« Þungbært að fá nöfnin ekki fyrst frá kirkjunniBiskupinn biðst afsökunar og leggur drög að rannsóknarnefnd »

29.06.11

  07:53:37, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 345 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

Hvað geta kirkjur gert til að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi?

Kirkjur sem ætla sér að vera leiðandi siðferðislegt afl í samfélaginu verða að setja sér strangari viðmið m.t.t. starfsmanna en þeirra sem almennt gilda í þjóðfélaginu. Geri þær það ekki þurfa þær að hætta að gera ráð fyrir að geta haft nokkur siðbætandi áhrif á samfélagið. Þær þurfa því að taka á málum af festu, áræðni og starfa eftir fyrirfram ákveðinni áætlun. Slík áætlun og festa er líkleg bæði til að fæla hugsanlega gerendur sem þegar kynnu að vera starfandi í kirkjunni frá því að beita ofbeldi og einnig er líklegt að hún dragi úr líkum á því að menn með þessa eða aðra glæpahneigð líti á kirkjuna sem álitlegan starfsvettvang.

Mér koma í hug nokkur atriði til að opna umræðuna með:

1. Kæra þarf grunaðan afbrotamann til lögreglu sem rannsakar og sendir mál til saksóknara sem ákvarðar hvort gefin er út ákæra. Þetta er hinn eðlilegi farvegur fyrir öll kynferðisafbrotamál sem koma upp í þjóðfélaginu.

2. Einnig þarf að fara fram innri rannsókn og skoðun. Liður í þessu væri að birta opinberlega nöfn þeirra aðila sem sæta rannsókn til að óska eftir frekari ábendingum um afbrot. Slík nafnbirting gæti því bæði styrkt málstað hinna saklausu auk þess að veikja málstað hinna seku. Nafnbirtingar koma í veg fyrir að aðrir starfsmenn kirkjunnar lifandi eða látnir þurfi að þola sögusagnir og getgátur um sekt.

3. Þegar starfsmenn koma erlendis frá þyrftu þeir að opinbera ferilskrá sína frá upphafi ásamt nöfnum og netföngum hjá þeim stofnunum sem þeir hafa starfað hjá áður. Þetta myndi gera hverjum sem er færi á að hafa samband við þessar stofnanir og kanna feril þeirra.

4. Hafna þeim starfsmönnum sem ekki hafa hreint sakavottorð og þeim sem liggja undir grun annarsstaðar.

5. Yfirmenn þeirra kirkna þar sem grunsemdir koma upp þurfa að bregðast fljótt við og biðja meinta þolendur strax afsökunar. Einnig þarf að gæta þess að þeir beiti frá fyrsta degi þeim sálgæsluaðferðum sem þeir eiga völ á til að græða þau sár sem þegar hafa myndast. Mæla huggunarorð til þeirra sem eru í sárum og hvetja fleiri þolendur til að stíga fram ef einhverjir eru.

6 athugasemdir

Carlos

Mér sýnist þú vera með ágætis byrjun í höndunum.

29.06.11 @ 08:58
Carlos

Í ljósi mistaka síðustu daga, t.d. hjá Sýslumanni á Selfossi, þarf að koma á fjarlægð milli fórnarlambs og meints geranda annars vegar og hinsvegar meints geranda og starfssins sem hann gegnir fyrir kirkjuna, á meðan á rannsókn stendur.

29.06.11 @ 11:05
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Heill og sæll Carlos, gaman að heyra frá þér. Takk fyrir innlitið og athugasemdirnar.

29.06.11 @ 11:13
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Aðalmálið í þessu varðandi starfsmenn, sem hafa umsjón barna – ekki aðeins á kirkjulegum vettvangi eða í skólum og sumarbúðum á vegum kirkna, heldur allra þeirra sem sækja um starf í barnaskólum og leikskólum og umönnunarstörf, einnig fyrir unglinga og í sumarbúðum og á meðferðarheimilum – er þetta: að komið verði án tafar upp netmiðstöð fyrir yfirmenn og ráðningarstjóra þessara stofnana, þar sem haldin verði skrá yfir alla dæmda kynferðisafbrotamenn og barnaníðinga, sem og aðra skrá yfir alla þá, sem kærðir hafa verið fyrir slík afbrot, jafnvel þótt mál þeirra séu enn ódæmd eða hafi verið látin niður falla vegna skorts á sönnunum.

Með slíkum hætti kæmu þeir menn t.d. þar fram, sem hefðu fengið á sig eina eða tvær kærur vegna þessa. Með þessu hefði t.d. verið hægt að taka mið af því í tilfelli starfsmannsins í Árbót í Þingeyjarsýslu, sem gat haldið áfram að notfæra sér aðstöðu sína þar gagnvart ófullveðja stúlkum þrátt fyrir kærur um kynferðisbrot.

29.06.11 @ 14:16
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið og athugasemdina Jón.

29.06.11 @ 15:32
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Mig langar að bæta við að það er mikilvægt að meðlimir kirkjunnar fái slæmar fréttir af þessu tagi og viðbrögð við þeim frá yfirvöldum kirkjunnar fyrstum allra.

Sama má reyndar segja um allt sem skiptir máli í starfsemi hennar. Safnaðarfólk á að fregna það fyrst frá kirkjunni og úr málgögnum hennar og miðlum en ekki úr almennum fjölmiðlum.

Það er þungbært að þurfa að fá þessar slæmu fréttir og nafnbirtingar úr almennum fjölmiðli/fjölmiðlum fyrstum allra. Með þessu er ég ekki að setja út á fjölmiðla og starfsemi þeirra heldur að koma því á framfæri að ef ætlunin er að byggja upp traust milli kirkjustjórnarinnar og safnaðarfólks þá verður safnaðarfólk að njóta forgangs hvað varðar upplýsingagjöf frá kirkjustjórninni. Það helgast af því að þau börn sem verið er að reyna að vernda eru velflest börn safnaðarfólks.

Allt annað verklag hvað varðar upplýsingagjöf grefur undan trausti á yfirstjórn kirkjunnar.

01.07.11 @ 08:56