« Hvernig kaþólska kirkjan lagði grunninn að vestrænni menningu (1)Hin neikvæða hlið líffæragjafa – mál Oklahomabúans Zack Dunlap og „heiladauðakenningin“ »

26.10.10

  15:46:33, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 769 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan, uppspretta vestrænnar menningar

Hvernig kaþólska kirkjan lagði grunninn að vestrænni menningu (2): Hagfræðin

Ragnar Kristjánsson kemst svo að orði í aðsendri athugasemd: „Ég lærði það í félagsfræði að uppruni kapítalismans má rekja til trúar skiptanna. Þar segja þegar Lúterskirkjan kom til sögunnar og mörg lönd tóku þá trú. Þetta vil Marx Weber meina.“ Sem háskólaborgari ætti téður Ragnar að gera sér ljóst að hugtakið „símenntun“ vegur þungt í akademískri umræðu innan háskólasamfélagsins. Ég minnist eins kunningja míns sem lærði líffræði við HÍ. Hann snéri sér síðan að kennslustörfum. Að fimmtán árum liðnum þegar hann sótti síðan um starf í sérgrein sinni var honum tjáð að menntun hans væri orðin úrelt. Hann yrði því að fara í „endurmenntun“ ef hann hefði áhuga á að starfa sem líffræðingur.

Þetta einskorðast ekki við líffræði, heldur gildir einnig um sagnfræði og viðskiptasagnfræði. Einn af mætustu hagfræðingum tuttugustu aldarinnar, Joseph Schumpeter, komst svo að orði í riti sínu History of Economic Analysis (1954) þegar hann vék að framlagi síðskólaspekinganna til hagfræðinnar: „Það voru þeir sem komast næst því fremur en allir aðrir að vera upphafsmenn vísindalegrar hagfræði“ [1] Aðrir víðkunnir fræðimenn á tuttugustu öld, eins og Raymond de Roover, Marjorie Grice-Hutchinson, Alejandro Chafuen og Murray N. Rothbard eru honum sammála.

Það voru þó ekki síðskólaspekingarnir sem voru upphafsmenn hinnar vísindalegu hagfræði. Fremstan skal telja Jean Buridan (1300-1358) sem gegndi stöðu rektors við Háskólann í París [2] sem lagði grundvöllinn að kenningum nútímans um myntútgáfu. Það var síðan einn nemenda hans, Nicholas Oresme (1325-1382) sem nefndur hefur verið „faðir hagfræði myntútgáfu“ sem lagði fram kenninguna um svokallað Gresham-lögmál í riti sínu „Umfjöllun um uppruna, eðli, lögmál og mats á verðgildi myntar.“ Einnig má minnast á Martín de Azpilcueta (1493-1586), en hann komst svo að orði:

Í ljósi reynslunnar sjáum við að í Frakklandi þar sem myntútgáfa er fágætari en á Spáni er verð á brauði. víni, klæðum og vinnuframlagi miklu lægra. Og jafnvel á Spáni minnkaði verðgildi varnings og vinnu á þeim tímum þegar peningar voru sjaldgæfari, heldur en eftir að Indíalöndin uppgötvuðust þegar silfur og gull flæddi yfir landið. Ástæðan er sú að verðgildi peninga eykst þegar skortur er á þeim. [3].

Minnast má einnig á Cajetan kardínála (1468-1534), en í riti sínu De Cambiis þar sem hann lagði fram kenninguna um að verðmæti peninga í nútíðinni gæti ráðist af framtíðarmarkaðshorfum. Væntingar almennings hefðu þannig úrslitaáhrif á efnahagsþróunina. Murray Rothbard hefur komist svo að orði um Cajetan: „Cajetan kardínáli, einn af prinsum kirkjunnar á sextándu öld, má líta á sem föður væntingarkenningarinnar innan hagfræðinnar.“ [4]. Cajetan kardínáli varð einnig víðfrægur af því að reka Martein Lúter á gat í frægum rökræðum.

Einnig má minnast á Pierre de Jean Olivi (1248-1298) sem lagði fram kenninguna um að verðgildi framleiðslu réðist ekki af framleiðslukostnaðinum sem lægju henni að baki, heldur af eftirpurninni. Hl. Bernadino frá Siena blés nýju lífi í hugmyndafræði Olivi einni og hálfri öld síðar.

Jesúítinn Juan de Lugo kardínáli (1583-1660) lagði enn frekari áherslu á eftirspurn markaðarins í skrifum sínum. Hann sagði meðal annars:

Verðlagið sveiflast ekki til vegna breytilegra gæða framleiðslunnar eða fullkomleika vegna þess að mýs eru fullkomnari en korn, en eru verðlagðar minna vegna þess að verðmætamatið ræðst af notagildinu með hliðsjón af mennskum þörfum og þá í ljósi væntinganna. Gimsteinar hafa alls ekki sama notagildi og korn, en þrátt fyrir það eru þeir verðlagðir mun hærra . . . meðal Japana eru gamlir járnmunir og leirmunir verðlagðir afar hátt þrátt fyrir að við metum þá einskis vegna aldurs þeirra. Væntingar almennings, jafnvel þegar þær eru heimskulegar hækka verðlagið vegna þess að það byggist á gildismati. Verðgildið eykst eftir því sem kaupendunum fjölgar og peningastreymið eykst, en lækkar að öðrum kosti.“ [5]

Þetta geta allir hagfræðingar nútímans á Vesturlöndum fallist á sem enn annar Jesúíti, Luis de Molina, lagði einnig ríka áherslu á, rétt eins og Carl Menger gerði í riti sínu Lögmál efnshagslífsins (1871) sem hafði djúpstæð áhrif á þróum hagfræði nútímans.

Hins vegar voru það mótmælendur sem lögðu ofuráherslu á gildi vinnunnar og framleiðslukostnaðinn sem gildismats og þannig leitaði Karl Marx til Kalvíns þegar hann mótaði hugmyndir sínar um marxíska hagfræði sem á skömmum tíma leiddi til hruns í Sovétríkjunum vegna þess að áætlunarbúskapurinn var í engu samræmi við framboð og eftirspurn. Ég vænti þess að Ragnar hafi orð Ara fróða að leiðarljósi: „Betra er að hafa það sem sannara reynist.“

[1]. History of Economic Analysis (New York: Oxford University Press, 1854), bls. 54.
[2]. Iðulega ef ekki undantekningarlaust líta mótmælendur fram hjá þeirri staðreynd, að það var kaþólska kirkjan sem stofnaði fyrstu 87 háskólana í Evrópu. Þeir nutu sérstakrar verndar Páfastóls og iðulega varð páfi að grípa inn í þróun mála þegar veraldlegir valdhafar leituðust við að skerða akademískt frelsi prófessoranna og stúdentanna.
[3]. Chafuen, 62.
[4]. Rothbard, Economic Thoughts Before Adam Smith, bls. 100-101.
[5]. Chafuen, bls. 84-85.

Endurbirtur pistill sem birtist fyrst hér á vefsetrinu 14.06.2007

4 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Athyglisverð og fróðleg grein. Takk fyrir hana Jón Rafn!

14.06.07 @ 17:03
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég sé enga ástæðu til að birta hér athugasemd Ragnars Kristjánssonar sem kemur efni greinarinnar ekkert við. Okkar ágætu landar verða seint ásakaðir um málefnalega umræðu. Vil einungis bæta því við, að ef einhverjum hefur auðnast að færa sönnur á að tilgátur hans væru eins og hvert annað ópíum, þá var það einmitt Karl Marx.

15.06.07 @ 05:07
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Vel mælt Jón Rafn. Já kommúnisminn var og er sannkallað ópíum fólksins. Fólk ánetjast hugmyndafræði sem lofar sæluríki á jörðu, frelsi jafnrétti og bræðralagi en endar með fjötrum ráðstjórnarinnar.

15.06.07 @ 19:15
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þakka þér fyrir þessi orð Ragnar, eins og töluð úr mínu eigin hjarta. Síðar í dag mun ég birta hér grein um: Marxisma lífsins sem andhverfu marxisma dauðamenningarinnar.

Hún er skrifuð í tilefni þess að í dag er 60 ára prestsvígsluafmæli föður Paul Marx OSB, einhvers mesta lífsverndarsinnans á tuttugustu öldinni.

16.06.07 @ 06:18