« Vændi er félagsleg plágaFilippseyskir biskupar skrifa vefbækur »

06.05.06

  13:39:47, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 787 orð  
Flokkur: Helgir menn

Hvernig menn voru postularnir?

Val Jesú á lærisveinum hefur sjálfsagt oft verið mönnum nokkurt umhugsunarefni. Sem sína nánustu samstarfsmenn velur hann fiskimenn og tollheimtumann. Oft kemur fyrir að þeir skilja ekki hvað hann segir og stundum eru samræðurnar og vangavelturnar allt að því skoplegar eins og þegar Jesú hafði spáð fyrir um upprisu sína og þeir fóru að velta vöngum yfir því hvað það væri að rísa upp frá dauðum, - lái þeim það þó enginn.

Sumarið 2004 átti ég þess kost að dvelja á norðurströnd Cebueyjar á Filippseyjum. Í nokkurra sjómílna fjarlægð í norðvestri reis næsta eyja úr sæ með um 3000 metra háu eldfjalli. Ég bjó í húsi í fjöruborðinu og við hliðina á húsinu var bátalægi dagróðramanna á staðnum og hús þeirra voru næstu hús. Þetta voru litlir opnir og mjóir bátar með veltifloti öðru megin eða báðum. Þeim var var róið með handafli út fyrir skerin. Einn og einn bátur virtist vera með einhvers konar skellinöðrumótor. Þeir lögðu línu og voru líka með litlar nætur fyrir utan skerjagarðinn, svo sem í um 500 metra fjarlægð frá húsinu og voru þá yfirleitt á tveim bátum og dró annar nótina. Yfirleitt voru þetta tveir til þrír menn á bát. Afli þeirra var smáir fiskar. Á kvöldin þegar fjaraði löbbuðu fiskimennirnir ásamt fjölskyldum sínum um fjöruna fyrir framan húsið og tíndu beitu, marflær og lítil krabbadýr. Þeir voru oft nokkuð fram á nótt að stikla um fjörugrjótið í kolsvarta myrkri til að tína beitu við skin frá ljóstýrum sem þeir höfðu meðferðis.

Þetta var vingjarnlegt og þægilegt fólk, það hafði til hnífs og skeiðar, gat fætt sig og klætt og búið í þokkalegu húsi á þarlendum mælikvarða við sjóinn en það þurfti ekki að virða það fyrir sér lengi til að sjá að þetta voru ekki fyrstu vinningshafarnir í kapphlaupi lífsins, séð á veraldlegan mælikvarða. Hafi einhverjir slíkir átt uppruna sinn þarna í fiskimannabyggðinni þá voru þeir líkast til farnir til borgarinnar og hættir að dorga.

Við Íslendingar höfum búið við vél- og tæknivæðingu útgerðar í meira en öld og tengjum sjómennsku og fiskveiðar ekki við erfiði við árar, dorg á opnum bátum eða beitusöfnun við ljóstýru að kvöldi til. Sjómenn í okkar huga eru harðgerð hreystimenni og raunsæir dugnaðarforkar. Gott pláss á fiskiskipi hér er talið besta hnoss svo hætt er við að fiskimannalíkingarnar í nýja testamentinu séu kannski farnar að fjarlægjast okkur eitthvað.

Að minnsta kosti fannst mér þegar ég sá þessa fiskimenn ég skilja betur en nokkru sinni hvers konar hópur lærisveinahópurinn var. Uppistaða hans var fólk eins og þetta, fátækt en þó ríkt, einfalt en þó viturt, það lifði sínu lífi fjarri hringiðu lífsgæðakapphlaups eða valdabrölts borgarinnar. Hafið og opni markaðurinn í Toledo í nokkurra kílómetra fjarlægð þar sem þau seldu fiskinn líkast til sjálf var og er þeirra líf.

Þetta hljómar eins og fjarstæða en það var samt svona fólk sem hann valdi, ekki nákvæmt úrval helstu mennta- og andans manna samtímans. Ekki flokkur lærðra ritara sem gat náð niður hverju orði og merkingu í smáatriðum svo komist yrði hjá staðreyndavillum.

Það er m.a. þessi að því er virðist skortur á fullkomleika sem sumir guðsafneitarar hafa á móti Jesú. Hann virðist eiga að vera nokkurs konar súpermann og af því hann er það ekki þá getur hann ekki verið Guð í þeirra huga. Guðinn í þeirra huga er einhver sem aftengir sprengjur á ögurstund, það er Guð sem stöðvar flóðbylgjur og bindur enda á þjáningar og sjúkdóma með fingrasmelli. Guð sem getur ekki verið til af því að sýklar eru til. En þetta er ekki Guð, miklu frekar lýsing á súpermann. En þetta er þó skiljanlegt viðhorf hjá kynslóð sem hefur lífsviðhorf að mestu mótað af afþreyingariðnaði.

Það þarf nokkra staðfestu til að ríghalda í þetta viðhorf og neita að opna augun fyrir þversögninni um það að í ófullkomleikanum felist fullkomleikinn, í lítillætinu upphefðin, í veikleikanum styrkurinn og í þjáningunni endurlausn og sigur lífsins.

9 athugasemdir

Athugasemd from: Hjalti Rúnar Ómarsson
Hjalti Rúnar Ómarsson

[1. aths.]

Hann virðist eiga að vera nokkurs konar súpermann og af því hann er það ekki þá getur hann ekki verið Guð í þeirra huga.

Til að byrja með þá eru það trúmennirnir sem gera guð að súpermanni hvað krafta varðar. Það eina sem við guðsafneitarar biðja um er að hann noti þessa krafta til þess að koma í veg fyrir þjáningar? Er það virkilega út í hött að halda að algóð vera myndi vilja koma í veg fyrir sjúkdóma?

10.04.07 @ 10:58
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

[2. aths.] Já, þú ert með punkt þarna Hjalti. Við trúmennirnir föllum auðvitað miklu fremur í þessa gryfju. Bendi t.d. á margfrægan texta sem Janis Joplin gerði frægan.

Það er alls ekki út í hött að halda að algóð vera vilji koma í veg fyrir þjáningar. En við erum verkfæri hans til að koma í veg fyrir þjáningar og vinna gegn þeim. Það er hans aðferð og þeir í okkar hópi sem leggja áherslu á réttlætingu vegna verka, jafnframt réttlætingu fyrir trúna eiga ekki erfitt með að fallast á þá skýringu - tel ég.

10.04.07 @ 11:40
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

[4. aths.] Lesendur eru beðnir velvirðingar á því að athugasemdir birtast ekki í tímaröð. Tíma athugasemda má sjá neðst í vinstra horninu.

10.04.07 @ 11:41
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

[3. aths.]

Vill þá Hjalti vera eilífur í þessari veraldartilvist sinni?

Hefur þjáning aldrei kennt honum neitt? Hefur sársaukaskynið ekki nytsamleg áhrif líka? Á hvaða vegi væri læknisfræðin stödd, ef ekki hefði verið neitt sársaukaskyn? Auðvitað hefði aldrei þurft neina læknisfræði, ef engir sjúkdómar hefðu verið til og engin slys af völdum ytri áfalla – né nein ellihrörnun.

Hjalti mundi auðvitað ætlast til þess, að Guð kæmi því svo fyrir, að slys, sem menn lentu í, yllu þeim engum sársauka, heldur yrðu þeir læknaðir á augabragði með kraftaverki, sem og, ef menn stríddu hver gegn öðrum og veittu hver öðrum svöðusár.

Með þessu er hann auðvitað að fara fram á, að kraftaverk verði almenna ástandið í heiminum, að náttúrulögmálin verði ekki nema að takmökuðu leyti virk. Með því móti væri nánast ómögulegt að læra af áföllum, ókleift sömuleiðis að byggja upp læknisfræðilega þekkingu, torvelt jafnvel að þróa nokkur vísindi á þessu sviði og ýmsum öðrum, því að aldrei gætu t.d. óveður eða náttúruhamfarir valdið neinum manni skaða!

Við hér stöndum hins vegar með báða fætur í veruleikanum. – Almennt allsherjarástand kraftaverka er engin lausn, en það kemur vitanlega ekki í veg fyrir, að Guð geti gert kraftaverk. Hans háttur á því er þó að gera það nánast eingöngu fyrir bænarstað manna, þeirra sem leita hans hjálpar og miskunnar.

Viðauki 12/3:

Og þess vegna, meðal annars, er trúin nauðsynleg – sem og boðunin. Því að “hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir hafa ekki trúað á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekkert heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prediki? Og hvernig eiga þeir að predika, nema þeir séu sendir? Það er eins og ritað er: Hversu fagrir eru fætur þeirra, sem boða fagnaðarerindið um hið góða. – En þeir hlýddu ekki allir fagnaðarerindinu, því að Jesaja segir: Drottinn, hver trúði því, sem boðað var af oss? Svo kemur þá trúin af boðuninni, en boðunin byggist á orði Krists.” (Róm. 10.14–17).

11.04.07 @ 09:02
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

[5. aths.] Lesendur eru beðnir velvirðingar á því að athugasemdir birtast í ruglaðri tímaröð. Tíma hverrar athugasemdar má sjá neðst í vinstra horni hennar (ennfremur bæti ég nú inn í hverja aths. númeri hennar skv. tímaröð). Eftirfarandi innlegg mitt er í beinu framlagi af fyrra innleggi mínu hér, í gær kl. 11:02, nr.3.

Og þess vegna, meðal annars, er trúin nauðsynleg – sem og boðunin. Því að “hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir hafa ekki trúað á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekkert heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prediki? Og hvernig eiga þeir að predika, nema þeir séu sendir? Það er eins og ritað er: Hversu fagrir eru fætur þeirra, sem boða fagnaðarerindið um hið góða. – En þeir hlýddu ekki allir fagnaðarerindinu, því að Jesaja segir: Drottinn, hver trúði því, sem boðað var af oss? Svo kemur þá trúin af boðuninni, en boðunin byggist á orði Krists.” (Róm. 10.14–17).

12.04.07 @ 07:10
Athugasemd from: Hjalti Rúnar Ómarsson
Hjalti Rúnar Ómarsson

Það er alls ekki út í hött að halda að algóð vera vilji koma í veg fyrir þjáningar. En við erum verkfæri hans til að koma í veg fyrir þjáningar og vinna gegn þeim.

Og hvers vegna notar guðinn þinn ekki önnur “verkfæri” eins og til dæmis almættið sitt?

Ef við kæmum að heimsmeistara í skriðsundi hvetja fólk í kringum sig til þess að bjarga manni sem væri að drukkna í stöðuvatni þá hlytum við að spyrja okkur að því hvers vegna hann gerir ekki neitt í málunum.

Vill þá Hjalti vera eilífur í þessari veraldartilvist sinni?

Ég vildi gjarnan lifa að eilífu í algjörri sælu. Átt þú við það með orðinu “verldartilvist"?

En ég ætla að koma með tvær uppástungur og ég vildi gjarnan fá að vita hvernig kaþólikkunum hérna líst á þær. Ég sting upp á því að…

1. ….guð hefði sleppt því að búa til jörð þar sem jarðskjálfar ættu sér stað.

2. ….guð hefði sleppt því að búa til skaðlegar veirur, skaðlega gerla og skaðleg sníkjudýr.

13.04.07 @ 19:53
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Erfitt er að fallast á það að eitthvað hafi ekki tilgang fyrir Guði. Fyrst svo er þá hefur Guð þegar notað almættið til að skapa okkur. Jarðskjálftar, sýklar og önnur óáran eru áskorun við bæði skynsemi okkar og mennsku. Þetta segir okkur að við bæði eigum og getum að sigrast á þessum vandkvæðum, en við getum það trúlega ekki nema í sameiningu, þ.e. með því að sameinast í þekkingarátaki, menntun og rannsóknum sem og sameiginlegu átaki í að hjálpa þeim bágstöddu. Í þessu samhengi verður allt stríðsbrölt og auður sem fer í að búa til manndrápstól og viðhalda þeim svo greinilega hluti af hinu fallna ástandi mannsins því það tefur fyrir framþróun og þekkingu sem í bland við mannúð er það eina sem getur sigrast á bölinu.

Finnst þér það t.d. ekki bagalegt að ekki skuli enn vera hægt að segja fyrir um jarðskjálfta eða lækna allar sýkingar? Ef öllum þeim fjármunum sem varið var til að smíða kjarnorkusprengjur hefði verið varið til jarðrannsókna eða rannsókna á jarðskjálftum eða sýklum á síðastliðnum 50 árum þá væri staðan örugglega önnur í dag.

13.04.07 @ 20:08
Athugasemd from: Hjalti Rúnar Ómarsson
Hjalti Rúnar Ómarsson

Jarðskjálftar, sýklar og önnur óáran eru áskorun við bæði skynsemi okkar og mennsku.

Þannig að ef þú gætir útrýmt öllum sjúkdómum heimsins með því að smella fingrunum myndur þú ekki gera það?

18.04.07 @ 15:20
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Jú, að sjálfsögðu, vegna þess að ég trúi því að það sé bæði í mannlegu valdi og okkur mönnunum beri skylda til að beita skynsemi okkar í þessa þágu. Þannig séð eru þessir erfiðleikar tækifæri og áskorun við mannlegan þroska og mennsku. Það að Jesús Kristur læknar fólk er í mínum huga fyrst og fremst vísbending um áskorun en ekki íhlutun, vegvísir en ekki redding.

19.04.07 @ 05:11