« Engill GuðsFerðabæn »

23.04.08

  12:58:38, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 624 orð  
Flokkur: Vegurinn, sannleikurinn og lífið

"Hver mun frelsa mig frá þessum dauðans líkama?

Kafli úr bókinni VEGURINN, SANNLEIKURINN OG LÍFIÐ sem er trúfræðslurit um kaþólska trú (1981).

(7. k.)

"……… Þó að maðurinn hafi eignast allt það, sem lífið hefur að bjóða, er hann ekki þar með laus við alla óánægju. Hvernig skyldi annars standa á því að menn, sem allt geta látið eftir sér, velja þann kost að yfirgefa lífið af frjálsum vilja? Á því er ekki til önnur skýring en sú að ekkert sem á jörðu finnst getur fullnægt manninum, ekkert af því getur veitt honum það yndi að hann þrái ekkert eða vænti sér einskis fram yfir það.

Af því sjáum við ljóslega að raunveruleg fylling lífsins hlýtur að eiga sér einhverjar aðrar rætur. Það er sama, hvað við tökum til bragðs; ef við ætlum að treysta á vöntunarkennd sem í okkur býr. Samkvæmt því sem í Biblíunni segir, mun manninum aldrei lánast að endurnýja líf sitt af eigin rammleik. Páll postuli lýsir þessari ófullnægðu þrá í Rómverjabréfinu, er hann hrópar: ………

……… "Ég aumur maður! Hver mun frelsa mig frá þessum dauðans líkama?" (Róm. 7,24). Synd og dauði eru Páli ímynd ófrelsis, þvingunar og tilgangsleysis.

En þýðir þá eitthvað að leita að tilgangi, nýju lífi eða einhverju algeru, eða er sú leit kannske sama og reyna að komast undir endann á regnboganum? Hafa framfarirnar ekki alltaf haft nýjan háska í för með sér? Hugsum bara um mengun, geislavirkni og afleiðingar hennar á líkamann, spillingu andrúmslofts í stórborgum og þar fram eftir götunum. Við lifum og hrærumst í óhollustu. Því skal hinsvegar ekki neitað, að við finnum okkur vera frjálsari, leyst úr fjötrum, ef við berum okkur saman við fólk liðinna alda, en hafa þá ekki nýir klafar verið lagðir á herðar okkar, klafar neyslu, afkasta, félagslegrar aðlögunar o.s.frv.? Viðleitni okkar til að losa sjálf okkur úr fjötrunum leiðir okkur oft úr einu þrældómshúsinu inn í annað, leggur á okkur nýja fjötra ofbeldis og kúgunar (athugum í því sambandi kröfur manna um byltingu).


Til er leið sem liggur fram á við

Ef við skoðum sjálf okkur og getu okkar, höfum við sannarlega gilda ástæðu til þess að efast um að framtíðarvonir okkar geti ræst. Við eigum eflaust eftir að vera vitni að nýjum framförum, en ekki að neinni grundvallarbreytingu í stöðugri leit okkar að hamingjunni. Við höfum þegar leitað í svo mörgum blindgötum að við eigum ekkert á hættu þótt við skoðum nokkru nánar þá fyrirmynd mannlegs frelsis og framtíðar sem Kristur býður okkur að athuga.

Hann lítur nefnilega ekki á þrá okkar eftir raunverulegri fullkomnun lífsins sem óskadraum, er aldrei geti ræst, heldur sem framkvæmanlegan möguleika og það á okkar tímum.

Við getum dregið boðskap hans saman í stutt mál og sagt: Þar sem ríki Guðs verður að veruleika, auðnast einnig manninum að fullkomnast. Hið "nýja líf" er þegar fyrir hendi í Jesú (sjá Jóh.1,4). Hann segir: "Ég er kominn til þess að þeir hafi líf og hafi nægtir" (Jóh.10,10). Og þetta líf merkir frelsun (sjá Lúk. 4, 8 og áfram). Þegar Jesús heldur upphafsræðu sína, notfærir hann sér orð Jesaja spámanns og segir að hann hafi verið sendur til þess að boða föngum frelsi, blindum ljós augna þeirra að nýju og þjáðum lausn. ………"

No feedback yet