« Allt um Ágústus keisara - eða Júlíus Sesar OktavíanusUpplýst val og ættleiðing »

18.12.09

  20:27:04, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1152 orð  
Flokkur: Sr. Þórhallur Heimisson

Í borg hinna dauðu

Eftirfarandi pistill eftir séra Þórhall Heimisson birtist á bloggi hans 14.12. sl. og er hann endurbirtur hér með leyfi höfundarins.

Nú eru slétt þrjú ár síðan ég heimsótti borg hinna dauðu undir Vatikaninu í Rómaborg ásamt hópi af íslenskum ferðalöngum.

Frá því skömmu fyrir síðari heimsstyrjöldina hafa staðið yfir fornleifarannsóknir á grunninum undir Péturskirkjunni sem er höfuðkirkja Vatikansins og einn mesti pílagrímastaður rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Sú Péturskirkja sem nú stendur var vígð árið 1626. Hún er reist á grunni eldri kirkju frá tímum Konstantínusar keisara á 4. öld, en kirkja Konstantínusar var aftur byggð á fornum grafreit og helgistað.

Kirkjunni var valinn staður þarna vegna þess að heimildir sögðu að þar væri að finna gröf Péturs postula, lærisveinsins sem Jesú fól að vera leiðtogi hinnar ungu kirkju. Fornleifafræðingar hafa í áratugi unnið að því að grafa sig í gegnum hin mörgu lög undir núverandi Péturskirkju. Í ljós hefur komið einstök borg sem kölluð er borg hinna dauðu eða Necropolis, undir gólfi miðaldakirkjunnar. Í borg hinna dauðu er að finna stórkostlega skreytt grafhýsi og götur sem hægt er að ganga um eftir að hreinsað hefur verið frá mold og jarðvegur aldanna. Og þarna, á 12 metra dýpi undir miðaldakirkjunni, fundu fornleifafræðingarnir gröf sem talin er geyma jarðneskar leifar Péturs postula. Þær eru enn geymdar þar en kapella hefur verið byggð ofaná hina fornu gröf á gólfi miðaldakirkjunnar.

Allt hefur þetta magnaða völundarhús undirheima kirkjunnar verið endurreist og innsiglað. Það er ekki opið almenningi heldur þarf að sækja um sérstak leyfi hjá Vatikaninu til að heimsækja það. Milljónir sækja víst um leyfi á hverju ári en aðeins 100 manns á dag í 10 manna hópum fá að fara niður í undirdjúp Vatikansins í fylgd leiðsögumanns. Slíkur leiðangur er heldur ekki fyrir hvern sem er því þrengslin eru mikil og loftið þungt og engin leið að snúa við sé ferðin á annað borð hafin.

Ég hafði sótt um slíkt leyfi fyrir hönd hópsins með stuðningi kaþólsku kirkjunnar hér á landi löngu áður en lagt var af stað til Rómar. Ég hafði ekki mikla von um að fá leyfið þegar umsóknin fór í póst. Þess glaðari, þakklátari og spenntari varð ég þegar jákvætt svar kom frá Vatikaninu. Aðeins örfáir Íslendingar hafa komið að gröf Péturs 12 metrum undir gólfi núverandi Péturskirkju. Við Rómarfararnir ætluðum að slást í þeirra hóp og í hóp pílagríma frá öllum heiminum.

Við vorum því stödd snemma að morgni dags við Péturstorgið til að koma nú örugglega ekki of seint. Þó voru ekki allir sem lögðu í ferðina niður í undirdjúpin, enda hafði leyfisbréfinu fylgt viðvörun til þeirra sem meðal annars þola þrengsli illa.Við hin vorum þó hvergi bangin og mættum á tilsettum tíma hjá svissnesku vörðunum við hlið vatikanshallargarðsins. Þaðan vorum við leidd að skrifstofu fornleifarannsóknarinnar þar sem leiðsögumaður tók við okkur og fór með okkur inn í kjallara Péturskirkjunnar. Hófst nú hin mesta ævintýraför. Í einfaldri röð gengum við niður stiga inn í göng sem liggja að fyrstu hæðinni undir kjallara kirkjunnar. Þaðan var síðan gengið æ dýpra niður í undirdjúpin undir Péturskirkjunni, úr einu hólfi í annað sem afmarkað var með skotheldum glerhurðum. Í hvert sinn sem gengið var á milli hólfa runnu glerhurðirnar til hliðar og höfðum við eina mínútu til að skjótast í gegnum þær áður en þær lokuðust á ný. Þarna tók við ótrúlegur heimur. Fornleifafræðingar hafa opinberað heila borg grafhýsa frá fyrstu annarri og þriðju öld eftir Krist undir Péturskirkju. Þarna í undirdjúpunum gengum við um götur þessarar borgar og sáum hvernig fólk á fyrri tíð hafði útbúið grafir forfeðra sinna. Þar var meðal annars að finna tröppur sem lágu upp á þökk yfir grafhýsunum. Þangað fór fólk gjarnan á frídögum með mat og vín, naut hvíldar og drykkjar og helti síðan víni niður í grafirnar svo hinir látnu gætu nú tekið þátt í samfélagi fjölskyldurnar. Mikil listaverk, lágmyndir og styttur prýða marga grafreitina sem fyrir augu ber þarna, sumir eru þó einfaldari og á enn öðrum eru aðeins legsteinar með minningarorðum um látna ástvini. Og listaverkin eru bæði frá kristnum tíma og tímanum fyrir kristni. Þar má sjá egypsku guðina Hórus, Ísis og Ósíris í bland við gríska og rómverska guði og kristna dýrlinga. Einn legsteinn fannst mér öðrum hjartnæmari og sýnir hann hversu lítið við höfum nú breyst í gegnum aldirnar mennirnir og hversu vænt okkur þykir um ástvini okkar, hvort sem er í dag eða Róm fyrir 2000 árum. Á steininn, sem var frá annarri öld eftir Krist og einfaldur af allri gerð var ritað á latínu “Hér hvílir Flavíus, hann lifði í 36 ár, þrjá mánuði og fjóra daga. Hann var hinn besti bróðir, alltaf spaugsamur og með bros á vör og hann reifst aldrei við nokkurn mann”. Þarna í undirdjúpunum gat einnig að líta stórkostlega mósaíklistaverk af Jesú frá þriðju öld eða um það leiti sem kristin trú var að sigra Rómaveldi. Hann var gulli prýddur eins og sólguðinn sjálfur í himinhæðum og greinilegt að listamaðurinn hefur nýtt sér skreyti hefðina frá því þegar Rómverjar tilbáðu Sol Invictus eða hina ósigrandi sól. Þá hefð tileinkaði kirkjan sér líka því upphaflega var 25. desember dagur sólarinnar, dies solaris, í Rómaveldi, en varð síðar gerður að mestu hátíð Kristninnar, jólum, eða Kristsmessu, hátíðinni þegar ljósið, sol invictus, kom í heiminn í barninu í Betlehem. En það er nú önnur saga.

Áfram lá leiðin í gegnum borg hinna dauðu þar til við komum loks að hvelfingu við undirstöður grafhýsanna fyrir ofan okkur. Þá staðnæmdist leiðsögumaðurinn og benti okkur á lítið op í marmaranum þar sem greina mátti horn af fornum kistli. Sagði hún okkur að þessi kistill væri skrín það sem talið væri að Pétur postuli hefði verið jarðsettur í. Fannst það beint undir hinni fornu Péturskapellu, en kapelluna höfðu menn reist yfir legstæði Péturs. Síðar byggði Konstantín keisari Basilikkuna sína yfir kapellunni eins og fyrr segir og loks reis núverandi Péturskirkja á staðnum. Og þegar Michelangelo reiknaði út staðsetningu hvolfþaksins mikla gerði hann það samkvæmt öllum þessum heimildum beint yfir hinni fornu Péturskapellu að því er hann taldi rétt vera. Svo fór, að þegar kista Péturs fannst þá var hún í beinni línu undir hápunkti hvolfþaksins á 12 metra dýpi.

Okkur setti hljóðan á þessum forna og helga stað og erfitt er að lýsa þeim hugsunum sem að ferðalangi frá Íslandi sóttu. Eftir stutta stund opnuðust dyr hvelfingarinnar á ný og við héldum frá Pétri postula, upp gegnum jarðlög og forn kirkjugólf þar til er við aftur vorum komin í hvelfingarnar sem eru kjallarar núverandi Péturskirkju. Þar eru miklar kapellur gulli og dýrum gripum prýddar og listaverkum aldanna. Svo opnaði leiðsögumaðurinn dyr og við gengum út úr þessum mikla og helga heimi og inn í nútímann. Vorum við þá stödd beint framan við legstað Jóhannesar Páls páfa og fyrir framan alla hina miklu röð trúaðra sem biðu eftir að komast til að veita honum hinstu lotningu. Eftir stutta stund kvaddi leiðsögumaðurinn okkur og við vorum á ný komin í hallargarði Vatikansins.


Hin mikla ferð í undirdjúp Vatikansins að gröf Péturs postula var á enda.

No feedback yet