« Skóli í Betlehem þarf að rífa mötuneytið vegna öryggisveggsinsStytta sem svitnar og sólarundur í Meðugorje? »

19.12.06

  10:47:12, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 439 orð  
Flokkur: Hjálparstarf

Hverjir þarfnast jólagjafa þessi jól?

Þórhildur Elín Elínardóttir skrifar bakþanka Fréttablaðsins í dag og að venju er pistill hennar athyglisverður. Hún skrifar: „Nú í jólaösinni þegar finna skal gjafir handa þeim sem bókstaflega eiga allt, getur verið góð hugmynd að gefa viðkomandi gjöf sem nýt[i]st öðrum sem raunverulega þurfa á aðstoð að halda. Með Hjálparstofnun kirkjunnar sem millilið er hægt að gefa snauðum í Afríku innlegg í lítinn bústofn í nafni þeirra sem við viljum gleðja.

Fátækar fjölskyldur í Malaví fá þannig geit eða hænu í nafni Dúdda frænda og Gunnu vinkonu. Í staðinn fá þau kort með upplýsingum um gjöfina og sól í hjarta í kaupbæti.“ [1]

Þetta er að sönnu athyglisverð hugmynd sem lýsir góðu og kristilegu hugarfari. Gott er að fá tækifæri til að styðja og hjálpa þeim sem á stuðningi þurfa að halda og vilja taka við slíku eða óska eftir því. En sagt er að kærleikurinn byrji heima og því miður sýna nýlegar fregnir um fátækt á Íslandi að fátækin knýr dyra á heimilum býsna margra meðborgara okkar þessi jól. Lítum aðeins á þessa frétt Fréttablaðsins frá 14. þ.m.:

Fátækt barna er fundin út frá því að foreldrar þeirra hafi ekki ráð á að veita þeim nauðsynleg lífsgæði. Tala fátækra barna í skýrslunni er reiknuð út frá ráðstöfunartekjum foreldra. Ef talan er eingöngu reiknuð út frá tekjum þeirra er hlutfall fátækra barna 12,7 prósent hér á landi. Hlutfallið lækkar um 6,1 prósent fyrir áhrif skattkerfisins, fyrst og fremst vegna barna- og vaxtabóta. [2]

Í fréttinni kemur ennfremur fram að fjármálaráðherra segir markmið ríkisstjórnarinnar sé að halda áfram að lækka skatta og á sama tíma að bæta hag þeirra fátæku í samfélaginu. Óskandi er að þetta markmið ríkisstjórnarinnar takist en þó opinberir aðilar sinni þessu þá getur það ekki fríað borgara þessa lands frá þeirri persónulegu ábyrgð að láta sig þetta varða með einhverjum hætti.

Ég minni að lokum á aðventusöfnun Caritas Ísland kaþólsku hjálparsamtakanna en þau safna um þessar mundir fyrir Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Sjá nánar hér: [Tengill]

[1] Hjálpum þeim. Þórhildur Elín Elínardóttir. Fréttablaðið 19. desember 2006, baksíða.
[2] Óvíst um aðgerðir gegn fátækt barna. Fréttablaðið 14. des. 2006.

No feedback yet