum tíðrætt um nauðsyn þess að varðveita "anda Ignatíusar" ("Ignatian spirituality"). Jesúítar eru ekki einir um að vilja heiðra minningu þess manns, sem þeir kenna sig við. En samt er ekki laust við, að orð gamla prestsins í Þýskalandi komi upp í hugann: Jesúíti er og verður ávallt fyrst og síðast jesúíti.

Heimildir
[Britannica] The New Encyclopœdia Britannica (1986), 6. b., bls. 494-495 ("Jansen, Cornelius Otto"); 9. b., bls. 714 ("probabilism"); 25. b., bls. 453 ("Pascal. Les Provinciales"); 28. b., bls. 51 ("Spain. The regalist attack on the church"), 358 og bls. 448 ("Teaching. Traditional theories").

Caraman, Philip: Ignatius Loyola. Collins 1990.

Cragg, Gerald R.: The Church and the Age of Reason 1648-1789. Penguin 1984 (fyrsta útg. 1960).

Ebeling, Hans: Ferð til fortíðar: Evrópumenn sigra heiminn. Nýöld til 1789. Rvk. 1969.

Endean, Philip: "Ignatius and Church Authority." The Way.
Supplement 70. Spring 1991: Ignatian Horizons 1491- 1991.

Gad, Tue: "Legenda aurea." Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder 10 (1981,2. útg.), 410-412.

Holzapfel, Helmut: Samt kom hún aftur: Myndir úr kirkjusögu Norðurlanda 1500-1800. Stykkishólmi 1977.

Jesuiten: Wohin steuert der Orden? Eine kritische Selbstdarstellung von einem Autorenteam SJ. Herder 1975.

Jón Thor Haraldsson: Mannkynssaga 1492-1648. Rvk. 1980.

Kay, Hugh o.fl.: "Pedro Arrupe S.J." Jesuits and Friends, nr. 18, 1991. [Tímarit gefið út af jesúítum á Bretlandi.]

Kolvenbach, Peter H.: Men of God: Men for others. St Paul Publications 1990. [Viðtal Renzo Giacomelli við Peter H. Kolvenbach.]

Loyola von, Ignatius: Trost und Weisung: Geistliche Briefe. Benziger Verlag 1978.

Munitiz, Joseph A.: "Communicating channels: Letters to reveal and to govern." The Way. Supplement 70. Spring 1991: Ignatian Horizons 1491-1991.

Neill, Stephen: A History of Christian Missions. Penguin 1980 (fyrsta útg. 1964).

Ostling, Richard N.: "Making up with the Jesuits. The Pope
gives a new assignment to his church's famed order." Time 10. des. 1990.

Rahner, Karl SJ: "Ignatius av Loyolas tal till en jesuit av idag." Ignatius av Loyola. Cavefors Verlag 1981. [Frumútg. frá Herderl978.]

The Spiritual Exercises of St. Ignatius. Doubleday & Company 1964.

Gunnar F. Guðmundsson

No feedback yet