« Dagur ófæddra barna er 25. mars (Boðunardagur Maríu Guðsmóður)Lögmál lífsins Anda (Rm 8. 2) »

22.03.06

  15:28:10, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 593 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir

Guðspjall Jesú Krists þann 23. mars er úr Lúkasarguðspjalli 11. 14-23

Jesús var að reka út illan anda, og var sá mállaus. Þegar illi andinn var út farinn, tók málleysinginn að mæla, og undraðist mannfjöldinn. En sumir þeirra sögðu: „Með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda, rekur hann út illu andana.“ En aðrir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni. En hann vissi hugrenningar þeirra og sagði við þá: „Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hús fellur á hús. Sé nú Satan sjálfum sér sundurþykkur, hvernig fær ríki hans þá staðist - fyrst þér segið, að ég reki illu andana út með fulltingi Beelsebúls? En reki ég illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar. En ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið. Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði, sem hann á, en ráðist annar honum sterkari á hann og sigri hann, tekur sá alvæpni hans, er hann treysti á, og skiptir herfanginu. Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.

Hugleiðing
Jesús gerir okkur það ljóst hér tæpitungulaust að enginn getur verið hlutlaus eða afstöðulaus. Annað hvort skipum við okkur í flokk með Jesú, eða í flokk andstæðinga hans. Hér er ekki um neina málamiðlun að ræða. Annað hvort berjumst við fyrir ríki Guðs eða berjumst gegn því. Ríkin eru einungis tvö: Guðsríkið eða ríki Satans. Ef við höfnum því að hlýðnast boðorðum Krists, ljúkum við upp hliðinu fyrir valdi syndarinnar og Satans. Ef við viljum öðlast frelsi frá syndinni og Satan verður það að vera Jesús sem er húsbóndinn í okkar eigin húsi eða hjarta þar sem hann er Drottinn okkar og Frelsari. Hver er húsbóndi yfir þínu hjarta kæri lesandi?

En það sem út fer af munninum, kemur frá hjartanu. Og slíkt saurgar manninn. Því að frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi (Mt 15. 18, 19).

Margir nútímamenn bera betur skyn á illa anda sem „isma.“ Við greinum skjótt hvort sú afstaða sem birtist í „ismunum“ er komið frá Jesú eða ekki. Er einhver sem getur haldið því fram í fullri alvöru að fóstureyðingar séu komnar frá Jesú? „Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.“

En þetta hefi ég boðið þeim: Hlýðið minni raust, þá skal ég vera yður Guð og þér skuluð vera mín þjóð, og gangið jafnan á þeim vegi, sem ég býð yður, til þess að yður vegni vel. En þeir heyrðu ekki og lögðu ekki við eyrun, en fóru eftir vélráðum síns illa hjarta, og snéru við mér bakinu, en ekki andlitinu (Jer 7. 23- 28)

VEGIRNIR ERU AÐEINS TVEIR: VEGUR LÍFSINS OG VEGUR DAUÐANS OG ENGINN GETUR GENGIÐ ÞÁ BÁÐA SAMTÍMIS

No feedback yet