« Gloria eftir Vivaldi | „Tónlistin getur orðið að bæn“ » |
Frásögn sjáandans hinnar blessuðu Anna Katharina Emmerick (1774-1824). Þetta er endurbirtur pistill sem birtist áður hér á vefsetrinu 21.12. 2006
„Sólin var næstum hnigin til viðar þegar þau komu að opi hellisins. Asnamerin unga sem hafði hlaupið frá þeim við hús forfeðra Jósefs var komin þangað og hoppaði glaðlega í kringum þau. 'Sjáðu,' sagði hin blessaða meyja við Jósef, 'það er greinilega Guðs vilji að við förum hérna inn'. Jósef var aftur á móti mjög miður sín og á laun skammaðist hann sín fyrir að hafa talað svo oft um hinar góðu móttökur í Betlehem.
Hann kom burðarasnanum fyrir undir skýlinu við innganginn í hellinn og undirbjó stað fyrir meyjuna til að hvílast á meðan hann tendraði eld, opnaði viðartágardyrnar að hellinum og fór inn í hann. Göngin inn í hellinn voru þröng því þau voru full af strábundinum af einhverju eins og tágagresi sem staflað hafði verið upp við vegginn og með brúnum mottum hangandi yfir. Jósef ýtti frá eins miklu og nauðsyn krafði til að útbúa þægilegan hvíldarstað fyrir hina blessuðu meyju í austurenda hellisins. Síðan kom hann logandi lampa fyrir á vegg hins dimma hellis og leiddi meyjuna inn. Hún settist niður á seti úr teppum og bögglum sem hann hafði útbúið. Hann bað hana auðmjúklega afsökunar á því hve skjól þeirra var fátæklegt, en María var fagnandi og sátt innst inni. Á meðan hún hvíldist hraðaði Jósef sér með leðurbelg sem hann hafði haft með sér niður í kvosina fyrir aftan hæðina, en þar var lítill lækur. Hann kom belgnum fyrir undir uppsprettunni svo vatnið varð að renna í hann og fór svo með hann aftur í hellinn. Síðan fór hann til bæjarins og sótti litlar skálar, ávexti og tágabúnt. Sabbatsdagurinn nálgaðist og vegna þess að margir ókunnugir voru í bænum sem þörfnuðust sárlega ýmissa hluta hafði borðum verið komið upp á götuhornunum þar sem hægt var að kaupa nauðsynjar á niðursettu verði. Þeir sem seldu voru karlþjónar eða fólk sem ekki var gyðingar. Ég minnist þessa ekki alls. Jósef kom aftur og hafi með sér glóandi kol í einhvers konar lokaðri málmkörfu með handfangi eins og tein undir. Hann hvolfdi kolunum úr við innganginn að hellinum, norðanmegin og gerði lítinn eld. Hann hafði eldkörfuna og önnur lítil áhöld með sér á ferðalaginu. Tágabúntin voru úr þunnum teinungum snyrtilega bundnum saman með vöndlum af tágagresi. Síðan útbjó Jósef máltíð. Hún samanstóð af eins konar grautarvellingi búnum til úr gulu korni og soðnum þykkum ávöxtum sem opnaðir voru fullir af ávaxtasteinum. Þarna voru líka litlir flatir brauðhleifar. Eftir að þau höfðu matast og beðist fyrir útbjó Jósef svefnstað fyrir hina blessuðu meyju. Fyrst gerði hann dýnu úr tágagresi og yfir hana breiddi hann litla ábreiðu af þeirri gerð sem ég hef séð útbúna í húsi Önnu. Við höfðalagið setti hann upprúllað teppi. Eftir að hafa sótt burðarasnann og bundið hann þar sem hann var ekki fyrir lokaði hann opinu í þakinu til að stöðva dragsúginn og útbjó svo sinn eigin svefnstað í innganginum. Þar sem sabbatsdagurinn var nú byrjaður þá stóð hann ásamt hinni blessuðu meyju undir lampanum og bað sabbatsbænirnar með henni. Á eftir neyttu þau hinnar litlu máltíðar í mikilli lotningu. Eftir það yfirgaf Jósef hellinn og fór til bæjarins en María bjó sig til hvíldar. Í fjarveru Jósefs sá ég í fyrsta skipti hina blessuðu meyju krjúpandi í bæn. Hún kraup við fletið og lagðist síðan á hliðina á ábreiðuna. Höfuð hennar hvíldi á handleggnum, sem lá á koddanum. Jósef kom ekki aftur fyrr en seint. Hann var miður sín og ég held að hann hafi grátið. Hann baðst fyrir og lagðist síðan í hvílu sína í innganginum að hellinum.
[Sunnudagur, 24. nóvember: Catherine Emmerich var mjög veik þennan dag og gat aðeins tjáð hin fáu orð sem hér fara á eftir:]
Hin blessaða meyja varði sabbatsdeginum í fæðingarhellinum í bæn og íhugun í miklum andlegum innileika. Jósef fór út nokkrum sinnum, líklega til sýnagógunnar í Betlehem. Ég sá þau deila með sér matnum sem var útbúinn daginn áður og biðja saman. Síðdegis á sabbatsdeginum þegar það er siður gyðinga að fara í göngu fór Jósef með hina blessuðu meyju í gegnum dalinn fyrir aftan hellinn til grafar Maraha fóstru Abrahams (*). Þau dvöldust stundarkorn í grafarhellinum, sem var stærri en fæðingarhellirinn, þar sem Jósef hafði útbúið aðstöðu fyrir meyjuna að sitja. Afganginum af tímanum vörðu þau undir hinu helga tré þar nálægt í bæn og íhugun þangað til skömmu eftir lok sabbatsdagsins þegar Jósef fór með hana til baka aftur.
María hafði sagt Hl. Jósef að þá um nóttina á miðnætti myndi fæðingarstund barnsins verða, því þá voru mánuðirirnir níu frá Boðuninni liðnir. Hún bað hann að gera allt til að þau sýndu barninu eins mikinn heiður og þau gætu. Barninu sem Guð hafði lofað að kæmi og sem getið hafði verið á yfirnáttúrlegan hátt. Hún bað hann líka að sameinast sér í bæn fyrir harðhjartaða fólkinu sem hafði neitað að skjóta yfir þau skjólshúsi. Jósef stakk upp á því við hina blessuðu meyju að hann boðaði henni til aðstoðar nokkrar guðhræddar konur sem hann þekkti í Betlehem. Hún hafnaði því og sagði að hún þarfnaðist ekki mannlegrar hjálpar. Rétt fyrir lok sabbatsdagsins fór Jósef til Betlehem og um leið og sólin hafði sest hraðaði hann sér að kaupa nokkra nauðsynlega hluti, stól, lítið lágt borð, nokkrar litlar skálar, þurrkaða ávexti og vínber. Með þetta hraðaði hann sér aftur til hellisins og síðan til grafar Maraha, og fór með hina blessuðu meyju aftur til baka til fæðingarhellisins, þar sem hún lagðist niður á hvíldarstað sinn í austasta horninu. Jósef útbjó máltíð og þau mötuðust og báðust fyrir saman. Hann hólfaði síðan alveg af sinn svefnstað frá afganginum af hellinum með því að umkringja hann með staurum og hengdi á þá mottur sem hann hafði fundið í hellinum. Hann fóðraði asnann, sem stóð til vinstri við innganginn gegnt hellisveggnum. Síðan fyllti hann jötuna fyrir ofan vögguna með tágagresi og fíngerðu grasi eða mosa og breiddi klæði yfir hana sem hékk niður fyrir brúnina.
Þegar hin blessaða meyja sagði honum að hennar tími væri að koma og að hann ætti að fara til síns staðar og biðjast fyrir þá hengdi hann upp fleiri lampa í hellinum og fór út þar sem hann hafði heyrt hljóð úti. Hér fann hann unga merarasnann sem þangað til hafði verið laus í dal fjárhirðanna. Hún kom gáskafull til hans og hoppaði í kringum hann. Hann batt hana undir skýlinu fyrir framan hellinn og fóðraði hana.
Þegar Jósef kom aftur inn í hellinn og stóð við innganginn að svefnstað sínum leit hann í áttina til hinnar blessuðu meyju. Hann sá að hún sneri andliti sínu austur í áttina frá honum og baðst fyrir. Honum virtist hún vera umkringd eldslogum, allur hellirinn var sem fylltur af yfirnáttúrulegu ljósi. Hann einblíndi á hana eins og Móses þegar hann sá runnann brennandi, fór síðan inn í afkimann sinn í óttablandinni lotningu og kastaði sér á andlitið í bæn.“
Framhald hér: [Tengill]
(*) Maraha fóstra Abrahams er óþekkt.
---
RGB þýddi. Úr bókinni: The Life of The Blessed Virgin Mary - From the Visions of Anne Catherine Emmerich. Tan Books and publishers, Inc. P.O. Box 424 Rockford, Illinois. 1970. Fyrst gefin út á ensku af Burns and Oates, Limited London, England 1954. Anne Catherine Emmerich (1774-1824) var nunna í Ágústínusarreglunni. Hún var tekin í tölu blessaðra af Jóhannesi Páli II 3. október 2004.
Hin yfirskilvitlega fæðing Krists
Þið hafið vafalaust lesið um vitrun heil. Birgittu um fæðingu þessa guðdómlega Frelsara (Opb 7. 21). Hún greindi frá því að Guðsmóðurin hefði dvalið í djúpri leiðslu og skyndilega hafi hún séð hann liggjandi á gólfinu, nakinn. Þá tók María Jesús jafnskjótt upp og vafði í reifar.
Heil. Frans frá Sales.
MULTIMEDIA :
Vespers doxastikon for the Nativity (Greek Orthodox)
Hinn óflekkaði getnaður hennar (þ.e. að hún sjálf var getin án þess að meðtaka upprunasyndina) hefur falið það í sér, m.a., að hún þurfti ekki að fæða barn sitt með þraut eins og Eva og aðrir afkomendur hennar (I. Mós. 3.16).