« Vísindi mín eru elskan!BÆN UM AÐ SAMLÍKJAST HJARTA JESÚ – arfleifðin (höfundur ókunnur). »

21.01.07

  09:28:27, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 543 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Hugleiðing um ljósmynd á sunnudagsmorgni (frá vinkonu í Kanada)

proskyneo

Tjaldbúð hins Gamla sáttmála var forgildi hinnar komandi kirkju: Kristslíkamans. Þetta er boðskapur hinnar guðdómlegu ráðsályktunar á þessum stað sem lögð er áhersla á með dúkbreiðunum beggja vegna sjálfs inngangsins sem voru skjannahvítar. Þetta er ekki vegur hinna stærilátu. Þeir snúa baki við þessum stað auðmýktarinnar fullir fyrirlitningar. Þessi sannindi er lögð enn frekari áhersla á með þeirri staðreynd, að öll börn hins Gamla sáttmála urðu að skríða á fjórum fótum undir dúkbreiðu inngangsins vegna þess að þau gengu nú inn til staðar sem var helgaður Lifandi Guði Abrahams, Ísaks og Jakobs sem heilög jörð. Þetta er Konungsvegurinn til dýrðar okkar himneska Föður!

Sú staðreynd að Hebrearnir til forna urðu að skríða á fjórum fótum undir dúkbreiðu inngangsins varpar ljósi á það hvernig sálin getur varpað af sér byrðum holdsins: Með því að varpa sér fram á ásjónu sína frammi fyrir Guði í tilbeiðslu. Þetta er sú merking sem felst í gríska orðinu proskyneo í Nýja testamentinu. Þetta sagnorð er myndað úr forsetningunni pro sem tjáir hreyfingu fram á við eða til einhvers og nafnorðinu kyon eða „hundur.“ Orðið tjáir bókstaflega sambandið milli hunds og húsbónda hans. Dýrið kyssir eða sleikir andlit húsbónda síns í elsku og fullkomnu trúnaðartrausti. Sem slíkt er orðið þýtt sem „tilbeiðsla“ í Nýja testamentinu og það kemur fram um það bil 60 sinnum í guðspjöllunum. Einn vina minna átti þýskan Dachshund og hann sagði mér að hundurinn hefði ekki hikað við að stökkva í fang hans úr hægindasófanum! Þetta er dæmi um fullkomið trúnaðartraust!

Þegar við hugleiðum myndina hér að ofan koma orðin úr Bréfi Páls til Kolossumanna upp í hugann: „Því að í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa og láta hann koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og himnum, með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi“ (Kol 1. 19-20). Hversu margir kristnir foreldrar geta ekki dregið lærdóm af þessari mynd: Að biðja með börnum sínum fyrir svefninn á hverju kvöldi. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft! Og hvað varðar hundinn, sagði þá ekki heil. Páll líka:

„Vér vitum, að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa. En ekki einungis hún, heldur og vér, sem höfum frumgróða andans, jafnvel vér stynjum með sjálfum oss meðan vér bíðum þess, að Guð gefi oss barnarétt og endurleysi líkami vora. Því að í voninni erum vér hólpnir orðnir. Von, er sést, er ekki von, því að hver vonar það, sem hann sér? En ef vér vonum það, sem vér sjáum ekki, þá bíðum vér þess með þolinmæði“ (Rm 8. 22-25).

No feedback yet