« Hvað er samfélag heilagra?Signingin »

25.08.10

  19:34:13, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 350 orð  
Flokkur: Trúarpælingar

Hvað er kristin kirkja og kristin trú?

Kristin kirkja er samfélag fólks sem játar tiltekna trú sem það nefnir kristna trú. Það játar þá trú að heimurinn sé skapaður af eilífum anda sem það nefnir Guð Föður Almáttugan. Nú er trú á einn eilífan anda útbreidd og ekki bundin við kristnina en það sem er sérstakt við kristna trú er játun trúar á Guð Soninn Jesúm Krist og Guð, Heilagan Anda, þ.e.a.s. þríeinan Guð.

Kristin kirkja hefur ákveðna trú um eðli hins þríeina Guðs, um eðli, jarðvist, starf og upprisu Jesú Krists, hlutverk hans í samfélagi heilagra og á hinum síðasta degi heimsins þegar hann mun dæma alla menn af verkum þeirra.

Þetta er vegna þess að kristnin lítur svo á að ástand mannsins sé „fallið“, þ.e. að í manninum búi ekki bara vilji til að gera gott og byggja upp, heldur líka sá eiginleiki að spilla eða eyða hinu skapaða að einhverju marki svo sem í eigingjörnum tilgangi. Athafnir af fyrra taginu eru nefnd góðverk en af atvik af síðari taginu eru nefndar syndir.

Þeirra manna sem játa trúna og iðrast synda sinna af einlægu hjarta bíður eilíft líf með Guði, sbr. orð um fyrirgefningu syndanna, upprisu holdsins og eilíft líf í Níkeujátningunni.

Þrátt fyrir þetta lífsviðhorf horfir kirkjan einnig til þessa heims því auk þessa játar einnig trú á það sem hún nefnir samfélag heilagra en það er andlegt samfélag, „konungsríki Krists“ í þessum heimi og hinum komandi. Það er þetta samfélag sem nefnt hefur verið „kirkja“, „líkami Krists“, „samfélagið um borð Krists“ o.s.frv.

Einungis af þessu má ráða að Kristin trú hlýtur að hafa sterk og mótandi áhrif á lífsviðhorf og á endanum breytni þeirra einstaklinga sem hana aðhyllast. Í því tilliti er nærtækt að ætla að kristin trú hafi sterk áhrif á menningu þeirra landa þar sem hún skýtur rótum.

Einna sterkast birtast þessi áhrif í þeirri venju að taka frá sérstakan dag vikunnar fyrir trúariðkun og svo aðra sérstaka stórhátíðisdaga. Ef áhrif kristinnar trúar á menninguna dvína má gera ráð fyrir að fyrstu sýnilegu merki breytinga verði þau að viðhorf fólks til þessarar venju þróist í ýmsar áttir frá hinu kristna viðhorfi.

No feedback yet