« Óráðsstefna danskra 'tjáningarfrelsismanna'Verulegur árangur af meðferð samkynhneigðra »

11.03.06

  02:17:42, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 538 orð  
Flokkur: Málefni samkynhneigðar á sviði þjóðfélags og kirkju

Í sjálfsvald sett – eða undir leiðsögn Drottins?

Bloggað við bloggara um ‘hjónavígslu samkynhneigðra’

Margt er skrafað og skrifað um málefni samkynhneigðra þennan vetur (já, fallega snjóar hann þessa nóttina : greinilegt að vorið er ekki komið, þótt væri hann þesslegur að undanförnu). Við höfum fært hér í letur langar og fjölþættar greinar um málið – kannski ekki að furða, því að tekizt er á um frumvarp og tillöguflutning sem valda myndi umbyltingu í fjölskyldumálum – en nú skal tekið upp léttara hjal. Í nótt sem oftar gekk ég til orðaskrafs við bloggara á vefsíðu gamals nemanda míns. Þar hafði m.a. komið fram umvöndun við Þjóðkirkjuna, sér í lagi Karl biskup, og í því sambandi sagði Guðrún nokkur Vala: “Og hvað eru kirkjulegar athafnir annað en það sem maðurinn hefur fundið upp á sjálfur?"

Spyr sú sem ekki veit! sagði ég á móti og hélt svo áfram:

Kristið hjónaband er ekki mannanna verk. Til eru þeir hlutir, sem við höfum ekki fundið upp á sjálf (ég er að tala um inntak athafnanna, ekki umbúðirnar). Kristin skírn er sömuleiðis framkvæmd að boði Drottins Jesú Krists – hún er ekki mannasetningar né þess vegna varpandi fyrir róða. Og það á líka við um hjónabandið, og sú var meining Karls biskups Sigurbjörnssonar með orðum hans eftir áramótaræðuna – eins og hann tók líka skýrt fram í sjónvarpsfréttum strax á næstu dögum. En kristnir boðendur eru með erindi sitt frá Guði, og þeim er ekki í sjálfsvald sett að umturna því til að þjóna eigin duttlungum né annarra – slíkt væri svik við Guð sjálfan. Virðum það við menn, að þeir vilja vera trúir köllun sinni og samvizku.

Annar bloggari, Ragga að nafni, spurði: “Af hverju má þetta ekki vera hjónaband eins og hjá gagnkynhneigðum? Hvað í veröldinni kemur mér við hvert fólk kýs að beina sínum tilfinningum?"

Við þessu átti ég þessi svör:

Á þá t.d. að leyfa feðginum eða systkinum að giftast? Á þjóðfélagið og jafnvel kirkjan einfaldlega að lúta forskrift hvers þess sem heimtar hjónaband með hverjum sem er? Ef einhver 14 ára vill giftast tvítugum, á þá kirkjan að fara eftir því? Ef Ragga eða ég viljum giftast 5 öðrum sjálfviljugum persónum í einu, á þá kirkjan að hlaupa eftir því og redda athöfninni? Ef Kristur og postular hans staðfestu bann Gamla testamentisins við kynmökum fólks af sama kyni, á kirkjan þá samt að gifta saman það fólk og lýsa einhvers konar "blessun" yfir slíkt samlífi sem Guð hefur ekki blessað?

"Ég áskil mér sjálf þann rétt að elska þann sem mér sýnist og tel alla aðra mega taka sér sama rétt," bætti Ragga við, og ég svaraði: Kirkjan er ekkert að skipta sér af því, Ragga mín. En megi Guðs blessun fylgja þér og móta líf þitt allt – og ykkar hinna, sem þetta lesið.

8 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Við lokaorðin má að vísu bæta því, að kirkjan skiptir sér sannarlega af slíku með siðferðisboðun sinni, ef eða þar sem ástæða er til, þ.e.a.s. (1) með því að kenna – bæði í predikun sinni, yfirlýsingum og fræðsluritum – kristilegt siðferði, þ.m.t. um gildi hjónabandsins, ábyrgð og blessun kynlífsins, um skírlífi og bann við framhjáhaldi og öllum óeðlilegum kynlífsháttum; (2) með því að fylgja þessu eftir í skriftunum og annarri sálgæzlu, þar sem tekið er á slíkum málum, en þar er kirkjan vitaskuld að tala til þeirra, sem sjálfviljugir leita til hennar. En það sem ég átti við með orðum mínum: “Kirkjan er ekkert að skipta sér af því,” merkir, að kirkjan er ekki að (3) þvinga neinn borgara landsins í þessum efnum né að gera kröfu til þess, að löggjafarþing okkar beiti slíkri afskiptasemi af hamingjuleit og lífsháttum einstakinganna (svo fremi sem það komi ekki niður á saklausum, fyrst og fremst börnum).

11.03.06 @ 02:43
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Kæri nafni!
Við sem getum sagt með réttu, að við séum fædd fyrir miðbik síðustu aldar höfum orðið okkur út um það sem kallast lífsreynsla. Einn hluti minnar eigin reynslu er að bera skyn á það sem ég kalla „hópskoðun.“ Hún á ekkert skylt við rökræna hugsun og það er einmitt þannig sem við berum skyn á hana.

Ég held að þessarar þróunar mennskrar hugsunar hafi tekið að gæta á „blómabarnatímabilinu.“ Þá voru allir sem voru menn með mönnum (og konur með konum sem í reynd er óþarfi að endurtaka vegna þess að ég lít svo á að konur séu einnig menn) á móti Víetnamstríðinu og jafnvel einnig hrifnir af honum Pot í Kambodíu. Þú sérð að þetta á ekkert skylt við rökræna hugsun!

Ég tel að áhrif „hópskoðunarinnar“ hafi farið sífellt vaxandi, vafalaust sökum síaukinnar fjölmiðlunar, og blessaðir fréttamennirnir eru fjarri því að vera óháðir „hópskoðuninni.“ Þvert á móti ala þeir á henni eftir fremsta megni.

Hópskoðunin er afar hentug ef fólk hefur ekki nennu á því að hugsa sjálfstætt. Það verður sér ekki til skammar á mannamótum eða í saumaklúbbum vegna þess að það hefur „réttu“ skoðunina. Það er sem sagt „gjaldgengt.“ En eins og ég segi, þetta á ekkert skylt við rökrétta hugsun.

Nú segir hópskoðun sú sem rís hvað hæst að samkynhneigð sé af hinu góða og kirkjan sé púkó og í engan takt við tímann. Merkilegt nokk er þetta rétt niðurstaða hjá aðdáendum og fylgismönnum hópskoðunarinnar.

Hópskoðunin eru einungis gárur sem ýfast á vatni tímans sem rísa og falla eftir því hvernig vindurinn blæs hverju sinni. Ég held að hann gamli góði Jesaja hafi sagt eitthvað á þá leið, að hinn trúlausi væri eins og rótlaust þang sem sveiflaðist fram og aftur.

En sá sem er „Vegurinn, sannleikurinn og lífið“ (Jh 14. 6) var og er og verður, þrátt fyrir að hópskoðunarsinnarnir segi að svo sé ekki.

Að vissu leyti má líkja þeim við íslenskt veðurfar sem er síbreytilegt á einum og sama deginum. Það er ef til vill af þessum sökum sem mér finnst hópskoðunarsinnarnir dálítið hjákátlegir vegna þess að ég hef tamist við íslenskt veðurfar nú í meira en hálfa öld. Sólin tekur ávallt að skína að nýju þegar vindurinn blæs skýjabökkunum á brott.

Dæmi um hópskoðun íslenskar fjölmiðla voru Óskarsverðlaunin núna síðast. Þeir voru búnir að mynda sér hópskoðun sem þeir endurtóku dag eftir dag um að myndin af samkynhneigðu kúrekunum tveimur ætti að vinna, enda „einstakt listaverk“ (þó að þeir hefðu ekki séð hana). Þetta var sökum þess að hópskoðunin segir að samkynhneigð „sé inni.“ Þegar raunin varð svo önnur þögðu þeir. Tja, svo er nú það, nafni.

11.03.06 @ 08:06
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Athyglisverð hugleiðing hjá þér, Jón. Maður kemur hvað eftir annað inn í umræður, þar sem flestir eða allir ganga út frá því, að það séu einberir fordómar og fáfræði, sem fái menn til að andmæla lagafrumvarpinu um samkynhneigða og jafnvel hugmyndinni um að taka upp hjónavígslur þeirra. Og oftast er þetta í formi einberrar fordæmingaráráttu gegn þessum andmælendum ofréttindanna, t.a.m. Gunnari í Krossinum, en engin rök reidd fram. Bara talað eins og við séum aftan úr fortíð vanþekkingar, en þeir, þessir hneykslunarfullu menn, hins vegar fulltrúar nútímaviðhorfa og þekkingar, en hvergi bólar þó á sönnun fyrir þeirra máli, t.d. þegar þeir halda því fram (ef þeir þá hafa fyrir því), að engin skaðleg áhrif séu af uppeldi homma og lesbía á börnum.

En varðandi þrýsting hópskoðunarviðhorfanna á þjóðfélagið hefur Guðmundur Pálsson læknir myndað ágætt, viðeigandi orð: skoðanabæling (sjá grein hans: ‘Brot á réttindum barna’, Mbl. 8. febr. 2006).

11.03.06 @ 11:56
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég get vel fallist á sagnorðið „að skoðanabæla“ sem afturbeygða sögn, að einstaklingurinn bæli með sér allar hugsanir sem stangast á við hópskoðunina. Sannleikurinn er sá að skoðun fylgir sama munstri og svo margt annað í neysluþjóðfélaginu.

Fólk fer út í búð og kaupir sér silfurgráan bíl vegna þess að hann er til samræmis við hópskoðunina. Konan fer í saumaklúbbinn til að heyra nýjustu hópskoðunina: „Gvöð stelpur, að heyra í þessum manni sem er að fordæma hommagreyin, finnst ykkur þetta ekki agalegt?“

Þannig verður að bæla allar hugsanir sem brjóta í bága við hópálitið til að tolla í tískunni til að forðast að vera „skrýtinn.“ Það er það versta sem hent getur, líkt og að kaupa tösku sem ekki er merkjavara eða vera með of stóran rass.

11.03.06 @ 21:24
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Takk fyrir skemmtilegan pistil.

12.03.06 @ 00:28
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég sé að þeir nefna þetta rétthugsun á visir.is. Athugasemd Ragnars um „Newspeak“ Orsons Wells er einkar athyglisverð í þessu samhengi. Þannig er nýju lögin hjá sósíalistastjórninni á Spáni gott dæmi um slíkt „newspeak,“ þegar „sæðisgjafi A“ og „Sæðisgjafi B“ kemur í stað „faðir“ og „móðir.“

Þannig eru samkynhneigðir að leitast við að búa til ný þjóðfélagsleg tabú eða viðmiðanir. Allir sem tala um sambúð samkynhneigðra með neikvæðum hætti (sem þeir segja að sé niðrandi ummæli, hvernig sem þau eru svo orðuð) er þáttur í „newspeak.“

Gunnar í Krossinum er þannig útvalinn til að verða öðrum til viðvörunar um að halda sig á mottunni. Vafalaust verður reynt að gera fóstureyðingarstóriðjuna og líknarmorðin einnig að slíkum tabúum rétthugsunarinnar.

Ég fæ ekki skilið hversu „blindur“ Ragnar er gagnvart þessari þróun. Hér er um viðleitni að ræða sem miðast að því að skerða tjáningarfrelsið og þar með lýðræðið, enda hafa róttækir sósíalistar aldrei getað þrifist til lengdar í lýðræðislegri umræðu. Sama gildir um guðlausan kapítalisma. Vitaskuld vill lyfjauðvaldið þagga niður í öllum gagnrýnisröddum, að gera framferði sitt að tabú.

Þegar svínin í Animal Farm höfðu komið sér vel fyrir eftir byltinguna tóku þau að njóta ávaxta sinna, rétt eins og polityburoið í Sovétinu. Og þeir sem kynntu sig sem fulltrúa öreiganna í DDR seldu fólk og verðlögðu frá 50.000 DM til 200,000 DM eftir gildisviðmiðunum sínum: Engin mannhelgi.

En þeir George Orwell og H. G Wells hafa haft ótrúlegt innsæi til að bera að geta séð þessa þróun fyrir. Það eina sem þá skorti var þekking nútímans í erfðarannsókum, Ef þeir hefðu haft þessa þekkingu tiltæka hefði sú mynd sem þeir drógu upp orðið enn dekkri.

12.03.06 @ 10:07
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Newspeak kemur fyrir í skáldsögunni 1984 eftir George Orwell. Það þjónaði þeim tilgangi að beita tungumálinu til að koma í veg fyrir ranga pólitíska hugsun þegnanna.

12.03.06 @ 13:46
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Samkvæmt „newspeak“ á Íslandi í dag á samkynhneigð að vera „dyggð“ sem hafin er upp yfir alla gagnrýni. Orðið dyggð er dregið af dugur og það verður að segjast sem er, að þeir hafa verið duglegir að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, enda ljúfur og nýr söngur fyrir fjölmiðlafárið. En aldrei skal ég viðurkenna slíkt sem dyggð. Samkvæmt „oldspeak“ þýðir dyggð dyggðugt líferni.

12.03.06 @ 14:04
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software