« Um viðræður milli trúar, vísinda og veraldarhyggju (secularism)Dálítið um pólitíska slagsíðu »

05.02.06

  12:39:44, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 411 orð  
Flokkur: Kraftaverk

Hún blessaða Bernadetta okkar frá Lourdes

Þessi grein féll niður við flutning skráa yfir á nýtt vefsetur. Hún var skrifuð þann 22. janúar s.l.

Í gærkveldi, rétt áður en ég fór að sofa, efndi Drottinn til óvæntra
veisluhalda í sál minni. Ég sá afar athyglisverða mynd á National
Geography Channel í sjónvarpinu. Myndin heitir: The Beautiful Dead.

Þar gafst að líta fjölmörg dæmi um heilagt fólk sem hafið hefur verið
upp yfir lögmál jarðneskrar tilveru og er jafn fallegt eins og þegar það
dó. Hl. Margrét hefur legið þannig í 700 ár, án þess að hafa verið
smurð. Blessunin hún Margrét var lögð til hvíldar í grafhvelfingu ásamt
fjölmörgum öðrum sem sofnaðir voru í Kristi. Utan hennar einnar er allt
þetta hold orðið að dufti fyrir mörg hundruðum ára!

Margfróðir vísindamenn „útskýrðu“ þetta allt saman með
fjölþættustu rökum í ljósi fræða sinna. En allir standa þeir orðlausir
frammi fyrir leyndardómi þeim sem blessunin hún Bernadetta leiðir þeim
fyrir sjónir.

Nú eru liðin 136 ár síðan hún fór heim (Fl 3. 20). Vatíkanið heimilaði
færustu líffærafræðingum í heimi að rannsaka líkama hennar fyrir tveimur
árum. Í myndinni gafst fólki að sjá lifrina sem er eins og Bernadetta
hafi sofnað fyrir fimm mínútum. Enginn sérfræðinganna gat „útskýrt“
þetta með neinum rökum. Þetta er leyndardómur, rétt eins og uppnumning
Maríu Guðsmóður.

Þessi trúarsetning fer mikið í purrurnar á þeim vísu þessa heims. En
trúað fólk sem les heilaga Ritningu undir leiðsögn Heilags Anda veit að
Guð „nam hann burt“ (1 M 5. 24), það er að segja Enok. Svo kom Elía sem
hvarf heim í eldvagninum og þá Jesús og Guðsmóðirin.

Með trúarsetningunni um uppnumningu Maríu leiðir Heilagur Andi okkur
fyrir sjónir hvernig við sem trúum á nafn Drottins Jesú Krists verðum
einnig hafin upp í dýrð. Hin fullsæla Panhagía var þannig sú fyrsta af
mörgum bræðrum og systrum! Dýrmæt er hún þessi trúarsetning. Og líkami
blessaðrar Bernadettu leiðir okkur fyrir sjónir, að Guði er ekkert um
megn.

Dýrð sér þér Drottinn í kirkju þinni ásamt Guði Föður og Heilögum
Anda.

No feedback yet