« Er trú kaþólskra biblíuleg?Hvað er þessi erfikenning, sem kaþólskir vitna í til viðbótar Heilagri ritningu? »

27.07.12

  06:28:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 573 orð  
Flokkur: Philumena, Spurt og spjallað um kaþólska trú

Hvers vegna hlýða kaþólskir kennivaldi Páfa?

Spurt og spjallað um kaþólska trú frá biblíulegu sjónarmiði. - Hvað segir Biblían?

“Sæll er sá sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar… Tilbið þú Guð” (Opb 22:7, 9)

9. Hvers vegna hlýða kaþólskir kennivaldi Páfa?

Kaþólskir trúa á „eina heilaga kaþólska kirkju,” sem lýtur kennivaldi Páfa eins og boðað er í Biblíunni og segir fyrir um í hinni postullegu Trúarjátningu, sem postularnir sömdu og skráð er í Didache (Kenningar postulanna tólf, veitir innsæi og þekkingu á hefðum frumkirkjunnar þar á meðal hinu allra helgasta altarissakramenti. Ritað 65-80 e.Kr. og í hávegum haft af Kirkjufeðrunum). Kaþólska kirkjan rekur uppruna sinn, kennivald og sögu til þeirrar kirkju sem Jesús Kristur stofnaði og áskildi forystu Péturs, sem fyrirliða postulanna: „Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum.” ( Mt 16:18-20).

Arftakar Péturs eru titlaðir Páfar og eiga sér óslitna skráða sögu frá Pétri postula og fram á þennan dag. Pétur tilnefndi sjálfur sinn eftirmann Linus, sem við dauða Péturs ríkti frá árinu 67-76. Allir páfar fram á 4. öld dóu píslarvættisdauða. Höfuð kaþólsku kirkjunnar er Jesús Kristur sjálfur, en jarðneskur staðgengill Hans er fyrirliði postulanna, Páfinn, sem staðgenglar postulanna, biskuparnir, og prestar þeirra lúta ásamt söfnuði sínum, og sem heild myndar þannig líkama Krists, kaþólska kirkju. Kaþólsk kirkja, eins og kirkja Krists frá upphafi var nefnd, þýðir almenn eða alþjóðleg kirkja, þar sem henni er ætlað það hlutverk að breiða út trúna um allan heim: „Farið og kennið öllum þjóðum” voru fyrirmæli Krists til postulanna.

Kennivald Páfans afmarkast og grundvallast á kenningum Krists, bæði munnlegum, eins og títt var í frumkirkjunni og varðveist hafa í skrifum kirkjufeðranna, en einnig skráðum heimildum Biblíunnar. Biblían er, eins og titillinn gefur til kynna, samsafn bóka, hún er heildarútgáfa helgra rita, sem kaþólska kirkjan taldi óvéfengjanlega innblásna af Heilögum Anda á kirkjuþinginu í Karþagóborg árið 397 undir forsæti Páfa. Sem jarðneskur staðgengill Jesú Krists, líkt og Pétur fyrsti Páfinn, hefur Páfinn m.a. vald til þess að skilgreina og lögfesta innan kirkjunnar trúaratriði, sem m.a. voru almennt viðtekin í frumkirkjunni. Sem dæmi má nefna: að María er Móðir Guðs, full náðar og því syndlaus, en þetta trúaratriði var skilgreint á kirkjuþinginu í Efesus árið 431. Í ljósi þess að Páfinn er hirðir allrar kirkjunnar, var hið óskeikula kennsluvald Hans, sem varðar ákvarðanir sem snerta trú og siðgæði, lögfest á fyrsta Vatikanþinginu árið 1870. Öllum kaþólskum er hins vegar ljóst að sem maður er Páfinn ekki alltaf óskeikull, heldur aðeins í því tilfelli þegar hann í nafni allrar kirkjunnar mælir ex cathedra, úr stóli Péturs, undir handleiðslu Heilags Anda, hvað kaþólskum ber að trúa.

Aðeins einu sinni hefur slíku ex cathedra valdi verið beitt og þá í samráði við biskupa, en það var kenningin um uppnumningu Maríu árið 1950. Kaþólskir hlýða kennivaldi Páfa þar sem kennsluvald hans felur í sér að Páfi, í krafti síns embættis, lýtur vilja Drottins og vísar því rétta leið þrátt fyrir ófullkomleika mannsins. Til staðfestingar á að tilskipun Páfa, hvað varðar trú og siðgæði, sé vernduð af Heilögum Anda, má benda á að aldrei í sögu kirkjunnar hefur Páfi kennt í andstöðu við þá viðteknu trú og það siðgæði, sem Kristur sjálfur boðaði, þótt þeir sjálfir í sumum tilvikum hafi verið breyskir menn og sumir hverjir villst af vegi í persónulegum aðgerðum. (gerðum eða verkum ?)

Philumena

No feedback yet