« Faðirvorið og fastan í hinni fornu íslensku bænaarfleifðMarkaðssetning illskunnar (The Marketing of Evil) »

03.04.06

  13:58:34, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 599 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Í þessum spegli skal sérhver skoða sín verk!

Guðspjall Jesú Krists þann 4. apríl er úr Jóhannesarguðspjalli 8. 21-30

Enn sagði hann við þá: „Ég fer burt, og þér munuð leita mín, en þér munuð deyja í synd yðar. Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist.“ Nú sögðu Gyðingar: „Mun hann ætla að fyrirfara sér, fyrst hann segir: ,Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist'?“ En hann sagði við þá: „Þér eruð neðan að, ég er ofan að. Þér eruð af þessum heimi, ég er ekki af þessum heimi. Þess vegna sagði ég yður, að þér munduð deyja í syndum yðar. Því ef þér trúið ekki, að ég sé sá sem ég er, munuð þér deyja í syndum yðar.“ Þeir spurðu hann þá: „Hver ert þú?“ Jesús svaraði þeim: „Sá sem ég hef sagt yður frá upphafi. Margt hef ég um yður að tala og fyrir margt að dæma. En sá sem sendi mig, er sannur, og það sem ég heyrði hjá honum, það tala ég til heimsins.“ Þeir skildu ekki, að hann var að tala við þá um Föðurinn. Því sagði Jesús: „Þegar þér hefjið upp Mannssoninn, munuð þér skilja, að ég er sá sem ég er, og að ég gjöri ekkert af sjálfum mér, heldur tala ég það eitt, sem Faðirinn hefur kennt mér. Og sá sem sendi mig, er með mér. Hann hefur ekki látið mig einan, því ég gjöri ætíð það sem honum þóknast.“ Þegar hann mælti þetta, fóru margir að trúa á hann.

Hugleiðing
Illskan er jafn áþreifanleg í heiminum í dag eins og á tímum Jesú. Hér í pistlinum að framan má sjá eina birtingarmynd hennar í ásókn siðlausra markaðsafla, en hér vík ég að bókinni: „Marketing of Evil.“ Önnur birtingarmynd hennar er fóstureyðingarstóriðjan sem veltir milljörðum dala árlega með því að nota líkama konunnar sem hverja aðra „sorptunnu“ og myrðir 124.000 börn daglega í taumlausri græðgi sinni eftir ávinningi. Dapurlegt er til þess að hugsa að ótrúlegur fjöldi svo kallaðra „menntamanna“ hafa selt henni sálu sína til að réttlæta slíkt með „fræðimennsku“ sinni. Stundum segir fólk: „Ég get ekki trúað því að Guð sé til vegna þess að ef hann væri til, léti hann það ekki gerast að kjarnaorkusprengju væri varpað yfir fólk í Japan!“ Það gerir sér ekki ljóst að Guð hefur skapað manninn í sinni mynd og virðir FRJÁLSAN VILJA HANS. Í þessum ritningarlestri segir Jesús okkur, að við verðum að taka afleiðingum gjörða okkar og þær geta orðið skelfilegar fyrir þá sem virða ekki boðorð Guðs.

Jesús varaði Gyðingana við og sagði við þá að ef þeir héldu áfram að afneita sér „munuð þér deyja í syndum yðar.“ Orð Jesú enduróma þau varnaðarorð sem Drottinn gaf einum spámanna Gamla testamentisins, Esekíel, þar sem sagt er, að sá sem beitir kúgunarvaldi og tekur frá öðrum með ofbeldi og gerir það sem ekki er gott, hljóti að deyja fyrir gerðir sínar (sjá Esk 18. 18). Á einum stað líkir hl. Páll mannkyninu við jörð og þeim sem breyta illa við ófrjósama jörð: „Yfir henni vofir bölvun og hennar bíður að lokum að verða brennd“ (Heb 6. 8). Í þessum spegli skal sérhver skoða sín verk!

No feedback yet