« Heilagur Silúan starets á AþosfjalliRitningarlesturinn 24. september 2006 »

24.09.06

  08:56:34, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 865 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

„Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér“

Í tilefni Ritingarlesturs dagsins í dag (24. september) kemur upp í huga minn viðtal sem ég las fyrir fjölmörgum árum í dagblaði við sendiherrafrú eina. Eiginmanni hennar var boðið til Ísraels og meðan hann sinnti einhverjum opinberum erindagjörðum sáu þarlend yfirvöld um að hafa ofan af fyrir sendiherrafrúnni. Meðal annars var henni sýndur einn af þeim fjölmörgu stöðum í Jerúsalem þar sem fornleifafræðingar voru að störfum.

Fornleifafræðingurinn sem hafði yfirumsjón með uppgreftrinum greindi henni frá því að þeir hefðu rétt í þessu verið að finna líkamsleifar sjötíu sveinbarna sem komið hefði verið fyrir í fjöldagröf. Hann sagði henni að ísraelsku fornleifafræðingarnir og þar á meðal hann undruðust þennan fund mjög og gætu ekki varpað neinu ljósi á það, hvers vegna börnin hefðu verið grafin þarna, ef til vill sökum skæðrar farsóttar, en hvers vegna þá einungis sveinbörn? Þá kom sagan af barnamorðum Herodesar eins og greint er frá þeim í guðspjöllunum upp í huga hennar og hún hafði orð á þessu.

Ísraelsku fornleifafræðingarnir sem allir voru Gyðingar urðu furðu lostnir. Þrátt fyrir að þeir væru vel menntaðir um sögu þjóðar sinnar höfðu þeir aldrei heyrt getið um þessa frásögn vegna þess að Gyðingar forðast eins og heitan eldinn að lesa guðspjöllin. Þeir sem fara hamförum um heiminn í dag til að boða dauðamenningu fósturdeyðinganna hafa hins vegar flestir heyrt frásögnina af Jesúbarninu í grashálmi jötunnar. Samt er engu líkara en að þeir séu slegnir blindu.

Þetta er rétta orðið, já, nákvæmlega rétta orðið: Andleg blinda! Hana má rekja til óvinar alls lífs – Satans – sem blindar mannshjartað með tælingum sínum, eða með orðum sjálfs Drottins: „En það sem út fer af munni, kemur frá hjartanu. Og slíkt saurgar manninn. Því að frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi. Þetta er það, sem saurgar manninn“ (Mt 15. 18-19).

Á sínum tíma stóð Herodes ógn af barninu í grashálmi jötunnar – Jesúbarninu! Því greip hann til þess úrræðis sem dauðamenningin gerir ávallt: Að drepa. Hann lét myrða öll sveinbörn í sínu eigin ríki vegna þess að hann taldi að bundinn yrði endir á sinn eigin konungdóm með þessu barni. Fulltrúar Evrópubandalagsins sem boðað hafa ákaft „fagnaðarerindi“ dauðamenningarinnar í Suðurameríku í því pólitíska tómarúmi sem skapast hefur eftir að Bandaríkjamenn trylltust í Írak, hafa skilyrt alla efnahagshjálp við þessi lönd því, að þau tækju upp fósturdeyðingar af sama ofsa og þeir gera á sínum eigin heimaslóðum. Nýjasta afrekið er að öllum stúlkum fjórtán ára og eldri er nú afhent dauðapillan ókeypis í Chíle (Að sjálfsögðu borga evrópskir skattborgarar brúsann).

Hversu lengi geta ráðamenn þjóðanna blekkt almenning með lygum sínum? Það er ekki gott að segja, en þegar almenningi í viðkomandi löndum verður loks ljóst að þeir hafa stundað blekkingarleit rís hann upp af þunga og snýst gegn sömu stjórnvöldum. Þetta gerðist í Thailandi í s. l. viku þegar Thaksin Shinawatra var hrakinn frá völdum. Stjórnmálamenn sem standa í þeirri trú að þeir geti logið og prettað þjóðir sínar til að komast til æðstu valda og haldið völdum hafa skelfilega rangt fyrir sér. Það er einungis tímaspursmál þar til þeir falla og fall þeirra verður mikið. Sama sjáum við gerast í Ungverjalandi þessa dagana þar sem forsætisráðherrann laug að þjóðinni til að sigra í þingkosningum.

Hið sama mun gerast í Evrópu þegar almenningi verður ljóst að þau öfl sem komust illu heilli til valda í Evrópubandalaginu eru að drekkja eigin þjóðum í blóði fósturdeyðinganna. Hví þessi ofsi, hví þetta æði að útbreiða dauðamenninguna? Það er sökum þess að höfðingja þeirra – Satan – er ljóst að tími hans er að renna út. Hann var sigraður fyrir 2000 árum á fórnarhæð krossins en nú á tímum náðarinnar er mannkyninu enn gefið val í mætti síns frjálsa vilja: Að kjósa á milli LÍFSINS OG DAUÐANS.

Við skulum taka áþreifanlegt dæmi úr nýliðinni sögu. Þjóðverjum var það ljóst þegar um mitt ár 1944 að sigurinn var runninn þeim úr greipum. Samt börðust þeir af enn meiri ofsa allt fram í apríl 1945. Hið sama gildir um óvin alls lífs og fylgisveina hans. Dauðahryglur þessa óþokkaflokks skekja heimsbyggðina nú um sinn meðan svartenglar illskunnar berjast um á hæl og hnakka í hlekkjum sínum. Þetta eru fæðingarhríðir nýrrar heimsskipunar FRIÐARHÖFÐINGJANS MIKLA OG UPPSPRETTU ALLS LÍFS.

4 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér, Jón, lesturinn, og margt vefurðu þarna réttilega inn í, en ég vil líka sérstaklega þakka þér ábendinguna um sveinbörnin sjötíu, sem fundust í gröfinni – það hafði ég ekki heyrt áður, en er mjög merkilegt, og væri fróðlegt að fá meiri vitneskju um þetta.

24.09.06 @ 11:19
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þetta var kona Péturs J. Thorsteinssonar sendiherra. Því miður man ég ekki lengur hvað hún heitir.

24.09.06 @ 12:07
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Oddný Thorsteinsson.

24.09.06 @ 15:40
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Já, þakka þér fyrir. Minnið brást mér og ég mundi ekki nafn þessarar merkiskonu.

24.09.06 @ 18:27