« Tveir merkisdagar í sögu kaþólsku kirkjunnar á Íslandi – og um starf St. JósefssystraKaþólsk tónlist endurreisnartímans »

27.06.10

Hörmulegt þingmál orðið að veruleika: gifting samkynhneigðra

Sorglegur er þessi dagur fyrir trúfélög og kirkjur í landi okkar. Á grundvelli ofurróttækrar, illa undirbúinnar löggjafar frá Alþingi, sem tekur gildi ekki skv. tímavenju löggjafarvaldsins, heldur á degi samkynhneigðra, í dag, hefur Karl biskup Sigurbjörnsson gefið út nýja gerð hjúskaparforms, þar sem prestum er leiðbeint um að gifta saman karl og karl, sem og konu og konu, og það sagt gert í nafni Guðs. Þetta er í sjálfu sér yfirgengilegt hneyksli í kristinni kirkju.

Alþingi samþykkti 11 þ.m. hjúskaparlög sem leyfa hjónabönd samkynja fólks og gerði það án nokkurs mótatkvæðis, 49:0. Þótt andúð á lagasetningunni kunni að hafa búið að baki hjá einhverjum þeirra, sem fjarverandi voru, dugði hún þeim ekki til að fylgja sannfæringu sinni í því efni. Raunar bendir ýmislegt til, að menn hafi verið beittir flokksaga í þessu máli – sem er vitaskuld þvert gegn ákvæði stjórnarskrárinnar [1]. Þetta ræð ég af einhliða kosningamynztri Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um málið, ekki aðeins aðaltillöguna, heldur og mikilvægustu breytingatillöguna (um samvizkufrelsi presta).

Eftirfarandi tillaga Birgis Ármannssonar: "Vígslumönnum trúfélaga er heimilt að synja hjónaefnum um vígslu ef það stríðir gegn trúarlegri sannfæringu þeirra,” var FELLD! [2]

Samt tala ýmsir um það sem öruggt mál, að prestum verði látið eftir slíkt samvizkufrelsi – og sumir tala þannig, að ekki myndu samkynhneigðir vilja láta presta, sem séu andstæðir "réttindum" þeirra, gefa sig saman. En hörð barátta lítils harðkjarna í þessum hópi samkynhneigðra og stuðningsmanna þeirra hefur enn ekki fengið nóg. Þannig segir í einu af hinum innsendu álitum til Alþingis: "Við í Q – félagi hinsegin stúdenta teljum ekki við hæfi að prestar hafi sökum trúarsannfæringar sinnar rétt til að neita fólki um þjónustu á meðan þeir þiggja laun frá ríkinu."

Og slík hefur andúðin á kirkju og prestum verið hjá sumum þeirra, sem fjallað hafa um þessi mál, að allt eins má búast við, að einhverjir eigi eftir að áreita þekkta, kenningartrúa presta með því að óska eftir kirkjuhúsum þeirra til vígslu samkynhneigðra og jafnvel þeirra eigin prestsþjónustu. En það er vitaskuld ekki við það búandi, að prestar eigi það einfaldlega undir helztu hugmyndalegu andstæðingum sínum, að þeir fái að vera í friði með sína trúarsannfæringu. Vel er hugsanlegt, að prófmál af þessu tagi geti komið síðar fyrir dómstóla.

Um þetta mál er mikið fjallað á vefslóð á vef Kristinna stjórnmálasamtaka: Kynhneigðamál, sem og á Moggabloggi mínu (í þessum færsluflokki).

JVJ.

NEÐANMÁLSGREINAR:

[1] 48. gr. stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands: "Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum." Sbr. einnig 47. gr. "Sérhver nýr þingmaður skal vinna drengskaparheit að stjórnarskránni, þegar er kosning hans hefur verið tekin gild."

[2] Þessir þingmenn felldu breytingartillögu Birgis um synjunarrétt presta og annarra vígslumanna trúfélaga, þegar trúarleg sannfæring þeirra byði þeim svo: Anna Margrét Guðjónsdóttir, Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Árni Páll Árnason, Árni Þór Sigurðsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Birkir Jón Jónsson, Björn Valur Gíslason, Guðbjartur Hannesson, Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hjörvar, Höskuldur Þórhallsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Lilja Mósesdóttir, Magnús Orri Schram, Margrét Pétursdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Mörður Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Siv Friðleifsdóttir, Skúli Helgason, Steingrímur J. Sigfússon, Valgerður Bjarnadóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þór Saari, Þráinn Bertelsson, Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson, Össur Skarphéðinsson.

Þessir 14 þingmenn greiddu tillögu Birgis Ármannssonar atkvæði sitt: Ásbjörn Óttarsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Bragi Sveinsson, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Óli Björn Kárason, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Tryggvi Þór Herbertsson.

Þessir þingmenn voru skráðir í fjarvist (þá sennilega utan Reykjavíkur eða veikir): Jón Bjarnason, Ólína Þorvarðardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Svandís Svavarsdóttir.

Þessir þingmenn voru fjarverandi: Árni Johnsen, Ásmundur Einar Daðason, Eygló Harðardóttir, Ragnheiður E. Árnadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir.

(Heimild: HÉR á vef Alþingis; tillagan sjálf (2. liður breytingatillögu minnihuta allsherjarnefndar, þingskjal 1257, er HÉR.)

8 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þetta mun væntanlega fela í sér þær breytingar hvað kaþólsku kirkjuna varðar að prestar hennar munu hætta að þjóna sem vígslumenn ríkisvaldsins. Þannig er það t.d. í Frakklandi.

Það kemur fram t.d. í áliti Q að þeir telja tengsl við ríkið, í þessu tilfelli laun, vera forsendu mismununar. Séu þessi tengsl við ríkisvaldið ekki til staðar þá sé ekki um lagalega mismunun að ræða.

Mér er ekki kunnugt um það hvort kaþólskir prestar hafi þegið laun fyrir þessa pappírsútfyllingu, tel það reyndar frekar ólíklegt. Ómakið verður þá þeirra sem vígjast því þau þurfa að gera það á tveim stöðum í stað eins áður. Þetta eru helstu breytingarnar sem ég sé hvað okkar kirkju varðar.

Ríkisvaldið mun fara sínu fram og það er tilgangslaust og líklega varasamt frá guðfræðilegum sjónarhóli að halda uppi pólitískri baráttu gegn þessu. Hið eina sem sú barátta mun færa er óvild og fordómabrígsl. Markmið kirkjunnar er og verður annars heims en ekki þessa. Markmið hennar er að ná þessum sálum til himna, ekki með boðum, bönnum og útskúfun heldur með fordæmi, leiðbeiningu og boðun trúarinnar.

Sem kristnir menn eigum við ekki endilega að hafa þá sýn að kirkjan eigi að vera samofin ríkisvaldinu líkt og verið hefur hér á Íslandi síðastliðin 1000 ár. „Gjaldið Guði það sem Guðs er og keisaranum það sem keisarans er“ sagði Jesús Kristur og staðfesti þar með aðskilnað kirkju sinnar og ríkisvaldsins.

Ég efast t.d. um að hann hafi haft þá sýn á kirkjuna að hún yrði það sem hún þróaðist út í að vera á miðöldum, þ.e. allsherjaryfirvald og refsivöndur þeirra sem ekki beygðu sig undir lög hennar.

Þessi náni samruni trúar og ríkisvalds sem við búum enn við er arfur af kirkjuveldisstefnu miðalda og mun líklega renna sitt skeið á enda áður en langt um líður.

27.06.10 @ 12:54
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Alþingi ber skv. stjórnarskránni að vernda og styðja Þjóðkirkjuna, ekki að ryðjast inn á hana, og Alþingi sjálft samþykkti lög og reglur um að Þjóðkirkjan réði sér sjálf í innri málum sínum, en þar til heyra kenningin, helgisiðir og sakramenti, svo að eitthvað sé nefnt. Þess vegna áttu lögin um hjúskap samkynja fólks sízt alls að taka til kirkjubrúðkaupa.

Þetta vil ég nú taka fram, kæri Ragnar, í upphafi fyrsta svars míns við þessu innleggi þínu. Víst er reyndar, að afstaða þín er verulega ólík afstöðu biskups okkar, herra Péturs Bürcher, í áliti því, sem hann sendi til Alþingis um frumvarpið um hjúskap samkynhneigðra.

Kaþólska kirkjan á Íslandi er ekki “samofin ríkisvaldinu", hvað þá í “samruna” við það, og hún mun ekki láta þetta ríkisvald banna sér að framkvæma kristna hjónavígslu. Kynntu þér málið betur hjá biskupinum og kanzlara hans.

Með kærri kveðju.

27.06.10 @ 13:05
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þegar ég er að tala um kirkju samofna ríkisvaldinu þá á ég að sjálfsögðu við þjóðkirkjuna en ekki kaþólsku kirkjuna.

27.06.10 @ 19:02
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Heill og sæll Jón, ég er nú búinn að bíða eftir framhaldi fyrsta innleggs þíns en þar sem það hefur ekki komið enn þá vil ég ekki láta lengri tíma líða án þess að láta því ósvarað.

Ég sé ekki hvernig afstaða mín er ólík afstöðu biskupsins okkar. Mér vitanlega hvetur hann engan til pólitískrar baráttu gegn lögunum þó hann taki ákveðna afstöðu gegn þeim. Með bréfi sínu skipar hann sér ekki í neina stjórnmálahreyfingu og hann hvetur engan til pólitískra aðgerða af neinu tagi þrátt fyrir að bréfið sé ákall og áskorun til núverandi stjórnvalda um að láta ekki verða af lagasetningunni.

Að mínu viti er þetta málefni fyrst og fremst ágreiningsmál um lög og lagasetningu hins veraldlega ríkis og á því nánast eingöngu heima á hinum pólitíska vettvangi. En pólitísk ágreiningsmál sundra gjarnan eins og önnur ágreiningsmál og því ætti að kappkosta að halda þannig deilum utan kirknanna.

Ástæðan fyrir þessum ágreiningi innan Þjóðkirkjunnar sem þú rekur í pistlinum stafar að líkindum af því hversu samofin hún vill vera ríkisvaldinu og lýðræðislega teknum ákvörðunum þess. Æðsti yfirmaður hennar er þjóðhöfðinginn, sá næst æðsti er ráðherra. Hinn þriðji er biskupinn og bæði hann og prestarnir þiggja laun frá ríkisvaldinu. Það hversu margir prestar taka afstöðu með lögunum helgast að líkindum af því hvernig þessum skipulagsmálum er komið fyrir.

Almennt ættum við að skipta okkur sem minnst af innanbúðarmálum annarra trúfélaga og að mínu mati ættu kaþólskir menn því að halda sig utan við þessar deilur þar sem þær snerta okkur beint að mjög takmörkuðu leyti.

Kær kveðja

01.07.10 @ 07:36
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Nú er ég alveg ósammála þér, Ragnar, um þessi mál og t.d. um þessi lokaorð þín, sem og um afstöðu biskupsins og kaþólsku kirkjunnar. Menn ættu líka að kynna sér Vísis.is-fréttina sem ber sömu yfirskrift og þessi samantekt mín á Krist.blog.is: Hjónabönd samkynhneigðra ekki mannréttindi. Sú frétt kemur ekki þeim kaþólsku fræðimönnum ‘óþægilega á óvart’, sem leggja áherzlu á náttúruréttarrök í málum, rétt eins og skólaspekingar miðalda gerðu margir hverjir (t.d. heil. Thómas Aquinas) og kirkjan raunar síðustu aldir.

Afar góð grein um þetta síðastnefnda, þ.e. um röksemdir fengnar úr veraldlegum fræðum (náttúruréttarrök) fyrir því, að ríkinu beri ekki að leyfa samkynhneigðum að giftast, er eftir Oxford-fræðimanninn Raphaelu T.M. Schmid, áður við St. Hugh College í Oxford, en nú aðstoðarprófessor við Pontificia Università Gregoriana í Róm, og full ástæða til að vísa á hana hér : Is Marriage a Form of Discrimination? Greinin, sem birt er m.a. á Zenit.org, sem þú sjálfur berð fullt traust til, en upphaflega í ensku útgáfunni af L’Osservatore Romano, getur ýmsum þótt krefjandi í yfirlestri, þótt hún sé í reynd ljós og dæmigerð fyrir snilldar-rökhyggju brezkrar, akademískrar hugsunar, svo sem þá sem ástunduð er í Oxford og Cambridge.

Annars er ég vant við látinn og skrifa meira seinna.

01.07.10 @ 09:34
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sæll Jón og takk fyrir svarið.

Það að taka afstöðu þarf ekki að vera það sama og að beita sér í pólitískri deilu eða átökum. Biskupinn okkar upplýsti ráðamenn um sína afstöðu af því hann var spurður og honum bar að opinbera afstöðu sína gagnvart þingnefnd.

Ég er almennt hlynntur því að fólk taki afstöðu í hinum og þessum málum og vitaskuld geta menn og eiga að beita sér í pólitík en það hlýtur að þurfa að gerast á pólitískum forsendum, á veraldlegum forsendum og með hliðsjón af hinu pólitíska landslagi. Það er vegna þess að í landinu er ekki lengur einn siður og ein trú. Það er þungur biti að kyngja fyrir marga en það er samt staðreynd.

Pólitískar forsendur geta svo að sjálfsögðu haft ýmsar rætur og þeirra á meðal trúarlegar - að sjálfsögðu. Það að hræra trúarlegum og pólitískum forsendum saman í pólitískri umræðu getur samt haft í för með sér ýmsan misskilning meðal annarra hópa, svo sem þann að þeir sem þetta gera séu haldnir fordómum af einhverju tagi.

Að mínu mati erum við að upplifa miklar þjóðfélagsbreytingar. Kirkjur og kristin trú er að víkja sem regnhlífarsiður fyrir þjóðir V- Evrópu og í staðinn eru að spretta upp fjölbreytt menningarsamfélög.

Kirkjurnar þurfa að bregðast við þessari þróun á þann hátt að þar sem greinir á við aðra hópa um siðferði þá sé ekki reynt að hverfa til baka til gamla tímans t.d. af þeirri ástæðu að það er ekki praktískt.

Í mörgum þessara mála þarf að móta nýja nálgun með tilliti til breyttra aðstæðna. Þess vegna er að mínu mati ekki rétt að berjast fyrir lagasetningu sem skyldar þá sem ekki tilheyra trúarbrögum X að hegða sér eins og þeir tilheyri trúarbrögðum X þar sem X er heiti á einhverjum ótilteknum trúarbrögðum.

Ef við byggjum t.d. í samfélagi hindúa þá væri okkur eflaust illa við það ef við yrðum skyldaðir til að taka upp siði þeirrar trúar vegna þess að trúarlegum forsendum þeirra hefði verið beitt í pólitískri umræðu og þær fengið hljómgrunn.

Bestu kveðjur

02.07.10 @ 06:23
Athugasemd from: Gunnar Ingibergsson
Gunnar Ingibergsson

Ég held að þetta hafi bara verið tímaspursmál hvenær þetta myndi gerast að samkynhneigðir fengu að giftast í kirkju.En ég ætla ekki að ræða það hér álit mitt á því en ég er alveg sammála Ragnari að það fjölmenning er að verða að veruleika á Íslandi og á eftir að vaxa en frekar í evrópu að múslimar verða ennþá meiri.

02.07.10 @ 20:27
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Kæri Ragnar, þó að ekkert vanti á, að þú rökstyðjir mál þitt eins vel og verða má, er ég enn í grundvallaratriðum ósammmála þér.

Hef verið mjög öllum kafinn og á því enn eftir að svara þér, svo að einhver mynd sé á, en það rekur að því, vinur.

05.07.10 @ 23:31
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

open source blog tool