« Guðspjall JúdasarVatíkanið við Sameinuðu þjóðirnar: Hagið ykkur nú skynsamlega og hættið fólksfækkunaræðinu »

08.04.06

  08:36:10, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 585 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Horfið til hans!

Guðspjall Jesú Krists á Pálmasunnudag er úr Markúsarguðspjalli 11. 1-10

Þegar þeir nálgast Jerúsalem og koma til Betfage og Betaníu við Olíufjallið, sendir hann tvo lærisveina sína og segir við þá: „Farið í þorpið hér framundan ykkur. Um leið og þið komið þangað, munuð þið finna fola bundinn, sem enginn hefur enn komið á bak. Leysið hann, og komið með hann. Ef einhver spyr ykkur: ,Hvers vegna gjörið þið þetta?' Þá svarið: ,Herrann þarf hans við, hann sendir hann jafnskjótt aftur hingað.'" Þeir fóru og fundu folann bundinn við dyr úti á strætinu og leystu hann. Nokkrir sem stóðu þar, sögðu við þá: "Hvers vegna eruð þið að leysa folann?" Þeir svöruðu eins og Jesús hafði sagt, og þeir létu þá fara. Síðan færðu þeir Jesú folann og lögðu á hann klæði sín, en hann settist á bak. Og margir breiddu klæði sín á veginn, en aðrir lim, sem þeir höfðu skorið á völlunum. Þeir sem á undan fóru og eftir fylgdu, hrópuðu: „Hósanna! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins! Blessað sé hið komandi ríki föður vors Davíðs! Hósanna í hæstum hæðum!“

Hugleiðing
Á s. l. ári tók ég þátt í kyrrðardegi á vegum Teresusystranna. Þar hélt Guðrún Ásmundsdóttir leikkona athyglisverða hugleiðingu um þetta atvik í lífi Jesú og deildi með okkur innsýn sinni sem hestakona, þegar Jesús reið niður snarbratta hlíð Olíufjallsins á asnafolanum. „Þið getið ekki ímyndað ykkur hversu erfitt þetta hefur verið,“ sagði hún, „þetta veit ég sem hestakona!“ Hl. Ritning dregur einnig upp mynd af öðrum asna, það er að segja ösnu Bíleams: „Og er asnan sá engil Drottins, lagðist hún undir Bíleam“ (4 M 22.27). Þetta gerist ef við ætlum að ríða í öfuga átt, það er að segja upp fjallið í stærilæti okkar. Vegur Krists er vegur auðmýktarinnar. Þegar Ágústínus kirkjufaðir hugleiddi þetta atvik, komst hann svo að orði:

„Kristur er lærifaðir auðmýktarinnar sem lítillæti sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauða á krossi. Hann glatar ekki Guðdómstign sinni þegar hann uppfræðir okkur um auðmýktina. Hversu mikið lagði ekki konungur aldanna í sölurnar til að verða að konungi auðmýktarinnar. Kristur var ekki konungur Ísraels til að geta innheimt skatta eða til að vígbúa her til að sigrast á sýnilegum fjandmönnum. Hann var konungur Ísraels sem ríkir yfir mannshuganum vegna þess að hann kennir okkur leiðina til eilífs lífs og leiðir þá sem trúa, vona og elska inn í konungsríki himnanna. Þetta felst í því að Sonur Guðs sem situr við hlið Föðurins, Orðið sem allir hlutir voru skapaðir fyrir, varð konungur Ísraels með því að fara niður hlíðina en ekki upp. Þetta eru ummerki guðrækni en ekki valds“ [1]

Þetta lærum við með því að horfa til hans, eða eins og hl. Teresa frá Avíla sagði: Mira lo gue mira (Horfðið til hans sem horfir á ykkur). Þetta sama boðar Guðsmóðirin okkur einnig sem Vegvísan (Hoidigitria) á íkonu sinni þar sem hún bendir á Jesúbarnið: HORFIÐ TIL HANS!

[1]. Íhugun um Jóhannesarguðspjall 51. 3-4.

No feedback yet