« Daglegur guðspjallatexti ásamt hugleiðinguHin heilaga arfleifð og Ritningarnar – Sophronij arkimandríti »

17.05.08

  05:51:53, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 466 orð  
Flokkur: Heilagur Andi

Í þessu ljósi munið þið sjá eilíft ljós – Pétur hinn ærurverðugi, ábóti í Cluny (d. 1029)

Þessi grein kemur í beinu áframhaldi af sýn rússneska aðalsmannsins Motovilov sem vikið var að hér að fram þegar hl. Serafim frá Sarov leiddi hann inn í ljúfleika uppljómunur hins óskaðaða ljóss Heilags Anda.

„Ásjóna hans skein sem sól“ (Mt 17. 2) . . . Hulið skýi holdsins hefur ljósið sem upplýsir sérhvern mann (Jh 1. 9) ljómað í dag. Í dag gerir það þetta sama hold dýrlegt og opinberaði postulunum dýrð sína svo að þeir gætu kunngert heiminum það. Og hvað ykkur varðar, þá munið þið njóta ásæisins á þessari sól að eilífu þegar þið sjáið borgina „stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum“ (Opb 21. 2). Aldrei framar mun þessi sól hníga til viðar heldur vera hún sjálf og láta eilífan dag ljóma. Aldrei mun þessi sól vera skýjum hulin, heldur skína að eilífu og veita ykkur fögnuð ljóssins sem aldrei mun endi taka. Aldrei mun þessi sól framar blinda augu ykkar: Hún mun veita ykkur styrk til að mæna á sig og hrífa ykkur með guðlegri dýrð sinni . . . „Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til“ (Opb 21. 4) sem myrkvað getur þann dýrðarljóma Guðs sem hann hefur gefið ykkur eins og sagt var við Jóhannes: „Hið fyrra er farið.“


Þetta er sú sól sem spámaðurinn talar um: „Þú skalt ekki framar hafa sólina til að lýsa þér um daga, og tunglið skal ekki skína til að gefa þér birtu, heldur skal Drottinn vera þér eilíft ljós og Guð þinn vera þér geislandi röðull“ (Jes 60. 19). Þetta er hið eilífa ljós sem skín til ykkar frá ásjónu Drottins. Þið munið heyra raust Drottins og sjá skínandi ásjónu hans og þið verðið eins og sólin. Við þekkjum manneskju af ásjónu hennar og að þekkja hann er eitt og hið sama og að uppljómast í honum. Hérna niðri trúið þið, þarna munið þið sjá. Hérna skiljið þið eitthvað með huganum, en þarna verðið þið skilin. Hérna sjáið þið „svo sem í skuggsjá,“ en þarna munið þið sjá „augliti til auglitis“ (1Kor 13. 12) . . . Þarna mun þrá spámannsins ná fram að ganga: „Hann láti ásjónu sína lýsa meðal vor“ (Sl 67. 2) . . . Í þessu ljósi njótið þið eilífrar gleði; þið munið ganga í þessu ljósi án þess að lýjast. Í þessu ljósi munið þið sjá eilíft ljós.

Patrologia Latina 189, 959.

No feedback yet