« Hvers vegna hlýða kaþólskir kennivaldi Páfa?Af hverju biðja kaþólskir fyrir látnum? »

26.07.12

  06:38:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 530 orð  
Flokkur: Philumena, Spurt og spjallað um kaþólska trú

Hvað er þessi erfikenning, sem kaþólskir vitna í til viðbótar Heilagri ritningu?

Spurt og spjallað um kaþólska trú frá biblíulegu sjónarmiði. - Hvað segir Biblían?

“Sæll er sá sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar… Tilbið þú Guð” (Opb 22:7, 9)

8. Hvað er þessi erfikenning, sem kaþólskir vitna í til viðbótar Heilagri ritningu?

Erfikenningin er hin munnlega arfleifð Krists og postulanna sem varðveist hefur í kaþólskri kirkju mann fram af manni og skrásett er í ritum kirkjufeðranna, sem uppi voru frá fyrstu til fjórðu aldar. Meðal tilvitnanna í ritum kirkjufeðranna er m.a. að finna hina réttu skilgreiningu og skilning á Hinu Allra Helgasta Altarissakramenti, sem stofnsett var við síðustu kvöldmáltíðina. Biblían og erfikenningin eru því óaðskiljanleg eining. Frumkristni hófst með hinum munnlega boðskapi Krists ásamt skilgreiningu og skýringum Hans og síðar postulanna, sem hlutu þá þekkingu í arf frá Honum --og þessvegna hugtakið erfikenning. Frumkirkjan átti sér því aðeins munnlega hefð til skírskotunar og uppfræðslu á þeim tíma sem Nýja Testamentið var enn ekki skráð í eina bók. (P 2:42)

Síðar var boðskapur Krists skráður af postulunum og lærisveinum Krists fyrir tilstilli Heilags Anda, meðan erfikenningin, skilgreining og skýringar textans varðveittust innan kaþólsku kirkjunnar bæði í munnlegu og skriflegu formi. Páll postuli áminnir því lærisveina Krists að varðveita vel erfikenningar --allt sem munnlega hefur borist frá postulunum jafnt sem því skriflega: „Bræður, standið því stöðugir og haldið fast við þær kenningar, er vér höfum flutt yður munnlega eða með bréfi.” 2Þ 2:15). Og Jóhannes postuli tekur í sama streng og áminnir að ekki sé allt skráð af því, sem munnlega var kennt, því „margt er það annað, sem Jesús gjörði, og yrði það hvað eina upp skrifað, ætla ég að öll veröldin mundi ekki rúma þær bækur, sem, þá yrðu ritaðar.” (Jh 21:25).

Leyndardómar Krists voru opinberaðir postulunum og spámönnum Hans (Ef 3:5), sem ásamt Kristi mynda undirstöðu kirkju þeirrar sem Kristur stofnaði og byggði á Pétri postula,-- kirkjunni, sem undir stjórn og varðveislu Heilags Anda, nýtur verndar fyrir mistúlkun á orði Guðs og frá því að verða munaðarlaus. (Jh 14:16-19). Þessu til áréttingar áminnir Páll postuli Tímóteus, biskup og arftaka postulanna: „Ef einhver fer með annarlegar kenningar og fylgir ekki hinum heilnæmu orðum Drottins vors Jesú Krists og því, sem guðrækni vor kennir, þá hefur hann ofmetnast og veit ekki neitt.” (1Tm 5:3). Og til frekari áherslu á hið rétta kennivald bætir hann við: „Og það sem þú heyrðir mig tala í margra votta viðurvist, það skalt þú fá í hendur trúum mönnum, sem líka munu færir um að kenna öðrum.” (2Tm 2:2). Í bréfi sínu til Tímóteusar lofar Páll postuli Tímóteus einmitt fyrir að halda í heiðri munnmælum postulanna, erfikenningunum, með eftirfarandi orðum: „Ég hrósa yður fyrir það að þér í öllu minnist mín og haldið fast við kenningarnar, eins og ég flutti yður þær.” (1Kor 11:2)

Það er því frumkirkjan og arftaki hennar, kaþólska kirkjan, sem í boðskapi sínum stendur traustum fótum bæði á heilagri ritningu og sönnum erfikenningunum, meðan hún hafnar þeim sem rangar eru, það er ábyrgðarhlutverk hennar, þess Guðs hús, þeirrar kirkju sem Kristur stofnaði og er „stólpi og grundvöllur sannleikans,” (1Tim 3:15). Þetta er hin kaþólska kirkja, sem tók saman hin helgu skrif Biblíunnar til útgáfu á kirkjuþinginu í Karþagóborg árið 397, varðveitti hana og afritaði fyrir tilstilli munka þar til á fimmtándu öld, þegar prentverkið var fundið upp.

Philumena

No feedback yet