« Kínverskir embættismenn staðfesta viðræður við PáfagarðDellufrétt um nýjar dauðasyndir flýgur um heimsbyggðina »

15.03.08

  20:30:54, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 331 orð  
Flokkur: Kenning kirkjunnar

Misskilningur fjölmiðla í viðtalinu við Girotti erkisbiskup

Nýlegar furðufregnir um að Páfagarður hafi skilgreint sjö nýjar dauðasyndir sem annað hvort áttu að bætast við þær hefðbundnu sjö sem fyrir voru eða skipta þeim alveg út voru byggðar á viðtali við Girotti erkibiskup sem birtist í málgagni Páfagarðs. Það sem fjölmiðlamenn misskildu í málinu var að halda að embættismaður í Páfagarði gæti gefið út nýjar kenningar fyrir kirkjuna. Almennur lesandi þessara fregna hefði því getað haldið að synd í kaþólskum skilningi væri ekkert annað en brot á reglum sem hópur manna í Páfagarði hefði samið. Í anda þess misskilnings væri synd háð duttlungum þeirra manna sem þar réðu hverju sinni. Sjá má glöggt dæmi þess misskilnings hér: [1]

En slíkur skilningur á syndinni er fjarri því að vera réttur. Í Trúfræðsluriti kirkjunnar segir að synd sé

„misgjörð gegn skynsemi, sannleika og réttsýnni samvisku; hún er vanræksla á sönnum kærleika til Guðs og náungans sem siðspillandi tengsl við viss gæði valda. Hún særir eðli mannsins og skaðar samstöðu meðal mannanna. Hún hefur verið skilgreind sem "tjáning, gjörð eða löngun sem stríðir gegn hinu eilífa lögmáli.”[2]

Það sem er synd í dag verður það einnig á morgun og dauðasynd verður alltaf dauðasynd. Girotti erkibiskup ræddi um nýjar syndir í þeim skilningi að þær aðstæður sem gætu skapað þær hafi annað hvort ekki verið fyrir hendi áður eða ekki í jafn miklum mæli og nú er raunin. Hann undirstrikaði einnig að kaþólskir þyrftu að endurglæða skilning sinn á syndinni, ganga til skrifta og fá aflausn þeirra.

Byggt á grein í Catholic World News. Sjá hér: http://www.cwnews.com/news/viewstory.cfm?recnum=57130

[2] Sjá: http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/1699.html#8 grein 1849

No feedback yet