« Ritningarlesturinn 14. ágúst 2006 | Ritningarlesturinn 13. ágúst 2006 » |
Sérhver maður sem ekki sér (er andlega blindur), en tekur sér samt á hendur að leiðbeina öðrum, er falsspámaður sem leiðir fylgjendur sína á vegi tortímingarinnar til samræmis við orð Drottins: Ef blindur leiðir blindan, falla báðir í gryfju (Mt 15. 14).
Símon nýguðfræðingur, Hagnýt og guðfræðileg fyrirmæli, 34.
Hversu oft þarf Drottinn að endurtaka boðorð sín í heilagri Ritningu til þess að lúterskur predikari sjái ástæðu til að hlýðnast þeim? Þrisvar sinnum – Fimm sinnum – Tíu sinnum? Þetta er verðugt umhugsunarefni svona undir svefninn. (Í stólræðunni góðu talaði séra Skúli um að Drottinn víki aðeins að virku kynlífi samkynhneigðra á örfáum stöðum í heilagri Ritningu!)
Það er býsna mikil kokhreysti af hálfu lútersks predikara að lýsa því yfir í stólræðu að 2000 ára arfleifð kirkjunnar sé einskisnýt og tveir milljarðir kristinna manna (kaþólskir, orþodoxar og hvítasunnumenn) séu ómarktækir ofsatrúarmenn. Það fer aldrei vel á því þegar eggið ætlar að kenna hænunni að verpa. Þetta á einnig við um fríkirkjuprestinn málglaða á Tjarnarbakkanum.
Það má þó segja þeim tvímenningum til málsbótar að þeir tjá skoðanir sínar. Það sama gildir ekki um hina sem þegja þunnu hljóði, bæði hvað varðar stofnfrumurannsóknir á frumfóstrum og samkynhneigð. Ef til vill hafa þeir enga skoðun á málinu?
Heil. Símon bætir síðan við: Sá sem blindur er í einu (gagnvart Guði) er fullkomlega blindur í afstöðu sinni til annarra hluta (35).