« Andi sannleikans mun leiða yðurStjörnufræðingur Páfagarðs segir sköpunarhyggjuna vera hjátrú »

27.06.06

  12:37:03, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 427 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni

Hrapað að vissu - endað í skyssu

Í ómerktri forystugrein Morgunblaðsins þriðjudaginn 27. júní 2006 er reifuð sú niðurstaða könnunar sem Financial Times lét gera í fimm Evrópulöndum að 36% fólks í þessum ríkjum lítur svo á að heimsfriðnum stafi meiri hætta af „Bandaríkjunum heldur en bæði Kína og Íran. Leiðarahöfundurinn ókunni segir eftirfarandi:

„Líklegast er þó að upplifun fólks í áðurnefndum Evrópuríkjum byggist ekki fyrst og fremst á Íraksstríðinu heldur allt öðru: með sama hætti og almenningur í Evrópu lítur svo á að ofstækisfullir klerkar ráði ríkjum í Íran má telja líklegt að ofangreint mat á Bush-stjórninni byggist á þeirri tilfinningu, að trúarofstækismenn í Bandaríkjunum hafi of mikil áhrif og völd í Hvíta húsinu.“

Nú væri hægt að benda bæði á Afghanistan en þó sérstaklega árásina á Írak og þær hæpnu forsendur sem þar voru að baki. Einnig væri hægt að nefna Guantanamo og fangaflug, núning í samskipum við Norður-Kóreu, yfirlýsingar um 'öxul hins illa' og orðróm um árás á Íran. Enn væri hægt að velta fyrir sér aukinni upplýsingasöfnun stjórnvalda. Líkast til hefur þetta allt eitthvað að segja en spurning hlýtur samt að vera hvers vegna leiðarahöfundur Mbl. tengir skýringuna á evrópska almenningsálitinu við bandaríska trúarofstækismenn. Engin nöfn eru heldur nefnd í þessu sambandi svo allt eins mætti ætla af þessum skrifum að Bush horfi of mikið á trúboðsrásir sjónvarpsins. Vitað er að hinar og þessar sögusagnir eru á kreiki, en varla getur verið að leiðarahöfundur Morgunblaðsins vilji taka mark á slíku. Nóg hafa menn bæði austan hafs og vestan brennt sig á sögusögnum að undanförnu.

Á dögunum vildi svo til að ég var ég staddur í útjaðri 'biblíubeltisins' í Róanóke í Virginiu. Eins og menn vita tíðka baptistasöfnuðir að birta texta á auglýsingaskiltum utan við samkomuhús sín. Á leiðinni út úr bænum var einn slíkur staður með skilti sem ég fylgdist með. Þar var kominn nýr prestur og hann birti ekki ritningargreinar eins og oft sést bregða við á þessum skiltum. Það sem hann skrifaði var: 'Jump to conclusion and suffer from confusion' sem útleggja mætti sem 'Hrapað að vissu - endað í skyssu'. Þessi orð úr biblíubeltinu gæti leiðarahöfundur Morgunblaðsins tekið til athugunar eins og hver annar.

1 athugasemd

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta er góð grein hjá þér, Ragnar. – Ég tók einmitt eftir þessum undarlega leiðara í gærmorgun. Það, sem þar segir um að 36% fólks í fimm Evrópuríkjum líti svo á, að heimsfriðnum stafi meiri hætta af Bandaríkjunum heldur en bæði Kína og Íran, ásamt þeirri ályktun Mbl.ritstjóra, að þessi breyting á afstöðu gamalla vinaþjóða til Bandaríkjanna sé “auðvitað óviðunandi fyrir Bandaríkjamenn sjálfa,” kveikti þessi viðbrögð mín: Nú, hvað með það, er þetta ekki eðlileg afleiðing af andróðrinum gegn Bandaríkjunum á liðnum árum – er þetta nokkuð verra fyrir þá en þeir gátu átt von á? Af hverju ættu þeir að kippa sér upp við að 36% manna hafi þessa afstöðu, sem stór hluti fjölmiðlamanna hefur einmitt verið að halda svo stíft að Evrópuþjóðunum? Þetta segir þó um leið, að 64% manna hafi ekki þessa afstöðu.

Það er laukrétt hjá þér, að það er fráleitt af Mogganum að kenna trúarhreyfingum í Bandaríkjunum um þessa afstöðubreytingu evrópskra – tengsl þessarar afstöðu eru miklu meiri við átakamálin í Miðausturlöndum og deilurnar um þau í Evrópulöndum. En vissulega er sífellt verið að nudda Bandaríkjastjórn upp úr þessari klisju um trúaröfgar, “bókstafstrú” o.s.frv. (Meðal annarra orða: Er ekki ágætt að taka það bókstaflega að Guð sé kærleikur og ósegjanlega miskunnarríkur, að Kristur hafi sætt mannkyn við Guð, að okkur beri að iðrast vondra gerða okkar, að okkur beri að sjá Krist í náunga okkar, að við eigum að fyrirgefa náunganum margfaldlega, að mönnum beri gott að gjöra og ekki illt og elska bræður sína og systur? Vilja menn hafa þetta eitthvað annað og gáfulegra en ‘bókstaflegt’ – kannski einhverja nýaldarlega þokuhugsun í staðinn? En eru það ekki bókstafleg sannindi, að New York er í Ameríku, tveir plús tveir eru fjórir, að Byron og Shelley voru mikil skáld á 19. öld og að postular og lærisveinar Jesú trúðu því, að hann hefði risið upp frá dauðum? Kristin trú batnar sízt við það, að menn fari að breyta henni í óvissufálm út í loftið.) Þetta er nánast sífellt samhangandi: yfirlýsingarnar um öfgar Bandaríkjastjórnar í trúmálum og í yfirgangi gagnvart öðrum þjóðum (jafnvel við okkur Íslendinga!” – en þó ekki tengt trúarofstæki í því tilfelli).

28.06.06 @ 14:36