« Um heiðrun og tilbeiðsluÁtök kærleiksríkrar og kærleikssnauðrar þekkingar »

11.03.07

  07:30:58, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 574 orð  
Flokkur: Bænalífið

Hún skal merja höfuð þitt

Opinberanir Maríu Guðsmóður komu út á pfd-formati á Vefritum Karmels í fyrir tveimur dögum (síðdegis). Aldrei hefur neitt rit notið eins mikilla vinsælda á Vefritum Karmels: 331 heimsókn á tæplega tveimur sólahringum sem er það langhæsta fram að þessu.

Sjálfur er ég sannfærður um að það verði Guðsmóðirin sem sameini kirkjuna að nýju, eins og sagt er fyrir í 1M 3. 8. Eða eins og segir í riti Erzebet Szanto um hið Flekklausa Hjarta Maríu:

Jesús varaði okkur við: „Öll kirkjan er í mikilli hættu og þið getið ekki komið neinu til leiðar með jarðneskri viðleitni. Einungis Alhelg Þrenning og hin blessaða Mey í samvinnu við heilaga engla, hina heilögu og þeirra sálna sem þú hefur hjálpað, geta bjargað kirkjunni.“

Við skulum taka saman höndum á þessum náðartímum. Gerum við okkur ljóst hvílíka ósegjanlega andlega náðargjöf við öðlumst hjá hinni blessuðu Mey með loga elsku hennar.

Eitt sinn spurði Elísabet: „Hvað er logi elskunnar?“ Jesús svaraði: „Logi elsku Meymóður minnar er ykkur það sem örkin var Nóa!“ Og hin blessaða Mey svaraði: „Logi hins Flekklausa Hjarta míns er sjálfur Jesús Kristur!“ (bls. 151).

Þannig hefur kirkjan – bæði Vesturkirkjan og Austurkirkjan – ákallað hana frá upphafi, eins og Lúter gerir reyndir einnig í formálanum að riti sínu um Lofsöng Maríu.

Ég minni á bæn Austurkirkjunnar sem viðhöfð er í klaustrum þeirra:

Panhagia Despoina Theotoke. Sozon hymas: Háheilaga Mey og Guðsmóðir. Bjarga okkur! Hún er beðin ásamt Jesúbæninni: Drottinn Jesús Kristur, Guðs Sonur, miskunna þú oss!

Og í messubók þeirra (sem byggð er á helgisiðum hl. Jóhannesar Chrysostomos) er hún ávallt nefnd Panhagia Theotkos: Háheilaga Guðsmóðir.

Minnumst þess að í upphafi voru kristnir menn fáir, fátækir og smáir í Jerúsalem, svo mjög að sagnfræðingurinn Jósefus greinir frá því í riti sínu um Gyðingauppreisnina, að Rómaveldi taldi sér ekki stafa nein ógn af trú þeirra. Rúmlega 300 árum síðar var kristindómurinn búinn að velta heiðindóminum úr sessi! Nú stendur baráttan við Rómaveldi hið nýja: Dauðamenningu veraldarhyggjunnar!

Þetta er leyndardómur kærleiksstyrjaldar Krists Drottins: „Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki til að færa frið, heldur sverð“ (Mt 10. 34). Með þessum orðum skírskotaði hann til stríðs kærleikans. Í hinni kristnu OPINBERUN færði hann okkur kærleiksríka þekkingu elskunnar, eða með orðum Jóhannesar guðspjallamanns:

Þér elskaðir, elskum hver annan, því að kærleikurinn er frá Guði kominn, og hver sem elskar er af Guði fæddur og þekkir Guð. Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur. Í því birtist kærleikur Guðs meðal vor, að Guð hefur sent Einkason sinn í heiminn til þess að vér skyldum lifa fyrir hann. Þetta er kærleikurinn: Ekki að vér elskuðum Guð, heldur að hann elskaði oss og sendi Son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar (1Jh 4. 7-10).

Sjá grein mína hér að neðan: Átök kærleiksríkrar og kærleikssnauðrar þekkingar.

No feedback yet