« Koma Krists færði þeim frið og góðvildHvers vegna varð Guð maður eins og við? »

30.03.06

  19:29:16, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 230 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Hvers vegna skildu svo fáir Jesú?

Til er saga um mann sem kom í heimsókn til klausturs nokkurs.

Gesturinn spurði einn munkanna þessarar spurningar: "Hvers vegna skildu svo fáir Jesú? Farísearnir og fræðimennirnir voru stöðugt á móti honum. Lærisveinar hans virtust oft ruglaðir á kenningu hans. Og enn aðrir álítu hann haldinn illum anda. Jafnvel nokkrir í hans eigin fjölskyldu höfðu áhyggjur af andlegri heilsu hans."

Hinn aldni og hyggni munkur hugsaði sig um eitt augnablik, en svaraði síðan:

"Eitt sinn voru brúðhjón sem réðu bestu tónlistarmenn landsins til að leika í brúðkaupsveislunni sem haldin var á lóð hótels nokkurs. Tónlistarmennirnir léku og allir dönsuðu.

Einmitt þá óku tveir menn framhjá. Gluggar bílsins voru lokaðir og útvarpið var hátt stillt. Mennirnir gátu ekki heyrt tónlistina sem barst frá lóð hótelsins. Allt og sumt sem þeir sáu, var fólk sem hoppaði um og hegðaði sér einkennilega.

"Hvílíkt samsafn fáráðlinga" sagði annar maðurinn við hinn þegar þeir óku framhjá. "Þau hljóta að vera brjáluð öll saman."

Munkurinn stoppaði augnablik en sagði svo: "Þetta er sú niðurstaða sem sumt fólk kemst að þegar það heyrir ekki tónlistina, sem annað fólk dansar við."

11 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ungur maður kom eitt sinn í heimsókn til heilags Nikulásar frá Flüe (1417–1487) og vildi fá að vita, hvernig hann bæðist fyrir. Nikulás svaraði: „Guð getur komið því til leiðar að það verði jafn unaðsríkt að biðja eins og að dansa. Hann getur einnig hagað því svo til, að bænin verði eins og vígvöllur.“
Ungi maðurinn varð afar undrandi þegar svo heilagur maður gat tekið sér í munn annað eins orð og dans, þannig að Nikulás endurtók:
„Jú, jú, eins unaðsríkt og að dansa.“

30.03.06 @ 21:20
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Val Jesú á lærisveinum hefur sjálfsagt oft verið mönnum nokkurt umhugsunarefni. Sem sína nánustu samstarfsmenn velur hann fiskimenn og tollheimtumann. Oft kemur fyrir að þeir skilja ekki baun í því hvað hann segir og stundum eru samræðurnar og vangavelturnar allt að því skoplegar eins og þegar Jesú hafði spáð fyrir um upprisu sína og þeir fóru að velta vöngum yfir því hvað það væri að rísa upp frá dauðum, - lái þeim það þó enginn.

Sumarið 2004 átti ég þess kost að dvelja á norðurströnd Cebueyjar á Filippseyjum. Í nokkurra sjómílna fjarlægð í norðvestri reis næsta eyja úr sæ með um 3000 metra háu eldfjalli. Ég bjó í húsi í fjöruborðinu og við hliðina á húsinu var bátalægi dagróðramanna á staðnum og hús þeirra voru næstu hús. Þetta voru litlir opnir og mjóir bátar með veltifloti öðru megin eða báðum. Þeim var var róið með handafli út fyrir skerin. Einn og einn bátur virtist vera með einhvers konar skellinöðrumótor. Þeir lögðu línu og voru líka með litlar nætur fyrir utan skerjagarðinn, svo sem í um 500 metra fjarlægð frá húsinu og voru þá yfirleitt á tveim bátum og dró annar nótina. Yfirleitt voru þetta tveir til þrír menn á bát. Afli þeirra var smáir fiskar. Á kvöldin þegar fjaraði löbbuðu fiskimennirnir ásamt fjölskyldum sínum um fjöruna fyrir framan húsið og tíndu beitu, marflær og lítil krabbadýr. Þeir voru oft nokkuð fram á nótt að stikla um fjörugrjótið í kolsvarta myrkri til að tína beitu við skin frá ljóstýrum sem þeir höfðu meðferðis.

Þetta var vingjarnlegt og þægilegt fólk, það hafði til hnífs og skeiðar, gat fætt sig og klætt og búið í þokkalegu húsi á þarlendum mælikvarða við sjóinn en það þurfti ekki að virða það fyrir sér lengi til að sjá að þetta voru ekki fyrstu vinningshafarnir í kapphlaupi lífsins, séð á þarlendan veraldlegan mælikvarða. Hafi einhverjir slíkir átt uppruna sinn þarna í fiskimannabygðinni þá voru þeir líkast til farnir til borgarinnar og hættir að dorga.

Við Íslendingar höfum búið við vél- og tæknivæðingu útgerðar í heila öld og tengjum sjómennsku og fiskveiðar ekki lengur við erfiði við árar, dorg á opnum bátum eða beitusöfnun við ljóstýru að kvöldi til. Sjómenn í okkar huga eru harðgerð hreystimenni og raunsæir dugnaðarforkar. Gott pláss á fiskiskipi hér er talið besta hnoss svo hætt er við að fiskimannalíkingarnar í nýja testamentinu séu kannski farnar að fjarlægjast okkur eitthvað.

Að minnsta kosti fannst mér þegar ég sá þessa fiskimenn ég skilja betur en nokkru sinni hvers konar hópur lærisveinahópurinn var. Uppistaða hans var fólk eins og þetta, fátækt en þó ríkt, einfalt en þó viturt, það lifði sínu lífi fjarri hringiðu lífsgæðakapphlaups eða valdabrölti borgarinnar. Hafið og opni markaðurinn í Toledo í nokkurra kílómetra fjarlægð þar sem þau seldu fiskinn líkast til sjálf var og er þeirra líf.

Þetta hljómar eins og fullkomin fjarstæða en það var samt svona fólk sem hann valdi, ekki nákvæmt úrval helstu mennta- og andans manna samtímans. Ekki flokkur lærðra ritara sem gat náð niður hverju orði og merkingu í smáatriðum svo komist yrði hjá staðreyndavillum.

Síðasta sumar sagði þjóðkunnur maður og vinsæll lærifaðir í Háskólanum í útvarpinu að hann efaðist um að Jesús hefði kunnað að skrifa af því hann hefði ekki sett neitt á blað! Spurning er þó hvort hann hefði sannfærst þó Jesús hefði sent honum ritgerð - það er hæpið.

Það er m.a. þessi að því er virðist skortur á fullkomleika sem guðsafneitarar hafa á móti Jesú. Hann á að vera nokkurs konar súpermann og af því hann er það ekki þá getur hann ekki verið Guð í þeirra huga. Guðinn í þeirra huga er einhver sem aftengir sprengjur á ögurstund, það er guð sem stöðvar flóðbylgjur og bindur enda á þjáningar og sjúkdóma. Guð sem getur ekki verið til af því að sýklar eru til. En þetta er ekki Guð, miklu frekar lýsing á Súpermann. En þetta er þó skiljanlegt viðhorf hjá kynslóð sem hefur lífsviðhorf að mestu mótað af afþreyingariðnaði. Einhver hlýtur að hafa séð þetta fyrir.

Það þarf ákveðna og staðfasta blindni til að ríghalda í þetta viðhorf og neita að opna augun fyrir þversögninni um það að í ófullkomleikanum felist fullkomleikinn, í lítillætinu upphefðin, í veikleikanum styrkurinn og í þjáningunni sigurinn. Neita því að Guð geti verið á einhvern hátt óskiljanlegur eða hafinn yfir mannlega mælikvarða og skilning.

Á móti höfum við Jesú sem segir einfaldlega “Ég er vegurinn sannleikurinn og lífið".

30.03.06 @ 21:21
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Litum örlítið nánar á þetta samfélag sem Jesú valdi sér og var svo ólíkt þeim skriflærðu í hópi samtímamanna Jesú. Við sjáum hvernig hann UMMYNDAR þá með áþreifanlegum hætti í guðspjöllunum með því að draga upp mynd af hinni MYRKU EÐA NEIKVÆÐU HLIÐ þessara einstaklinga sem Guð hafði útvalið annars vegar, en jafnframt af hinni JÁKVÆÐU EÐA BJARTARI HLIÐ.

Hin neikvæða hlið
Þetta samfélag sem í upphafi var svo sigurvisst og gagntekið fögnuði reyndist þegar tók að reyna á það hlaðið veikleikum, mistökum og syndum, og Pétur postuli var þar engin undantekning. Hann sem sagt hafði: „Ég vil leggja líf mitt í sölurnar fyrir þig“ (Jh 13. 37) og fullyrti auk þess að hann myndi aldrei „hneykslast á honum og afneita“ (Mk 14. 29) gerði það í reynd þrisvar sinnum (Jh 18. 17; 27). Hann taldi sig yfir hina hafinn, en þetta var ekki einungis einkennandi fyrir hann, heldur þjakaði þetta þá alla eins og þegar þeir deildu sín á milli um það, hver þeirra myndi skipa fyrsta sætið á himnum (Mk 9. 33). Hversu slæmt ástandið var í raun og veru sjáum við best á því, að stór hópur lærisveinanna snéri baki við Jesú þegar hann boðaði leyndardóm efkaristíunnar (Jh 6. 60). Nafnkristnir einstaklingar voru þegar vandamál í frumkirkjunni, ekki einungis á meðal þeirra sem nýlega höfðu látið skírast, heldur í innsta hringnum sem stóð Jesú næst: „En meðal yðar eru nokkrir, sem ekki trúa“ (Jh 6. 64). Takið eftir orðinu nokkrir vegna þess að hann vissi hver það var sem myndi svíkja hann. Ástandið var ekki betra þegar Jesús laugaði fætur þeirra: „Og þér eruð hreinir, en ekki allir“ (Jh 13. 10). Það var ekki einungis Júdas sem var persónugerfingur hinnar saurguðu og syndugu kirkju og hér erum við að tala um innsta hringinn: „Klíkuna!“

Það er fyrst og fremst Markús sem greinir okkur frá trúleysi þeirra og hversu gjörsamlega lærisveinarnir misskildu boðskap Jesú, reyndar svo mjög að honum rann í skap ef marka má hans eigin orð: „Skynjið þér ekki enn né skiljið“ (Mk 8. 17). Við skulum hafa í huga að hann var ekki að tala við bláókunnuga menn: „Ef þér gerið það ekki [að trúa], trúið þá vegna sjálfra verkanna“ (Jh 14. 11). Ástandið var ekki sínu betra þegar kom að elskunni eða einingunni þeirra á meðal, eins og sjá má á öllum „efunum:“ „Ef þér elskið mig“ (Jh 13. 28), „Ef þér eruð í mér“ (Jh 15. 7). En augljóst er að það sem olli Jesú hvað mestum áhyggjum var einingin á meðal lærisveinanna sem er kjörvettvangur Satans: „Haldið frið yðar á milli“ (Mk 9. 50). Þetta kemur einnig berlega í ljós í kveðjuorðum hans sem ávallt eru þau marktækustu: „Að allir séu þeir eitt“ (Jh 17. 21), „svo að þeir verði fullkomlega eitt“ (Jh 17. 23) . . . „Og þegar þér eruð að biðja, þá fyrirgefið, ef yður þykir nokkuð við einhvern, til þess að Faðir yðar á himnum fyrirgefi einnig yður misgjörðir yðar“ (Mk 11. 25).

Fyrir utan þetta allt saman voru lærisveinarnir bókstaflega fjandsamlegir í garð barna, kvenna og yfirleitt gagnvart utanaðkomandi. Þeir ávítuðu menn þegar þeir komu með börnin til fundar við Jesú og hann neyddist til að segja: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er himnaríki“ (Mk 19. 13). Þeir voru yfir sig hneykslaðir þegar hann talaði við konuna við brunninn (Jh 4. 27) og fylltust bræði þegar utanaðkomandi reyndu að reka út illa anda (Mk 9. 38). Við getum í sem fæstum orðum dregið þessa lesti þeirra saman í orðum Jesú sjálfs: „Sjá, sú stund kemur og er komin, að þér tvístrist hver til sín og skiljið mig einan eftir“ (Jh 16. 32) og Markús staðfestir þetta: „Þá yfirgáfu hann allir lærisveinar hans og flýðu“ (Mk 14. 50). Þeir voru reyndar svo grófgerðir og uppreisnargjarnir að Jesús gaf sonum Sebedeusar heitið „þrumusynir“ (Mk 3. 18). En við skulum ekki fyllast of mikilli svartsýni og horfa einnig á ljósu hliðina eða þá jákvæðu.

Hin jákvæða hlið
Hvað sá Jesús eiginlega í þessu samfélagi sem var þjakað af mennskum breyskleikum og vanmætti? Við skulum velta þessu örlítið nánar fyrir okkur. Það voru þessir augljóslega grófgerðu menn sem hann kaus sér að lærisveinum. Hvað var það sem hann sá í fari þeirra? Í fyrsta lagi var það hlýðni þeirra þegar hann kallaði þá og þeir brugðust samstundis við orðum hans þegar frá upphafi: „Fylg þú mér!“ (Jh 1. 43), „Kom þú og sjá“ (Jh 1. 46). Þannig hvatti Filippus Natanael að koma til að sjá og þetta varð upphafið að játningu hans: „Rabbí, þú ert Sonur Guðs, þú ert konungur Ísraels“ (Jh 1. 49). Þessir einföldu menn brugðust við með allt öðrum hætti en farísearnir og fræðimennirnir og sáu góða hirðinn þegar í stað í Jesú. Þeir snéru baki við öllu: „Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða.“ Og þegar í stað yfirgáfu þeir netin og fylgdu honum“ (Mt 4. 19, 20). Það var köllunin til eilífs lífs sem laðaði þá að honum (Mk 10. 29) og þeir trúðu á hann: „Þú hefur orð eilífs lífs, og vér trúum og vitum, að þú ert hinn Heilagi Guðs“ (Jh 6. 68). Minnist Tómasar, efahyggjumannsins í hópi lærisveinanna, og hvað hann varð að ganga í gegnum, hann, sem í upphafi sagði: „Vér skulum fara líka til að deyja með honum“ (Jh 11. 16).
Jesús sá að þeir voru eins og lítil börn sem yrðu að ganga í gegnum vöxt, eins og sjá má á orðum Tómasar að lokum: „Drottinn minn og Guð minn!“ (Jh 20. 28). Jesús vakti yfir vexti þeirra og þannig rættust orð Jóhannesar:

En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans (Jh 1. 12).

Jesús sá að þessir aumkunarverðu fylgismenn hans höfðu þolgæði til að bera og að margir myndu trúa sökum predikunar þeirra: „Því ég hef flutt þeim þau orð, sem þú gafst mér. Þeir tóku við þeim og vita með sanni, að ég er frá þér út genginn og trúa því, að þú hafir sent mig (Jh 17. 8).

Af þessum sökum útvaldi Jesú þá sem lifandi steina, þá fyrstu af milljónum annarra. Með sama hætti urðu listamennirnir sem unnu við gerð einkakapellu Jóhannesar Páls II páfa í Vatíkaninu að velja milljónir smárra steina af ýmsum litbrigðum og skera þá til og slípa svo að þeir væru hæfir til notkunar í þetta mikla listaverk sem kapellan svo sannarlega er. HIÐ SAMA GILDIR UM GUÐ! Listamennirnir urðu að vinna samkvæmt heildaráætlun undir stjórn P. Marko Ivan Rupniks og setja hvern einasta stein nákvæmlega á réttan stað þangað til verkinu var lokið. HIÐ SAMA GILDIR UM GUÐ!

Þannig slípar Drottinn alla lærisveina sína til og gerir úr þeim það listaverk sem bjó í huga hans frá eilífð (Ef 1. 4), ALLA ÞÁ SEM Á HANN TRÚA!

TENGILL

31.03.06 @ 04:22
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

En meðal annarra orða, Ragnar! Hvernig fór Jesús að því að lesa í samkunduhúsunum á sabbat, ef hann var ekki læs? Og allir sem lært hafa hebresku vita, að við byrjum að læra stafina. En vitaskuld yfirsést fræðimönnunum og hinum skriftlærðu þetta eins og í öðru í sífelldri viðleitni sinni vtil að gera lítið úr Jesú, rétt eins og farísearnir forðum.
Það les enginn hinn helga texta nema að gjörþekkja til hljóðtáknanna í hebresku sem voru ekki skrifuð á tímum Jesú. Gyðingar voru auk þess tvítyngdir, töluðu armeisku og hebresku, og fjölmargir kunnu slatta í latínu, líkt og Íslendingar í þýsku eða frönsku. Þannig er ekkert ólíklegt að Jesús hafi talað við Pontius Pílatus á latínu.

Jósef hefur vafalaust sett Jesú í ritningarskóla um sjö ára gamlan, líkt og allir trúaðir Gyðingar gerðu við syni sína. En kannski vita prófessorarnir við Háskóla Íslands þetta allt miklu betur en við kjánarnir.

31.03.06 @ 08:15
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka ykkur góð innlegg, bræður. Og bara um þetta síðasta: Vitaskuld las Jesús hebresku, en hann hefur trúlega einnig kunnað grísku, ég sá góð rök fyrir því í ensku guðfræðitímariti á Englandsárum mínum (í Themelios, minnir mig). Hellenski heimurinn notaði grísku sem sitt alþjóðamál (koine-grísku á dögum Krists; koine er frummál þess texta, sem við eigum af Nýja testamentinu, en líklegt er þó, að safn ummæla Jesú hafi áður verið til á arameisku). Rómverjar höfðu ekki verið ýkja lengi á þessum slóðum á þessum tíma, en þó er trúlegt, að margir hafi kunnað latínu, a.m.k. embættismenn. En ár hvert kom fjöldi Gyðinga “úr dreifingunni” til að sækja heim musterið. Þeir voru orðnir svo ‘helleníseraðir’, að þeir notuðu Gamla testamentið á grísku (Septuagintu, LXX = Sjötíumannaþýðinguna). Páll vitnar oft í LXX-texta GT, og Jesús hefur mjög sennilega kunnað þetta alþjóðamál.

En ‘læsi’ Jesú til staðfestu er sú staðreynd, að hann vitnar þráfaldlega í rit Gamla testamentisins, fyrir utan t.d. þennan skýra vott um lestrarhæfileika hans:

Lúk.4.17–21: Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn, þar sem ritað er: “Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.” Síðan lukti hann aftur bókinni, fekk hana þjóninum og settist niður, en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: “Í dag hefur rætzt þessi ritning í áheyrn yðar….”

Hvað sem einhver “lærður maður” uppi í háskóla kann að hafa látið út úr sér (ég stórefa, að það hafi verið guðfræðingur – þó er aldrei að vita á þessum síðustu tímum…), þá ætti nú eitthvað að vera ljóst af þessum texta hér ofar. Hvernig gat Jesús “fundið staðinn” í Jesajaritinu án þess að vera læs? Og hvernig er hægt að skilja þetta öðruvísi en svo, að hann hafi lesið upp þennan texta í Jesaja? Ef hann gerði það ekki, hvernig gat hann þá sagt við fólkið: “Í dag hefur rætzt þessi ritning í áheyrn yðar” ?

Jesús var læs, en það eru greinilega ekki allir samtíðarmenn okkar læsir á Nýja testamentið!

Athugum líka þetta: Í Mark.12.26 segir Jesús við Sakkúkea: “En hvað upprisu dauðra viðvíkur, hafið þér ekki lesið í bók Móse í frásögninni um runnann, hvað Guð sagði við hann og svo hljóðar: ‘Eg er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs’?”

Þarna gerir hann ráð fyrir læsi Saddúkeanna – það var líka sjálfsagt. En sést ekki af þessu, að hann hafi væntanlega lesið þetta sjálfur? – Eins eru í 10. versi sama kafla Mk. þessi orð hans: “Hafið þér ekki lesið í Ritningunni: ’sá steinn, er húsasmiðir útskúfuðu, hann er nú hyrningarsteinn orðinn’?” – Þessa gat hann spurt þá, af því að hann þekkti Ritninguna af eigin raun. Svo vel þekkti hann hana, að hann lék sér að því að svara bæði fræðimönnum, prestum og Saddúkeum með Ritningarinnar rökum, svo að þeir stóðu margsinnis á gati. – Síðan birtist einhver illa upplýstur, yfirlýsingaglaður háskólakennari uppi á Íslandi 20 öldum síðar og segir þjóð sinni: “Jesús var ekki læs"!!!

Sendum manninn á endurmenntunarnámskeið.

31.03.06 @ 18:17
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

En í sambandi við grísku sem alþjóðamál á þeim tíma, líka hjá kristnum mönnum, og gildi Septuagintu (sem Jón Rafn hefur áður rætt á athyglisverðan hátt), þá er vert að vitna hér í fræðigreinina ‘Túlkunarvandi og biblíuskilningur’ eftir dr. Clarence E. Glad og dr. Kristin Ólason, sem ég var (bara núna í millitíðinni) að fá senda til mín. Þar segir: “… Þá má nefna að hin gríska Sjötíumannaþýðing (Septuaginta) á rætur að rekja til Alexandríu. Óhætt er að fullyrða að sú þýðing hafði mikil áhrif á þróun gyðingdóms og mótunarsögu ritsafns Gamla testamentisins eins og það birtist í Biblíu kristinna manna. Þá eru ónefnd áhrif þýðingarinnar á höfunda ýmissa rita Nýja testamentisins,[18] svo sem Pál postula. Í þessu sambandi ber að minnast þess að Sjötíumannaþýðingin var í reynd fyrsta „Biblía” kristinna manna.[19]”

Og neðanmálsgreinarnar tvær segja eftirfarandi:
18) Karlfried Froehlich, Biblical Interpretation in the Early Church: Sources of Early Christian Thought (Philadelphia: Fortress Press 1984), bls. 5-8. Sjá einnig: Nikolaus Walter, „Hellenistische Diaspora-Juden an der Wiege des Urchristentums", í: The New Testament and Hellenistic Judaism, ritstj. P. Borgen og S. Giversen (Árhús: Aarhus University Press 1995), bls. 37-58, einkum 55-58.
19) Mogens Muller, „Die Septuaginta als die Bibel der Neutestamentliche Kirche,” Kerygma und Dogma 42.1 (1996), 65-78.

31.03.06 @ 19:38
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Sammála. Það er einkum Spekirit Salómons sem talið er að tekið hafi verið saman af Alexandríugyðingunum um 40 f. Kr. sem er merkilegt vegna þess að það sýnir fram á samruna hins hellenska og hebreska menningarheims, gullfallegt rit. Ljóst er að það hafði afar mótandi áhrif á hl. Jóhannes guðspjallamann.
Satt best að segja hafði ég aldrei leitt að því hugann að Jesús hafi talað koina, en vitaskuld hefir hann gert það, það liggur í augum uppi þegar vakin er athygli á því. Það var Mirca Eliade (samanburðartrúarfræðingurinn rúmenski, sem sagði að „kraumað hefði í mannkynssögunni eins og suðupotti“ síðustu 500 árin fyrir komu Krists. Meira að segja Lao Tze í Kína sá komu hans fyrir og gaf bærilegustu lýsingu á honum.

En afar kynlega kemur það mér fyrir sjónir að prófessor við Háskóla Íslands skuli láta það út úr sér í opinberum fyrirlestri að Jesús hafi verið ólæs. Hafa þessir menn ekki lesið Ritningarnar eða er sundlunarandinn alveg að gera út af við þetta fólk?

31.03.06 @ 20:44
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Hann sagði að hann efaðist um að Jesús hefði kunnað að skrifa af því hann hefði ekki sett neitt á blað. Hann minntist ekkert á lestrarkunnáttu hans. Þetta var í útvarpsviðtali.

31.03.06 @ 21:50
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Much ado about nothing þá hjá mér, greinilega!

01.04.06 @ 00:59
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég tel þetta hafa verið umræður sem hafi verið frjóar engu að síður þar sem Kristur birtist mér alla vega í nýju ljósi. Hvað varðar hebreskuna sem meðal Gyðinga gegndi sama hlutverki og grískan og latínan innan kirkjunnar, þá verður hver sá sem lærir að lesa hana að læra bókstafina og hljóðtáknin þar sem sérhljóðarnir eru aldrei sýndir, þannig að sá sem les hebresku verður jafnframt að læra að draga til stafs.

Á tímum Jesú talaði almenningur jöfnum höndum arameisku og koina griskuna. Enn í dag eru það svo þeim sem læra hebreskuna falið að lesa í sýnagógunum. Ljóst er að Jesú hefur gengið í ritningarskóla af ótal tilvitnunum hans í Ritningarnar sem segja okkur, að hann gjörþekkti þær frá blautu barnsbeini.

Upplýsingar Jóns Vals um „Túlkunarvanda og biblíuskilning“ eftir dr. Clarence E. Glad og dr. Kristinu Ólason eru einnig athyglisverðar þar sem Septuagintatextinn er jú einu sinni „handbók“ kirkjunnar. Þrátt fyrir að hl. Jeróme hafi lært hebreskuna í Jerúsalem og haft hana til hliðsjónar í þýðingu sinni á Vúlgata, þá var það Septuagintatextinn sem vegur þyngst hjá honum.

Og enn í dag er nauðsynlegt fyrir alla þá sem á annað borð ætla sér að lesa Nýja testamentið af einhverri alvöru, að læra koina grískuna sem það var rítað á. Enginn sýnir Guði of mikla ofrausn með því að leggja slíkt nám á sig. Hroki nútímamannsins gagnvart gengnum kynslóðum kemur vel í ljós í afstöðu þeirra gagnvart Nýja testamentinu. Engu er líkara en að fjölmargir „svokallaðra“ menntamanna samtímans telji að maðurinn hafi gengið í gegnum „eðlisumbreytingu“ með upplýsingastefnunni sem er fjarri öllum sanni. Í framtíðinni verður okkar eigin kynslóð dæmd sem „barbarar“ vegna afstöðu sinnar til grundvallarþátta mennskrar tilveru eins og lífsréttar ófæddra barna.

Í reynd varð öll þekking faríseanna og fræðimannanna þeim lítt að gagni þegar þeir stóðu frammi fyrir Jesú. Sama gildir um fjölmarga aðra enn í dag, allt of marga, því miður.

01.04.06 @ 06:18
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Eitt kunnasta dæmið um slíkan hroka má sjá í umræðum á fyrri hluta s.l aldar um Heimslýsingu Heródótusar. Hæðst var að honum fyrir einfeldnina, þar til fræðimenn gerðu sér grein fyrir því, að hann hafði tileinkað sér hina sönnu afstöðu sagnfræðingsins: að greina rétt og satt frá því sem hann heyrði, án þess að troða sínum skoðunum að. Því veita rit hans okkur ómetanlega innsýn inn í hugarheim fornmanna.

Mér skilst að Jón Grunnvíkingur hafi starfað með sama hætti og lýsingar þær sem hann gefur að lífinu í Kaupmannahöfn nú metnar sem mikill fjársjóður hjá dönskum sagnfræðingum vegna þess að þær veita svo góða innsýn inn í lífið í Höfn eins og það var í raun og veru og eru einu heimildirnar sem hafa varðveist.

Gerðu guðspjallamennirnir þetta ekki líka? Alla vega hefði frásögnin orðið harla undarleg í meðferð póstmódernískar sjálfhverfu.

01.04.06 @ 06:35