« Um tjáningarfrelsið og guðlastsákvæðinPáfagarður fordæmir myndbirtingarnar og ofbeldið »

11.02.06

  21:33:18, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 936 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Sakramentin, Hjónabandssakramentið

Hvað er kaþólskt hjónaband?

Hjörtur Magni Jóhannsson forstöðumaður og prestur Fríkirkjunnar í Reykjavík ritaði grein í Morgunblaðið [1] um réttindamál samkynhneigðra föstud. 10. febr. sl. Í röksemdafærslu vék forstöðumaðurinn að kaþólsku hjónabandi í umfjöllun sinni um grein Steinunnar B. Jóhannsdóttur (Mbl. 21.01. 2006) og sagði:

"Hér er hörfað langt aftur fyrir lúterska siðbreytingu og í faðm kaþólsku miðaldarkirkjunnar í leit að rökum og réttlætingu. Samkvæmt þeirri skilgreiningu er hjónabandið sakramenti kirkjustofnunarinnar, helgað þeim eina megintilgangi að fjölga mannkyni. Þannig er eini tilgangur kynlífs einnig sá að viðhalda mannkyni með því að búa til börn. Lútherskur skilningur á hjónabandi er allt annar.

Lúter breytti rétt

Marteinn Lúter afnam sakramentisskilning hjónabandsins. Hann losaði það undan drottnunarvaldi kirkjustofnunarinnar. Hann krafðist frelsis hins kristna manns undan þeirri þröngsýnu kirkjustjórn sem setti sjálfa sig og kristindómstúlkun sína ofar Guði [..] Þess vegna er hjónaband samkvæmt evengelísk-lúterskum skilningi fyrst og fremst kærleikssáttmáli gerður af tveim jafnréttháum og jafnupplýstum einstaklingum."

Svo gæti virst við lestur þessara setninga sem kaþólska miðaldakirkjan hafi verið býsna villuráfandi hvað varðar hjónabandið. Í þeim heimildum sem kaþólska kirkjan á Íslandi hefur gefið út finnst þó ekkert sem bendir til að skilningur kaþólsku miðaldakirkjunnar hvað hjónabandið varðar hafi í meginatriðum verið annar en hann var aldirnar á undan, né heldur en hann er í dag þó svo að hjónavígsla hafi ekki verði staðfest sem sakramenti fyrr en á 12. öld.

Byrjum aðeins á því að athuga hvað Ferdinand Krenzer [2] segir um þetta atriði:

"Það var ekki fyrr en á 12. öld sem eðli sakramentanna og tilhögun þeirra voru skilgreind. Þá var ákveðið að hjónavígslan skyldi teljast til sakramentanna sjö. En samkvæmt því sem í ljós kemur við rannsókn þess máls, er miklu lengra síðan farið var að líta þeim augum á hjónavígsluna. Jafnvel kirkjufeðurnir tala um að fyrir atbeina Krists fylgi sérstök náð hjónabandinu. Og meira að segja í rétttrúnaðarkirkjunum (orþodoxu k.) sem sumar hverjar klufu sig frá rómversku kirkjunni á 4. öld, er litið svo á að sakramentin séu sjö og hjónavígslan sé eitt þeirra. Þess vegna hlýtur að hafa verið til erfikenning, þegar á þeim tímum, sem skipaði hjónavígslunni í hóp með hinum sakramentunum."

Ekki skortir heimildir fyrir áhugasama að kynna sér eðli og inntak kaþólsks hjónabands. Byrjum á að athuga hvað Dóminíkananunnan Catharina Broomé segir m.a.:

"Hjúskapurinn er samfélag lífs og kærleika, stofnaður af Guði í Paradís og helgaður af Kristi. Hann felur í sér mikinn leyndardóm sem bendir til 'Krists og kirkjunnar' (Ef 5. 32; orðið 'leyndardómur', mysterion á grísku samsvarar sacramentum á latínu). Það tilheyrir náttúrlegu eðli kærleikans í hjónabandinu að hann vill vera trúr, að hann vill endast alla ævi og að hann lítur á börnin sem fullkomnun sína [..] Samkvæmt skoðunum kaþólsku kirkjunnar er hjónabandið auk þess leið til dýpri einingar við Krist. Kærleikur hans til brúðarinnar, kirkjunnar, endurspeglast í kærleika makanna hvors til annars [..] Í samfélaginu við Krist sækja þau sér styrk þegar erfiðleikar sækja að, trúin og kærleikurinn dýpkar og helgast í gagnkvæmum ávinningi þar sem þau eru jafningjar. „Það er á þann hátt sem þau leggja saman sinn skerf til að vegsama Guð“ (Gaudium et spes, 48). Þegar þau uppörva og styðja hvort annað og fyrirgefa hvort öðru, þroskast þau innra með sér, læra að temja sér ósíngirni og uplifa saman gleði sköpunarinnar." [3]

Hérna kemur fram að orðið 'leyndardómur' (g:mysterion, l:sacramentum), er notað um hjónabandið í bréfi Páls postula til Efesusmanna. Hér kemur einnig fram að hjónabandið sé samfélag lífs og kærleika, dýpri leið til einingar við Krist sem og að hjónabandskærleikinn fullkomnist í börnunum. Þeir sem vilja lesa meira um kaþólskt hjónaband eins og það er í dag geta kynnt sér texta kaþólska trúfræðsluritsins á netinu [4], sem og nýlegt hirðisbréf kaþólskra biskupa Norðurlanda um fjölskylduna og hjónabandið, einnig á netinu [5]. Fróðlegt væri að fá fram athugasemdir og nánari skoðun á því hvort að kaþólska miðaldakirkjan hafi haft annan skilning á hjónabandshugtakinu en þann sem hann er í dag og var í öndverðu, skoðanir á því hvort að kaþólskt hjónaband hafi verið helgað þeim eina megintilgangi að fjölga mannkyni sem og hvort sú hugmynd að hjónabandið sé kærleikssáttmáli sé fyrst og fremst til komin vegna aðgerða Marteins Lúters.

RGB/Heimildir
[1] Réttindamál samkynhneigðra. Hjörtur Magni Jóhannsson. Morgunblaðið, föstud. 10. febrúar 2006. Bls. 33.
[2] Vegurinn, sannleikurinn og lífið. Fræðslurit um kaþólska trú. Höf. Ferdinand Krenzer. Torfi Ólafsson þýddi. Útg. Kaþólska kirkjan á Íslandi 1981. Bls. 377.
[3] Kaþólskur siður. Catharina Broomé. Torfi Ólafsson þýddi. Útg. Þorlákssjóður 1995. Bls. 150.
[4] Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar - hjónabandssakramentið. http://mariu.kirkju.net
[5] Kærleikurinn til lífsins Hirðisbréf biskupa Norðurlanda um hjónabandið og fjölskylduna. http://www.vortex.is/catholica

16 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Athugasemd um sakramentin eða leyndardómana. Það sem Hjörtur Magni Kristjánsson heldur fram er alrangt. Það var hl. Kýrillos frá Jerúsalem (315-387?) sem varpar góðu ljósi á eðli og inntak sakramentanna. Í riti sínu Trúfræðinni hinni meiri fjallar hann ítarlega um þrjú sakramentanna: Skírnina, ferminguna og efkaristíuna. Þar kemur sami skilningurinn fram eins og enn í dag: Að þau séu sérstök leið til helgunar, eins og sjá má í þessari tilvitnun um efkaristíuna:

Gef oss í dag okkar yfirskynræna brauð. Hið venjulega brauð er ekki yfirskynrænt, en þetta Heilaga brauð er yfirskynrænt, það er að segja ætlað sálinni til næringar. Þetta Brauð fer ekki niður í vömbina og þaðan í safnþróna (Mt 15. 17), heldur fer um allt sem þið eruð líkamanum og sálinni til uppbyggingar. En með þessum degi á hann við „sérhvern dag“ eins og Páll sagði, meðan  enn heitir „í dag“ (Heb 3. 13). [1]

Þrátt fyrir að endanleg skilgreining sakramentanna sem trúarsetninga hafi ekki legið fyrir fyrr en á tólftu öld, var þetta sannleikur sem lifði í hjarta kirkjunnar frá upphafi. Í gegnum alla kirkjusöguna gripu kirkjuþingin ekki til ítarlegra skilgreininga fyrr en ytri aðstæður kröfðust, þrátt fyrir að um óaðskiljanlegan hluta hinnar heilögu arfleifðar væri að ræða.

Við getum þannig tekið dæmi um trúarsetninguna um Munificentissimus Deus eða Uppnumningu Maríu sem Píus páfi XII lýsti ekki sem trúarsetningu fyrr en 1. nóvember 1950. Engu að síður var þetta lifandi hluti hinnar heilögu arfleifðar sem Theophilus frá Antíokkíu (117-181) vék að í skrifum sínum þegar á annarri öld. Annað dæmi um hinn flekklausa getnað Maríu (1852). Sjálft orðið Panhagia (hin Alhelga) sést allt frá elstu rituðu heimildum frumkirkjunnar.

Hvað varðar fjölda hinna miklu leyndardóma (7), sjá Jes 11. 3 þar sem spámaðurinn víkur að þeim sjö öndum sem hvíla myndu yfir hinum Smurða. Jafnhliða eru sakramentin opinberuð okkur með hinum miklu áhöldum tjaldbúðarinnar sem forgildi komandi kirkju.

En aðalatriðið er þetta: Sakramentin, og hér hjónabandssakramentið, eru sérstakt náðarmeðal karlinum og konunni til helgunar. Hjónabandið er því guðdómleg tilhögun, sjá brúðkaupið í Kana.

Þegar Lúter skrifaði hið víðfræga bréf sitt til patríarkans í Konstantínópel og leitaði stuðnings, hafnaði patríarkinn alfarið að eiga frekari samskipti við hann.

[1]. Um Efkaristíuna 6. 15.

12.02.06 @ 07:13
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Tilvitnun úr Tjaldbúð Móse:

Hversu iðulega heyrum við ekki nú á dögum í því mesta fráfalli frá trúnni sem þekkst hefur, að allt ríði á því að verða „andlegur,“ eða með orðum bandaríska trúarheimspekings Peter Kreefts:

Það er í sjálfu sér ekkert jákvætt við það að vera meira „andlegur“ og minna efnislega sinnaður. Djöfullinn er hreinn andi. Guð hefur hins vegar líkama (eftir holdtekjuna og uppstigninguna). Hversu iðulega hafið þið ekki heyrt þá skoðum, að „trúarbrögð“ eigi ekki að snúast um ytri siði, heldur aðeins „hinn innri anda?“ Þetta geta svo sem verið „trúarbrögð,“ en þetta er ekki kristindómurinn. Ef þessi skoðun væri rétt, þá hefði Guð aldrei sent Son sinn í heim fullan þjáningum til að líða blóðugan dauða og þannig hefðum við einungis verið skilin eftir með okkar „innri anda“ og góðan ásetning. Þetta er alls ekki nóg! Ekki nóg til að forða okkur frá örlögum sem eru miklu verri en dauðinn. [3]

Fyrirkomulag stærri áhalda helgidómsins opinbera okkur sakramentin sem öruggan veg til hjálpræðis. Þannig getum við aldrei þakkað Guði nægilega mikið fyrir guðdómlega efnishyggju hans eins og hún er leidd okkur fyrir sjónir í helgidóminum sem forgildi hinnar komandi kirkju Sonar hans.
Sálir sem í mennskum hugsmíðum sínum hafa orðið að fórnardýrum óvinar hjálpræðis okkar hafna slíkri guðdómlegri tilhögun þar sem þær „vita allt betur“, jafnvel betur en Guð sjálfur. Slíkar sálir meta miklu fremur að vera meðlimir í leynifélögum eins og í frímúrarahreyfingunni sem rekur uppruna sinn til hins forna gnóstíkisma eða aðhyllast draumórakennda hugmyndafræði Nýaldarhreyfingarinnar, guðspeki eða hreina andahyggju (spíritisma), töfrabrögð og miðilsstarfsemi! Þær hafna sýnilegri kirkju í áþreifanlegri mynd sem Kristur lítur á sem sinn eiginn líkama (P 9. 5) og hæðast af efnislegum sakramentum. Þær tala um andlega kirkju hjartans sem býður „meðlimum“ sínum upp á frelsi sem á meira skylt við stjórnleysi hins fallna verndarkerúba, Satans, eins og Peter Kreeft vekur athygli á:

Guð hugsar ekki með þessum hætti. Hann skapaði efnið, hann holdgaðist í efni, hann endurleysti efnið og heldur áfram að vinna í gegnum efnið . . . Að fullyrða að jafn efnisleg athöfn eins og að drjúpa vatni á höfuðið eða opna munninn og borða eitthvað sem líkist brauðmola geti ekki verið vegurinn til eilífs lífs sem Guð hefur lagt, er að vera meiri „engill“ en Guð sjálfur. [4]

Sjá: Vefrit Karmels, Hið gullna hús Guðs. Eyðimerkurtjaldbúð Móse sem leiðsögn í bæn hjartans, hugleiðing 19.

En satt best að segja tel ég það ekki vera þess virði að elta ólar við þessa fríkirkjupresta. Þeir lifa í veröld póstmódernískra hártogana og geta líklega ekki meðtekið sannleikann lengur.

12.02.06 @ 07:37
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Úr Encyclopedia Catholica: Um hjónabandið.

Allt frá annarri öld höfum við hinn dýrmæta vitnisburð Tertullians [frá Karþagó 160-225]: „Ef slíkt hjónaband er Guði velþóknanlegt, hvers vegna ætti það þá ekki að verða hamingjuríkt . . . þar sem það nýtur verndar guðdómlegrar náðar? (Ad Uxorem, II, viii í Patraoligia Latina I. 1299).

En ef guðdómleg náð og vernd eru veitt með hjónabandinu, eins og Tertullian segir, þá höfum við hér áþreifanlega athöfn sem felur í sér trúarlega merkingu (sem þegar af öðrum ástæðum er ummerki guðdómlegrar náðar), áþreifanlegt tákn náðarinnar, sannverðugt sakramenti hins Nýja sáttmála. Það er einungis í ljósi þessarar kenningar sem við getum lagt réttan skilning í aðra tilvitnun úr þessu saman verki Terullians:

„Hvernig getum við öðru vísi lýst hamingu þeirra hjónabanda sem kirkjan staðfestir, fórnin styrkir, blessunin innsiglar, englarnir kunngera og hinn himneski Faðir stendur vörð um? (II. ix í PL I. 1302).

En vafalaust mun fríkirkjupresturinn ekki samþykkja slíka útleggingu í trúarlegri bókhaldsfræði sinni og lútersk evangelískri afvegaleiðslu. En þrátt fyrir alla theologia divina finnst mér vænst hvernig Heilagur Andi staðfestur sannleika þessara orða á hjartaspjöldum Hvítasunnumanna með náð sinni, þrátt fyrir að þeir játi ekki hjónabandið sem sakramenti þar sem mótmælendakirkjan hefur svipt þá kenningarlegum grundvelli í þessum efnum. Lof sé þér Drottinn í kirkju þinni!

12.02.06 @ 16:11
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Feðurnir, kirkjuþingin og helgisiðir Vesturkirkjunnar og Austurkirkjunnar, að meðtöldum Koptísku kirkjunni, Jakobítum, Sýrlensk kristnum, Nestoríönum og öðrum klofningshópum úr kirkjunni, játa allir að hjónabandið sé sakramenti, að mótmælendakirkjunum undanskildum.

Þegar kirkjuþingið í Trent víkur að hjónabandinu, segir það: „Sjálfur Kristur, Uppspretta og Fullkomnari hinna lofsverðu sakramenta, verðskuldaði fyrir okkur með píslum sínum þá náð sem megnar að fullkomna náttúrlega elsku og staðfesta þessa ólýsanlegu einingu og helga hjónabandið . . . Þannig er hjónabandið upphafið í náð samkvæmt boðum fagnaðarerindisins í Kristi og því æðra hinni fornu giftingarathöfn. Af þessum ástæðum hafa okkar heilögu feður, kirkjuþing og öll heimskirkjan ætíð kennt, að telja eigi það til sakramenta hinna nýju laga“ (Sess. xxiv).

Hjónabandi er ekki einungis nátturlegur samningur milli eiginmanns og eiginkonu, heldur hefur Jesús Kristur upphafið það kristnum mönnum til handa til að vera sakramenti. Postulinn segir: „Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana, til þess að helga hana og hreinsa í laug vatnsins með orði . . . Þess vegna skal maður yfirgefa föður og móður og búa við eiginkonu sína, og munu þau verða einn maður. Þetta er mikill leyndardómur. Ég hef í hug Krist og kirkjuna‘ (Ef 5. 25-32).

En svo er stundum í heimi hér, að eggið ætlar að kenna hænunni að verpa. Ég hef í hug Lúter og kirkjuna.

12.02.06 @ 22:57
Jón Valur Jensson

Nafni, komdu hérna endilega með textann þar sem þú bentir á kringumstæðurnar sérkennilegu (tengdar patríarkanum í K-P), þegar Lúther gerði endanlega upp hug sinn um það, að hjónabandið væri ekki sakramenti. Ef þú gætir grafið upp fleira um það mál, gæti það orðið næsta fróðlegt og áhrifaríkt.

13.02.06 @ 01:10
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þú finnur ágæta umfjöllun um þetta efni hjá grísku orþodoxunum á:

http://www.stpaulsirvine.org/html/sixteenthcentury.htm

Meðal ágreiningsefnanna eru einmitt sakramentin sjö tilgreind. Mun taka saman grein um þetta til að undirstrika það sem ég hef sagt hér að framan.

Pace Tecum,

JRJ

13.02.06 @ 07:28
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Bestu þakkir til ykkar fyrir góð innlegg, sérstaklega Jóni Rafni fyrir heimildaleit sína. Enn finnum við ekkert sem bendir til að skilningur kaþólsku miðaldakirkjunnar hafi verið úr takti við þann skilning sem á undan kom, eða þann sem á eftir fór, né heldur neinar vísbendingar sem styðja fullyrðingu Hjartar Magna Jóhannssonar (HMJ) að þetta meinta miðaldahjónaband hafi verið ‘helgað þeim eina megintilgangi að fjölga mannkyni’. Það er spurning hvaða heimildir hann leggur til grundvallar þessari undarlegu staðhæfingu og líka spurning af hverju hann kýs að nefna miðaldir í þessu sambandi, en ekki t.d. aldirnar á undan siðskiptatímanum sem teljast líklega til síðmiðalda? Framsetning hans á hjónabandi í evangelískum-hútherskum skilningi gæti jafnframt gefið til kynna að Lúther hafi komið með þá nýjung að gera hjónabandið að kærleikssáttmála, tveggja jafn-rétthárra einstaklinga. Heimild Dóminikananunnunnar sem vísað er í undir lok greinarinnar og þær heimildir sem JRJ hefur bent á benda frekar til að það hafi verið það sem eftir stóð þegar búið var að afhelga það með því að taka það úr tölu sakramentanna. Ef heimildin á http://www.stpaulsirvine.org/html/sixteenthcentury.htm er lesin og ef sú heimild er trúverðug þá bendir hún til þess að viðleitni Lúthers hafi fyrst og fremst verið sú að leita aftur til upprunans, að sýna fram á að rómversk - kaþólska kirkjan hafi verið á villigötum og afvegaleidd. Í samskiptum sínum við patríarkann í Konstantínópel virðast Tubingenmennirnir leggja mikla áherslu á að boðun þeirra feli ekki í sér nýjungar, heldur sé hún afturhvarf til hreins sannleika guðspjallanna. Það er þeirra hálmstrá sem þeir vonast til að austurkirkjan grípi, en sú von rættist ekki. Sú forsenda sem HMJ gefur sér að ‘Lúter hafi rutt leiðina’ er kannski rétt í vissum skilningi, en við þennan lestur þá verður nú að teljast frekar ólíklegt að Lúther, Melankton eða hinir siðskiptafrömuðirnir í Tubingen hefðu viljað ‘ganga um þær dyr’ sjálfir sem HMJ virðist ætla í gegnum.
Lifið heil, kveðja og góða nótt..
RGB.

13.02.06 @ 21:22
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

„Hvernig getum við öðru vísi lýst hamingu þeirra hjónabanda sem kirkjan staðfestir,“ segir Tertullian. Hér leggur hann áherslu á ástir hjóna sem dýpkar enn frekar sökum náðar Guðs í sakramentinu. Það er augljóst. Í flestum tilvikum eru börn ávöxtur slíkar ástar. En fríkirkjupresturinn gerir sér að sjálfsögðu ljóst að „ástir“ hómosexualista bera engan ávöxt. Hann er vafalaust að fordæma afstöðu kirkjunnar til eðlilegs kynlífs. Megináhersla hans er á losta og nautnir kynlífsins sem er honum afar geðþekkt með hliðsjón af málflutningi hans.

13.02.06 @ 22:15
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Fríkirkjupresturinn málglaði telur að hjónabandi sé „uppfinning stofnunarkirkju miðaldanna.“ Hér eru nokkar tilvísanir sem afsanna þessa hvatvísu yfirlýsingu hans. Þær eru úr skrifum hinna heilögu feðra allt frá fyrstu öld til þeirrar fimmtu, raðað eftir aldri. Tekið skal fram að þetta er einungis úrval fjölmargra annarra áþekkra sem leiða hinu heilögu arfleifð í ljós með áþreifanlegum hætti.

(110): Þannig er tilhlýðilegt að karl og kona sem kvænast, gangi í hjónaband að ráði biskups, þannig að hjónabandið verði í Drottni, en ekki í losta. Megi því þetta allt vera Dottni til vegsemdar. Ignatíus frá Antiokkíu, Til Polycarpusar 5.

(210): Ef slíkt hjónaband er Guði velþóknanlegt, hvers vegna ætti það þá ekki að verða hamingjuríkt . . . þar sem það nýtur verndar guðdómlegrar náðar? Tertullian, Ad Uxorem, II, viii.

(385): Þar sem giftingarathöfnina ber að helga með blessun prestsins, hvernig er þá unnt að kalla það giftingarathöfn þar sem eining trúarinnar er ekki fyrir hendi? Ambrósíus, Til Vigilíusar 19. 7.

(385): Við vitum að Guð er höfuðið og verndarinn og heimilar ekki að önnur hjónabandssæng sé saurguð og að sá sem gerir sig sekan um slíkan glæp er sekur fyrir Guði. Hann brýtur gegn boðum hans þannig að bönd náðarinnar rofna. Þar sem hann hefur syndgað gegn Guði glatar hann hlutdeild sinni í hinu himneska sakramenti. Ambrósíus, De Abraham, I. vii.

(392): Og þetta er brúðkaup Drottins, þannig að þau verði að einu holdi, rétt eins og í hinu mikla sakramenti Krists og kirkjunnar. Í þessu brúðkaupi er kristið fólk borið þegar Andi Drottins kemur yfir það. Pacían, Predikun um skírnina.

(418): Meðal allra þjóða og manna eru þau gæði, sem brúðkaupið tryggir, afkvæmin og hreinlífi tryggðarinnar. En hvað áhrærir lýð Guðs [hina kristnu] felst þetta auk þess í helgi sakramentisins og af þessum ástæðum er forboðið að kvænast aftur eftir skilnað meðan makinn er enn á lífi. Hl. Ágústínus kirkjufaðir, De bono conjugii, XXIV kafli.

(420): Það er hafið yfir allan efa að kjarni þessa sakramentis, það er að segja þegar karl og kona verða eitt í brúðkaupinu, þá eru þessi bönd óleysanleg allt þeirra líf. Hl. Ágústínus, De nuptiis et concupiscentia, I, x.

14.02.06 @ 23:12
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Innilegar þakkir, nafni, fyrir að þýða þessa texta. Gott svar við bægslagangi Hjartar Magna.

15.02.06 @ 02:21
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Fleiri vísbendingar hafa bæst við sem renna stoðum undir þá skoðun að tilvitnuð ummæli fríkirkjuprestsins um kaþólskt hjónaband hafi í besta falli verið villandi og í versta falli mjög misvísandi. Sú aðferð að stilla því upp sem fornfálegri andstæðu við lútherskt hjónaband virðist stutt veikum rökum þegar betur er að gáð. Prófessor Einar Sigurbjörnsson skrifaði t.d. grein í Morgunblaðið 21. febrúar sl. þar sem hann sagði m.a:

“kirkjan [missti] aldrei sjónar af því að hjónabandið væri meðal góðra gjafa skaparans sem með því viðhéldi sköpun sinni. Á miðöldum fór kirkjan í Vestur-Evrópu að kenna að hjónabandið væri sakramenti og hefur rómversk-kaþólska kirkjan haldið í þann skilning. Rómverska kirkjan skilgreinir hjónabandssakramentið þannig að hjónaband sé sáttmáli milli karls og konu sem byggist á samsinni beggja og sem þau staðfesta frammi fyrir presti og tveim vottum. Grunnur hjónabandsins er sagður vera skipun Drottins í sköpuninni og vegna þess er hjónaband algild skipan meðal allra manna. Fyrir kristna menn á Kristur að hafa hafið hjónabandið til sakramentis í því skyni að gefa fólki náð til að rækja skyldur hjónabandsins. Ein afleiðing þess að miðaldakirkjan hóf hjónabandið til sakramentis var að lög og reglur um hjónabandið voru látin falla undir kirkjuleg yfirvöld og sifjalöggjöf álitinn hluti kirkjuréttarins. Og það ber að ítreka að það er ekki athöfnin hjónavígsla sem er sakramenti að rómverskum-kaþólskum skilningi heldur er það hjónabandið eða lífssamband hjónanna sjálft sem er sakramenti.[Leturbr. RGB].

Lúther hafnaði því að hjónabandið væri sakramenti og taldi að það væri skikkan skaparans og veraldleg stofnun. Með því átti Lúther fyrst og fremst við að sifjarétturinn væri á valdsviði veraldlegra yfirvalda og gætu sifjalög þess vegna verið mismunandi frá einu landi til annars. Um leið ítrekaði hann að sem skipan sett af Guði með sköpuninni væri hjónaband karls og konu heilög stofnun og bæri ríkisvaldinu að virða það sem slíkt.[Leturbr. RGB] Hann lagði þó ekki til að hróflað væri við þeirri skipan að prestar væru áfram vottar að stofnun hjónabands og mótaði sjálfur form fyrir hjónavígslu sem hér var notað lítið breytt frá því á 16. öld og fram á upphaf 20. aldar. Kirkjuskipanin eða Ordinansían frá 1537 segir um það á þessa leið:

Með ektapersónur hjúskaparins vegna hafa Guðs orðs þjenarar ekki að gjöra, nema það sem viðvíkur þeirra samtenging og að hugsvala þeirra sorgmæddar samviskur en allt annað heyrir til veraldlegrar valdstjórnar.

Þarna er átt við það að prestar skuli einungis standa sem vottar að þeim gerningi sem stofnun hjúskapar er og flytja hjónunum orð Guðs og biðja fyrir þeim og ásetningi þeirra. Samtenging hjóna er þannig í senn embættisskylda prests sem trúnaðarmanns ríkisvaldsins og sálgæsluhlutverk hans.

24.02.06 @ 23:14
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þessi skilningur sem kemur fram í Ordinansían frá 1537 hjá prótestöntum er afar fjarri hinni heilögu arfleifð Vesturkirkjunnar og Austurkirkjunnar. Sakarmenti er miklu dýpri og andlegri athöfn en það eitt, að presturinn gegni því hlutverki að vera einshvers konar vottur (hvers?) Presturinn er staðgengill Krists og miðlar brúðhjónunum yfirskilvitlegri náð í leyndardómi sakramentisins þar sem Kristur er nærverandi, rétt eins og í efkaristíunni. Þetta skilja eða vilja prótestantar ekki skilja.
Það sem prótestantar eru að segja má sjá í grein (418) hér að framan hjá hl. Ágústínusi, það er að segja: „mennsk athöfn.“

25.02.06 @ 09:32
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Anna Benkovic Mikaelsdóttir efnatæknir skrifar grein í Mbl. 1.3.2006 á bls. 40 sem ber heitið “Opið bréf til kirkjumálaráðherra". Þar segir hún m.a. í umfjöllun sinni um ummæli biskups þjóðkirkjunnar

Ummælin gætu þýtt tvennt; 1. Að hjónabandið byggðist ekki á kærleik, heldur því að fjölga sér (eins og margir kaþólskir halda fram).

og hún bætir við neðar:

1. Ef kærleikurinn er ekki undirstaða hjónabandsins heldur það að fjölga sér, verður að gera fólki það ljóst og ég spyr sjálfa mig hvort Íslendingar eigi ekki bara að skrá sig í kaþólsku kirkjuna í beinu framhaldi af því?

Nú hljóta ýmsir að spyrja í framhaldi af þessu: Hvaða mörgu kaþólikkar eru það sem halda því fram að hjónabandið byggist á því að fjölga mannkyninu? Engar spurnir hafa borist af því fáséða og torfundna fólki, enda væri það líklega ekki gjaldgengt í kirkjuna haldandi þessu fram. Nær væri að halda að hér sé bréfritarinn undir áhrifum frá grein fríkirkjuprestsins Hjartar Magna þar sem hann boðar nákvæmlega þessar sömu firrur um kaþólskt hjónaband.

02.03.06 @ 18:03
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Hjörtur Magni Jóhannsson fríkirkjuprestur ritar langa grein í Morgunblaðið þriðjud. 7. mars 2006 undir heitinu “Kynferðisafbrotamenn mega, samkynhneigðir ekki” og segir m.a.:

Samkvæmt kaþólskum skilningi er hjónabandið sakramenti kirkjustofnunarinnar, helgað þeim eina megintilgangi hennar að fjölga mannkyni enn frekar. Þannig er eini tilgangur kynlífs einnig sá að búa til börn, í heimi þar sem a.m.k. 2/3 hlutar allra barna líða skort og búa bæði við varanlega líkamlega vannæringu og félagslega örbyrgð. Kynlíf skal samt sem áður stundað í þeim eina tilgangi kirkjustofnunarinnar.

Það er sannarlega dapurlegt að fríkirkjupresturinn skuli klifa á þessari afbökun sinni á kaþólska hjónabandinu. Þetta gerist þrátt fyrir þær tilraunir til leiðréttinga sem birst hafa á þessari vefsíðu og einnig þrátt fyrir að prófessor Einar Sigurbjörnsson hafi birt grein í Mbl. sem birtir mun dýpri sýn á kaþólskt hjónaband. Því miður virðist þessi rangi skilningur vera farinn að breiðast út samanber tilvitnunina í grein Önnu Benkovich hér að framan og kaþólskir menn hljóta að spyrja sig af hverju sú afbakaða mynd sem presturinn birtir af kaþólsku hjónabandi þurfi að vera skotspónn í baráttu hans fyrir réttindum samkynhneigðra? Verðskulda samkynhneigðir slíkan málflutning? Þetta virðist samt vera það sem fríkirkjuprestinum þykir boðlegt og henta best miðað við stöðu mála. Vissulega má gera ráð fyrir að árásir á boðun annarra trúfélaga skili inn einhverju óánægjufylgi frá hinum, en líklegri ástæða þessara skrifa virðist þegar öllu er á botninn hvolft vera sú að árás hans á kaþólsku kirkjuna sé örvæntingarfull tilraun til að brjótast út úr kenningalegum ógöngum.

07.03.06 @ 20:10
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég held að við verðum að auðsýna honum sömu kristilegu vorkunnlátssemina eins og guðfræðingarnir í Þjóðkirkjunni. Það er eitthvað allt annað sem plagar þennan mann en kenningarfræðilegar ógöngur. En engu að síður er fróðlegt að gefast innsýn inn í slíkan hugarheim.

08.03.06 @ 08:47
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Kristján Björnsson sóknarprestur í Vestmannaeyjum svaraði grein Hjartar Magna í Mbl. 9. mars 2006, bls. 33 með greininni “Verði ljós í Fríkirkjunni". Hann sagði þar m.a.:

Það er dapurlegt að sjá það aftur og aftur af málflutningi fríkirkjuprestsins að hjónabandsskilningur hans er í molum. Hann hefur borist óraveg frá kenningarlegum grunni hinnar evangelísku lútersku kirkju [..] Hann hefur ekki síður skorið upp herör gegn hinni eilífu alþjóðlegu kirkju með því að kenna hana við fáfræði, afturhald og kúgun á liðnum öldum.

09.03.06 @ 20:52