« Nýir meðlimir gáfu loforð til inngöngu í leikmannareglu KarmelsHin heilaga krossganga - krossferill Krists »

17.11.20

  17:30:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 315 orð  
Flokkur: Bænir

Hugvekja - íhugun

Mynd: pikist.com 

  1. Ég er í Guði og Guð er í mér. Ég skynja að öll sköpun heimsins, trén, blómin tilheyra Guði og ég er hluti af þeirri sköpun. Ég hef afsalað mér vilja mínum, hann tilheyrir Guði: „verði Guðs vilji svo á jörðu sem á himni“.  Ég er ein(n) í Guði.
  2. Kærleikurinn einn megnar að  seðja hjarta mannsins. Hinn réttláti maður jafnvel á sínum litla jarðarskika öðlast því  ómælda lífsfyllingu sína í krafti kærleikans, meðan hinn kærleikssnauði í öllum sínum lystisemdum, upphafningu og auðlegð, þreyir sífellt  hungur og þorsta. Síbylja ágirndar er hlutskipti hans.
  3. Á himnum ríkja þær sálir fegurstar sem  hvað mest höfðu syndgað en iðrast með þrotlausum yfirbótum líkt og áburður við rót trjáa.
  4. Ef þú elskar náunga þinn þá er það vísbending um kærleika þinn til Jesú. Hinsvegar, í hvert sinn sem þú beinir augum þínum til náunga þíns án þess að skynja návist Jesú í honum, þá er þinn eiginn kærleikur til Jesú að þrotum kominn. 
  5. Allur heimurinn er sem þrunginn af svefni svo ósnortinn af lofsverðri gæsku Guðs sem aðeins fáir leiða hugann að! Sjálf náttúran ber Honum vitni í allri sinni dýrð: himininn, stjörnurnar, trén, blómin grasið allt sköpunarverkið ber Honum vitni og kallar á lofgjörð til Hans. En maðurinn sem ber hinn mikla ávöxt Hans og ekkert getur „gjört án Hans“ (Jóh. 15:5) sefur svefni hins sjálfumglaða!  Vaknið þið sem sofið og veitið ákalli Drottins lið með söng, lofgjörð og kærleiksverkum. Jesús er fallinn í gleymsku og dá, Jesús er ekki lengur tilbeðinn og elskaður. Jesús sem fórnaði lífi sínu svo þeir sem í hans fótspor fylgja mættu öðlast eilíft líf.Verði Hans vilji á jörðu sem á Himni.
  6. Heilagur Andi, fyll mig andagift þinni.
  7. Kærleikur Guðs, gagntaki mig.
  8. Leiddu mig, um farveg þinn.
  9. María Guðs Móðir, gættu mín.
  10. Í krafti Jesú blessa þú mig.
  11. Frá öllu illu, frá öllum tálmyndum,
  12. Frá öllum hættum, vernda þú mig.

Ísl. þýðing dr. Gígja Gísladóttir.

No feedback yet