« Efkaristíundrið í Lancíano á Ítalíu67. staðfesta kraftaverkið í Lourdes »

26.02.06

  17:17:38, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 702 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Hvernig Guð mætir stundum manninum

Eldingar virðast hafa áhrif á einhver djúp svið í sálarlífi mannsins sem stundum geta leitt til breytingar á stefnu einstaklinga í lífinu. Þannig segir sá mikli guðsþjónn Meistari Eckhart þegar hann víkur að hinum eilífa getnaði Orðsins í mannssálinni:

Ef þessi fæðing nær í raun og veru fram að ganga megnar ekkert að halda aftur af þér: Allt beinir þér til Guðs og þessarar fæðingar. Við sjáum líkingu við þetta í eldingunni. Hvað sem hún lýstur, hvort sem það sé tré, dýr eða maður, snýr sá sem á hlut að máli sér að henni með þrumugnýnum. Maður sem snýr við henni baki snýr sér samstundis við til að bera hana augum. Öll þúsunda laufblaða trésins snúa sér við til að verða vitni að þessu leiftri. Sama gegnir um alla þá þar sem þessi fæðing nær fram að ganga. Þeir snúa sér þegar í stað til þessa getnaðar af öllum mætti, jafnvel einungis með jarðneskum hætti. Já, það sem áður var til hindrunar verður nú ekkert annað en til hjálpar. Ásjóna þín snýr sér svo fullkomlega til þessa getnaðar, hvað sem þú svo kannt að sjá og heyra, að þú meðtekur ekkert annað en þennan getnað. Allir hlutir eru einfaldlega Guð og þú sérð ekkert annað en Guð í öllum hlutum. Rétt eins og sá sem horfir lengi í sólina sér ekkert annað en sólina hvað sem hann svo horfir á. Ef þetta er ekki fyrir hendi, þetta áhorf til Guðs og að sjá Guð í öllu og fjölbreytileikanum, þá hefur þú ekki enn upplifað þennan getnað.

Sjálfur upplifði ég kynngimátt eldingarleiftra á mannshugann á yngri árum. Ég sigldi frá Hafnarfirði til Ceuta í Marokkó og ferðin tók 23 daga. Ástæðan var einföld. Vél skipsins var með sjókælingu, þannig að eftir því sem sjórinn hlýnaði varð að draga úr ferð skipsins. Það var eins og vélstjórinn okkar sagði: „Ef við hægjum ekki á dallinum fer smurolían að sjóða.“

Við sigldum beinustu leið djúpt út af Írlandi og þá fór ég að veita eldingunum athygli á næturvaktinni. Þær leiftruðu í órafjarlægð og lýstu næturhimininn upp og þetta var áhrifaríkt þarna á úthafinu.

Eitt sinn minntist ég á þetta við þýskan prest. Þá sagði hann mér eftirfarandi sögu. „Ég og æskuvinur minn gengum alltaf saman í skóla þar til kom að háskólanáminu. Ég fór í bókmenntasögu og þegar náminu lauk var ég að sjálfsögðu kallaður í herinn. Ég var dubbaður upp í að vera „kommandoleutenant“ og var sendur til austurvígstöðvanna. Ég var lánsamur því að allt stríðið var ég hafður í bakvarðasveitunum. Á þessum myrku og hlýju nóttum í Kákasus sá ég leiftrin frá vígstöðvunum í um það bil 20 kílómetra fjarlægð og heyrði dunurnar. Það var þá sem ég tók að hugsa um Guð. Þegar stríðinu lauk fór ég síðan í guðfræðina.

Gamli æskuvinurinn minn var ekki eins lánsamur. Hann nam járnbrautarverkfræði og þegar hann var kallaður í herinn var hann gerður að liðsforingja og sendur til að annast stjórn brautarstöðvar í Póllandi sem hét Auschwitz. Mikil umferð fór um þessa stöð, bæði til austurvígstöðvana og svo komu fullar lestir í sífellu með nýbúa til Ostland. Þetta voru bæði karlar, konur og börn, velklædd og með heilmikinn farangur.“

Allir sem komið hafa til Auschwitz vita að sjálfar búðirnar eru í um fjögurra kílómetra fjarlægð frá brautarstöðinni og þrefalt belti hárra aspa skyggir á búðirnar. Þegar hann kom heim að stríðinu loknu og heyrði hvað hafði átt sér stað þarna fékk hann svo alvarlegt taugaáfall, að hann dvaldi á geðsjúkrahúsi í sex ár, og jafnaði sig í reynd aldrei til fulls.

No feedback yet