« Vefrit Karmels í nýjum búningiAthugasemdir við skrif Kristins Hauks Guðnasonar sagnfræðings. »

27.04.07

  09:26:56, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 587 orð  
Flokkur: Kraftaverk tengd Guðsmóðurinni

Hvítklædda konan í Tien-Tsin í Kína árið 1901

Áður hef ég vikið að franska prestinum föður Yves Hamon hér á Kirkjunetinu. Eins og þar kom fram starfaði hann á Fáskrúðsfirði frá 1901-1906 á vegum franska Sjómannatrúboðsins. Vart var hann kominn heim frá miðunum við Nýfundnaland þegar yfirboðarar hans báðu hann um að fara til Kína. Þar geisaði Boxarauppreisnin aldrei sem fyrr og Frakkar ákváðu að senda spítalaskipið Notre-Dame de Salud á vettvang. Hlutverk skipsins átti að felast í því að flytja særða franska hermenn frá Kína til Japan.

Skipið var hlaðið vistum ætluðum Frökkum sem innilokaðir voru í Kína. Það lagði upp frá Marseille þann 10, ágúst 1901 og auk hjúkrunarfólks og presta flutti það 54 yfirmenn hersins og 454 undirmenn og óbreytta hermenn auk 218 hesta. Farið var sem leið lá um Rauðahafið og stefnt til Aden. Faðir Hamon minnist þess í minningum sínum hversu mjög ferðin um Rauðahafið tók á menn þar sem hitinn fór iðulega upp í 45 stig og menn urðu að hafast við ofanþilja og fjölmargir hestar létu lífið vegna óbærilegs hitans.

Eftir stutta dvöl í Aden var stefnt til Colombo á Sri Lanka og þaðan til Singapore. Noter-Dame de Salud kom svo til Takou í Kína þann 29. september. Í Tien-Tsin hafði þunnskipaður hópur Frakka – alls 30 manns – varist áhlaupum Boxarana og kínverska stjórnarhersins mánuðum saman. Í reynd var hér um kraftaverk að ræða vegna þess að Frakkarnir stóðu því sem næst skotfæralausir uppi gegn vel vopnuðum kínverskum hermönnum sem höfðu nægar vopnabirgðir og skotfæri til umráða.

Síðar að átökunum loknum voru kínversku liðsforingjarnir og hershöfðinginn inntir eftir því, hvað hefði eiginlega komið í veg fyrir að virkið félli ekki, jafn vonlaus og staða þess var gagnvart ofureflinu. Svarið var stutt. Það var vegna hvítklæddu konunnar! Í hvert sinn sem við hófum áhlaup birtist hún yfir virkismúrnum og hermennirnir urðu svo skelfingu losnir að þeir hörfuðu undan þvert á allar skipanir herstjórnarinnar.

Þannig er hún, hin blessaða og ævarandi Mey: María Guðsmóðir. Hún sveipar börn sín í verndarhjúpi sínum eins og hún sagði við Astekann Syngjandi örn (Juan Diego) á Tepeyachæðinni í Mexíkó í desember 1531. Svona trúföst er hún: Panhagían. Nú þegar veraldarhyggjan sækir svo hart að kirkjunni og heldur henni í umsátri skulum við hafa þetta í huga og biðja daglega:

Heil sért þú María, full náðar,
Drottinn er með þér.
Blessuð ert þú á meðal kvenna,
og blessaður er ávöxtur lífs þíns Jesús.
Heilaga María Guðsmóðir,
bið þú fyrir oss syndugum mönnum,
og úthell loga elsku þíns Flekklausa Hjarta
yfir íslensku þjóðina og alla heimsbyggðina,
nú og á dauðastundu vorri. Amen.

Vissulega mun hún vaka yfir kirkju Sonar síns eins og hún vakti yfir börnum sínum í Tien-Tsin í Kína árið 1901. Minnumst þess að heiftaræði illsku Satans sem æðir um heimsbyggðina verður einungis sigrað með krafti elsku kærleikans. Þar gengur hin blessaða Mey í fararbroddi sem Fyrsta lifandi örk hins Nýja sáttmála, rétt eins og sáttmálsörkin fór fyrir börnum Ísraels í eyðimörkinni forðum.

No feedback yet