« Það var aðfangadagur og hvíldardagurinn fór í höndPáfi íhugar leyndardóm svika Júdasar »

14.04.06

  07:23:51, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 300 orð  
Flokkur: Persónulegir vitnisburðir

Hvers vegna hné Drottinn niður undir krossinum?

Fyrir tveimur árum fékk ég alvarlega lungnasýkingu skömmu fyrir páska. Þetta var síðdegis á föstudegi og í fyrstu taldi ég hana ekki svo alvarlega, að ég gæti ekki beðið fram á mánudagsmorguninn eftir að læknirinn minn mætti til starfa eftir helgarfríið.

Síðdegis á laugardag tók mér að elna sóttin svo mjög, að ég missti allan mátt og varð með öllu hjálparlaus, svo mjög, að það varð mér ofraun svo mikið sem að hringja eftir hjálp, hvað þá meira.

Sjálfa laugardagsnóttina lá ég bókstaflega milli heims og helju og með öllu hjálparvana. Þá sagði ég við Drottin: „Hvers vegna tekur þú mig ekki frekar til þín, heldur en að láta mig þjást svona mikið?“

Svarið lét ekki á sér standa. Hann sagði: „Jón, veistu hvernig mér leið sjálfum eftir að rómversku hermennirnir húðstrýktu mig við súluna? Lungu mín fylltust blóði og þess vegna hné ég niður undir krossinum.“

Þetta hafði aldrei hvarflað að mér og veitti mér alveg nýja innsýn inn í píslargöngu Drottins. Allir sem þekkja til alvarlegra lungnasýkinga skilja við hvað ég á.

Eftir þetta bráði svo af mér að ég var sæmilega rólfær á sunnudeginum og fékk sterkt sýklalyf hjá lækninum strax á mánudagsmorguninn sem vann bug á sýkingunni. Þetta langaði mér að deila með ykkur, bræður og systur, einmitt núna á þessum degi meðan krossgangan á sér stað. Miklar eru þær píslir sem Drottinn tók á sínar herða sökum okkar eigin synda. LOF SÉ ÞÉR KRISTUR NÚ OG AÐ EILÍFU. AMEN!

No feedback yet