« Hlutverk Guðs og hlutverk mittHeilagur Anton og veiðimaðurinn »

11.03.06

  20:51:46, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 309 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Í meira lagi heimskur!

Eitt sinn kom ungur maður til kennara síns og bað hann að segja sér
einhverja skemmtilega sögu. Kennarinn sagði þá þessa sögu:

Einu sinni fór maður í ferðalag. Hann fyllti malpokann sinn af ágætum mat og ljómandi ávöxtum. Ferðinni var heitið yfir eyðimörk, víða og gróðurlausa, til fjarlægs héraðs. Fyrstu dagana fór hann um brosandi og frjósöm héruð. Þar voru aldintré og nóg af góðum ávöxtum, sem ferðamenn gátu tínt sér til hressingar eftir þörfum. En þessi ferðamaður nennti því ekki, þótti hægara að eta matinn og ávextina úr malpokanum sínum. En nú kom hann í eyðimörkina. Þegar hann hafði farið hana nokkra daga, hafði hann lokið nestinu. Nú komst hann í skelfilega neyð, eins og vænta mátti, því að ekkert var fyrir hendi, nema glóðheitur sandurinn. Að nokkrum dögum liðnum gafst hann upp af hungri og þorsta og þarna lét hann lífið með miklum harmkvælum.

“Þessi maður hefur verið í meira lagi heimskur", sagði ungi maðurinn, “að honum skyldi ekki detta í hug í tæka tíð að hann þyrfti að fara yfir svona breiða eyðimörk."

“Já, heimskur var hann", svaraði kennarinn. En ert þú þá skynsamari? Þú ert á ferðalagi, ævilangri ferð og leiðin liggur til eilífðarinnar. Nú er tími fyrir þig að tína hina gullnu ávexti hinnar sönnu speki -
kristindómsins. Enn er tími til þess fyrir þig að búa þig undir að fara
yfir eyðimörkina, svo að þú náir til hins fagra héraðs, eilífðarinnar. Ef þú gerir það ekki, getur farið eins fyrir þér og grunnhyggna ferðamanninum.

No feedback yet