« Inntak lífsverndarstefnunnar – eftir föður Paul Marx, O.S.B.Hvernig kaþólska kirkjan lagði grunninn að vestrænni menningu (2): Hagfræðin »

27.10.10

  15:03:34, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 532 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan, uppspretta vestrænnar menningar

Hvernig kaþólska kirkjan lagði grunninn að vestrænni menningu (1)

Nú að undanförnu hef ég verið að lesa hið merka rit Thomas E. Woods, Jr., Ph. D sem kom út á vegum Regnery Publishing, Inc. í Boston árið 2005. Heiti þess er Hvernig kaþólska kirkjan lagið grundvöllinn að vestrænni menningu (How the Catholic Church Built Western Civilization), en ritið hefur valið mikla athygli meðal fræðimanna bæði vestan hafs og austan.

Í reynd ætti þetta ekki að koma okkur Íslendingum svo mjög á óvart vegna þess að það var einmitt kirkjan sem skapaði gullöld íslenskrar menningar og færði þjóðinni dýrmætan menningararf í hendur með „bókaiðju“ klaustranna. Uppgröfturinn á Skriðuklaustri hefur jafnframt leitt í ljós að þar var rekið líknarheimili (hospicio) eins og tíðkaðist í kaþólskum löndum Evrópu á sama tíma. Hl. Þorlákur samdi einnig lög í miklum mæli sem eru í gildi allt fram á daginn í dag. Í reynd var hl. Þorlákur afar vellesinn í lögum hámiðaldanna, svo mjög, að Jóhann IV Englandskonungur fékk hann til að semja lögbók Englendinga og enn í dag er honum auðsýnd sérstök heiðrun í Lincoln eins og margir vita.

Rit Thomasar E. Woods er til samræmis við þau miklu stefnuhvörf sem orðið hafa hjá sagnfræðingum og menningarsögufræðingum í afstöðinni til kirkjunnar. Hann fjallar um það hvernig kirkjan var ljós í myrkrinu þegar „barbararnir“ lögðu Evrópu í rúst með innrásum sínum. Hann sýnir fram á það hvernig það voru Benediktusarmunkarnir sem breiddu út menningu, tækni og læknisfræði um alla Evrópu, að það var kirkjan sem stofnaði og þróaði háskólana í Evrópu og tryggði akademískt frelsi fræðimanna gagnvart veraldlegum stjórnvöldum með þrotlausu starfi og stuðningi páfagarðs og hvernig Jesúítar voru brautryðjendur í tilraunavísindum og stjörnufræði.

Hann sýnir fram á það var kirkjan sem lagði grunninn að alþjóðalögum eins og við þekkjum þau í dag, þróaði markaðshagfræðina 500 árum áður en Adam Smith kom til sögunnar, hvernig kaþólsk kærleiksþjónustu breytti heiminum og mótaði allt siðgæðisviðhorf vestrænna þjóða og svo mætti lengi telja.

Hér á næstunni mun ég koma með útdrátt úr ritinu hér á Kirkjunetinu, en áhugasamir lesendur geta einnig pantað það á amazon. com. Það þarf ekki lengi að lesa íslenskar bloggsíður til að gera sér átakanlega fáfræði þeirra sem þar rita um sögu kirkjunnar ljósa. Þetta einskorðast ekki við Ísland. Sjálfur kemst Thomas E, Wood svo að orði:

Í fjölmiðlum okkar og múgmenningu er fátt að finna sem ekki er talið við hæfi til að hæðast að kirkjunni og gera sem minnst úr henni. Mínir eigin nemendur, að svo miklu leyti sem þeir yfirleitt vita eitthvað um kirkjuna, þekkja aðeins til „spillingar“ sem kennarar þeirra hafa látlaust látið dynja í eyru þeirra. Saga kaþólskunnar, að svo miklu leyti sem þeir vita eitthvað, einkennist af fáfræði, kúgun og stöðnun. Að vestræn menning standi í þakkarskuld við kirkjuna vegna háskólanna, líknarverka, alþjóðalaga, vísindanna, mikilvægra lagaákvæða og ýmislegs fleira hefur þeim beinlínis ekki verði inrætt. Vestræn menning stendur í miklu meiri þakkarskuld við kaþólsku kirkjuna en fólk gerir sér almennt ljóst – kaþólskir ekki undanskildir. Í reynd byggði kirkjan vestræna menningu upp frá grunni. [1]

Eins og ég vék að hér að ofan mun ég koma með lauslegan útdrátt úr ritinu hér á Kirkjunetinu á næstu vikum.

[1]. How the Catholic Church Built Western Civilization, bls. 1.

Endurbirtur pistill sem birtist fyrst hér á vefsetrinu 28.05.2007

1 athugasemd

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir þennan athyglisverða pistil Jón. Ég fletti upp á Thomas Woods á netinu og fann upplýsingar um hann á Wikipediu. Þetta er ungur maður sem virðist hafa vakið verðskuldaða athygli í Bandaríkjunum. Sjá hér: [1].

02.06.07 @ 06:39