« Vatíkanið við Sameinuðu þjóðirnar: Hagið ykkur nú skynsamlega og hættið fólksfækkunaræðinuMeð lögum skal land byggja, en með ólögum eyða »

07.04.06

  14:31:06, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 594 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

„Hvað haldið þér? Skyldi hann ekki koma til hátíðarinnar?“

Guðspjall Jesú Krists þann 8. apríl er úr Jóhannesarguðspjalli 11. 45-56

Margir Gyðingar, sem komnir voru til Maríu og sáu það, sem Jesús gjörði, tóku nú að trúa á hann. En nokkrir þeirra fóru til farísea og sögðu þeim, hvað hann hafði gjört. Æðstu prestarnir og farísearnir kölluðu þá saman ráðið og sögðu: „Hvað eigum vér að gjöra? Þessi maður gjörir mörg tákn. Ef vér leyfum honum að halda svo áfram, munu allir trúa á hann, og þá koma Rómverjar og taka bæði helgidóm vorn og þjóð.“ En einn þeirra, Kaífas, sem það ár var æðsti prestur, sagði við þá: „Þér vitið ekkert og hugsið ekkert um það, að yður er betra, að einn maður deyi fyrir lýðinn, en að öll þjóðin tortímist.“ Þetta sagði hann ekki af sjálfum sér, en þar sem hann var æðsti prestur það ár, gat hann spáð því, að Jesús mundi deyja fyrir þjóðina, og ekki fyrir þjóðina eina, heldur og til að safna saman í eitt dreifðum börnum Guðs. Upp frá þeim degi voru þeir ráðnir í að taka hann af lífi. Jesús gekk því ekki lengur um meðal Gyðinga á almannafæri, heldur fór hann þaðan til staðar í grennd við eyðimörkina, í þorp sem heitir Efraím, og þar dvaldist hann með lærisveinum sínum. Nú nálguðust páskar Gyðinga, og margir fóru úr sveitinni upp til Jerúsalem fyrir páskana til að hreinsa sig. Menn leituðu að Jesú og sögðu sín á milli í helgidóminum: „Hvað haldið þér? Skyldi hann ekki koma til hátíðarinnar?“

Hugleiðing
Í dag þegar ég gáði í póstkassann minn beið ávísun eftir mér frá einum af bönkunum. Á hana er skrifuð 2000 krónu upphæð, gjöf til fermingarbarns. Hún minnti mig á tvennt í senn. Í fyrsta lagi að kyrravikan hefst næstkomandi mánudag. En hún minnti mig einnig á aðra ávísun, sem er ávísun á HIÐ EILÍFA LÍF og var gefin út fyrir 2000 árum á fórnarhæð krossins. Hún er einnig gjöf – náðargjöf – sem sá ávann okkur sem úthellti blóði sínu með píslum sínum á krosstrénu svo að við yrðum heil að nýju og grædd eftir ódæðisverk óvinar alls lífs: Satans.

„Hvað haldið þér? Skyldi hann ekki koma?“ Þetta var sú spurning sem brann í hjarta Ísrael vegna þess að spámennirnir höfðu sagt fyrir um komu hans: „Og bústaður minn skal vera hjá þeim, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð“ (Esk 37. 27). Senn verður haldin að nýju hátíð: „Hvað haldið þér? Skyldi hann ekki koma til hátíðarinnar?“ Það ræðst af því hvort við elskum krossinn eða ekki. Sóknarpresturinn frá Ars (Curé de Ars) sagði: „Við skulum elska krossinn. Hann er gjöf Guðs til vina sinna.“ Og hann bætti við: „Krossinn er stiginn til himna. Sá sem elskar ekki krossinn, getur ef til vill frelsast, en einungis með miklu erfiði (í hreinsunareldinum). En hann mun einungis verða lítil og dauf stjarna á himnum. Sá sem hefur þjáðst og barist fyrir Krist mun skína eins og sól í fegurð sinni.“

No feedback yet