« Sósíalistar við sama heygarðshornið að vanda: Forsetaframbjóðandi sósíalista í Frakklandi heitir því að lögleiða líknarmorðGuðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú í kirkju nútímans (6) »

21.02.07

  08:32:44, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 306 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Í leyndum hjartans – Hugvekja á öskudag 1983 eftir Jóhannes Pál páfa II

Fastan er tímaskeið sem felst í því að hverfa til sjálfs sín. Þetta er tími innilegra samfélags við Guð í leyndum hjartans og samviskunnar. Það er í þessu persónulega og innilega samfélagi við Guð þar sem höfuðtakmark föstunnar nær fram að ganga: Afturhvarfið.

Í þessum innri leyndardómi, í þessu innilega samfélagi við Guð í fullkomnun sannleika hjartans og samviskunnar hljóma orðin úr sálmi tíðagjörðar dagsins í þeirri djúpstæðustu játningu sem maðurinn hefur nokkru sinni gert frammi fyrir Guði:

„Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi. Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni, því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum. Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum. Því ert þú réttlátur, er þú talar, hreinn, er þú dæmir“ (Sl 50. 1-6).

Þessi orð búa yfir hreinsandi mætti, hafa ummyndandi áhrif. Þau ummynda manninn hið innra. Við skulum endurtaka þau á föstunni. En umfram allt annað skulum við leitast við að endurnýja þann anda sem glæðir þau, þann innblástur sem réttilega hefur glætt þessi orð mætti til afturhvarfs. Fastan er í eðli sínu hvatning til samræðna. Ölmusuverkin sem guðspjall dagsins víkur að er vegurinn til þessa afturhvarfs. Við skulum því leggja rækt við þau eftir fremsta megni. En fyrst af öllu skulum við leitast við að standa andspænis Guð hið innra í öllu okkar lífi, í öllu því sem gæðir það inntaki til að nálgast þetta afturhvarf í djúpinu og setur mark sitt á allt inntak iðrunarsálms helgisiða dagsins.

No feedback yet