« Ritningarlesturinn 18. nóvember 2006Ritningarlesturinn 17. nóvember 2006 »

17.11.06

  08:30:57, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 280 orð  
Flokkur: Trúarljóð

Hl. Teresa Margrét (Redi) – Hjarðmærin Elpina

Hjarðmærin Elpina

Elpina, hjarðmærin
brann af þrá
til að vita hvernig
unnt væri að elska Guð
á jörðinni
og einn daginn grét hún sáran
og mælti þessi orð af vörum
í skóginum:

„Ó, hver er þess umkominn
að kenna mér að elska Guð
sem elskar mig og skapaði
áður en heimurinn varð til
í þeirri sömu elsku
guðlegs Hjarta síns
sem hann elskar mig með . . .

Í sárri hryggð sinni
grét hún með sjálfri sér
og megnaði ekki að svala
hjartans raunum sínum.
Þar sem mærin var nú einsetukona
vanmegnaðist hún
sökum þrár sinnar.

Og sjá, frammi fyrir henni
stóð alls óvænt
sá sem ber gullna vængi
og ljómandi af fögnuði
mælti þessi himneski andi
eftirfarandi fagurmæli af vörum
og stráði liljum og rósum:

Elpina, hvernig getur þú sagt,
að þú elskir ekki Guð þegar
þrá þín til að elska
er sjálf elskan?
Það er þessi ljúfi logi
sem brýst fram úr huldum
eldsofni hjarta þíns.

Hl. Teresa Margrét var ítölsk karmelsystir á átjándu öld (d. 7. mars 1770). Hún var hafin upp í tölu hinna heilögu 1934. Ljóðið er úr síðasta bréfinu sem hún skrifaði föður sínum úr karmelklaustri hl. Appolínu í Flórens skömmu fyrir andlát sitt, tæplega 23. ára. Hún er yngsta karmelsystirin sem hefur verið lyft upp við altarið. Kjarni guðrækni hennar fólst í leyndardómi hins Alhelga Hjarta Jesú sem leiddi hana inn í óræðisdjúp Þrenningarinnar.

No feedback yet