« Ritningarlesturinn 2. september 2006Ritningarlesturinn 1. september 2006 »

01.09.06

  08:13:25, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1087 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Hróp Krists í djúpi mannshjartans

Stund Krists rennur upp þegar við krjúpum niður í auðmýkt og játum syndir okkar og biðjum hann að koma inn í hjörtu okkar. Það gerir hann sannarlega og lýkur upp fyrir okkur Ritningum sínum, eins og hann lauk þeim upp fyrir lærisveinunum á veginum til Emmaus forðum (Lk 24. 45). Í ritningarlestri dagsins (1. september) víkur Ágústínus kirkjufaðir að hinu hinsta kalli hans og því lögðu hinir heilögu feður sífellt rækt við endurminninguna um dauðann. Þegar við biðjum Krist að koma inn í hjörtu okkar öðlumst við þegar nýtt líf hér á jörðinni, frumávöxt hins komandi lífs, og göngum inn í stund hans eða Kriststímann. Þá tekur hróp hans að gjalla: Rís upp og taktu til höndunum, breiddu út ríki mitt á jörðinni! Þeir sem fyllt hafa lampa sína af olíu daglegs Ritningarlesturs með því að hella olíu Heilags Anda í lampabolla sína í bæninni heyra þetta eilífa ákall. Því: „Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína.“ Einungis fimm þeirra áttu þessa olíu í lömpum sínum, en fávísu meyjarnar fimm ekki. Talan 5 í heil. Ritningu táknar ávallt líf náðarinnar, þeim var áfátt í þessum efnum þessum fávísu meyjum og því fór sem fór. Þeim var ekki boðið til brúðkaupsfagnaðarins: „Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.“

Þetta gildir ekki einungis um hverja einstaka sál heldur alla kirkju Krists á jörðinni. Sú kirkja sem bregst ekki við ákalli hans verður brotin af stofninum sem ófrjósöm grein sem ekki ber ávöxt, eða með orðum Páls postula:

Ef þú stærir þig, þá vit, að þú berð ekki rótina, heldur rótin þig. Þú munt þá segja: „Greinarnar voru brotnar af, til þess að ég yrði græddur við.“ Rétt er það. Fyrir sakir vantrúarinnar voru þær brotnar af, en vegna trúarinnar stendur þú. Hreyktu þér ekki upp, heldur óttast þú. Því að hafi Guð ekki þyrmt hinum náttúrlegu greinum, þá mun hann ekki heldur þyrma þér. Sjá því gæsku Guðs og strangleika, – strangleika við þá, sem fallnir eru, en gæsku Guðs við þig, ef þú stendur stöðugur í gæskunni, annars verður þú og af höggvinn (Rm 11. 18-22).

Við sjáum þetta andlega lögmál að verki í dag með áþreifanlegum hætti: Þær kirkjur sem víkja út af sannleiksboðskap Drottins koðna niður á sama tíma og Heilagur Andi blæs lífi í kirkjur hinna trúföstu. Þetta sjáum við gerast í Kína á okkar eigin dögum í neðanjarðarkirkjunum, en talið er að meðlimir þeirra séu þegar orðnir liðlega 100 milljónir og fer fjölgandi með hverjum deginum sem líður. Við skulum gefa bróðir Yun orðið:

Eitt sinn prédikaði ég á Vesturlöndum og kristinn maður sagði við mig: „Ég hef beðið fyrir því árum saman að stjórn kommúnista muni hrynja svo að kristnir menn geti búið við frelsi.“ Þannig á alls ekki að biðja! Við biðjum aldrei gegn stjórnvöldum okkar eða köllum yfir þau bölvun. Okkur hefur hins vegar lærst að stjórn alls er í höndum Guðs sem stjórnar bæði okkar eigin lífi og stjórnvalda þeirra sem við erum sett undir. Spádómsorð Jesaja um Jesú hljóðuðu: „Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla“ (Jes 9. 6).

Guð hefur notað stjórnvöldin í Kína með sínum eigin hætti til að móta og aga börn sín eftir eigin velþóknan. Í stað þess að beina bænum okkar gegn stjórnvöldum, þá biðjum við um að hvað sem ber að höndum verðum við Guði velþóknanleg.

Biðjið ekki um að ofsóknunum ljúki! Við eigum ekki að biðja um léttari byrðar til að bera, heldur sterkara bak til að standast! Þá mun heimurinn sjá að Guð er með okkur og gefur okkur kraft til að lifa með þeim hætti sem endurspeglar elsku hans og kraft [1]

Skömmu áður hafði bróðir Yun fjallað um þær skelfilegu ofsóknir sem kristið fólk hefur orðið að ganga í gegnum í Kína, limlestingar, þrælkunarvinnu og dauðadóma. Það er einmitt þessi staðreynd sem gert hefur kristna menn í Kína að dugandi hermönnum Krists og nú streyma sífellt fleiri kínverskir trúboðar til landa í Austurlöndum fjær og til Arabalandanna. Þeirra bíður hið sama og á á heimaslóðum: Limlestingar, þrælkunarvinna og dauðadómar í þessu löndum, en það óttast þeir ekki vegna þess að börn Guðs í Kína hafa mótast í eldi þjáninganna.

Nokkru síðar víkur bróðir Yun að því að eftir að hann hafi tekið að dvelja meðal Vestrænna þjóða hafi sér orðið sífellt betur ljóst að þar fælust ofsóknirnar ekki í limlestingum, þrælkunarvinnu og dauðadómum, heldur rógburði, níði og rangfærslum. Hversu sönn eru þau ekki þessi orð.

Þetta hafa meðlimir í Samstarfshópi kristinna trúfélaga sannarlega orðið áþreifanlega varir við á þessum örlögatímum í afkristnun íslensku þjóðarinnar. Hópurinn samanstendur af kjarna trúfastra guðs barna úr öllum kirkjudeildum: Hvítasunnumönnum, trúföstum þjónum úr Þjóðkirkjunni, kaþólskum einstaklingum og orþadoxum. Bræður og systur, verum glöð þar sem Drottinn er í nánd. Sönnun þess felst einmitt í þeirri staðreynd sem birtist í orðinu OFSATRÚ af vörum veraldarhyggjunar. Það er sönnun þess að við erum á réttri leið. Biðjum fyrir stjórnvöldum og þessum hrelldu sálum að þau megi komast til skilnings á náð Drottins okkar Jesú Krists:

„Svo er skrifað, að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi, og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum iðrun til fyrirgefningar synda og byrja í Jerúsalem. Þér eruð vottar þessa“ (Lk 24. 45-48).

[1] Heavenly Man, bls. 287.
[2) Þeir sem vilja styrkja trúboð okkar kínversku bræðra og systra geta fengið allar upplýsingar á:
http://www.backtojerusalem.com

3 athugasemdir

Steingrímur  Valgarðsson

Sæll Jón Rafn
Gaman að sjá að það er verið að vitna í Heavenly Man hérna. Ég vona að sem flestir lesi þessa mögnuðu bók.
Kv Steini

01.09.06 @ 13:43
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Í kaþólsku kirkjunni höfum við reyndar sagt undanfarin 30 ár að trúboðarnir yrðu að koma frá Asíu til að endurkristna Evrópu. Sú er nú orðin raunin.

Þeir voru nú reyndar að sleppa kaþólskum biskupi frá Henan lausum úr fangelsi eftir tíu ára fangavist í s. l. viku. Hann tók sérstaklega fram að sér hefði liðið einstaklega vel í fangavistinni og meðhöndlaður með mannúðlegum hætti.

Við skiljum og vitum báðir hvað býr þessum orðum að baki.

Vefsíða „The Chinese House Church“, kirkju bróðir Yun:

http://www.backtojerusalem.com

01.09.06 @ 14:41
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér þessa góðu grein, Jón Rafn.

01.09.06 @ 15:20