« Stytta sem svitnar og sólarundur í Meðugorje?Blessun heimila á þrettándanum »

17.12.06

  10:33:55, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 861 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni

Hverjir munu komast til stjarnanna?

Í októberhefti tímaritsins Sky & Telescope er greint frá því að Andrómeda vetrarbrautin stefni í átt til vetrarbrautar okkar og árekstur sé nær óumflýjanlegur. Spurningin sé aðeins hvenær hann verði [1]. Sem stendur er Andrómeda í um 2,5 milljóna ljósára fjarlægð en hún nálgast okkur með 120 kílómetra á sekúndna hraða (432000 kílómetra á klukkustund) en það er 4800 faldur mesti leyfilegur íslenskur hámarkshraði sem er 90 km. á klukkustund. Hætt er við að í þessu tilfelli dugi ekki að hringja í sýslumanninn.

Lengi hefur verið talið að líftími sólarinnar sé um 10 milljarðar ára og að sá tími sé um það bil hálfnaður. Miðað við þá útreikninga ættu að vera um 5 milljarðar ára eftir af tíma jarðarinnar þangað til hún stiknar vegna hinnar ört stækkandi sólar. Þessar nýju fréttir gætu bent til að tími jarðarinnar verði ef til vill ekki svo langur. Erfitt er að tímasetja áreksturinn nákvæmlega en í greininni eru leiddar líkur að því að fyrsta nánd við Andrómedu verði eftir þrjá milljarða ára. Ef áreksturinn verður ekki þá, þá verður hann trúlega nokkur hundruð milljónum ára síðar. Að lokum munu vetrarbrautirnar renna saman í eina. Við fyrstu nánd munu flóknar þyngdaraflsverkanir þeyta jörðinni framhjá miðju vetrarbrautarinnar. Næturhimininn mun smám saman breytast frá því að sýna tvær nálægar vetrarbrautir sem renna saman, þegar jörðin er langt í burtu frá miðjunni í það að sýna himin alprýddan björtum stjörnum þegar farið er framhjá miðjunni. Hvað gerist nákvæmlega er ómögulegt að segja. Hugsanlega munu þessir ofurkraftar þeyta sólinni út úr vetrarbrautinni en einnig er hugsanlegt að hún hitti fyrir svarthol á þessu ferðalagi sínu og þá er ekki að spyrja að leikslokum. Fjarlægðin milli stjarna í vetrarbrautunum er þó svo mikil að árekstur er ekki líklegasta útkoman.

Hvort sem tími jarðarinnar er 3 eða 5 milljarðar þá er ljóst að ef gengið er út frá vísindalegri þekkingu þá á hún ekki framtíðina fyrir sér ef talið er í milljörðum ára. Þetta er athyglisvert þegar horft er á trúarbrögðin, t.d. kristna trú en eitt höfuðeinkenna hennar og einn af helstu spádómum Jesú Krists er einmitt sá að þessi heimur muni eiga sinn 'dómsdag'.

Það kom því líklega fáum á óvart þegar eðlisfræðingurinn þekkti Steven Hawking sagði í viðtali við BBC nýlega að mannkynið yrði að nema aðrar plánetur til að komast af [2].

„Á meðan mannkynið býr aðeins á einni plánetu er langtímaafkoma þess í hættu,“ sagði Hawking. „Fyrr eða síðar kunna hamfarir, t.d. árekstur við smástirni eða kjarnorkustyrjöld, að þurrka okkur út. En þegar við förum út í geiminn og stofnum þar sjálfstæðar nýlendur verður framtíð okkar borgið.“

Þetta er haft eftir Hawking í frétt Morgunblaðsins af viðtalinu og í fréttinni kom fram að hann teldi að með efnis/andefniseyðingu verði hægt að ferðast því sem næst á ljóshraða. Hawking lýsti því einnig yfir fyrr á þessu ári að hann teldi að eftir 20 ár yrði maðurinn búinn að nema land á tunglinu og að hið sama myndi gerast á Mars að 40 árum liðnum [3].

Það er kannski fyrst þegar þetta markmið er sett fram sem erfiðar spurningar gætu farið að láta á sér kræla. Ekki bara tæknilegs eðlis heldur líka siðferðilegs. Spurningar sem gætu leitt til endurnýjunar á togstreitu milli þeirrar tegundar af heimshyggju sem setur traust sitt á manninn, hinn sterka og þá sterkustu - þá sem trúa á þessa heimssýn og stefna á að koma afkomendum sínum til fjarlægra stjarna og bjarga mannkyninu þannig frá útrýmingu. Þessar spurningar hljóta að varða til dæmis forgangsröðun fjármuna og svo að endingu hverjir eða hverra gen munu fá að fara til stjarnanna og í hvernig formi það verður.

Hætt er við að sókn í þessi markmið rekist á við hamingjuboðun kristinnar trúar um að láta hverjum degi nægja sína þjáningu og setja traust sitt fyrst og fremst á vonina um eilíft líf en ekki á þennan heim. Hann mun hvort eð er eyðast og hverfa hverjum einstaklingi fyrir sig með dauða hans og í heild sinni á dómsdegi. En þetta viðhorf hefur varðað lífsleið fjölda fólks til hamingju og mennsku gegnum aldirnar. Hugsanlega er meðvitundin um eigin mennsku og æðri tilgang hið eina sem getur gert hina efnislegu tilvist mannkynsins bærilega?

[1] The Great Milky Way Andromeda Collision. John Dubinski. Sky & Telescope. October 2006, bls. 30-36.
[2] Hawking: Mannkynið verður að nema aðrar plánetur til að komast af Morgunblaðið 30.11.2006.
[3] Hawking stjarna í Kína. Morgunblaðið 22. júní 2006.

7 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Fróðleg grein og vel skrifuð. Áhugavert efni, en ekki hef ég áhyggjur af því sem gerzt gæti eftir 3.000 milljónir ára – á ekki einu sinni að hafa áhyggjur af morgundeginum! En kalt talað gæti heimsendir okkar mannanna leikandi orðið fyrr en þetta, t.d. í allsherjar-kjarnorkustyrjöld. Sá möguleiki hlýtur að verða nærtækari, þegar fjölgar í “kjarnorkuklúbbnum", eins og nú virðist eiga sér stað – og nýliðarnir ekki allir af gæfulegasta tagi.

17.12.06 @ 12:33
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Já, ég verð að viðurkenna að ég næ því ekki alveg hvernig t.d. landnám á öðrum plánetum gæti forðað mannkyninu frá útrýmingu t.d. vegna stríðsógna. Á meðan við getum ekki lifað í sátt hér á jörðinni eru litlar líkur til að það takist annarsstaðar. Hægt væri að segja að við værum að flýja eigin vandamál eða jafnvel flytja þau út með því að koma hluta mannkynsins í burtu.

17.12.06 @ 13:33
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Já, og ætli það sé ekki líka harla langt ferðalag út fyrir Vetrarbrautina?

17.12.06 @ 15:01
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Það er óralangt og á þeim vegalengdum nægir ljóshraðinn engan veginn til langferða. Jafnvel innan sólkerfis okkar eru hæg samskipti við fjarlæg könnunarför til mikils vansa. Ég sá fyrir nokkru viðtal við Vint Cerf einn af höfundum Internetsins. Þar upplýsti hann að verið væri að hanna útgáfu af Internetinu til að nota á löngum leiðum innan sólkerfisins. Þar er stærsti vandinn hve ‘hægt’ ljósið og rafsegulbylgjur ferðast því merkin taka svo langan tíma að berast bara milli plánetanna.

Ferðalög á ljóshraða til sólkerfa innan vetrarbrautarinnar - og svo ég tali nú ekki um innan sameinaðra vetrarbrauta væru samt forvitnilegur valkostur fyrir fólk sem ekki er í mikilli tímaþröng og getur hugsað sér að verja nokkrum áratugum ævinnar í að fá að sjá næstu nágranna okkar sólar með eigin augum.

17.12.06 @ 22:48
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Myndu ekki öll slík loftför, sem ferðuðust á ljóshraða, brenna upp?

18.12.06 @ 09:33
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Jú, mesta hættan er að hitta fyrir rykkorn svo ekki sé talað um stærri hluti sem þar gætu verið á ferðinni. Sjá t.d. hér: [Tengill] .

19.12.06 @ 15:19
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Því má bæta við innleggið hér að framan að eftir því sem geimfararnir nálgast ljóshraðann meira því ‘hægar’ líður tíminn inni í geimfarinu m.t.t. jarðarinnar. Geimfararnir verða að sætta sig við það að jarðarbúar eldast hraðar en þeir. Sjá t.d. hér: [Tengill]

19.12.06 @ 15:25