« Ritningarlesturinn 24. september 2006Ritningarlesturinn 23. september 2006 »

23.09.06

  09:25:18, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1122 orð  
Flokkur: Bænalífið

Í Bænaháskóla Guðsmóðurinnar

Í hugleiðingunni við Ritningarlestur dagsins (23. september) kemst Gregor mikli páfi svo að orði: „Verið árvökul svo að Orðið sem þið hafið meðtekið taki að hljóma í djúpi hjartans og festa þar rætur.“ Hversu sönn eru þau ekki þessi orð, svo sönn að einn af risum guðfræðinnar á tuttugustu öldinni, Karl Rahner (1904-1984) komst svo að orði: „Kristnir menn framtíðarinnar verða annað hvort djúphyggjumenn eða hverfa af sjónarsviðinu fyrir fullt og allt.“ [1] Hann skírskotaði til þessa sama djúps hjartans og Gregor páfi mikli, þess djúps sem Davíð komst svo að orði um í 42. Davíðssálminum: Eitt djúpið hrópar á annað“ (8. vers, Vúlgata). Djúp Guðs hrópar á djúp mannshjartans. Þessi afstaða er fágæt innan hinnar rökkryfjandi guðfræði (analythical) í dag.

Leiðin til þessa djúps liggur eftir vegi auðmýktarinnar og við lærum um þennan veg í Bænaháskóla Guðsmóðurinnar. Þar er hún skólastjóri, heil. Jósef er formaður fræðsluráðsins sem hinir heilögu í hinni sigrandi kirkju himnanna skipa sem lýtur stjórn menntamálaráðherrans sjálfs, sem er Drottinn Jesú Kristur. Þessi skóli er ólíkur öllum öðrum skólum vegna þess að hann starfar í djúpi mannshjartans og er ósýnilegur augum holdsins.

Fyrsta önnin í þessum skóla felst í auðmýkt, hlýðni og fátækt andans. Enginn heldur áfram án þess að ljúka þessari önn: Hún er grundvöllur alls frekara náms á þessum stað. Þetta veit ég vel sjálfur. Fyrrum var ég kortagerðarmaður og gat staðið uppi á fjöllum með theodolítinn og mælt horn á milli fjallstoppa og hæðir þeirra. Satt best að segja var ég dálítið drjúgur með sjálfan mig út af þessari þekkingu. Svo var það eitt sinn að ég var að leiðrétta kort sem danska herforingjaráðið hafði mælt á sínum tíma.

Ég kom á bæ einn og hitti bóndann út á hlaði og sagði við hann að ég væri að endurskoða danska herforingjaráðskortið af svæðinu og þarfnaðist upplýsinga hjá honum um nokkur örnefni í landi hans. Bóndinn leit kankvíslega á mig og sagði: „Og þú hefur líklega komist að þeirri niðurstöðu að ég sé herforingi.“

Þessi orð hans hafa líklega markað upphaf dauðastríðs stærilætis míns sem er uppspretta allra annarra lasta. Alltént tók ég að velta þessu öllu frekar fyrir mér á komandi vetri og það beindi mér óafvitandi inn í hina himnesku landafræði Andans. Eftir að ég fékk áhuga á hinni himnesku landafræði vék sú jarðneska smám saman til hliðar þar til hún hvarf mér að fullu sjónum, eða með orðum heil. Gregors hins mikla: „En hin góða jörð ber ávexti sökum stöðuglyndis síns.“

Í reynd er um fjölmargar hliðstæður að ræða í hinni jarðnesku og himnesku landafræði. Í jarðneskri landafræði er lega lands á jarðarkringlunni staðsett með svo kölluðum „Laplace punktum,“ það er að segja grunnpunktum landsnetsins. Þetta er gert með hliðsjón af stjörnunum á himinhvolfinu. Sama gegnir um hina himnesku landafræði: Við horfum til Guðs og eins og ég hef þegar sagt, þá eru grunnpunktar hins himneska landakorts auðmýktin, hlýðnin og hin andlega fátækt.

Í jarðneskri landafræði eru annarrar gráðu punktarnir síðan staðsettir með hliðsjón af grunnpunktunum. Í þeirri himnesku getum við sagt að þessir annarrar gráðu punktar séu höfuðdyggðirnar sjö: „Hyggindi, réttlæti, hugprýði og hófstillingu og guðdómlegu dygðirnar þrjár: trú, von og kærleikur. Það eru þessir mælipunktar sem leysa viðmiðunarpunkta manns syndar og dauða af hólmi, það er að segja höfuðlestina sjö, en til þeirra má rekja allar aðra lesti og syndir: Stærilæti, öfund, reiði, leti, græðgi, ofát og losti. Í reynd var það einmitt heil. Gregor páfi hinn mikli sem lagði ríka áherslu á þessa staðreynd í skrifum sínum og kenningum sem páfi.

Þegar búið er að staðsetja þessa annarrar gráðu punkta samkvæmt jarðneskum landmælingum er unnt að staðsetja þriðju og fjórðu gráðu punktana sem síðan eru notaðir til að draga upp sem nákvæmasta mynd af staðfræði landsins: hæðarlínur, ár og vötn, vegi, mannvirki og allt útlit landsins. Í hinni himnesku kortagerð getum við sagt að þetta séu allar þær dyggðir sem glæðast sökum höfuðdyggðanna sjö. Þá fyrst getum við tekið að draga upp nákvæma mynd af okkar himneska föðurlandi.

Það er þetta sem er námsefnið sem ég hef sjálfur numið í Bænaháskóla Guðsmóðurinnar. En að sjálfsögðu er þetta eins og hver önnur heimska í eyrum hins holdlega manns. Það er sökum þess að speki Guðs er honum sem hver önnur heimska.

Og hversu fagurt er ekki það landslag sem blasir við sjónum. Þegar við göngum upp á einn fjallstindinn blasa ótal aðrir fjallstindar við sjónum, rétt eins og gegndi um Móse þegar hann horfði til lands fyrirheitanna. Nýtt útsýni blasir stöðugt við sjónum. Heil, Gregoríos frá Nyssa nefndi þetta útsýni skopia og þannig getum við haldið áfram að eilífu og seilst áfram til Guðs, en það nefndi hann epecktase: Hina eilífu seilingu til Guðs.

En þið megið ekki misskilja orð mín. Það sama gildir um Kristsauðmýktina og hina eilífu seilingu til Guðs: Hún er takmarkalaus og ef okkur auðnast að læra örlítið brot af henni verður okkur fyrst ljóst, hversu mjög okkur er ábótavant í þessum efnum. En þegar sæðið tekur að bera ávöxt uppfræðir yfirkennari Guðsmóðurinnar – náðin – okkur um hana í síríkara mæli. Þetta er það sem hin blessaða Mey kennir okkur vegna þess að hún var full náðar. Þeir sem eru iðnir námsmenn verða þannig að kirkjufræðurum. Heil. Gregor hinn mikli páfi tilheyrir þessum fámenna hópi kirkjusögunnar.

[1]. Concern for the Church, bls. 149.

No feedback yet