« Voces Thules fær þakkir frá páfaTheodokos helgistaðurinn í Perrelos Carcar »

06.07.06

  17:01:48, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 795 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni

Í fjötrum fortíðar

Flestir þekkja lagið ‘Living in the past’ með Jethro Tull. Þar kemur fyrir snilldarleg flautuflétta svo unun er á að hlýða. En heiti lagsins vísar til minnis sem kemur fyrir aftur og aftur í bókmenntum og listum. Þessu minni bregður líka fyrir í samfélagslegum viðhorfum og lífi einstaklinga. Í júní 2006 átti ég þess kost að dveljast í útjaðri Róanóke bæjar í Virginiu í Bandaríkjunum. Eins og kunnugt er var Virginia í flokki með Suðurríkjunum. Uppgjafarsáttmáli stríðsins var undirritaður nokkru fyrir norðan þennan bæ og gröf Robert E. Lee hershöfðingja og hetju Suðurríkjanna er í Lexington skammt þar fyrir sunnan. Nokkrum sinnum bar það við að appelsínugulum pallbíl var ekið snöfurmannlega framhjá húsinu þar sem ég bjó.

Það sem var sérstakt við pallbílinn var að á pallinum hafði verið komið fyrir fánastöng og á stönginni blakti alltaf fáni Suðurríkjanna, rauður flötur með tveim bláum borðum horn í horn með hvítum stjörnum á, alls 13 sem var fjöldi Suðurríkjanna. Mér var sagt að þetta væri strákur úr nágrenningu sem hefði líklega horft á of margar bíómyndir, sérstaklega eina þar sem hetjan var suðurríkjastrákur sem keyrði um á appelsínugulum pallbíl, flaggaði ‘confederate flag’ og seldi ‘tunglskinsvökva’ (moonshine). Hvað svo sem því leið þá var þetta ekki í fyrsta sinn sem ég hef séð þessum fána hampað. Þeir sem það gera eru gjarnan kallaðir ‘rednecks’ eða ‘rauðhálsar’ sem er heiti yfir staðalmynd sem Bandaríkjamenn hafa búið til yfir illa upplýsta og efnahagslega illa stadda hvíta suðurríkjamenn sem sækja sjálfstraust og styrk í afstöðu Suðurríkjanna í þrælastríðinu. Vera má að lífseigju þessara hugmynda megi rekja til þess að að þó þrælastríðinu hafi lokið með hernaðarlegum ósigri Suðurríkjanna þá var uppgjör við hugmyndafræðilegar forsendur átakanna enn í fullum gangi liðlega hundrað árum síðar, og hundrað ár eru ekki langur tími í sögu þjóðar. Fullt uppgjör á líkast til enn nokkuð langt í land í lífi sumra ungra Suðurríkjamanna enn þann dag í dag. Vera má líka að einhverjir fái gremju sinni og tortryggni í garð yfirvalda útrás með þessu móti, að einhverjar aðstæður í nútímanum kalli á þessa upprifjun og endurupplifun fortíðarinnar.

Í bókmenntum bregður þessu minni gjarnan fyrir. Flestir kannast t.d. við persónu ungfrúar Havisham í ‘Glæstar vonir’ eftir Charles Dickens. Hún var svikin af brúðguma sínum á brúðkaupsdaginn fór heim, stöðvaði allar klukkur og klæddist brúðarkjólnum upp frá því. Hugsanlega þekkja lesendur einhverja stöðnun þó í mun veikara mæli sé úr fari einhverra vina eða kunningja, eða jafnvel úr eigin lífi ef vel er að gáð? Hvort það brýst út í ytri merkjum fortíðardýrkunar er svo allt annað mál, sjálfsagt þarf eitthvað mikið að koma til, til að það gerist. En hvað er það sem veldur þessari undarlegu stöðnun í lífi og samfélagsviðhorfum?

Fyrir mörgum árum las ég grein eftir Alfreð heitinn Jolson Reykjavíkurbiskup sem hét ‘Life stopping events’ eða ‘Atvik sem stöðva lífið’. Hún fjallaði um hvernig áföll geta orsakað stöðnun í lífi fólks, stöðnun sem fólk nær ekki að vinna sig út úr nema til komi vilji, einbeiting og fyrirgefning þar sem hún á við. Í fyrirgefningunni felst sakaruppgjöf á þann hátt að neikvæð reynsla fær ekki tækifæri til að öðlast nýtt líf og þannig er klippt á vaxtarmöguleika neikvæðninnar – einstaklingurinn hefur stigið skref fram á við og losnað úr fjötrum fortíðarinnar. Hann getur lært af neikvæðri reynslu og notið jákvæðrar reynslu. Við göngum oft út frá fyrirgefningunni sem sjálfgefinni en hún er það ekki. Fyrirgefning er ekki meðfædd heldur er hún kennd og hún innrætt sem hluti trúfræðslunnar. Þeir sem hafna kristinni trú ættu að gera sér grein fyrir því að fyrirgefningarhugtakið er þungamiðja kristnins siðar og eitt höfuðeinkenna hans. Ætla þeir þá að hafna því líka ásamt öllu hinu eða ætla þeir að kjósa hana og hafna hinu? Hvað svo sem þessum pælingum líður þá hvet ég alla til að setja Jethro Tull á fóninn, stilla á ‘Living in the Past’ og leyfa fortíðarrokki Ian Anderson að hljóma.

No feedback yet