« Lokahreinsunin eða hreinsunareldurinnHvað er kristin kirkja og kristin trú? »

31.08.10

  17:08:55, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 767 orð  
Flokkur: Trúarpælingar

Hvað er samfélag heilagra?

Í Níkeujátningunni er játuð trú á eitthvað sem nefnt er samfélag heilagra? En hvað er það? Þeim sem ekki hafa kynnt sér málið þykir þetta orðalag kannski endurspegla ákveðna sjálfumgleði, jafnvel hroka. En er það svo? Athugum hvað trúfræðsluritið hefur að segja um efnið.

Hugtakið “samfélag heilagra” hefur tvær nátengdar merkingar: samfélag um andleg gæði og samfélag „meðal heilagra persóna“ [1].

Skoðum fyrst samfélagið um andleg gæði:

1. Samfélag um trú: „[Lærisveinarnir] ræktu trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar” í hinu fátæklega samfélagi í Jerúsalem. [..] Trúin er fjársjóður lífs sem auðgast því meir sem af honum er deilt. [1]“

2. Samfélag sakramentanna: „Ávöxtur allra sakramentanna tilheyrir öllum hinum trúuðu. Sakramentin, og umfram allt skírnin, sem er hliðið sem allir fara í gegnum inn í kirkjuna, eru öll helgar festar sem sameina hina trúuðu og bindur þá við Jesúm Krist.[1]“

3. Samfélag náðargjafanna: „Innan samfélags kirkjunnar útdeilir Heilagur Andi meðal hinna trúuðu, hvaða stöðu sem þeir gegna, sérstökum náðargjöfum” til uppbyggingar kirkjunni.[1]“

4. Sameignarviðhorf til veraldlegra gæða: „Allt sem sannur kristinn maður hefur, ber að skoða sem eitthvað er hann á sameiginlega með öllum öðrum. Allir kristnir menn eiga að gera sér far um og vera tilbúnir til þess að koma þeim til hjálpar sem bágstaddir eru… og náunga sínum sem þurfandi er.” Kristinn maður er ráðsmaður gæða Drottins.[1]“

5. Samfélag í kærleikanum: „Í sanctorum communio “lifir enginn af oss sjálfum sér og enginn deyr sjálfum sér”. “Og hvort heldur einn limur þjáist, þá þjást allir limirnir með honum, eða einn limur er í hávegum hafður, samgleðjast allir limirnir honum. Þér eruð líkami Krists og limir hans hver um sig.” Kærleikurinn “leitar ekki síns eigin”. Í þessari samstöðu meðal allra manna, lifandi og dauðra, sem er grundvölluð á samfélagi heilagra, mun okkar minnsta verk gert í kærleika verða öllum til góða. Sérhver synd skaðar þetta samfélag.[1]“

Skoðum næst samfélag kirkjunnar á himni og jörðu.

Í fyrsta lagi þarf að gera sér grein fyrir þrenns konar eðli kirkjunnar og samfélags hennar í þessum þrennum greinum. Það er (1) kirkjan á jörðinni, (2) kirkjan í hreinsunareldinum og (3) kirkjan á himnum. „En nú á dögum eru sumir af lærisveinum hans pílagrímar á jörðu. Aðrir hafa dáið og fá hreinsun sína, meðan enn aðrir eru í dýrð og hugleiða í fullu ljósi einan og þríeinan Guð, nákvæmlega eins og hann er. [..] Þannig er einingin sem vegfarendur í heiminum hafa við bræðurna sem sofnaðir eru í friði Krists á engan hátt rofin. Þvert á móti, samkvæmt stöðugri trú kirkjunnar, hefur þessi eining eflst með því að þeir skiptast á andlegum gæðum hver við annan.[1]“

Í öðru lagi er samfélag við dýrlingana og árnað (fyrirbænir) þeirra: „Þar sem þeir eru í nánari einingu við Krist sem búa á himnum, festa þeir alla kirkjuna æ betur í heilagleika. Þeir biðja okkur stöðugt árnaðar hjá Föðurnum þar sem þeir bjóða fram þá verðleika er þeir öðluðust á jörðu fyrir tilverknað hins eina meðalgöngumanns milli Guðs og manna, Krist Jesúm. Bróðurleg umhyggja þeirra er breyskleika okkar mikil hjálp. 'Grátið eigi! Ég mun koma ykkur að meira gagni eftir dauða minn og vera ykkur þá meiri hjálp en meðan ég lifði.'(Hl. Dóminik) og 'Himnaríki mínu vil ég verja í það að gera gott á jörðu.'(Hl. Thérese af Lisieux). „ Nákvæmlega á sama hátt og samfélagið meðal vegferðarmanna okkar á jörðu færir okkur nær Kristi, þannig verður samfélag okkar við dýrlingana til að sameina okkur Kristi, þaðan sem öll náð og allt líf Guðs lýð kemur, frá uppsprettu hans og höfði”: Það er hann, Sonur Guðs, sem við tilbiðjum; en píslarvottunum, sem lærisveinum og eftirbreytendum Krists, gefum við elsku okkar fyrir óviðjafnanlega trúrækni þeirra við konung sinn og kennara. Megi það verða Guðs vilji að við fáum einnig hlutdeild í samfélagi þeirra og lærisveinahópi. [1]“

Í þriðja lagi er það samfélag við hina látnu. „Með því að gera sér að fullu grein fyrir þessu samfélagi alls hins leyndardómsfulla líkama Jesú Krists, hefur kirkjan, í sínum meðlimum, sem eru pílagrímar, alveg frá fyrstu dögum kristinnar trúar, heiðrað af mikilli virðingu minningu þeirra sem látnir eru; og þar sem “það er góð og gagnleg hugsun að biðja fyrir framliðnum, svo að þeir hreinsist af syndum sínum” ber hún fram fyrirbænir sínar fyrir þá.” Bæn okkar fyrir þeim er ekki einungis þeim til hjálpar heldur gerir hún einnig virkan árnað þeirra fyrir okkur. [1]“

Í fjórða lagi er það samfélag í hinni einu fjölskyldu Guðs: „Því að ef við höldum áfram að elska hvert annað og sameinumst við að lofsyngja hina alheilögu þrenningu - allir okkar sem erum synir Guðs og mynda eina fjölskyldu í Kristi - þá verðum við trú hinni dýpstu köllun kirkjunnar.[1]“

[1] Trúfræðslurit Kaþólsku kirkjunnar, greinar 947-962.

No feedback yet