« Saga um þrjá lærlinga djöfulsinsGuð einn er nóg! »

25.03.06

  08:19:33, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 261 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Hún var ekki skítug lengur

Eitt sinn var ungur munkur sem átti erfitt með að muna það sem hann las úr Biblíunni. Hann fór því til gamals og viturs munks og sagði honum frá vandamáli sínu. Ungi munkurinn lauk máli sínu með því að segja að kannski væri best að hætta að lesa Biblíuna úr því að hann gleymdi sífellt orðum hennar.

Gamli munkurinn rétti honum gamla og leka könnu sem var skítug að innan.

„Farðu og náðu í vatn í þessa könnu og komdu með það hingað,“ sagði gamli munkurinn.

Ungi munkurinn gerði eins og honum var sagt en eins og gaf auga leið hafði allt vatnið lekið úr könnunni þegar hann kom aftur.

„Fylltu hana á ný,“ sagði gamli munkurinn.

Og ungi munkurinn fyllti hana aftur en allt fór á sömu leið, vatnið lak úr könnunni.

„Fylltu hana á ný,“ sagði gamli munkurinn.

Og ungi munkurinn fyllti könnuna aftur þriðja sinni og enn aftur lak vatnið úr könnunni.

Þá sagði ungi munkurinn: „Áður en þú sendir mig á ný til að ná í meira vatn ættirðu að vita að þessi gamla skítuga kanna lekur.“

Þá brosti gamli munkurinn og sagði: „Gott og vel, líttu í könnuna og segðu mér hvað þú sérð.“

Ungi munkurinn leit í könnuna og sá að hún var ekki skítug lengur.

Þá sagði gamli munkurinn: „Þetta á einnig við um þig, orð Biblíunnar leka stöðugt út en þau hreinsa þig!“

No feedback yet