« Klámþing á Íslandi?Hinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar: Benedikt frá Aniane »

18.02.07

  14:06:55, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 470 orð  
Flokkur: Pjetur Hafstein Lárusson

Hvar stöndum við Íslendingar varðandi líðan barna?

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur nú birt skýrslu um líðan barna í rúmlega tuttugu iðnvæddum ríkjum. Skýrslan er kennd við Jonathan Bradshaw, prófessor við háskólann í Jórvík. Í henni kemur fram, að líðan barna er áberandi verst í tveimur hinna iðnvæddu samfélaga, sem rannsökuð voru, þ.e.a.s. í Bretlandi og Bandaríkjunum.

Kemur þetta fram í áfengisdrykkju barna, eiturlyfjaneyslu þeirra og vantrú á umhverfið. Börnin treysta ekki öðru fólki, hvorki í hópi jafnaldra sinna né annarra. Þá er menntun barna í þessum tveimur af ríkustu og voldugustu þjóðum heims áberandi slök.

Nú er ekki ástæða til að ætla, að Bretar og Bandaríkjamenn séu ver af Guði gerðir en annað fólk. Því liggur það væntanlega í hlutarins eðli, að skýringarinnar á niðurstöðu Bradshawskýrslunnar er að leita í samfélagsgerð þessara landa. Athyglisvert er, að samkvæmt skýrslunni er líðan barna best í Svíþjóð. Hvað er það þá, sem skilur að, annars vegar Bretland og Bandaríkin og hins vegar Svíþjóð? Svarið liggur að mínu viti í því, að í Bretlandi og Bandaríkjunum ríkir sterk auðhyggja, sem sumir kjósa að kalla frjálshyggju, meðan Svíar búa við áratuga hefð jöfnuðar.

En hvar stöndum við Íslendingar í þessum efnum? Ekki er að sjá, að það hafi verið kannað í skýrslu Bradshaws og er það skaði. En við getum þó lesið í eyðurnar. Neysluhyggja hefur stóraukist í landinu. Þá hefur launamismunur aukist stórkostlega. En á sama tíma og launamismunur eykst, minnkar eyðslumunur hinna ríku og þeirra, sem minna mega sín fjárhagslega. Hvernig má það vera? Jú, fólk slær einfaldlega lán, til að geta lifað um efni fram. Svo má heldur ekki gleyma því, að enda þótt fjárhagur fólks standi í mörgum tilfellum undir eyðslunni, þá tekur hún tíma, sem oft hefði verið betur varið með börnunum.

Samtímis þessu fjölgar nemendum í sérdeildum grunnskólanna. Meðan foreldrarnir eru á eyðslufylliríi, hlaðast vandamálin upp hjá tilfinningalega vanræktum börnunum. Og svo á skólinn að leysa málið. Grunnskólinn er því ekki lengur einvörðungu menntastofnun heldur einnig uppeldisstofnun gagnvart stöðugt stækkandi hópi barna og unglinga. Leiðir þetta ekki til slakari menntunar í öllu skólakerfinu? Er ef til vill ástæða til að staldra við þá staðhæfingu, að unga fólkið hafi aldrei verið menntaðra en einmitt nú? Eða er menntun eingöngu sérhæfing? Er það liðin tíð að menntun sé næring sálarinnar?

Pjetur Hafstein Lárusson.

Færslan birtist áður á bloggsíðu Pjeturs: http://hafstein.blog.is

1 athugasemd

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Pjetur bætti eftirfarandi færslu við á bloggsíðu sinni http://hafstein.blog.is sem tengist þessari grein:

Nú varð mér á í messunni. Í spjalli mínu í gær, fjallaði ég um skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna varðandi líðan barna í ríkustu löndum heims. Þegar ég fór að athuga málið betur, koma í ljós nokkrar villur, sem stafa af ónákvæmni. Í fyrsta lagi er Svíþjóð ekki í efsta sæti, hvað varðar vellíðan barna, heldur í öðru sæti. Hollendingar tróna á toppnum, en Danir koma í þriðja sæti. Þetta breytir ekki miklu og alls engu, hvað varðar samfélagsgerð þeirra þjóða, sem best koma út úr könnunni og hinna, sem lakast standa. En rétt skal vera rétt. Þá virðist svo sem Íslendingar hafi tekið einhvern þátt í könnunni, en svo takmarkaðan, að ekki er hægt að telja okkur með, nema að nokkru leyti.

Við Íslendingar lendum í næst efsta sæti, hvað varðar líkamlega heilsu barna og er það vel. Reyndar óttast ég, að tannheilsa sé þar undanskilin. Hvað menntun varðar erum við slök, eða í 13. sæti af 24 þjóðum. Skyldi það ekki vera í samhengi við það, að við erum næst neðst á listanum, þegar kemur að samræðustundum barna og foreldra? Heimilin eru nefnilega sá grunnur, sem menntun er helst reist á. Þá kemur fram, að yfir 10% íslenskra barna þjáist af einmanaleik, sem er tvöfalt á við það sem gerist í hinum löndunum.

Merkilegt er, að íslensk yfirvöld hafa ekki séð ástæðu til að skila inn upplýsingum um efnahag fólks. Má ef til vill ekki fjalla um aukna misskiptingu veraldlegra gæða í tíð núverandi ríkisstjórnar? Og fyrst ég er farinn að tala á þessum nótum: Hvaða ályktun draga þeir Samfylkingarmenn, sem aðhyllast þá þjóðfélagsgerð, sem gjarnan er kennd við Tony Blair af því, að Bretar koma verst út úr þessari könnun?

(Birt með leyfi PHL).

19.02.07 @ 20:19