« Hinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar: Karl BorromeusHelgi lífsins »

29.10.06

  11:14:56, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 5979 orð  
Flokkur: Sr. Edward Booth

Hl. Tómas og lögin

Grein eftir séra Edward Booth O.P. prest í Stykkishólmi sem birtist áður í Merki krossins, tímariti kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, 1. hefti 2005 og er endurbirt hér með leyfi höfundarins. (Aths. RGB )


Nokkrar athugasemdir í tilefni af birtingu íslenskrar þýðingar greinar hans um lög úr ritinu Summa Theologiæ

Edward Booth O.P.

Útgáfa í flokki Lærdómsrita Bókmenntafélagsins á íslenskri þýðingu kaflans um lög í Summa Theologiæ eftir heilagan Tómas af Aquino (hluti 1a2ae Quæstiones 90–97) er markverður viðburður ekki aðeins á sviði lögfræði heldur einnig varðandi mikilvægi heilags Tómasar fyrir menningu Evrópu og alls heimsins. [1]

Í inngangi er verkið sett í samhengi við ævi Tómasar sem dóminikanamunks. Athygli höfundar þessarar greinar var vakin á þýðingunni með grein sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 9. október 2004 ásamt vel valinni mynd af Tómasi.

Höfundi er ókunnugt um hvort þau rit sem talin eru upp á bls. 37 í útgáfu Bókmenntafélagsins, aths. 17, séu tæmandi skrá um rit um Tómas á íslensku. Rit um Tómas í Evrópu og utan hennar eru mörg en misgóð og unnt að nálgast þau í ritaskrám. Tómas, eins og hann horfir við allflestum, hefur tvisvar gengið í endurnýjun, fyrst fyrir áhrif Cajetans kardínála á sextándu öld, og í síðara skiptið (sem hefur haft áhrif á hugsuði sem standa utan við hina hreinu hefð) fyrir upplýst áhrif frá Leó XIII (1878–1903) í lok 19. aldar.

Höfundi var tjáð fyrir tveimur árum að engar menjar væru um að menn hefðu rannsakað rit Tómasar á Íslandi fyrir siðaskipti. Hann hefur nú komist að því að þetta er ekki allskostar rétt. Í nýlegri bók greinir Gunnar F. Guðmundsson frá því að varðveittur sé gamall listi rita frá bókasafni dómkirkjunnar á Hólum [2] – áður en það tvístraðist og eyddist í umróti siðaskiptanna – og er þar getið rita Tómasar. Hann styðst við lista sem Guðbrandur Jónsson birti.[3] Þar eru talin tvö rit: annað er hluti 1a í Summa Theologiæ;[4] og hitt er útdráttur annars verks – Tractatus de vitiis et virtutibus[5]. Í þessu safni er einnig að finna Compendium Theologicœ Veritatis eftir heilagan Albert mikla.

Lög og skynsemi: hjarta laganna
Rétt virðist að túlka, eftir bestu getu, að þegar Tómas sagði að lögin væru „afleiðing skynseminnar“ [aliquid rationis], þá átti hann ekki við að þau væru „leidd af skynseminni“, að lögin væru smíð skynseminnar og annað ekki, heldur væru þau „falin í skynseminni“, eða öllu heldur sé það skynsemin sem ráði breytninni þegar hún ríkir yfir íhugun manna. En rétt er að geta þess að það er hin sama skynsemi sem er að verki í fræðilegri og hagnýtri skynsemi sem eru ekki tvennskonar aðskilinn raunveruleiki og á milli þessara tveggja hlutverka skynseminnar er samgangur í hverju einstöku tilviki mannlegrar breytni.

Við munum fyrst athuga nokkrar tilvitnanir sem tjá þetta leiðarþema, í spurningum sem þýddar eru í þessari bók, og þá fyrst [spurning 90, 1 sed contra: „það heyrir skynseminni til að bjóða ... Þess vegna heyra lögin skynseminni til“].

Í breytni manna ræður skynsemin þegar hún hefur valið sér farveg, ekki viljinn. Í raun er viljanum stjórnað með tilvísun til skynseminnar svo að afurðir hans séu í samræmi við eðli laganna.

Lögin eru ekki leidd af skynseminni heldur eiga þau uppruna sinn í skynseminni. Þetta sést á því að sagt er að lögin séu í eðli sínu [essentialiter] í skynseminni í öllum þeim greinum þar sem þau eiga hlutdeild [participative] í skynseminni. Við erum hér enn lifandi og á hreyfingu sem lifandi afl kom af stað. Enn erum við langt frá því að koma þessum þáttum fyrir í hugsun eða rituðu orði en það er sú afstaða sem margir túlkendur hneigjast til. Í þeirra augum verða lögin ekki annað en skynsamleg eða reglubundið safn þekkingarbrota, oft í samhengi við sérstök svið eða vandamál.

Eðli laga er að finna í lifandi og virkri skynsemi fremur en í skipulegum lögmálum. Þetta sést einnig á því að ákveðin hreyfing er frá því að uppgötva nærveru lögmáls, sem upprunnið er í viðurkenndri almennri skilgreiningu, og er útfærsla verksins framkvæmd í samræmi við hana. Þaðan heldur svo skynsemin áfram og velur eða metur gild þau verklegu skref sem taka þarf. Þetta gerir hún án þess að falla nauðsynlega undir reglur sem varða „alla“ eða „suma, að minnsta kosti einn“ líkt og í röksemdafærslu Aristótelesar, en þó á þann röklega gilda hátt sem kallaður er „rökhenda verklegrar skynsemi“. Mikilvægi hennar liggur í þeirri staðreynd að hún er ekki leidd af tilvísun til lögmáls sem stendur utan við starfandi einstakling, heldur til samansafns samsvarandi hugsana innan skynseminnar. Því er skilgreining jafn gild hvort sem skynsemin fer eftir ferlinu meðvitað eða hvort það gerist fyrir hneigð, í samræmi við aðstæður þar sem skynsemin greinir nákvæmlega þá þætti sem þegar eru að verki í henni, og geta komið til fyrir hneigð. [„Stundum er hugsun vor vökul um þessar staðhæfingar, þótt stundum séu þær í skynseminni af hneigð“, s.st. 2, s. 66].

Það var almenn skoðun Tómasar að starfsemi skynseminnar næði ekki yfir allt mannlíf á jörðunni og hann taldi að ef lögin ættu að vera sannfærandi og gild, yrðu þau að taka til alls mannlífsins, alls þess sem skynsemin dæmir um á einhvern hátt. Í þessu felst að líf mannsins er ekki bundið af lífi manna almennt í heiminum. Lokatakmark mannlegs lífs er sú sæla sem Kristur boðaði mönnum í fjallræðunni, en þar kemur óneitanlega fram yfirnáttúrleg og eilíf vídd þó að þar séu nokkrar tilvísanir til þeirrar hamingju sem Aristóteles taldi vera hinsta markmiðið. Þetta góða lokatakmark mannkynsins alls sem tekur fullkomið tillit til sérhvers einstaklings, hlýtur að vera skylt hinni æðstu reglu, og það ríkir yfir eðlislögunum sem er að finna í sjálfri skynsemi mannsins. „Af því leiðir að lögin verða fyrst og fremst að skipa til hamingjunnar“ (sp. 90, 2 corpus, s. 68).

Sambandi eðlislaganna og hinna eilífu laga getur ekki verið háttað líkt og sambandinu milli efnislegra hluta. Eðlislögin eru hluti af starfsemi skynseminnar í mönnum í verklegu og siðferðilegu lífi þeirra, á þann hátt að skynsemin rásar oft á milli íhugunar þeirra og einbeittrar og loks ákveðinnar hagnýtingar þeirra. En þar starfar viljinn ekki á annan hátt en skynsemin heldur vinna þau sameiginlega og þar leggur skynsemin til „regluna og mælikvarðann“.

Mannleg skynsemi, eins og hún starfar í andlegu lífi manna, er sameðlis líkamanum og færir honum upplýsingu eða hugljómun og reglu í framhaldi af því. Meiri er þó sameiginlegur skyldleiki hennar við hina guðdómlega skynsemi sem starfar í æðstu einingu og sjálfstæði, en mannleg skynsemi lætur til sín taka á lægri stigum í breytileika sínum. Ef mannleg skynsemi er ljós, þá er hin guðdómlega skynsemi uppspretta alls ljóss. Hún verður áfram hið æðra lögmál sem varpar geislum sínum á mannlega skynsemi. Hún stendur þó ekki þess vegna utan við hana, heldur er hún í nánum tengslum við hana, hversu blind sem mannleg skynsemi er á hana á stundum. Hin guðdómlega skynsemi er nærstödd í mannlegri skynsemi og veitir henni af sjálfri sér efnivið líkt og frá hinni endanlegu uppsprettu, jafnvel þegar mannleg skynsemi hefur upp skynræna reynslu sína og gerir hana að óæðri, skynsamlegri reynslu fyrir atbeina óhlutbundinnar hugsunar. En þau mætast og sameinast, hin guðdómlega skynsemi umfaðmar skapaða hliðstæðu sína og veitir henni fyrir geisla sína hlutdeild í þeirri æðri þekkingu sem hún þarfnast og lyftir henni upp á æðra svið þekkingar sem kemur að ofan.

Því er íhugun Tómasar um 4. Davíðssálm sannarlega afleiðing þekkingarinnar sem lind sælunnar lætur í té: „Því segir sálmaskáldið, eftir að hafa sagt: „Færið réttar fórnir ...“, [Sl 4.6], líkt og einhver spyrði hver réttlætisverkin séu: „Margir segja: „Hver lætur oss hamingju líta““, og svarar: „Lyft yfir oss ljósi auglitis þíns, Drottinn“; en það merkir að ljós eðlislægrar skynsemi, sem gerir oss kleift að greina á milli góðs og ills, sem er hlutverk eðlislaga, er ekkert annað en geisli guðlegs ljóss í oss. Þess vegna er ljóst, að eðlislögin eru ekkert annað en hlutdeild hinnar skynsemi gæddu skepnu í eilífu lögunum“ (s. 78).

Eftir nokkra könnun á gildi íslensku þýðingarinnar í samanburði við latneska frumtextann virðist sú þýðing ekki brjóta gegn þeim varnaðarorðum sem nú verða fram borin. Sú hugmynd, að lögin séu í skynseminni en ekki leidd af henni, er mikilvæg varðandi skilning á því sem Tómas hefur að segja. Því skynsemin er ekki dauður heldur lifandi hæfileiki. Jafnvel þegar hún dregur fram hugmynd úr minni sínu, eða með sköpunarkrafti sínum, þá er þar um tilfærslu að ræða innan skynseminnar. Þessar tilfærslur skynseminnar sjálfrar, ólíkt tilfærslum ástríðnanna sem tengjast skynjuninni, láta ef til vill ekki mikið yfir sér og mönnum kann að sjást yfir hvað þær merkja í raun og veru. Við gætum álitið að starfsemi skynseminnar væri ósjálfrátt ferli, og ætti jafnvel helst að vera ósjálfrátt ferli, en slík skoðun gerir fyrirbærafræði hennar ónóg skil. Það tilheyrir fyrirbærafræði hugsunarinnar að styrkja hugann en það sem tengist skynjuninni drepur henni á dreif – ef til vill fyrir tilstyrk ánægjulegra og upplífgandi tilfinninga. Sú er orsök þess að andleg fylling af æðri tegund fylgir starfsemi hugans. Þetta er meðal annars ástæða þess að hvenær sem ákveðin gerð heimspekilegrar hugsunar fer fram, þá fylgir henni æðri ánægja en menn öðlast fyrir skynjunina.

Hlutdeild skynseminnar veldur órofa samhengi milli eilífu laganna og eðlislaganna, en án þess þó að hin óæðri blandist hinum æðri
Af því sem áður sagði (og málið hefur enn ekki verið skoðað til hlítar) sjáum við að eðlislögin koma úr skynseminni og þau eru skynsemin að verki. Við höfum séð að hún á hlutdeild í eilífu lögunum. Það merkir að hin eilífu lög Guðs, einstök aðgerð hans eigin hugsunar, taka yfir allt sem hann stýrir, í honum og utan hans, og eru því ein eining. Þau eru jafnframt svo yfirgripsmikil að þau taka til sérhvers sviðs mannlegrar skynsemi, og ná í raun langt út yfir það, svo að mannleg skynsemi og eðlislög hennar eiga hlutdeild í eilífu lögunum. Þetta er merking hlutdeildarinnar sem er ella innantómt hugtak með hliðsjón af greiningarsögu þess í heimspekinni. Menn geta ekki notað hugtakið „hlutur“ um það sem tilheyrir sviði hins andlega eða skynsamlega líkt og gerður er greinarmunur á efnislegum hlutum. Platón taldi að efnislegir hlutir yrðu að eiga hlutdeild í æðri raunveruleika, eilífri hugmynd, ef þeir ættu að vera raunverulegir, og afleiðing þess væri að hluturinn ætti sér aðeins skuggaraunveru. Tómasi var fullkunnugt um þessa platónsku hefð úr arfleið kristinna platónista, svo sem sjá má hjá Boethiusi, en einkum frá endurnýjun hugtakanotkunar nýplatónista, sem varð aðallega fyrir tilverknað Ágústínusar og olli því að hefð þeirra samræmdist fyllilega raunhyggjunni. Á öldinni fyrir fæðingu Tómasar kom „fræðasetrið“ sem tengdist dómkirkjunni í Chartres fram með eftirtektarvert dæmi í langri hefð laumu-platónista (orðið „laumu“ (crypto) nota ég af þeirri ástæðu að fáir upprunalegir textar voru tiltækir). Áður en þýðingar (úr grísku og arabísku) á upprunalegum texta Aristótelesar komu fram (hinn „nýi“ Aristóteles), en fyrr höfðu menn aðeins haft ítarlega þekkingu á rökfræðilegum textum Aristótelesar, hafði samband platónskrar hughyggju og raunhyggju verið heilbrigt og einkennst af jafnvægi og skynsemi. En þegar menn komust yfir þessa nýju texta, einkum Frumspeki Aristótelesar, þar sem það sem nú mætti kalla „frumspeki“ Platóns var harðlega gagnrýnd, olli það mikilli kreppu meðal menntamanna.[6] Í þessari kreppu aðhylltist heilagur Albert þá hefð að til væri þrenns konar „útstreymi“ (emanation), verund, líf og skynsemi, en varpaði aftur á móti fyrir borð þeirri hugmynd sem hann hafði stungið upp á í París í fyrirlestri sínum um Hin guðdómlegu nöfn eftir pseudo-Díonysus, að í raun væri aðeins um eitt „útstreymi“ að ræða, nefnilega verundina. Verundin væri því samkvæmt eðli sínu alltumlykjandi og þar væri Guð að verki í tjáningu sinni til sköpunar sinnar. Tómas var þá námsmaður (raunar skrifaði hann opinbert eintak texta Alberts handa þeim sem seinna afrituðu hann), og hann greip þessa hugmynd á lofti og skóp guðfræði sína og heimspeki sem heimfærir allt til gjöfuls einfaldleika verundar sinnar. Það, að eitthvað gat átt hlutdeild í verundinni, táknaði ekki að það væri aðeins til í skuggaraunveru, en þessi nýja og tæra innsýn vann það mikla þarfaverk að einfalda hlutina þótt ekki kæmi hún í veg fyrir ýmsar flækjur sem þessu fylgdu. Raunar olli þetta því að bæði hin guðfræðilega og heimspekilega innsýn varð skarpari og næmari.

Í þessu tilviki er því um að ræða „hlutdeild“ í fyrrgreindri fágaðri og hreinni mynd og hún verður að leiðrétta eðlislæga tilhneigingu okkar til að túlka skoðanir Tómasar í samræmi við okkar eigin fyrirfram mótuðu hugmyndir svo að við leiðumst ekki til að skýra textann fræðilega þannig að hann falli að okkar eigin hugsun en víki um leið frá því sem ætlað var í upphafi, en það gæti haft talsverðar afleiðingar.

Enn fremur eru eilíf lög Guðs að verki í hlutdeildinni, óaðskiljanleg frá honum, og hún er hluti af fræðilegri (speculative) umhugsun þess sem fæst við lögin og telur hana hluta þeirra. Hann leitast þá við að skilja hana og beina henni í átt til síns sanna eðlis; því að hið sanna eðli hluta er það sem leiðir af hinum guðdómlega vilja.

Uppruni hinna eilífu laga er í guðlegri skynsemi og þar er hugurinn óendanlega ötull: hann hugsar um allt í einni hugsun. Eðlislögin í einstaklingnum eru einnig ötul því þau gera sér grein fyrir sambandinu sem tengir þessar eindir báðar saman og fylgir eftir afleiðingum þess. Því er einkar mikilvægt að gera sér grein fyrir að lögin eru einnig tilhneiging skynseminnar, ekki dauf útvötnun lifandi uppsprettu.

Til eru tveir textar sem ættu að vera í æðsta sæti í nútímalegri umræðu og skýra þetta vel. Í hinum fyrri er sagt að „ars“ [7] ætti heima hjá Guði. Að áliti Tómasar var siðferði sem framkvæmt var með dyggðum tákn um að menn „breyttu vel“, en „ars“ – almennt skoðað – táknaði að „gera vel“. Því segir hann um eilífu lögin (skáletrun er mín): „Þess vegna er það, að á sama hátt og tegund guðlegrar visku, í þeim mæli sem allir hlutir hafa verið skapaðir fyrir hennar verknað, hefur einkenni uppkasts, frumgerðar eða hugmyndar, þá hefur tegund guðlegrar visku, sem hreyfir allt til viðeigandi markmiðs síns, einkenni laga. Og þess vegna eru eilífu lögin ekkert annað en sú tegund guðlegrar visku sem stýrir öllum athöfnum og hreyfingum“ (Lög, bls. 103). [„Sicut ratio divinae sapientiae, inquantum per eam cuncta sunt creata, rationem habet artis, vel exemplaris, vel ideae, ita ratio divinae sapientiae moventis omnia ad debitum finem obtinet rationem legis. Et secundum hoc lex aeterna nihil aliud est quam ratio divinae sapientiae, secundum quod est directiva actuum et motionem“ (spurning 93, svar 1)]. Og þá er loks að nefna athugasemd sem við geymdum áður (þar sem verið var að svara andmælum): „... þar eð lög eru ákveðin regla og mælikvarði, þá geta þau búið í hlutum á tvo vegu. Annars vegar í því sem mælir og stjórnar, og þar sem þetta er einkenni skynseminnar, þá búa lögin í skynseminni einnig á þennan hátt. Hins vegar geta þau búið í því sem lýtur mælikvarðanum og reglunni. Og á þennan veg búa lögin í öllu því sem, vegna einhverra laga, hneigist til einhvers; þannig að sérhverja hneigð sem kviknar af lögum má kalla lög, en þó ekki af eðli, heldur af hlutdeild“ (Lög bls. 65). [„... cum lex sit regula quaedam et mensura, dicitur dupliciter esse in aliquo. Uno modo sicut in mensurante et regulante, et quia hoc est proprium rationis; et quia hoc est proprium rationis, ideo per hunc modum lex est in ratione sola. Alio modo sicut in regulato et mensurato; et sic lex est in omnibus quae inclinantur in aliquid ex aliqua lege; ita quod quaelibet inclinatio proveniens ex aliqua lege potest dici ,lex‘ non essentialiter, sed quasi participative“ (spurning 90, 1, andmæli 1). Þetta er í meginatriðum endurtekið í hugleiðingum hans um möguleikann á „lögmáli limanna“ [lex fomitis]: „[S]érhver hneigð eða skipan sem kann að finnast í hlutum er lúta lögum, kallast lög vegna hlutdeildar“ (Lög, bls. 90). [„Omnis inclinatio vel ordinatio quae invenitur in his quae subjecta sunt legi participative dicitur ,lex‘ “ (spurning 91, andsvar 6)].

Sálfræðilega er hér um afar mikilvægt mál að ræða, en eigi aðeins er mikill og afgerandi munur á lögunum, sem við erum hvött til að fara eftir, heldur og á því hvernig við stýrum hneigðum okkar til að fylgja þeim, sem kann að vera ábótavant. Samhengi er milli laganna eins og þau birtast í lifandi huga eða skynsemi, sem ef til vill hefur íhugað þau eða fengið um þau upplýsingar, og hneigðarinnar sem undir eins vaknar af lögunum og beinist í átt til þess að framfylgja lögunum, og þessi hneigð er lög skynseminnar, sem sjálf eiga hlutdeild í eilífu lögunum: þau eru lögin sjálf að framkvæma sig, lögin sem eru að verða til, en samt lög, eins og þau eiga að starfa í, en ekki ótengd, lifandi skynsemi. Greinilega er eftirsóknarvert að þau ættu að starfa á grundvelli góðrar venju, það er dyggða, einkum dyggða réttlætis og forsjálni, þó að minni dyggðir ráði fyrir einstökum hlutum og athöfn eða fjölda athafna í manninum sjálfum, hinum mannlega dómara, ef hann er fenginn til að hlutast til um málið.

Mannleg breytni með hliðsjón af eilífu lögunum og eðlislögunum; dyggðirnar
Miklir yfirburðir kerfis Tómasar felast í þeirri staðreynd að þótt lögmálin séu almenn þá rýrnar ekki gildi þeirra í neinu þó að þau séu skoðuð ofan í grunninn, og því er unnt að beina athyglinni að einu atriði í einu eftir því sem við á. Við skiljum betur hversu víðfeðm hugsun hans er þegar við minnumst þess að í hans augum „lúta allar athafnir og hreyfingar náttúrunnar eilífu lögunum“ (Lög, bls. 115) [„Omnes motus et actiones totius naturae legi aeternae subduntur“, spurning 93, andsvar 5]. Þetta er ein eilíf athöfn sem tekur yfir alla hugsun Guðs um sjálfan sig og allt annað, og nær til sérhvers hluta allra mannlegra athafna, en það gera eðlislögin ekki af sömu nákvæmni. Þrátt fyrir það ná eðlislögin yfir allar þær athafnir sem heyrt geta undir venjulega skynsemi. „Í þeim mæli sem þær stýrast af skynseminni, þá tilheyra allar hneigðir allra hluta manneðlisins, til dæmis holdleg fýsn eða reiði, eðlislögunum og falla undir ein frumfyrirmæli“ (Lög, bls. 127–128). [„Omnes huiusmodi inclinationes quarqcumque partium naturae humanae, ut concupiscibilis et rascibilis, secondum quod regulantur ratione, pertinent ad legem naturalem et reducuntur ad unum praeceptum“ (spurning 94, 2 ad 2) [þ.e.] „bonum est faciendum et prosequendum, et malum vitandum“ (ib. Resp.)] Þetta merkir, hvað varðar atferli manna, að sérhver athöfn dyggðanna tilheyrir eðlislögunum. „Með því að skynsöm sál er hið eiginlega form mannsins, þá er af þeim sökum í hverjum manni eðlishneigð til að breyta eftir skynseminni. Og þetta er að breyta í samræmi við dyggðina. Af því leiðir, að í þessu ljósi tilheyra allar athafnir af dyggð eðlislögunum, þar eð skynsemi hvers og eins skipar honum eðlilega að breyta af dyggð“ (Lög, bls. 129). [ „cum anima rationalis sit propria forma hominis, naturalis inclinatio inest cuilibet homini ad hoc quod agat secundum rationem; et hoc est agere secundum virtutem. Unde secundum hoc omnes actus virtutum sunt de lege naturali: dictat enim hoc naturaliter unicuique propria ratio ut virtuose agat“, spurning 94, 3 andsvar].

Fram að þessu höfum við athugað lögbundna breytni í tengslum við hneigðir þar sem skynsemd breytninnar, þ.e. nærvera hennar í skynseminni, hefur áhrif í athöfunum sjálfum, með hlutdeild sinni í skynsemdareðli uppsprettu sinnar. Áður en við tölum um eðli mannlegra laga, en þar verður að vera til hugsun sem einskorðar sig ekki við það eitt að fylgja eftir þessum grundvallarhneigðum, skulum við minnast þess að leið getur opnast hér til sviða sem enn eru undir eilífu lögunum, úr tengslum við eðlislögin almennt séð, og verða ekki rakin til náttúrunnar. „Því margt er gert af dyggð þótt eðlið veki ekki hneigð til þess í fyrstu, en sem við skynsamlega íhugun hefur sýnt manninum að stuðli að góðu lífi“ (Lög, bls. 129). [„Multa enim secundum virtutem sunt ad quae natura non primo inclinat; sed per rationis inquisitionem ea homines adinvenerunt quasi utilia ad bene vivendum“, spurning 94, andsvar 3].

Augljóslega er dyggðug breytni í samræmi við lög skyld hinum tveimur helstu dyggðum: dyggð meðalhófsins, sem ævinlega finnur réttan mælikvarða breytninnar, og á sérstakan hátt dyggð réttlætisins. Réttlætið er skilgreint sem dyggð þess að láta hverjum manni í té það sem honum ber. Ég hef haft eftir höfundi, sem skrifaði í anda Tómasar, að hann hélt því fram að ekki skipti miklu máli hvort upphafið væri hjá lögunum eða því sem hverjum manni beri að fá. Á latínu eru þetta hugtökin lex og ius. Hægt er að þýða ius með „rétt“. Dyggð réttlætisins finnur, með aðstoð allrar reynslu sinnar og allrar þeirrar fræðslu sem veitt hefur verið, hver sá réttur er. Dómarar í rétti deila út réttlæti og Tómas notar þá skilgreiningu Aristótelesar að þeir séu, eða ættu að vera, „holdgerving réttlætisins“ (Lög, bls. 141), [„iustum animatum“, spurning 95, 1 andsvar 2]. Þessar tvær athuganir eru ekki nákvæmlega þær sömu, heldur eru þær tengdar hvor annarri. Athugunin sem tengist lögunum leitar fyrst almenns samhengis síns og síðan sérhvers smáatriðis eins og hægt er, svo að þessi athugun verði viðráðanleg: sundurgreinanleg og leysanleg. Athugunin sem tengist dyggð réttlætisins er athugun sérstakrar gerðar og þar er til umræðu réttur sem hægt er að greina, burtséð frá því hverjum hann tilheyrir. Þetta er breytni sem í vændum er, en þegar þessi ákveðni réttur hefur verið greindur, verður breytnin ákveðnari, og getur rétturinn augsýnilega búið í manni sjálfum eða öðrum. Meðalhófið liggur almennt hið innra, jafnvel þó að það sé hlutgert, í athugun áður en ákvörðun er tekin um framkvæmd. Þarna beinir Tómas athygli sinni að tveimur minni háttar hlutum dyggðar réttlætisins. Í báðum tilvikum er gert ráð fyrir að venjur hafi skapast sem skerpi skilning á greiningu þeirra. Það eru dyggðir sem hann gefur nöfn eins og þær birtust á grísku hjá Aristótelesi. Þar er dyggð „synesis“, sem er dyggð þess að hafa góða dómgreind um það sem ætti að gera samkvæmt almennum reglum, og svo aftur dyggð „gnome“, sem er sú glöggskyggni sem menn geta hagnýtt sér við að dæma samkvæmt æðri visku þegar almenna reglan á ekki við. (2a2ae sp. 51, 3 og 4). Umhugsun kemur við sögu í framkvæmd hluta í þessum dyggðum fremur en í almennum siðferðilegum athöfnum – og þessar dyggðir virðast ekki vakna til lífs þegar í stað fyrir eðlislæga hneigð – og þar sem fallvaltleiki þessara hneigða bendir til þess að þörf sé á að sérstaklega skuli beita skynsemd og athygli.

Afleiðingar gagnsæis skynseminnar gagnvart sjálfri sér og hneigðum sínum
Allir þeir þættir sem við höfum nú skoðað, eilífu lögin sem eðlislögin eiga hlutdeild í og starfsemi dyggðanna, bera allir í sér hneigðir sem maðurinn er meðvitaður um. Þetta gerist allt undir verndarvæng skynseminnar, þó að við höfum orðið þess vör að til eru svið þar sem okkur sýnist óhjákvæmilegt að sérstakrar umhugsunar sé þörf, umfram hið upprunalega gagnsæi atferlis sem er í samræmi við lögin. En þar sem þetta er atferli og umhugsun sem er í skynseminni sjálfri, fremur en atferli og umhugsun sem leiðir af skynseminni, þá hljótum við að verða fyrir sterkum áhrifum af gagnsæi skynseminnar gagnvart sjálfri sér, sem er rökréttur fundarstaður margra þátta sem koma við sögu þegar réttar ákvarðanir eru teknar. Í greinum Tómasar um lög sést því að hann hefur verið vakandi fyrir samspili raunverulegra þátta, einkum í dómum og hneigðum skynseminnar sjálfrar. Ef menn vísa til „fyrirbærafræði“ breytninnar samkvæmt lögunum, þá væru menn að íþyngja upplýstu frumkvæði skynseminnar með greiningu (en fyrirbærafræði sem heimspekilegt tæki hefur aldrei losnað úr eigin fjötrum sem greiningaraðferð einvörðungu). Látum okkur nægja að segja að skynsemi ríki yfir umhugsuninni sem rís upp sjálf með miklu gagnsæi gagnvart sjálfri sér. Og þetta sjálfs-gagnsæi er fæðingarstaður og bústaður æðsta frelsis í leitinni að samkvæmni við lögin og einnig samkvæmni við sjálft sig. Þó má aldrei gleyma að eilífu lögin ein, sem maðurinn minnist frá trúaruppeldi sínu og af innsæi, finna æðstu lögmál laganna: í sjálfum sér því þau samsvara tímalausri hugsun Guðs, og þau geta einnig ein orðið fullkomlega alhliða, fyrir guðdómlegt eðli sitt, og taka fullkomlega til alls, sem og allra aukaatriða.

Stighækkandi (anagogical) athuganir greiða fyrir fyrstu umhugsun um lögin í framkvæmd, án þess að taka þurfi tillit til æðri uppruna þeirra og eðlis
Er ég athuga gagnsæi skynseminnar með tilliti til frumþátta hennar, þar sem þeir brjótast fram úr henni í lifandi framkvæmd í samræmi við eilífu lögin og sérstaklega er þeir birtast í eðlislögunum og veita henni öruggan grundvöll, þá rek ég aðeins einn þáttinn í hugmynd Tómasar um eðli og uppbyggingu laganna. Ég rannsaka það sem virðist vera kjarni laganna, því þetta gagnsæi tilgangs laganna sem eru dregin af hneigðum og atferli stendur mjög í skugga fjölda einstakra atriða. En ég verð þó að minnast á þá stöðu sem lög manna – sett og skráð – hafa í mannlífinu.

Ég bendi hér á að ákveðinnar raunhyggjustefnu gætir í framsetningu Tómasar. Þetta sést af þeirri staðreynd að hann tengir lögin almannaheill eftir að hann hefur tengt þau skynseminni í sem víðtækustum skilningi. Þetta gerir hann í spurningu 90, 1. En formálinn að setningu laga í þjóðfélaginu, með formlegum tengslum þeirra við almannaheill [bonum commune] á sér stað í eftirfarandi grein: „Af þessu leiðir, að þar eð lögin eru það sem fyrst og fremst er skipað til almannaheillar, þá geta öll önnur fyrirmæli um einstök verk ekki haft eðli laga, nema að því leyti sem þeim er skipað til almannaheillar“ (Lög, bls. 68–69), [„Cum lex maxime dicatur secundum ordinem ad bonum commune, cuodcumque alium praeceptum de particulare opere non habeat rationem legis nisi secundum ordinem ad bonum commune“, spurning 90, 2], og heldur síðan áfram og setur hömlur á löggjöfina: „Það að skipa einhverju til almannaheillar, heyrir annaðhvort til öllum fjöldanum eða einhverjum sem er umboðsmaður allra“, (Lög, bls. 70), [„vel totius multitudinis vel alicuius gerentic vicem totius multitudinis“, spurning 90, 3. andsvar]. Þá heldur hann áfram og ræðir um löglega birtingu laga og setur fram skilgreiningu allra laga sem veitir þeim sérstöðu: „Lög eru ekkert annað en ráðstöfun skynseminnar sem skipar til almannaheillar, sett og birt af þeim sem fer með umsjá samfélagsins“ (Lög, bls. 73), [„Lex est nihil aliud quam quaedem rationis ordinatio ad bonum commune, ab eo qui curam communitatis habet, promulgata“, spurning 90, 4]. Í þessu samhengi eru eðlislögin aðeins meðtalin sem hliðstæða, líkt og til að sýna að birting laga er fjarskyld setningu guðlegra laga og þau líkjast þeim nokkuð þó að ekki beri að veita þessu atriði of mikla athygli: „Manninum eru birt eðlislögin með því að Guð sáði þeim í mannshugann, þannig að það yrði honum eðlilegt að þekkja þau“ (Lög, bls. 73), [„promulgatio legis naturae est ex hoc ipso quod Deus eam mentibus hominem inseruit naturaliter cognoscendum“, spurning 90, 4 ad 1]. Það er ekki fyrr en þar er komið sögu að Tómas snýr sér að eilífu lögunum, sem spretta á svipaðan hátt upp af umhugsun um höfuð samfélagsins og höfuð alls alheimsins. Þetta getur auðveldlega sprottið af eðlilegri guðfræðilegri umhugsun um það að vera óbundinn öðrum lögum: „En markmið guðlegrar stjórnunar er Guð sjálfur og lög hans eru ekki eitthvað annað en hann sjálfur. Þess vegna er eilífu lögunum ekki skipað að öðru markmiði“ (Lög, bls. 76), [„finis divinae gubernationis est ipse Deus, nec eius lex est aliud ab ipsum unde lex aeterna non ordinatur in alium finem“, spurning 91, 1 ad 3]. Hér skulum við doka við og minnast þess að Tómas hefur þarna fengið Guði hlutverk í lagasetningunni án þess að stofna guðveldi. Þeir menn sem setja lögin missa ekki við þetta þann „viatores“– eða ferðalangssess sem þeir hafa hlotið: þ.e. þeir sem eru á góðri leið með að ávinna sér búsetu í hinu himneska föðurlandi en verða um leið að setja lögin og framfylgja þeim. Raunhæft samstarf við þá sem ekki trúa þessu er því mögulegt þó að þeir sem vinna við samanburðarlögfræði verði auðvitað að skilja mismunandi afleiðingar í framkvæmd annarra laga til þess að ná sem bestum árangri, rétt eins og þeir verða að skilja að hugtakið um eilífu lögin sem hér er nefnt hefur nokkurs konar grundvallarstöðu, bæði varðandi þá þekkingu sem menn kunna að hafa um það og varðandi þau áhrif sem þeir kunna að verða fyrir af því. Einnig verða skapaðar verur, sem ekki hafa skynsemi til að bera, að hlýða eilífu lögunum sem hafa efnisleg áhrif á þær, þó að slíkt kunni að virðast fjarlægur möguleiki [spurning 93, 5 og 6].

Þegar nú staða laga mannanna er skoðuð er nauðsynlegt að horfa fram á við í þessari athugun og rannsaka hvernig þau, á tvenns konar hátt, eru leidd af eðlislögunum. „Annars vegar sem niðurstaða af forsendum; hins vegar með því að tiltekin almenn atriði eru nánar ákvörðuð“ (Lög, bls. 145) [„uno modo sicut determinationes quaedam aliquorum communium“ [8] , spurning 95, 2]. En þar er fyrra atriðið í samræmi við þá mynd sem dregin er upp af vísindunum, sem veita órækar sannanir sem byggðar eru á lögmálum þeirra, en hitt er líkt og í listum, þar sem almenna hugmynd má móta á margvíslegan hátt, rétt eins og byggingarform húsa getur verið margvíslegt (spurning 95, 2). Augljóslega er hér um marga efnislega möguleika að ræða, þar sem við sögu koma hefðir, ýmisleg viðfangsefni og þarfir, sem og sköpunargeta löggjafans. Eftir þetta gerir hann reynslu og visku Ísidórs að sinni en hann leiðir ekki eiginleika laga mannanna af fræðandi lögmálum og gerir ráð fyrir að fullyrða megi að þau leiði af eilífu lögunum, „að þau séu „í samhljóman við trúarbrögðin“, „stuðli að aga“ í þeim mæli sem þau samsvara lögum Guðs og að þau „þjóni almannaheill“ “ (Lög, bls. 149) [„proportionata legi divinae ... quod disciplinae conveniat,... [et] est proportionata utilitati humanae“, spurning 95, 3]. Athugunin á krafti mannlegra laga snýst mikið um hugtakið almannaheill. Athyglisvert er að Tómas kemst að vel ígrundaðri niðurstöðu um „andlega menn“ sem láta leiðast af Heilögum anda, en hans lög eru æðst. Þeir eru ekki seldir undir lög sem eru í ósamræmi við leiðsögn hans, en þessi sama andlega leiðsögn (sem studd er af 1Pt 2, 13) setur þá undir manna lög (spurning 96, 5 ad 2). Og loks (spurning 97) íhugar hann þann breytileika laganna sem fram kemur við lagasetningu manna og telur hann einnig hluta venjunnar. Hérna, í Guðs lögum, koma saman þær lagatilskipanir sem leiðir af eðlislögunum og almennum lögum, því „gagnvart guðlegum lögum stendur hver maður eins og einstaklingur stendur gagnvart þeim opinberu lögum sem hann lýtur“ (Lög, bls. 186) [„Ad legem autem divinam ita se habet quilibet homo sicut persona privata ad legem publicam sui subjicitur“, spurning 97, 4 ad 3].

Lögin sem starfrænt samband eðlislaganna og ábyrgðarfullra ákvarðana um hagnýt efni í þeim lögum sem sett eru með tilskipunum; almannaheillin
Af þessu má ljóst vera að þó að Tómas telji eðlislögin eiga hlutdeild í eilífu lögunum, sem eru innsti kjarni laganna, þá sést að hann gætir samræmis þegar hann leggur þunga áherslu á þá staðreynd að nærvera eðlislaganna birtist stundum í hagnýtum atriðum. Þess vegna viðurkennir hann lagakerfi sem leiðir af samvinnu tveggja uppsprettulinda laganna. Því er mjög mikilvægt fyrir góða stjórn hvers lands að löggjaf

No feedback yet