« Af hverju biðja kaþólskir til skurðgoða (styttur, myndir t.d.)? eða dýrlinga?Af hverju tilbiðja kaþólskir Maríu Mey? »

18.07.12

  12:24:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 697 orð  
Flokkur: Philumena, Spurt og spjallað um kaþólska trú

Hvers vegna játa kaþólskir syndir sínar fyrir presti?

Spurt og spjallað um kaþólska trú frá biblíulegu sjónarmiði. - Hvað segir Biblían?

“Sæll er sá sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar… Tilbið þú Guð” (Opb 22:7, 9)

5. Hvers vegna játa kaþólskir syndir sínar fyrir presti?

Jesús Kristur veitti postulum sínum þann kraft og það vald ekki aðeins til að afmá syndir (að fyrirgefa fyrir tilstilli Guðs syndir drýgðar eftir skírn), heldur einnig til að „binda“ þ.e.a.s. að synja fyrirgefningu nema að tilskilinni yfirbót.

Í skriftasakramentinu afmáir Guð syndir okkar og gefur sál okkar aftur hið yfirnáttúrulega líf, hafi hún glatað því fyrir misgjörð. Annars vegar gegnir yfirbótin að loknum skriftum þeim tilgangi að efla iðrun hjá viðkomandi fyrir að hafa sært hinn himneska Föður og hins vegar er hún hvöt til að efla góðan ásetning til að syndga ekki framar og bæta líferni sitt með hjálp bæna og íhugunar.

Skriftasakramentið hneigir huga mannsins til guðrækni og var stofnað af Jesúm Kristi sjálfum, er Hann andaði á postula sína og bað þá að meðtaka Heilagan Anda um leið og Hann mælti: „Sannlega segi ég yður: Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni.“ (Mt 18:18, sjá einnig Mt 16:19). „Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað.“ (Jh 20:23).

Þetta vald postulanna var ekki bara ætlað sem náðargjöf til samtímamanna postulanna, heldur allt til enda veraldar og hefur því, allt frá tímum postulanna, gengið í erfðir til biskupa og presta í kaþólsku kirkjunni --þeirri kirkju sem Kristur stofnaði á klettinum Pétri. (Mt 16:18-19). Presturinn þjónar því sem umboðsmaður Guðs, eins og aflausn (?) synda ber vott um. Skriftir veita hinum iðrandi syndara nýjan kjark til að takast á við kristilegt líferni, auka sjálfstraust og skapa nýtt upphaf að betra lífi. Skriftirnar kenna mönnum auðmýkt, veita náð til að forðast syndugt líferni, og örugga vissu um fyrirgefningu synda, --fullvissu sem á sér stoð í meiru en að hafa einhverskonar tilfinningu fyrir sjálfgefinni fyrirgefningu. (Sjá einnig tilvísanir til skrifta í Mt. 3:5-6; P 19:18; 1 Jh 1:9)

Frá því á dögum Krists og postulanna hefur það verið almennur siður í kaþólskri kirkju að skrifta. Til marks um það má geta þess að þegar Páll postuli var í Efesus, komu margir trúaðir til hans og játuðu syndir sínar. (P 19:13) Einnig má finna margar tilvitnanir til skrifta í verkum kirkjufeðranna, sem uppi voru á 1-5 öld og sem m.a. gegndu því hlutverki að skrá túlkanir postulanna á orðum Krists. Má þar til nefna Basilíus helga (dáinn árið 379) sem skrifaði: „Vér verðum að játa syndir vorar fyrir þeim, er hafa fengið það starf, að fara með hina guðdómlegu leyndardóma“ (þ.e.a.s. prestunum). Og hl. Ágústínus áminnir einnig að „Enginn segi: Ég iðrast í leyni, og Guð, sem þekkir mig, veit hvað gerðist í hjarta mínu. Eða skyldi það vera sagt út í bláinn: ’Hvað þér leysið á jörðu, skal leyst vera á himni’“ ?

Ávallt ber hinum iðrandi syndara að hafa í huga einlægan ásetning að syndga ekki framar og að skriftir eru ógildar hafi viðkomandi skriftað án sannrar iðrunar og alvarlegs ásetnings um að fremja ekki synd sína eða yfirsjón aftur og minnast þannig orða Jesú í helgidómnum er hann hitti aftur manninn við Sauðahliðið í Jerúsalem, sem Jesús hafði læknað: „Sjá, nú ert þú orðinn heill, syndga þú ekki framar, til þess að þér vilji ekki annað verra til.“ (Jh 5:14). Einnig skal varast að meðtaka hið allrahelgasta sakramenti, líkama og blóð, sál og guðdómleika Jesú Krists, sé viðkomandi óverðugur, hafi framið eða hafi í hyggju að fremja dauðasynd líkt og þegar hinn óverðugi Júdas, hleypti sjálfum Satan inn í sálu sína með fyrirhuguðu meinsæri sínu. „Og eftir þann bita fór Satan inn í hann.“ (Jh 13:27)

Þess ber að lokum að geta að skriftir í kaþólskri kirkju eru sakramenti og Guð því hluti af athöfninni, sem þýðir að þótt syndir séu játaðar fyrir presti, þá veitir presturinn aðeins lausnarorðin, meðan Guð horfir inn í hjartað og fullkomnar fyrirgefningu syndanna. Sakramentin í kaþólskri kirkju eru sjö og á Guð hlutdeild í þeim öllum og því er prestum fyrirmunað að taka á móti þóknun fyrir slíkar athafnir. Vilji menn styrkja kirkju sína hins vegar í þakkarskyni fyrir alla þá þjónustu sem hún veitir eru frjáls framlög þakkarverð.

Philumena

No feedback yet