« Um friðarboðskap kristninnar - III. hluti - höfnun ágirndar og öfundarUm friðarboðskap kristninnar - II. hluti - höfnun reiðinnar »

25.10.07

  15:13:51, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 262 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

Hvar eru kaþólikkarnir?

Í nýlegri greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að um 22.000 skráðir erlendir ríkisborgarar eru nú búsettir á landinu. Langflestir þeirra sem koma til starfa hingað til lands frá ríkjum utan gamla evrópska efnahagssvæðisins koma frá Póllandi [1] Í nýlega útgefnu Merki krossins tímariti kaþólsku kirkjunnar á Íslandi kemur fram að í árslok 2006 er heildarfjöldi kaþólskra sagður 7.283. [2] Ef hlutfall kaþólskra meðal hinna erlendu verkamanna er varlega áætlað um 50% sem er ekki fráleitt því margir þeirra koma frá Póllandi þá ættu kaþólikkarnir samt að vera um 11.000 en nú er vitað að í landinu er fyrir margt kaþólskt fólk sem er ríkisborgarar. Það er því ekki fráleitt miðað við þessar tölur að giska á að í landinu séu að minnsta kosti 10.000 kaþólikkar jafnvel enn fleiri.

Þarna kemur fram ósamræmi í tölum því þær benda til að það vanti þúsundir manna í skrár kaþólsku kirkjunnar. Hvernig má þetta vera? Getur hugsast að trúfélagsskráningu sé ábótavant við skráningu þessa fólks hjá yfirvöldum? Getur hugsast að ekki sé spurt um trúfélag heldur trúarbrögð? Ef hið síðara er rétt og erlendir verkamenn segjast vera kristnir eru þeir þá skráðir í Þjóðkirkjuna? Sögusagnir um þetta eru nú þegar á kreiki og það hlýtur að vera kappsmál bæði kaþólsku kirkjunnar, Þjóðkirkjunnar og Hagstofunnar að þetta verði rannsakað og leiðréttingar gerðar ef misræmi kemur í ljós.

[1] [Tengill]
[2] Merki krossins 1. hefti 2007 bls. 61.

3 athugasemdir

Athugasemd from: Hjalti Rúnar Ómarsson  
Hjalti Rúnar Ómarsson

Það mætti endilega fara að skoða trúfélagsskráningarmálin. Samkvæmt trúarlífskönnunum eru ~45% Íslendinga á þeirri skoðun að Jesús sé sonur guðs og frelsari.

Þar af leiðandi eru amk ~55% Íslendingar ekki kristnir. Samt eru ~90% skráðir í kristin trúfélög.

Finnst þér ekki að það ætti að gera eitthvað í þessu?

27.10.07 @ 22:21
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég held að ákvarðanir sem þessar séu eitthvað sem fólk á við sig sjálft og best sé að það taki án nokkurs þrýstings eða fljótfærni.

Persónulega er ég því andsnúinn að þrýsta á fólk að það breyti trúfélagsskráningu sinni í hvaða átt sem það fer. Það er í lagi að veita upplýsingar og miðla þeim og boða trú beint og eða með óbeinni starfsemi en þar með er það upp talið sem trúfélög geta gert til að breiða út skoðanir sínar. Frumkvæðið að því að trúa eða að vilja trúa verður að koma frá einstaklingnum sjálfum og ákvörðun hans um val á trúfélagi eða trúarbrögðum verður að vera tekin í fullvissu, án alls þrýstings og fá þann tíma sem hún þarf. Ella er hætt við að viðkomandi sjái eftir þessu skrefi síðar og þá er verr farið af stað en heima setið. Þeir sem þrýsta á fólk að skipta um trú fá aldrei góðan dóm í sögunni. Í ensku er t.d. talað um ‘prozelytism’ orð sem við eigum ekki til í íslensku en er notað yfir þá hugsun þegar fólk er beitt einhverjum þrýstingi eða óheilindum af einhverju tagi til að skipta um trú. Frægar að endemum eru t.d. aðferðir Breta á Írlandi í byrjun síðustu aldar þar sem þeir buðu mönnum matardisk fyrir að breyta trúfélagsskráningu sinni.

Þó fólk svari spurningu léttilega í skoðanakönnun þá þarf það greinilega ekki að hafa þær afleiðingar að það fari eftir það upp á Hagstofu og breyti um trúfélagsskráningu. Af hverju það gerist er trúlega flókið mál að svara og svörin sennilega bæði mörg og mis flókin en það gæti verið verðugt rannsóknarverkefni fyrir félagsfræðinga að grafast fyrir um þau. Ég hef þau alla vega ekki á takteinum.

30.10.07 @ 20:11
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Mér var sagt í dag að trúfélagsskráning margra erlendra verkamanna væri ófrágengin. Slæmt ef rétt er en það bendir til að þetta umrædda misræmi í fjölda kaþólskra stafi frekar af því að þessi mál séu ófrágengin en ekki að um sé að ræða rangar skráningar. Spurning hver ber ábyrgð á því ef trúfélagsskráning hundruða eða þúsunda er ófrágengin?

11.11.07 @ 18:48